Skýrsla um kaup hlutabréfa í Samvinnubanka.
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Það kemur fram í yfirlýsingu hæstv. iðnrh. hér að það var rangt sem formaður Alþfl. fullyrti hér í umræðum um vantraust á ríkisstjórnina að fullt samkomulag væri um þessi skattamál. Það kemur nú í ljós að þá þegar hafði Alþfl. gert þann ágreining sem nú hefur verið upplýstur og það var því rangt skýrt frá í þeim umræðum af hálfu ríkisstjórnarinnar og þar á meðal af hálfu formanns Alþfl. hver staða þeirra mála væri.
    Í öðru lagi, frú forseti, vegna þeirrar gagnrýni sem ég bar hér fram á forseta Ed., þá hefur nú komið fram af forsetastóli að honum voru borin boð um það að óskað væri nærveru hans hér til að svara fyrirspurnum um dagskrá Ed. Við þeirri beiðni hefur forseti Ed. þverskallast. Í því að hann hefur ekki orðið við þeirri beiðni felst neitun af hans hálfu sem ég tel vera gagnrýni verða og orð mín þar um standa því óhögguð.