Stjórnarráð Íslands
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Frsm. minni hl. allshn. (Ólafur G. Einarsson):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hl. allshn. um frv. til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands. Minni hl. skipa auk mín hv. þm. Friðjón Þórðarson og Ingi Björn Albertsson. Minni hl. er andvígur frv. og leggur til að það verði fellt og mun ég gera nokkra grein fyrir ástæðum þess að við tökum þessa afstöðu.
    Í fyrsta lagi geri ég alvarlegar athugasemdir við vinnubrögðin sem viðhöfð eru í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Í síðustu viku voru haldnir þrír fundir í hv. allshn., á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag. Einn þessara funda fór að hluta til í að lesa yfir samantekt sem starfsmaður nefndarinnar hafði gert um umsagnir sem þá höfðu borist og voru þá, að mig minnir, eitthvað um 25 talsins af liðlega 50 sem vænst var. Annars var á þessum fundum nefndarinnar rætt um vinnubrögð og umræðurnar fóru í það að ræða hvort þessi frv. ríkisstjórnarinnar, um Stjórnarráð Íslands og hins vegar breytingu á lögum er varðar verkefni umhverfisráðuneytis, skyldu verða samferða í gegnum þingið eða ekki. Á þriðja fundinum, sl. fimmtudag, var svo þvinguð fram atkvæðagreiðsla í nefndinni um það að út úr nefndinni skyldi tekið 129. málið, það sem hér er nú til umræðu, frv. um Stjórnarráð Íslands. Þingmenn stjórnarliðanna, fjórir að tölu, greiddu þeirri tillögu atkvæði en við þrír sem stöndum að minnihlutaálitinu vorum því andvígir.
    Raunverulega held ég að nokkuð ljóst sé að ef stjórnarliðar hefðu mætt allir á fyrsta fund nefndarinnar sl. þriðjudag hefði þá þegar verið tekin ákvörðun um að taka málið út úr nefndinni. En það þurfti sem sagt þrjá fundi til þess að fullskipað væri í liðinu og óhætt væri að atkvæðagreiðslan færi fram.
    Málið sjálft hefur sem sagt ekkert verið rætt í allshn. Nd., alls ekki neitt, og þess vegna hlýt ég að gera mjög alvarlega athugasemd við þessi vinnubrögð sem hér eru viðhöfð. Þetta er vanvirða við þá fjölmörgu aðila sem sent hafa umsagnir um þetta mikilvæga mál, þá fjölmörgu aðila sem lagt hafa mjög mikla vinnu í að semja sínar umsagnir og tjá sig um málið. Og þetta er auk þess vanvirða við Alþingi en svo sem alveg í samræmi við þá umgengnishætti sem ráðherrarnir hafa tamið sér að undanförnu. Þetta er vanvirða við þingræðið yfirleitt. En þetta er sem sagt ekki eina dæmið, við höfum séð þau mörg. Við höfum séð þau mörg hjá þessari hæstv. ríkisstjórn, fjáraustur úr opinberum sjóðum án heimilda frá Alþingi, ákvarðanir teknar í veigamiklum málum án þess að bera þær undir þingið og nú þegar er farið að greiða út af fjárlagalið umhverfisráðuneytisins, ráðuneytisins sem ekki er enn þá til. Búið er að kaupa bílinn, alla vega, með skíðagrindinni. Þetta eru auðvitað alveg fáránleg vinnubrögð og ríkisstjórninni til vansæmdar og hún vanvirðir Alþingi með því að haga sér með þessum hætti.
    Ég vil geta þess að við stjórnarandstæðingar buðum upp á samstarf í hv. allshn. um þá vinnu sem þar þarf að fara fram. Við buðum upp á þetta samstarf ef

stjórnarliðar féllust á það að frv. yrðu samferða í gegnum þingið. Ég lýsti því yfir á fundi nefndarinnar að við gerðum okkur alveg grein fyrir, sjálfstæðismenn, að það frv. sem við fluttum snemma á haustþinginu, 4. mál, nyti ekki meirihlutafylgis hér á Alþingi og yrði þess vegna ekki samþykkt, en við buðum upp á samstarf ef stjfrv. tvö yrðu samferða í gegnum þingið. Ég tek það auðvitað fram að þótt við vitum að frv. okkar sjálfstæðismanna, eins og það er, njóti ekki meirihlutafylgis á þingi má vel hugsa sér breytingar á því og við vorum tilbúnir til að ræða þær breytingar líka. Höfuðatriðið, að okkar mati, var að koma á samræmdri stjórn umhverfismála. Við viljum fækka ráðuneytum en ekki fjölga þeim. Við viljum auka framlög til umhverfismála en að þau framlög fari þá í framkvæmdir en ekki í einhverja fáránlega yfirstjórnun.
    Þessu tilboði okkar um samstarf var hafnað af stjórnarliðum í allshn. Ég ætla að taka það strax fram að ég hef ekkert út á samstarfið við þá hv. alþm. stjórnarflokkanna sem eiga sæti í allshn. að setja, alls ekki. Þeir starfa þar og við öll undir hógværri stjórn hv. þm. Jóns Kristjánssonar, formanns allshn. Þetta ágæta fólk lætur hins vegar nota sig til að vinna verk sem ég er alveg sannfærður um að þeir þingmennirnir eru ósáttir við að vinna. Það er þvinguð fram afgreiðsla í nefndinni um hreint hégómamál. Frv. sem hér er til meðferðar er í sjálfu sér afskaplega einfalt. Það er í raun og veru ekki nema eitt orð. Það er bætt inn einu orði í stjórnarráðslögin, orðinu umhverfismálaráðuneyti. En til hvers? Það er til þess að fullnægja hégómagirnd hæstv. hagstofuráðherra strax. Það má ekki bíða lengur. Það má ekki bíða í nokkrar vikur og fá þá aðalmálið samþykkt með öruggum hætti fyrir þinglausnir í vor, þ.e. ákvörðunina jafnframt um þau viðfangsefni sem flytja á í umhverfismálaráðuneytið. Það var sú samvinna sem ég bauð upp á í nefndinni fyrir hönd sjálfstæðismanna og ég veit reyndar alveg með vissu að fulltrúi Frjálslynda hægriflokksins og fulltrúi Kvennalistans, sem er áheyrnarfulltrúi í nefndinni, vildu líka. En þessu var hafnað, þessu tilboði um samvinnu og samstarf sem átti þá að tryggja eðlilega umfjöllun um umsagnirnar og væntanlega skynsamlega tillögugerð um
endanlegan búning frv. og að það yrði afgreitt fyrir þinglausnir í vor.
    Hæstv. hagstofuráðherra sér auðvitað fram á núna að geta notað titilinn umhverfisráðherra eitthvað fyrr en ella þegar þessi aðferð er valin en þó nokkuð löngu síðar en honum var lofað. Þennan titil getur hann þá farið að nota án þess að vera að segja ósatt. Hann verður þá orðinn allt í senn: Hann verður orðinn ráðherra í ráðuneyti sem hefur engin viðfangsefni, hann verður áfram ráðherra í ríkisstjórn sem er án fylgis og hann er formaður í flokki sem sýnist ekki hafa neina kjósendur. Þetta er sem sagt allt í stíl. Og allt er þetta svo gert af hálfu hæstv. stjórnarliða til þess að greiða eina afborgunina af mörgum fyrir aðild Borgaraflokksins að ríkisstjórninni á haustdögum á síðasta ári.

    Til hliðar eru svo látin áform um fækkun ráðuneyta, sem að minnsta kosti sumir stjórnarliðar hafa lýst áhuga sínum á að styðja. Nú er hæstv. utanrrh. og formaður Alþfl. víst genginn úr salnum. Ég er ekkert að biðja um að hann komi hingað, en fróðlegt væri út af fyrir sig að heyra hvað hann, hv. formaður Alþfl., segir um þetta ráðslag allt saman.
    Hann hefur ítrekað látið hafa það eftir sér að fækka eigi ráðuneytunum niður í sjö. Hvernig kemur það þá heim og saman núna þegar hann ætlar að greiða atkvæði með þessu frv.? Þá er ekki verið að fækka ráðuneytunum niður í sjö, heldur er verið að fjölga þeim úr þrettán í fjórtán. Það má vera að einhver af hans undirsátum, hv. þm. Alþfl. sem hér eru staddir, geti svarað þessu fyrir hann. Ég veit nú ekki hvort það er eining um þetta í Alþfl. fremur en ýmislegt annað. Fróðlegast væri að fá svör frá hæstv. ráðherra sjálfum, hvernig þetta kemur saman við þær ræður sem hann hefur verið að halda á undanförnum dögum. Mig minnir að síðast þegar hann gat um þetta hafi hann verið á einhverjum fundi ,,á nýju ljósi``, áður var það ,,á rauðu ljósi``, og hann hefur áreiðanlega látið þessa getið við fleiri tækifæri, að hann vilji fækka ráðuneytunum.
    Og hvað með afstöðu hæstv. ríkisstjórnar til hugmynda vinnuhóps um endurskoðun á lögum og reglugerðum um Stjórnarráð Íslands? Það álit liggur fyrir, var sent þingflokkunum á sl. sumri. Síðan hefur ekkert heyrst. Þar er líka gert ráð fyrir fækkun ráðuneyta. Mér er að vísu alveg ljóst að gert er ráð fyrir að stofnað verði sérstakt umhverfisráðuneyti eins og hér er verið að fjalla um en það er gert ráð fyrir fækkun ráðuneyta, að vísu ekki niður í sjö, sá vinnuhópur var ekki eins stórtækur og hæstv. utanrrh. í sínum till., heldur er þar gert ráð fyrir fækkun niður í tíu. Hverjar eru hugmyndir hæstv. ríkisstjórnar um þetta atriði? Og hvað segir formaður Alþfl. um þær hugmyndir?
    Ég get svo sem látið þetta nægja um formsatriði og alveg gjörsamlega óhæf vinnubrögð við afgreiðslu þessa máls í hv. allshn. Þetta er, eins og ég sagði áðan, í sjálfu sér afar einfalt frv., nánast eitt orð. Ég tala nú ekki um þegar komnar eru fram tillögur um að fella niður annað ákvæðið af tveimur til bráðabirgða. Það er samt alveg gjörsamlega útilokað að líta svo á að við séum aðeins að ræða þetta frv. einangrað, hvort bæta eigi við þessu eina orði inn í stjórnarráðslögin. Við verðum að ræða málið í samhengi við þau verkefni sem ráðuneytið á að annast og flytjast eiga frá ráðuneytum sem starfa í dag og hafa þau nú á sinni könnu. Þessi frv., ásamt frv. okkar sjálfstæðismanna, voru send til umsagnar liðlega 50 aðila og í síðustu viku höfðu borist svör frá tæplega 30 aðilum, auk þess sem í fórum nefndarinnar eru umsagnir frá fyrri stigum málsins, frá því er nefndin, sem var undir forustu Jóns Sveinssonar, aðstoðarmanns hæstv. forsrh., var að störfum og frá því að hún sendi frumvarpsdrög sín til umsagnar. Þessar umsagnir hafa ekki verið ræddar í nefndinni eins og ég sagði áðan. Það er hins vegar ekki hægt að

ætlast til þess að þingið afgreiði þetta stjórnarráðsfrv. öðruvísi en að líta til þess hvaða viðfangsefni eiga að koma þangað, alveg jafnt þótt ríkisstjórnin hafi ákveðið að þvinga fram afgreiðsluna á stjórnarráðsfrv. og láta hitt eiga sig. Og ég hef ástæðu til þess að ætla að ríkisstjórninni sé raunar alveg nákvæmlega sama hvort það frv. hlýtur afgreiðslu á þessu þingi eða ekki. Ég held að henni sé alveg nákvæmlega sama um það. En við komum kannski betur að því síðar.
    Ég ætla að gera grein fyrir áliti örfárra aðila. Ég ætla að taka það fram. Ég ætla ekki við þetta tækifæri að fara í gegnum alla þær umsagnir sem borist hafa. Ég ætla ekki að gera það. Það verður farið yfir þau mál í nefndinni, ætla ég nú að leyfa mér að vona þó að ég hafi ákveðnar efasemdir um áhuga stjórnarliða á að afgreiða það mál þegar þetta mál er afgreitt, og þá verður auðvitað farið yfir þær umsagnir og það verður farið rækilega í gegnum þær hér í þingdeildum. Ég ætla að drepa á örfá atriði úr umsögnum aðeins nokkurra þeirra aðila sem þegar hafa sent sínar umsagnir.
    Ég nefni hér fyrst til álit Sambands ísl. sveitarfélaga. Þeir greina frá því að þeir hafi fengið þessi þrjú frv. til umsagnar og segja síðan stutt og laggott:
    ,,Stjórnin telur ekki tímabært að taka afstöðu til frv. um skipan sérstaks umhverfisráðuneytis fyrr en fyrir liggja tillögur sem nú er unnið að um endurskipulagningu Stjórnarráðs Íslands. Stjórnin harmar að ekki skuli hafa
verið unnið að þessu mikilvæga máli í nánu samstarfi við sveitarfélögin í landinu því umhverfismál eru mikilvægur þáttur sveitarstjórnarmála.``
    Þetta er það sem stjórn Sambands ísl. sveitafélaga hefur að segja um þetta mál á þessu stigi.
    Þá nefni ég til nokkur atriði úr umsögn Hollustuverndar ríkisins sem er mjög ítarleg umsögn og ég ætla ekki að lesa hana frá orði til orðs. Ég ætla hins vegar að láta þess getið að þegar þessi umsögn er send, núna í janúarmánuði, er stjórn Hollustuverndar ríkisins ekki fullskipuð. Það hafa verið kjörnir tveir menn af Alþingi, sem var gert á lokadegi þingsins fyrir jól, en þeir aðilar sem tilnefna áttu í stjórnina höfðu ekki lokið því verki, þannig að ég veit ekki nákvæmlega hvað á að taka mikið mark á umsögn stjórnar Hollustuverndar ríkisins. Ég veit hins vegar að þessi stjórn er fullskipuð núna og hef ástæðu til að ætla að hún muni koma sínum sjónarmiðum á framfæri við nefndina, jafnvel strax á mánudaginn kemur, þegar boðaður hefur verið fundur þar sem meðal annarra mæta fulltrúar frá Hollustuverndinni. En í bréfi sínu --- það eru reyndar tvö bréf sem hafa borist frá Hollustuverndinni --- segja þeir svo um frv. okkar sjálfstæðismanna að um þau mál séu skiptar skoðanir meðal starfsmanna stofnunarinnar og innan stjórnar hennar: ,,Þeir sem telja aðdragandann að stofnun sjálfstæðs umhverfisráðuneytis of skamman og án faglegrar undirbyggingar telja að frv. um samræmda stjórn

umhverfismála, 4. mál þingsins, sé æskilegra fyrir Hollustuvernd ríkisins og þar með æskilegan aðdraganda að stofnun slíks ráðuneytis.`` Þeir bæta svo við: ,,Engu að síður álítur meiri hluti stjórnar Hollustuverndar að stofnun umhverfisráðuneytis verði að veruleika fyrr eða síðar, eitt sér eða með öðru ráðuneyti.`` Og þess vegna er það svo sem stjórn Hollustuverndar tók þann kostinn að stilla ekki þessum frv. upp hvoru á móti öðru en vísar að öðru leyti til umsagnar um 128. og 129. mál.
    Þeir ítreka í hinu bréfinu að innan Hollustuverndar ríkisins hafi skoðanir lengi verið mjög skiptar varðandi stöðu stofnunarinnar gagnvart hugsanlegu umhverfisráðuneyti. Ég geri þetta sérstaklega að umtalsefni vegna þess að málefni Hollustuverndarinnar, sem samkvæmt 128. máli eiga að flytjast í umhverfisráðuneytið, eru svo veigamikill þáttur í þessu máli öllu að það er ástæða til að benda sérstaklega á það. Í bréfinu segir, með leyfi forseta:
    ,,Innan Hollustuverndar ríkisins hafa skoðanir lengi verið mjög skiptar varðandi stöðu stofnunarinnar gagnvart hugsanlegu umhverfisráðuneyti. Hefur mengunarsvið stofnunarinnar skorið sig úr í þessu sambandi, en hin þrjú sviðin hafa talið óæskilegt að tengsl þeirra við heilbrrn. minnkuðu eða rofnuðu alveg.``
    Þeir geta þess líka að ekki sé von til þess að samræmd afstaða stjórnarinnar og forstöðumanna Hollustuverndar náist til þessara mála og þess vegna gera þeir sérstaka grein fyrir sjónarmiði forstöðumannanna annars vegar og stjórnarinnar hins vegar.
    Ég vísa hér í bréf sem stjórnin sendi Jóni Sveinssyni, aðstoðarmanni forsrh., í októberlok 1989, en þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Hollustuvernd ríkisins vill í upphafi leggja áherslu á að heilbrigðiseftirlit stofnunarinnar og sveitarfélaganna hefur verið meginþáttur umhverfiseftirlits í landinu, enda eru umhverfi mannsins og lífsskilyrði nátengd heilbrigði mannsins. Frá upphafi þessarar aldar hefur þetta verkefni verið í höndum sveitarfélaga, en eftir að Heilbrigðiseftirlit ríkisins, forveri Hollustuverndar ríkisins, var stofnað árið 1969 hefur átt sér stað markviss þróun hjá ríkinu í þessum málum. Þannig hefur þrisvar sinnum á þessum áratug farið fram heildarendurskoðun laganna um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.
    Heilbrigðissamþykktir og reglugerðir eru safn þeirra fyrirmæla sem sett eru af hinu opinbera til verndunar umhverfi mannsins. Í lögum um heilbrigðiseftirlit og hollustuhætti árið 1981 var ákveðið að taka úr heilbrigðisreglugerð þau ákvæði sem vörðuðu umhverfismengun og setja þau mál í sérstaka mengunarvarnareglugerð. Reglugerðin hefur nú verið staðfest af heilbrmrh. og mun taka gildi um næstu áramót. Með stofnun umhverfisráðuneytis kæmi til álita að endurskilgreina eftirlit opinberra aðila sem beinist að því að draga úr óæskilegum umhverfisáhrifum og nefna umhverfiseftirlit. Slík endurskilgreining kallar á breytingu á lögum um

hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nr. 81/1988, og endurskoðun á verksviði heilbrigðisfulltrúa sveitarfélaganna.``
    Þetta var tilvitnun í bréf stjórnarinnar til Jóns Sveinssonar. En það segir svo hér áfram: ,,Það væri til skaða fyrir þetta málefni ef nú yrði farið að skipta Hollustuvernd ríkisins milli ráðuneyta þó þeir þættir í starfsemi hennar sem varða nærumhverfi séu nátengdir málaflokkum heilbrrn. Ýmsir hafa talið að mengunareftirlit væri umhverfismál og ætti heima í umhverfisráðuneyti en heilbrigðiseftirlit hrein heilbrigðismál sem ættu heima hjá heilbrrn. Hollustuvernd telur þessi verkefni svo náskyld að rökrétt sé að halda þeim innan sömu stofnunar. Innan stofnunarinnar eru þó sumir þeirrar skoðunar að
æskilegt væri að sameina væntanlegt umhverfisráðuneyti og ráðuneyti heilbrigðismála.``
    Í þessu bréfi tók stjórn Hollustuverndarinnar ekki afstöðu til stofnunar umhverfisráðuneytis, enda var reyndar ekki óskað eftir að hún gerði það, en hún setti skilyrði fyrir því að Hollustuvernd færðist undir umhverfisráðuneyti. Aðalskilyrðið var að í upptalningu á málefnum ráðuneytisins væri talað um umhverfiseftirlit, þ.e. heilbrigðiseftirlit, mengunareftirlit og eftirlit með óæskilegum umhverfisáhrifum.
    Stjórn Hollustuverndarinnar uppgötvaði svo þegar þetta frv. var lagt fram, 129. málið, að ekki hafði verið farið eftir óskum stjórnarinnar í þessu efni og þess vegna ritaði stjórnin allshn. Nd. Alþingis bréf sem er dags. 19. des. sl. Þar segir m.a. að meiri hluti stjórnar stofnunarinnar telji það ekki eðlilegast að stofnunin flytjist í heild sinni til umhverfisráðuneytis. Jafnframt ítrekar stjórnin þá skoðun sína að ekki komi til álita að kljúfa stofnunina. Þá segir stjórnin einnig að hún telji það varhugavert að hraða stofnun umhverfisráðuneytis svo mikið að ekki vinnist tími til að svara grundvallarspurningum um starfsemi ráðuneytisins og stofnana þess. Takið eftir þessu: ,,að hraða stofnun umhverfisráðuneytis svo mikið að ekki vinnist tími til að svara grundvallarspurningum um starfsemi ráðuneytisins og stofnana þess``. En það er einmitt það sem er verið að gera. Það er verið að hraða þessu máli í gegnum þingið og ekki gefinn neinn tími til þess að ræða svona grundvallaratriði.
    Þeir segja hér líka að afstaðan til umhverfisráðuneytis mótist því af eðlilegri varkárni. Stjórnin vill ekki tefla í tvísýnu heilbrigðiseftirliti og hollustuháttamálum, þar með töldu eftirliti með matvælum. Verkefnalisti umhverfisráðuneytis samkvæmt grg. með frv. um breytingu á lögum um Stjórnarráðið, þ.e. 129. máli sem við erum hér að ræða og reyndar grg. í heild sinni bendir til þess að þessi mikilvægu mál gætu orðið hornreka í umhverfisráðuneytinu. Sé minnsta hætta á að svo verði mun stjórnin leggjast gegn breytingum á yfirstjórn stofnunarinnar. Nokkrir stjórnarmenn eru reyndar algjörlega á móti breytingu á yfirstjórn hennar að svo komnu máli. Að þessu leyti virðist þeim frv. um samræmda stjórn umhverfismála, 4. málið, frv. okkar sjálfstæðismanna, æskilegra fyrir stofnunina en frv. um

breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands.
    Þá segja þeir líka að þótt nú sé stefnt að stofnun sjálfstæðs umhverfisráðuneytis telji stjórnin réttara að möguleiki á stofnun umhverfis- og heilbrigðisráðuneytis verði kannaður til þrautar. Sá kostur hentar málaflokkum stofnunarinnar að ýmsu leyti vel, sérstaklega þeim er varða nærumhverfi þótt hann sé ekki gallalaus fremur en aðrir sem boðið er upp á. Stjórnin telur því að stofnun umhverfisráðuneytis tengist mjög frekari endurskoðun á verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins og ákvörðun um stofnun ráðuneytisins ætti að taka eftir að niðurstaða er fengin í það mál.
    Síðan er hér upplýst um afstöðu framkvæmdastjóra og forstöðumanna fagsviða Hollustuverndar ríkisins. Þar eru, eins og áður hefur komið fram, einnig nokkuð skiptar skoðanir. Eiturefnaeftirlitið tekur t.d. fram að hugtakið umhverfismál sé ekki vel skilgreint. Heilbrigðiseftirlitssvið lýsir andstöðu við hugmyndir um flutning Hollustuverndar yfir í fyrirhugað umhverfisráðuneyti. Sú skoðun er sett fram hjá heilbrigðiseftirlitssviðinu að taka muni a.m.k. eitt ár að endurskoða og breyta mörgum lagabálkum í kjölfar stofnunar umhverfisráðuneytis og að ringulreið muni ríkja á meðan hvað varðar núverandi starfssvið Hollustuverndar. Það er tekið fram að ekki séu fordæmi í öðrum löndum svo vitað sé fyrir því að matvælaeftirlit heyri undir umhverfisráðuneyti. Það er ekki talið skynsamlegt að stofna ráðuneyti fyrst og athuga síðan hvernig það eigi að starfa. Þetta er aðferðin sem hæstv. ríkisstjórn hefur valið. Taka ákvörðun um stofnun umhverfisráðuneytis fyrst og síðan láta tímann líða meðan menn eru að reyna að koma sér niður á hvaða málaflokkar eigi að færast þangað. Þeir segja að skynsamlegast sé að nota tímann fram að næstu alþingiskosningum til að undirbúa stofnun heilbrigðis- og umhverfisráðuneytis. En verði framangreind leið ekki farin þá er samræmd stjórn umhverfismála í einu af núverandi ráðuneytum talin vænlegri kostur, þ.e. tillaga eins og við sjálfstæðismenn lögðum fram hér í haust.
    Af hálfu rannsóknastofusviðsins var ekki skilað skriflegu áliti en afstaða forstöðumanns stofunnar, sem komið hafði fram á stjórnarfundi, er í meginatriðum samhljóða afstöðu heilbrigðiseftirlitssviðsins.
    Framkvæmdastjóri Hollustuverndar telur að miðað við athugasemdir við frv. um stofnun umhverfisráðuneytis og málflutning helstu talsmanna þess væri réttara að stofna umhverfisráðuneyti í markvissum áföngum eins og lagt er til í frv. okkar sjálfstæðismanna um samræmda stjórn umhverfismála. Hann telur réttara að tengja umhverfisráðuneyti öðru ráðuneyti og ákveða stofnun þess í tengslum við endurskoðun á skipulagsmálum Stjórnarráðsins í heild. Hann segir grundvallaratriði að Hollustuvernd verði ekki klofin upp. Hann telur hættu á að athygli umhverfisráðuneytis muni beinast að mengun ytra umhverfis en
aðgerðir til að bæta hollustuhætti og almennt heilbrigðiseftirlit fái lítið vægi. Hann dregur í efa að

umhverfisráðuneyti geti aukið verulega fjárveitingar til stofnunarinnar eins og væntanlegur umhverfisráðherra hefur gefið til kynna. Hann telur að tvöfalt eftirlit muni auka líkur á árekstrum ásamt því að draga úr skilvirkni og ábyrgðarkennd.
    Þetta eru helstu atriðin sem mér þótti ástæða til að rekja úr umsögnum Hollustuverndar ríkisins.
    Skógrækt ríkisins hefur sent umsögn sem ég skal ekki eyða löngum tíma í, aðeins segja að Skógræktin er í aðalatriðum meðmælt frv. okkar sjálfstæðismanna. Sérstaklega er bent á ákvæði um stjórnarnefnd umhverfismála og umhverfismálasjóð. Það er úr umsögn Skógræktarinnar.
    Landgræðslan telur stjfrv. að mörgu leyti ómótuð. Við þá vinnu sem fram undan er leggur Landgræðslan áherslu á samráð allra hlutaðeigandi aðila. Hún telur einnig að ósamræmis gæti milli stjfrv. á hlutverkum Náttúruverndarráðs annars vegar og væntanlegrar umhverfisstofnunar hins vegar. Landgræðslan telur eðlilegt að umhverfisráðuneyti hafi vissan íhlutunarrétt varðandi verndun gróðurs en breytingar þær sem fram koma í stjfrv. séu ekki tímabærar. Óeðlilegt sé að koma upp tvöföldu eftirlitskerfi opinberra aðila á sama tíma og verið er að endurskipuleggja og efla gróðurverndarstarf Landgræðslunnar. Landgræðslan leggur til að fyrri verkaskiptingu, sem þegar hefur komist á, milli Landgræðslu, Skógræktar og Náttúruverndarráðs, verði haldið. Varðandi stjórnarráðsfrv., 129. mál, telur stofnunin að þeirri meginreglu að skipta ekki upp stofnunum sé ekki fylgt gagnvart Landgræðslunni.
    Þetta voru nokkur atriði af mörgum fleiri í áliti Landgræðslunnar.
    Þá vil ég geta hér um umsögn Fjárlaga- og hagsýslustofnunar. Þar segir svo, og mættu nú hæstv. ráðherrar hlusta:
    ,,Fjárlaga- og hagsýslustofnun telur það vera höfuðhlutverk sitt að benda á hvaða kostnaður hljótist af umhverfisráðuneyti. Skal þess getið að reynsla nágrannalandanna gefur til kynna að slíkt ráðuneyti byrji í smáum stíl en verði fljótlega eitt stærsta ráðuneytið.`` --- Þeim hefur aldrei dottið í hug hér heima að svoleiðis gerist hér, nei, nei, aldeilis ekki. Við höfum minnst á þetta áður í umræðum hér en því hefur jafnóðum verið mótmælt, það mun ekki gerast á Íslandi, þó við höfum dæmin fyrir okkur alls staðar, í hverju einasta landi sem við þekkjum til. --- Svo segir hér áfram: ,,Því er okkur Íslendingum mikilvægt að læra af þeirri reynslu og halda í slíkan kostnað þegar frá upphafi. Því þykir stofnuninni rétt að benda á að í frv. vantar alla tilfærslu á stöðugildum og rekstrarfé frá ráðuneytum sem fram að þessu hafa haft með stjórn einstakra umhverfisþátta að gera. Með nokkrum rétti heyrir slíkt undir fjárlög en reynsla af tilfærsluverkefnum milli stofnana í fjárlagagerð bendir ótvírætt til þess að nýja stofnunin fær fjárveitingu til þess verkefnis sem til hennar flyst en gamla stofnunin verður ekki fyrir sömu lækkun á móti. Um þetta eru mörg dæmi, t.d. flutningur utanríkisviðskipta frá viðskiptaráðuneyti til utanríkisráðuneytis.`` --- En þetta

á auðvitað ekki að gerast hér, nei, nei. Nú á að fara inn á einhverjar allt aðrar brautir sem við höfum aldrei gengið áður. Það á að fara að spara.
    Svo heldur hér áfram: ,,Til að forða því að togstreita fjárlagagerðar verði til þess að svona fari aftur er allshn. bent á að bæta við sérstöku ákvæði í frv. á þá leið að stofnun umhverfisráðuneytis verði að fylgja tilflutningur á stöðugildum og rekstrarfé frá öðrum ráðuneytum í samræmi við minni verkefni þeirra. Má það ákvæði gjarna vera í því formi að það breyti nýsettum fjárlögum. Býðst Fjárlaga- og hagsýslustofnun til að gera um þetta áætlun fyrir nefndina ef hún vill láta verða af þessu.`` --- Ég veit ekki til að um þetta hafi verið beðið.
    Hér hefur verið leitast við að draga fram nokkur atriði úr þessum umsögnum. Það er í fyrsta lagi hver sé afstaða umsagnaraðilans til stofnunar sérstaks umhverfisráðuneytis. Í öðru lagi hver sé afstaða viðkomandi til flutnings einstakra stofnana milli ráðuneyta, hverjar séu helstu breytingartillögur sem umsagnaraðilinn vill koma á framfæri og hver sé afstaða viðkomandi til þingmáls nr. 4.
    Ég held áfram og nefni nokkur atriði úr örfáum umsögnum til viðbótar. Heilbrigðisfulltrúafélag Íslands hefur gefið umsögn og hafði reyndar gert áður, þ.e. með bréfi til nefndar Jóns Sveinssonar. Hér segir:
    ,,Bréf félagsins til nefndar Jóns Sveinssonar mátti skilja á þá lund að mælt væri með stofnun umhverfisráðuneytis og því að öll starfsemi Hollustuverndar ríkisins flyttist til þess. En með erindi 258/112 til allshn. og umsögn 10. jan. 1990 er skýrt tekið fram að best sé að stofna heilbrigðis- og umhverfisráðuneyti``, lesum við út úr bréfi Heilbrigðisfulltrúafélagsins. Þeir segja að verði stofnað sjálfstætt umhverfisráðuneyti leggi þeir til að Hollustuvernd og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga verði ekki flutt úr stað. Hefur félagið alltaf lagst gegn því að stofnunin verði klofin upp og skipt milli ráðuneyta. Félagið hefur einnig efasemdir um breytingu á hlutverkum Náttúruverndarráðs, Skógræktar ríkisins og Landgræðslu ríkisins og telur að
stjórnunarerfiðleikar hljóti að koma upp við rekstur Siglingamálastofnunar ef stofnuninni verður skipt milli ráðuneyta.
    Heilbr.- og trmrn. telur að umhverfisráðuneyti eigi eingöngu að fjalla um ytri mengun. Því er alfarið mótmælt af hálfu heilbrrn. að Hollustuvernd og Geislavarnir flytjist yfir í umhverfisráðuneyti en talið mögulegt að flytja mengunarvarnadeild Hollustuverndarinnar.
    Veðurstofa Íslands hefur sent umsögn. Þeir eru alfarið á móti því að Veðurstofan verði flutt úr samgrn. og leggja til breytingu á 128. máli í samræmi við það. Orkustofnun hefur einnig sent umsögn. Þar er ekki lagður dómur á hvort skipa eigi umhverfismálum í eitt ráðuneyti eða sérstakt umhverfisráðuneyti. Orkustofnun er andvíg því að Veðurstofan verði flutt úr samgrn. og leggur fram brtt. í samræmi við þá skoðun.
    Orkustofnun segir svo um frv. okkar

sjálfstæðismanna að frv. gangi býsna langt í þá átt að skipa umhverfismálum í eitt ráðuneyti, en þó vanti efnislega á, því að gert er ráð fyrir að mengunar- og skipulagsmál falli undir annan ráðherra en þann sem fer með samgöngu- og umhverfismál. Þeir segja að endurskoðunarákvæði frv. bendi til að hér sé frekar um áfanga að ræða en endanlega skipan. Þeir telja að gott samráð verði að hafa við sveitarfélög og þeir Orkustofnunarmenn telja að hugmyndin um umhverfisverndarsjóð sé mjög jákvæð.
    Náttúruverndarráð telur æskilegt að stofnað sé sérstakt umhverfisráðuneyti og mælir með því en telur að mengunarvarnadeild Hollustuverndar eigi að tilheyra umhverfisráðuneytinu en ekki stofnunin öll.
    Dýralæknafélag Íslands telur stofnun umhverfisráðuneytisins varhugaverða þar sem ekki er sett fram umhverfismálastefna. Félagið leggur til að stofnað verði heilbrigðis- og umhverfisráðuneyti. Félagið er andvígt því að hollustuvernd verði í umhverfisráðuneyti.
    Rannsóknaráð ríkisins telur ekki tímabært að stofna umhverfisráðuneyti þar sem ekki komi fram nein sannfærandi greining á þeim efnisvanda sem því sé ætlað að fjalla um.
    Þjóðminjasafnið mælir gegn því að húsfriðunarnefnd og verkefni hennar verði flutt úr menntmrn., Líffræðistofnun Háskólans mælir með stofnun ráðuneytis en telur að Landgræðsla og Skógrækt ríkisins eigi að vera undir umhverfisráðuneyti. Félag ísl. náttúrufræðinga bendir á að skilgreiningu á umhverfi vanti í frv. en mælir að öðru leyti með stofnun ráðuneytisins með vissri lágmarksstarfsemi.
    Yfirdýralæknirinn í Reykjavík telur að sá málaflokkur sem heyrir undir dýravernd eigi frekar heima í landbrn. en í umhverfis- eða menntamálaráðuneyti. Rannsóknastofnun landbúnaðarins telur ekki rétt að skipta verklegum þætti Landgræðslunnar og Skógræktarinnar milli ráðuneyta og telur vegna náins samstarfs RALA við þær stofnanir að þetta eigi heima undir landbrn. RALA vitnar til Brundtland-skýrslunnar um að rannsóknir á nýtingu auðlinda séu snar þáttur í því að gera atvinnuvegum kleift að fara með náttúruauðlindirnar með verndunarsjónarmið í huga.
    Landlæknir telur að Geislavarnir og Hollustuvernd eigi heima undir heilbrrn. enda sé meiri hluti verkefna þessara tveggja stofnana á sviði heilbrigðismála. Hann telur mjög misráðið að fórna hagsmunum þessara stofnana vegna fljótræðisákvarðana, eins og hann orðaði það.
    Bjarni E. Guðleifsson er á móti stofnun umhverfisráðuneytis þar sem óskynsamlegt sé að aðskilja yfirstjórn nýtingar og verndunar auðlindanna. Ráðuneytið auki á miðstýringu og sé of kostnaðarsamt. Helsta verkefni umhverfisráðuneytis, ef stofnað verður, ætti að vera stefnumótun og ráðgjöf. Hann telur stofnun umhverfisstofnunar óþarfa, telur að landgræðsla og skógrækt eigi heima undir landbrn. en gróðureftirlit megi vera undir

umhverfisráðuneyti. Einnig megi Náttúrufræðistofnun vera áfram í menntmrn. Hann segir um frv. okkar sjálfstæðismanna að skilgreina hefði mátt betur umhverfismál. Hann telur þetta mál ganga of skammt, en segir að eðlilegt væri að þetta frv. kæmi til skoðunar þegar nefnd sú sem gert er ráð fyrir að verði skipuð skv. frv. um Stjórnarráðið hefji vinnu sína.
    Vísindaráð telur æskilegt að sameina umhverfismál undir eitt ráðuneyti, hvort sem um væri að ræða nýtt ráðuneyti eða eitthvert af þeim ráðuneytum sem fyrir eru.
    Siglingamálastofnun ríkisins tekur skýrt fram að hún hafi hvergi lýst þeirri skoðun að nauðsynlegt sé að setja á fót sérstakt umhverfisráðuneyti þar sem stofnunin telur að árangur opinberrar stefnu í umhverfisvernd á hverjum tíma ráðist frekar af vilja löggjafans til lagasetningar og útvegunar fjármagns til verkefnanna en með hvaða hætti yfirstjórn málaflokksins er fyrir komið innan stjórnkerfisins. Hvergi sé að finna í grg. með frv. mat á því hvernig það fyrirkomulag sem er á framkvæmd umhverfismála hafi reynst. Vegna sérstöðu Íslands sé ekki sjálfgefið að fyrirkomulag það sem flest nágrannalönd okkar hafa tekið upp sé hagkvæm lausn fyrir Ísland. Þetta segja þeir hjá Siglingamálastofnun sem fara með svo veigamikinn þátt umhverfismálanna sem
eftirlit með mengun sjávar er. Þeir segja líka að það veki athygli að þeirri reglu sem er ein helsta röksemd fyrir stofnun umhverfisráðuneytis, að draga úr þeim hagsmunaárekstrum sem fylgja því að atvinnuvegasjónarmið annars vegar og friðunar- og verndunarsjónarmið hins vegar heyri undir sama ráðuneyti, virðist ekki beitt þar sem hagsmunir okkar hljóta að vera hvað mestir, þ.e. í verndun og nýtingu auðlinda hafsins. Stofnunin telur eðlilegt að verndun auðlinda hafsins falli einnig undir stjórn umhverfisráðuneytis en með því yrði yfirstjórn mengunarvarna og verndun auðlinda hafsins í höndum sama ráðuneytis og er þar vísað til hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna.
    Um frv. okkar sjálfstæðismanna segja þeir hjá Siglingamálastofnun að svo virðist sem frv. miði fyrst og fremst að því að byggja frekari umhverfisvernd á því starfi sem ráðuneytin hafa þegar byggt upp, hvert á sínu sviði, með öflugu og markvissu samræmingarstarfi, sem er alveg rétt. Það gerir ráð fyrir endurskoðun innan fjögurra ára til þess að huga að frekari samræmingu. Siglingamálastofnun hefur verið þeirrar skoðunar að ástæða sé til að samræma betur en gert hefur verið yfirstjórn mengunarmála þar sem tekið yrði mið af þeirri reynslu og árangri sem náðst hefur hjá einstökum ráðuneytum og stofnunum. Stofnunin telur því að þetta frv., frv. okkar sjálfstæðismanna, fullnægi þeim skilyrðum.
    Skógræktarfélag Íslands telur að vænlegast sé að fara hægt í sakirnar varðandi stofnun umhverfisráðuneytis. Félagið telur mjög ósennilegt að starfsfólk ráðuneytisins geti unnið að lögboðnum störfum sínum og jafnframt unnið að lagabreytingum

sem starfsemi ráðuneytisins kalli á. Félagið telur óviðunandi ósamræmi vera vegna flutnings á verkefnum úr landbrn. til umhverfisráðuneytisins er varðar gróðurvernd og landnýtingu en öðrum fagráðuneytum er ætlað að hafa forræði auðlinda sem þeirra atvinnugreinar byggjast á. Félagið leggur til að Skógrækt ríkisins verði óskipt í landbrn., þar á meðal gróðurvernd og allir þættir skógræktar, en eftirlitshlutverk verði í umhverfisráðuneytinu. Ella kunni að vera rofin þau tengsl sem myndast hafa á undanförnum árum milli skógræktarmanna og bænda þar sem verkaskipting sú sem gert er ráð fyrir sé óhæf. Telur félagið verksvið umhverfisráðuneytisins ekki vel skilgreint. Um frv. okkar sjálfstæðismanna er það að segja að stjórn Skógræktarfélags Íslands er í öllum aðalatriðum meðmælt því.
    Landbrn. hefur gefið umsögn og vísar einnig til umsagnar Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins. Ráðuneytið og viðkomandi stofnanir hafa eindregið varað við því að öll verkefni stofnananna yrðu flutt úr landbrn. og telja að af því hefði getað hlotist stórslys. Þeir benda á ósamræmi í tilflutningi verkefna þar sem öðrum ráðuneytum en landbrn. er ætlað að hafa forræði yfir þeim auðlindum sem undir þau heyra. Á það hafa fleiri bent. Ráðuneytið telur að skipting verkefna milli umhverfis- og landbrn. sem Skógrækt ríkisins og Landgræðsla ríkisins hafa sinnt sem framkvæmdastofnanir verði ekki til að skila auknu og bættu samstarfi í þágu gróðurverndar og gróðurbóta en auki aðeins kostnað.
    Geislavarnir ríkisins leggja áherslu á að leitað verði víðtækrar samstöðu um stjórnskipulegt fyrirkomulag umhverfismála. Stofnun umhverfisráðuneytis er nátengd endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands og breyttri verkaskiptingu ráðuneyta og þess vegna ætti að leiða þau mál til lykta fyrst. Það er skýr skoðun stjórnar stofnunarinnar að ekki sé rétt að flytja yfirstjórn stofnunarinnar þar sem langstærstur hluti verkefna hennar sé á sviði heilbrigðismála. Jafnframt er bent á að í Danmörku og Noregi hafi heilbrrn. yfirstjórn geislavarna. Stofnunin tekur undir þau sjónarmið sem liggja til grundvallar frv. um samræmda yfirstjórn umhverfismála.
    Röntgendeildir Landspítalans, Landakots og Borgarspítalans hafa sent inn erindi og umsagnir. Yfirlæknar deildanna beina þeirri ósk til nefndarinnar að Geislavarnir ríkisins verði áfram undir stjórn heilbrrn. og landlæknisembættisins þar sem sú ráðstöfun að færa stofnunina undir umhverfisráðuneyti sé afar misráðin.
    Herra forseti. Ég hef hér farið yfir einstaka þætti í umsögnum örfárra aðila af þeim mörgu sem hafa sent hv. allshn. umsagnir sínar. Mér er alveg ljóst að þær umsagnir, sem ég hef hérna verið að rekja, varða miklu frekar þau viðfangsefni sem skulu eiga heima í umhverfisráðuneyti eða ráðuneyti sem fer með þann málaflokk ásamt öðrum. Ég er alveg sannfærður um að í hugum þeirra sem af hvað mestri sannfæringu mæla með stofnun sérstaks umhverfisráðuneytis er það alger forsenda að viðfangsefni ráðuneytisins séu

ákveðin samtímis stofnun ráðuneytisins. Viðfangsefnin eru höfuðmálin sem áhugamenn um umhverfismál vilja vita hver verða. Þeir vilja vita hvaða viðfangsefni eigi að færast í þetta ráðuneyti. Halda menn t.d. að Hið íslenska náttúrufræðifélag, Landvernd, Félag ísl. náttúrufræðinga, Náttúruverndarráð, Jarðfræðafélag Íslands, Líf og land, svo að ég nefni aðeins örfáa aðila sem hafa sýnt umhverfismálum sérstakan áhuga og mæla með stofnun sérstaks umhverfisráðuneytis, að þessir aðilar telji málið komið í höfn ef aðeins er stofnað ráðuneyti en helst ekkert talað um þau viðfangsefni sem þar eiga að vera? Ég er sannfærður um að þessir
aðilar telja það meginmálið að fá að vita hvaða viðfangsefni fara í ráðuneytið en ekki hvort eitthvert hégómamál, eins og þetta umhverfisráðuneyti er orðið, verði samþykkt hér í þessari viku eða næstu. Þetta er auðvitað sá þáttur sem mestu máli skiptir og þess vegna er alveg ómögulegt annað en ræða það frv. líka, þ.e. 128. mál, samhliða því frv. sem hér er til umræðu.
    Ég ætla ekki að sinni að fara nánar í umsagnir en ég hef þegar gert. Það má hins vegar vel vera að ég geri það frekar nú við 2. umr. málsins. Öll vinnan í nefndinni, hv. allshn., er líka eftir. Það hefur ekkert verið unnið eins og ég gat um í upphafi máls míns. Sú vinna mun óhjákvæmilega taka nokkurn tíma því þessar umsagnir eru svo yfirgripsmiklar, fylla reyndar heila stóra möppu, og um þetta þurfum við allt að fjalla ítarlega, bæði í nefndinni og svo hér í deildum hv. Alþingis.
    Ef svo ólíklega skyldi vilja til að stjórnarliðar sýndu vilja til að gera annað en greiða þennan víxil Borgaraflokksins sem hæstv. forsrh. samþykkti í september til að halda lífinu í þessari svokölluðu ríkisstjórn, þá verður auðvitað farið rækilegar í umsagnirnar, eins og ég sagði áðan, bæði á fundum hv. allshn. og hér í þingdeildinni. Mér er hins vegar ekki alveg ljóst hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að koma því máli í gegn fyrir 27. apríl nk. sem á að vera þinglausnadagur. Mér er það ekki alveg ljóst hvernig hún ætlar að gera þetta í ósátt við allt og alla. Í ósátt við stjórnarandstöðuna og í ósátt við fjölda aðila úti í þjóðfélaginu sem eiga að búa við það skipulag sem samþykkt verður. Og ég tala nú ekki um ef það er það skipulag sem hæstv. ríkisstjórn hefur þegar lagt til. En það er kannski svo að ríkisstjórninni sé alveg sama hvort seinna frv. verður afgreitt eins og ég lét liggja að áðan. Hin pólitíska ákvörðun, eins og hv. stjórnarliðar orða það, hefur þegar verið tekin og stofnun ráðuneytisins ákveðin. Til þess að ná fram þeirri ákvörðun á Alþingi segja þessir háu herrar að ekkert þurfi að tala við embættismenn, ekki þurfi að tala við stjórnarandstöðuna eða yfirleitt við nokkurn aðila utan þessa fílabeinsturns sem ríkisstjórnin hrærist í.
    Herra forseti. Ég lýsi fullri andstöðu við þetta frv. Ég lýsi megnri fyrirlitningu á þeim vinnubrögðum sem eru viðhöfð í þessu annars mjög svo mikilvæga máli. Að slíta í sundur afgreiðslu frumvarpa sem eru

svo nátengd að út úr afgreiðslu þessa frv. eins og sér kemur hrein skrípamynd. Ég furða mig á því að nefndarmenn í hv. allshn. skyldu ekki fá frið til að vinna saman að því að afgreiða þessi frumvörp út úr nefndinni þannig að þau hlytu eðlilega meðferð og afgreiðslu fyrir þinglausnir í vor. Tilboði um slík vinnubrögð var hafnað af hæstv. ríkisstjórn. Hæstv. ríkisstjórn verður þess vegna að taka afleiðingunum af þeirri ákvörðun sinni.