Stjórnarráð Íslands
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Hv. þm. lagði tvær spurningar fyrir mig sem mér er ánægja að svara. Í fyrsta lagi spurði hún hvort einhver afturkippur eða óánægja, eins og hún orðaði það, væri orðinn í stjórnarliðinu með efni umhverfismálafrv., þ.e. hvað á að flytjast þangað. Svo er alls ekki. Ég hef nýlega rætt þetta í ríkisstjórn og það er óskiptur stuðningur bæði við stofnun umhverfisráðuneytis og við flutning verkefna þangað. Hins vegar sagði ég í framsöguræðu minni hér með þessu máli að um einstök atriði þar væru skiptar skoðanir og menn þyrftu að skoða þau vel. Eitt sem ég nefndi í framsöguræðu minni var t.d. Hollustuverndin. Á hún að flytjast öll eða á hún að flytjast að hluta? Sömuleiðis er það engin launung að skoðanir eru skiptar um það hvernig eigi að skipta gróðurverndinni á milli umhverfisráðuneytis og landbrn. Þetta hef ég aldrei farið leynt með og það er engin launung að innan stjórnarliðsins, eins og milli þingmanna hér, eru skiptar skoðanir um þessi mikilvægu málefni, svo að ég nefni tvö.
    Við leggjum að sjálfsögðu á það alla áherslu að málið verði afgreitt á þessu þingi, það mál sem enn þá er í nefndinni, þ.e. verkefni umhverfisráðuneytis. Vitanlega leggjum við alla áherslu á það og það verður afgreitt á þessu þingi. Á því er ekki nokkur minnsti vafi.
    Ég vil aðeins rekja aðdraganda þessa máls. Þetta mál er eitt af samkomulagsmálum við stjórnarmyndun, ég vil minna á það. Reyndar lagði ég fram frv. um þetta mál á síðasta þingi sem varð ekki afgreitt. Þetta var eitt af forgangsmálunum, efst á lista forgangsmála sem ég lagði fram hér á haustþingi sem áttu að afgreiðast fyrir áramót. Það urðu tafir á að koma málinu til nefndar og ætla ég ekkert að deila um það. Ég féllst á að málið yrði ekki afgreitt fyrir áramót. Ég lagði þá mikla áherslu á að það yrði afgreitt frá nefndinni í fyrstu viku eftir að þing kæmi saman. Leitað var
umsagna hjá 40--50 aðilum eftir því sem ég best veit og var veittur frestur til 10. janúar. Umsagnir bárust frá æðimörgum. Þær voru ljósritaðar og sendar nefndarmönnum.
    Í nefndinni var ekki stuðningur við að afgreiða málin bæði út úr nefndinni á fyrstu viku eða snemma eftir að þing kæmi saman. Mér var tjáð af formanni nefndarinnar að umsagnirnar séu yfirgnæfandi fylgjandi því að sjálfstætt umhverfisráðuneyti verði sett á fót. Hins vegar eru nokkuð skiptar skoðanir m.a. um þau verkefni sem ég nefndi áðan og kom reyndar fram í ræðu hv. þm. Ólafs G. Einarssonar, t.d. um Hollustuverndina. Ég sagði formanni nefndarinnar þegar við ræddum þetta að mér þætti afar eðlilegt að nefndin vildi skoða nánar hvernig verkefni skiptast eða færast á milli ráðuneyta. Við teljum hins vegar afar mikilvægt að koma umhverfisráðuneyti á fót. Þá er hægt að hefja allan undirbúning að starfi þess, þá er hægt að byrja að ráða starfslið. Viss verkefni get ég með reglugerð flutt til umhverfisráðuneytis. Með

samkomulagi á milli ráðherra sem er fullt getur umhverfisráðherra þegar tekið upp samstarf við ýmsar stofnanir sem ekki er umdeilt að þangað fara, eins og Náttúrufræðistofnun og margar fleiri. Það er hægt að hefja þessa starfsemi að verulegu leyti.
    Sömuleiðis sakar ekki að geta þess að stöðugt streyma inn boð til umhverfisráðherra á alls konar fundi erlendis og við höfum iðulega ekki mætt þar. Þegar reynt hefur verið að mæta þar hafa hv. þm. séð ástæðu til að gera mál úr því að sá maður sem gegnir því starfi núna hefur mætt. Það er verið að bjóða upp á mikinn fund núna í maí í Noregi sem er búinn að vera lengi í undirbúningi og þarf að fara að undirbúa okkar þátttöku í. Öllu þessu mun umhverfisráðherra að sjálfsögðu sinna, þó ekki sé formlega búið að flytja öll þau verkefni til hans sem eiga þar að vera.
    Ég taldi satt að segja að það væri þá frekar samkomulagsmál að afgreiða þetta mál en fjalla lengur um verkefnin. Það eru mikil vonbrigði að þm. Kvennalistans skuli hafa brugðist svona við, því að eins og kom fram í ræðu hér áðan hefur Kvennalistinn stutt þetta mál mjög eindregið og reyndar viljað ganga lengra. Við höfum metið þann stuðning.
    Síðari spurningin var um réttaróvissuna. Ég held að í grg. með frv. sé ekki síst vísað til þess að í ýmsum fyrri frumvörpum sem hér hafa verið lögð fram hefur t.d. ekki verið tekið af skarið um það hvort það eigi að vera sjálfstætt ráðuneyti eða ekki. Sagt hefur verið að það skuli vera sérstök stjórnardeild o.s.frv. Í þessu frv. er tekið af skarið með það, þetta verður sjálfstætt ráðuneyti. Það er alveg hárrétt að afgreiða þarf málin sem næst saman og ég endurtek: Hitt málið verður afgreitt á þessu þingi. Ég skil það svo að það sé mikill meiri hluti fyrir því. Ég vona að Kvennalistinn standi með okkur í því að afgreiða hitt málið sem allra fyrst þannig að það verkefni komist í hendur þess ráðherra sem fer með umhverfismálin.
    Ég þyrfti að kynna mér nánar hvað frekar kann að vera átt við með réttaróvissu, en ég leyfi mér að fullyrða að ekki er átt við að ef frv. um Stjórnarráð verður afgreitt sérstaklega og bætt við orðinu umhverfisráðuneyti
valdi það réttaróvissu. Ég vil taka fram að sú skoðun kom fram að rétt væri að fara þá leið og færa svo smám saman verkefnin yfir og læra svo af reynslunni hvað fleira ætti þangað að flytjast. Við kusum ekki að fara þá leið. En ég held að samþykkt þessa frv. auki alls ekki á réttaróvissuna, það leyfi ég mér að fullyrða.