Stjórnarráð Íslands
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Friðjón Þórðarson:
    Herra forseti. Lög um Stjórnarráð Íslands eru nr. 73 frá 28. maí 1969. Þau hlutu vandaðan undirbúning á sinni tíð. Að þeim var unnið að ráði hinna reyndustu og færustu manna. Ekki var kastað höndum til þeirrar löggjafar. Þessi lög eru prentuð í Lagasafninu næst á eftir stjórnarskránni, lögum og reglum um þjóðfána Íslands, þjóðsöng Íslendinga og forsetaembættið. Sýnir þetta með öðru að lög um Stjórnarráð Íslands skipa virðulegan sess í löggjöf Íslendinga. Skal því ekki hrapað að breytingum á þeim nema að vandlega yfirveguðu ráði, þó að þau séu að sjálfsögðu ekki óumbreytanleg frekar en önnur löggjöf, síður en svo.
    Skv. 4. gr. laganna greinist Stjórnarráð Íslands í ráðuneyti, 13 að tölu. Ráðuneyti má eigi á stofn setja né af leggja nema með lögum.
    Frv. það sem hér er til umræðu gerir ráð fyrir að komið verði á fót nýju ráðuneyti, þ.e. að á eftir orðinu ,,sjávarútvegsráðuneyti`` í 1. mgr. 4. gr. laganna bætist: umhverfisráðuneyti. Í ákvæði til bráðabirgða segir: ,,Eftir gildistöku laga þessara skipi umhverfisráðherra nefnd til þess að semja frumvarp til laga um umhverfisvernd.``
    Eins og nál. á þskj. 515 og 534 bera með sér hefur allshn. fjallað um þetta frv. en ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Meiri hl. nefndarinnar, þ.e. stjórnarsinnar, leggur til að frv. verði samþykkt en minni hl., þm. stjórnarandstöðu, vill fella frv. Umsagnir um málið hafa borist frá fjölmörgum aðilum.
    Það er deginum ljósara að flestir eru sammála um að bæta þurfi yfirstjórn umhverfismála hér á landi. Enn fremur að auka þurfi veg og virðingu þessara mála ef svo má segja í ölduróti samtímans. En menn greinir á um leiðir að þessu markmiði.
    Við sem skipum minni hl. nefndarinnar teljum að málsmeðferðin sé ófullnægjandi. Vitað er að minni hl. bauð upp á samstarf um afgreiðslu frv. ef 128. mál, um yfirstjórn umhverfismála, yrði afgreitt samtímis eða fjallað um það samtímis. Að okkar dómi er stigið svo stórt skref með því að stofna sérstakt ráðuneyti er sinni umhverfismálum eingöngu að ljóst verður að vera samtímis hver verkefni það eigi að hafa. Þetta tvennt verði að fylgjast að, þ.e. ákvæðin um stofnun ráðuneytis og störf og hvers konar viðfangsefni undir það skuli falla. Þetta verði ekki með neinum rökum skilið í sundur.
    Í annan stað er minni hl. andvígur því að stofnað verði nýtt ráðuneyti umhverfismála, en leggur áherslu á að sett verði almenn lög um umhverfisvernd og samræming þeirra falin einu ráðuneyti. Nefnt hefur verið að stofna sérstaka deild í einhverju ráðuneytanna í þessu skyni. Sérstaklega skal bent á 4. mál þessa þings, sem er frv. til laga um samræmda stjórn umhverfismála, flutt af sjö þm. Sjálfstfl. Það frv. hefur ekki fengið neina sérstaka umfjöllun fram yfir það sem almennt hefur verið rætt um málefni þau er snerta umhverfisvernd nú um langa hríð.

    Umhverfismál eru flókin og samofin mörgum málaflokkum. Stjórn umhverfismála fléttast því inn í málefni sem heyra undir mörg ráðuneyti, jafnvel flest ráðuneyti þau sem nú eru ákveðin í lögum. Á síðari árum hefur öll umræða um þessi mál stóraukist. Mönnum hefur orðið æ ljósara hversu mikilvæg þau eru og hve nauðsynlegt er að gera viðeigandi ráðstafanir í þessum málefnum mörgum áður en allt er um seinan. Á hinn bóginn er því ekki að neita að hætt er við því að sérstakt ráðuneyti sem stofnsett yrði í þágu umhverfisverndar yxi hröðum skrefum og yrði á skömmum tíma að risavöxnu og rándýru bákni ef ekki væri gætt ýtrustu hagsýni og hófsemdar. Minni hl. nefndarinnar telur og að stefna beri að því að fækka ráðuneytum en ekki fjölga þeim. Ýmsir telja enn fremur að huga beri fremur að fækkun ráðherra og aðstoðarráðherra en taumlausri fjölgun, einkum hinna síðarnefndu.
    Eins og ég minntist á er umræða og umfjöllun mála á sviði umhverfisverndar ekki ný af nálinni en þungi hennar og alvara hefur vaxið með árunum. Fyrir hálfum öðrum áratug var hafist handa um könnun á nýskipun á yfirstjórn umhverfismála í Stjórnarráði Íslands. Þann 4. mars 1975 skipaði Geir Hallgrímsson þáv. forsrh. nefnd níu manna undir formennsku Gunnars G. Schram prófessors, fyrrum alþm., til að vinna að heildarlöggjöf um stjórn umhverfismála. Nefndin samdi frv. til laga um umhverfismál sem þáv. félmrh., dr. Gunnar Thoroddsen, lagði fyrir Alþingi vorið 1978. Ekki hlaut það frv. samþykki Alþingis en síðan hafa mörg frumvörp og tillögur verið fluttar um þessi efni og sýnir það allt hve þingmönnum hafa verið þessi mál hugleikin og hversu oft þeim hefur verið hreyft þótt ekki hafi náðst um þau endanleg samstaða.
    Í þessu máli liggja þegar fyrir fjölmargar umsagnir. Hv. frsm. minni hl. nefndarinnar, 2. þm. Reykn., vitnaði nokkuð í þessar umsagnir í ræðu sinni hér áðan og skal ég þess vegna ekki fara langt út í þá sálma. Hann benti m.a. á að farið væri nú þegar að greiða fé út af fjárlagalið þessa árs, 1990, þó að ekki væri búið að forma ráðuneytið sjálft.
    Hv. 2. þm. Reykn. benti og á það að sjálfstæðismenn hefðu boðið upp á samstarf í þessum málum ef um stjfrv. það sem ég nefndi áðan yrði fjallað samtímis, þ.e. þessi tvö mál, nr. 128 og 129, yrðu samferða í þinginu. En á þá tillögu eða uppástungu var ekki fallist. Ég vil taka það sérstaklega fram að við sjálfstæðismenn viljum aukið fé til umhverfismála, við viljum aukin átök á þessu sviði og við erum áhugamenn um þessi mál. En í þessum efnum eru skiptar skoðanir sem virðist þurfa að samræma betur, ræða betur um og reyna að samhæfa.
    Hv. 2. þm. Reykn. minntist sérstaklega á umsögn Hollustuverndar ríkisins í þessum efnum. Innan veggja hennar eru skiptar skoðanir eins og svo víða annars staðar. Hann nefndi og Landgræðslu og Skógrækt. Þá má einnig spyrja: Hvað segja ráðuneytin, þau sem nú eru bundin lögum, um flutning verkefna? Um þessi mál öll má margt segja. En eitt er víst að þau þurfa

nánari athugunar við. Ég benti á áhuga sjálfstæðismanna um þessi efni í því að taka virkan þátt í umhverfismálum. Sá áhugi hefur komið fram bæði í umræðum hér heima fyrir og einnig á erlendum vettvangi þar sem þessi mál hafa verið mjög til umræðu, í norrænni samvinnu, í samvinnu Evrópuþjóða og á ráðstefnum um mengun hafsins o.fl. Það má segja að í þessum efnum sé komin á samvinna meira og minna um allan heim vegna þess að augu manna eru sífellt að opnast betur og betur fyrir því hver vá er á ferðum ef ekki er unnið af krafti í þessum málum. Ég leyfi mér að benda sérstaklega á samþykktir sem gerðar voru á vegum Vestnorræna þingmannaráðsins í Grænlandi sumarið 1988. Það voru ýmsar ályktanir í umhverfismálum, m.a. er lutu að mengun hafsins o.fl. Ég man að mér þóttu þessar samþykktir nokkuð róttækar þegar ég leit þær fyrst augum, en þær hafa seinna birst í mörgum myndum, bæði á erlendum vettvangi og hér heima fyrir og sýna hvað sannindi þessara mála eru mikil. Að þessu sögðu tel ég ekki neinn vafa á því, eins og raunar allir mega vita, að við erum áhugamenn um skynsamlegar og aðkallandi breytingar á lögum og reglum sem fjalla um þessi málefni.
    Hv. 12. þm. Reykv. sem hér lauk máli sínu áðan vitnaði í stefnuskrá Kvennalistans um það að Kvennalistinn hefði alltaf haft þessi málefni efst á sinni stefnuskrá. Hún kvaðst ekki vilja neitt bákn heldur samræmingu, aukið fé til umhverfismála, að þau væru ekki hornreka í ráðuneytum o.s.frv. Í máli hennar kom fram að þingkonur Kvennalistans eru í nokkrum vanda staddar nú þegar aðaláherslan er lögð á að móta þetta ráðuneyti án þess að ræða jafnframt um verkefnin. Og hv. 12. þm. Reykv. andvarpaði yfir því ef svo færi að við sætum uppi á komandi vori með verkefnalaust ráðuneyti, skrifborð og mengunarvarða bifreið, ef ég hef heyrt orð hennar rétt. Hún tók skýrt fram að þær kvennalistakonur vildu styðja þessi mál í þeim tilgangi að sett yrði á fót raunverulegt ráðuneyti í þessum efnum en ekki aðeins til þess að einn af þm. Borgfl. gæti kallað sig ráðherra umhverfismála með ráðuneyti nokkrum vikum fyrr en seinna.
    Hæstv. forsrh. sem hér sagði nokkur orð tók fram að vissulega væru skiptar skoðanir innan stjórnarliðsins um ýmsa þætti þessara mála og er ég ekkert hissa á því. En ég tel þó að þegar öllu er á botninn hvolft megi greina víðtæka samstöðu meðal þm. allra flokka um þessi mál. Það sé því --- ég leyfi mér að segja klaufaskapur ef þau verða gerð að miklum átakamálum á þessu þingi. Þess vegna er það mín skoðun að það borgi sig að skoða þau í rólegheitum, gefa sér tíma til að ræða þau og í þessum efnum gildir sú regla eins og í öðrum að flas er ekki til fagnaðar.
    Það mætti auðvitað fjöldamargt um þessi mál segja og vitna í umsagnir og annað sem fram hefur komið, ótal margt sem um þau hefur verið rætt og ritað. En ég vil aðeins að síðustu segja að ég hygg að flestir alþm. vilji leggja sig fram um það að íslenska þjóðin

geti lifað í sátt við eigið land og umhverfi. Það geta þeir m.a. gert með því að reyna að laða fram víðtæka samvinnu og samstöðu allra flokka um hin allra brýnustu hagsmunamál --- svo sem þetta mál --- sem horfa til gróandi þjóðlífs í landinu.