Stjórnarráð Íslands
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Sólveig Pétursdóttir:
    Hæstv. forseti. Umhverfisvernd er í brennidepli í umræðunni í dag og verður ekki efast um nauðsyn hennar. Það frv. sem hér er til umræðu tel ég þó hæpið að feli í sér neinn stuðning við umhverfisvernd vegna þess hvernig það er tilkomið. Það eru mjög margir á þeirri skoðun að samræma þurfi stjórn umhverfismála og stofnun umhverfisráðuneytis getur í hugum sumra verið ákjósanlegt markmið í sjálfu sér. En hvað felur þetta frv. í sér? Ráðuneyti án verkefna. Það er eins og umhverfisverndin skipti hér engu máli, aðeins nýi ráðherratitillinn.
    Auðvitað er öllum ljóst hvers vegna þetta frv. er hér eitt og sér til umræðu. Um það þarf ekki að hafa mörg orð svo mjög sem tilgangurinn opinberaðist í fjölmiðlum á síðasta ári, viðræður við Borgfl. um inngöngu í ríkisstjórnina sem þurfti að ná þingmeirihluta. Halda menn í hæstv. ríkisstjórn að almenningur í landinu fylgist ekki með fréttum? Dettur þeim í hug að fólki finnist það sjálfsagt að stjórnmálamenn beiti sér fyrir því að stofna heilt ráðuneyti til viðbótar og stofna þar til enn meiri ríkisútgjalda meðan almenningi er sagt að herða sultarólina. Menn væru þó e.t.v. til í að samþykkja slíkt ef góður árangur væri tryggður, en að stofna ráðuneyti án verkefna er eins og að segja kennara að kenna börnum stafrófið aftur á bak.
    Það sem er einna alvarlegast í þessu máli er þó sá ágreiningur sem uppi hefur verið um það hvaða verkefni ættu að heyra undir þetta ráðuneyti og sá ágreiningur hefur ekki hvað síst komið upp í röðum stjórnarliða. Það er því engan veginn fyrir séð hvenær um það næst pólitísk samstaða. Menn gætu því setið uppi með verkefnalaust ráðuneyti og ráðherra í langan tíma. Það er einnig hægt að hugsa sér að slíkt ráðuneyti yrði lagt niður eftir næstu kosningar þegar ný ríkisstjórn tæki við völdum. Þá væri e.t.v. verr farið af stað en heima setið.
    Það er ekki hægt að rugla með stjórnskipun Íslands á þennan hátt. Stjórnarandstaðan var tilbúin til samvinnu í þessu máli, með ákveðnum skilyrðum þó, en eftir því var ekki leitað. Hlýtur það að teljast alvarlegt áfall fyrir þingræðishefðina að leita ekki eftir víðtæku samkomulagi í jafnstóru máli og þessu. En skv. venjulegri skýringu felst það í þingræði að þeir menn einir geti verið ráðherrar sem þjóðþingið eða meiri hluti þess vill styðja eða þola í embætti.
    Nú hefur hæstv. ríkisstjórn náð meiri hluta hér í hv. Nd. og hinn nýi ráðherra á einmitt að koma úr þeim stjórnmálaflokki sem tryggði þann meiri hluta. Sé ég ekki ástæðu til að fara um það fleiri orðum að svo stöddu, en hlýt þó að benda á það að ráðuneytin gætu orðið æðimörg ef hæstv. forsrh. héldi þvílíku vinnulagi áfram.
    Það hefur oft verið haft á orði að góður málefnaundirbúningur tryggði árangurinn. Sú nefnd er starfaði við samningu þessa frv. hefur vafalaust reynt að vinna verk sitt samviskusamlega og leitað umsagnar víða. Þó finnst mér skorta á samstarf við

fulltrúa atvinnulífsins og álit þeirra, en umhverfisvernd og framkvæmd hennar brennur ekki hvað síst á þeim. Ég hef hér undir höndum umsögn frá Félagi ísl. iðnrekenda dags. 29. jan. sl., aðeins þriggja daga gömul. Með leyfi virðulegs forseta ætla ég að lesa þessa umsögn en hún er eftirfarandi:
    ,,Stjórn Félags ísl. iðnrekenda hefur fjallað um frv. til laga um stofnun sérstaks umhverfisráðuneytis. Félagið er sammála því að þörf er á að samræma yfirstjórn umhverfismála. Með því að sameina meginverkefni umhverfismála á einn stað verður stefnumótun og stjórnun einfaldari og árangursríkari. Félag ísl. iðnrekenda telur þó rétt að hinn nýi samræmingaraðili hafi eingöngu með umhverfisvandamál að gera en ekki þá þætti í starfsemi einstakra stofnana sem snerta tilteknar atvinnugreinar. Þannig falli t.d. aðeins mengunarvarnadeild Hollustuverndar ríkisins undir hinn nýja aðila en ekki sá hluti starfseminnar sem lýtur að eftirliti með fyrirtækjum. Einnig telur FÍI að skipulagsstjóri ríkisins og byggingar- og skipulagsmál almennt eigi ekki að heyra undir hinn nýja aðila. FÍI álítur að endurvinnsla á einnota umbúðum drykkjarvara tilheyri ekki umhverfismálum og því sé óþarfi að hrófla við þeim.
    Þar sem eitt mesta umhverfisvandamál á Íslandi er landeyðing og gróðureyðing almennt er nauðsynlegt að Landgræðslan og Skógræktin heyri undir hinn nýja samræmingaraðila. Félag ísl. iðnrekenda er fylgjandi þeirri stefnu að draga úr kostnaði í opinberum rekstri með hagræðingu og sparnaði á öllum sviðum. Í frv. er ekki gert ráð fyrir að þeir starfsmenn er nú vinna að umhverfismálum í hinum ýmsu ráðuneytum flytjist yfir til hins nýja ráðuneytis. Gert er ráð fyrir að stofnað verði nýtt ráðuneyti með nýju fólki og tilheyrandi kostnaði. FÍI telur að það sé óþarfi að stofna nýtt ráðuneyti og að það gangi í berhögg við stefnuna um sparnað í opinberum rekstri. Þess í stað leggur félagið til að stofnuð verði sérstök skrifstofa umhverfismála í einhverju núverandi ráðuneyti og að starfsfólk er nú sinnir umhverfismálum í hinum ýmsu ráðuneytum flytjist yfir í hana.``
    Ekki verður séð að tekið hafi verið nokkurt tillit til þeirra sjónarmiða er hér koma fram og eru þó vissulega allrar athygli verð. Mér er ekki kunnugt um að leitað hafi verið eftir umsögn Verslunarráðs Íslands en landsnefnd Alþjóðaverslunarráðsins hefur einmitt beitt sér fyrir umræðum um umhverfisvernd hjá fyrirtækjum og í atvinnulífinu. Ég tel þörf á að gera nokkra grein fyrir því hér, með leyfi virðulegs forseta, svo að ljóst sé að það séu ekki rök fyrir framlagningu þessa frv. af hálfu meiri hl. allshn. að fulltrúar atvinnulífsins séu ekki reiðubúnir til samstarfs til að tryggja umhverfisvernd.
    Landsnefnd Alþjóðaverslunarráðsins stóð fyrir ráðstefnu um atvinnulífið og umhverfisvernd fyrir tæpu ári síðan eða þann 17. mars 1989. Hörður Sigurgestsson var formaður þessarar landsnefndar en Ingimundur Sigfússon var ráðstefnustjóri. Þarna voru mörg merkileg erindi flutt sem yrði of langt mál að

gera grein fyrir hér. Þó þykir mér rétt að vitna í formann umhverfismálanefndar Alþjóðaverslunarráðsins en hann telur upp átta atriði til grundvallar þessum málaflokki, með leyfi virðulegs forseta:
    1. Hagvöxtur verður að halda áfram og beinlínis aukast í flestum löndum. Þetta er ekki fyrst og fremst vegna þess að kaupsýslumenn vilji auka ágóða heldur vegna þess að íbúum flestra landa heldur áfram að fjölga og flestir búast við að lífskjör þeirra batni ár frá ári. Einnig er á það að líta að þróunarlöndin þurfa að auka hagvöxt til að bæta lífsskilyrði íbúanna.
    2. Áframhaldandi hagvöxtur verður að vera varanlegur og í samræmi við umhverfið. Sem stendur býr einungis fjórðungur mannkyns í iðnríkjum. Það verður greinilega ómögulegt fyrir 75% mannkyns að iðnvæðast á sama hátt og áður. Spár um takmörkun hagvaxtar í byrjun 7. áratugarins ýktu líkurnar á hugsanlegum skorti á hráefnum, orku og matvælum. Nú er það ljóst að viðkvæmt vistkerfi jarðarinnar þarf betri umönnun ef við ætlum að skila jörðinni í hendur komandi kynslóða í góðu ásigkomulagi. Ef vandamál eins og eyðing ósonlagsins, gróðurhúsaáhrif, hækkun hitastigs, dysjun hættulegra úrgangsefna og sjávarmengun á sumum svæðum eru þegar alvarleg verða vandamálin enn verri ef við höldum áfram óbreyttri stefnu.
    3. Það er því nauðsynlegt að huga að nýjum vörum, nýjum framleiðsluaðferðum og breyttum lífsháttum ef jörðin á að hýsa aukinn fjölda íbúa, íbúa sem þarf að fæða og klæða og veita betra skjól en mögulegt er í dag og minnka á sama tíma skaðleg áhrif á umhverfið. Til að þetta sé unnt þarf hugmyndaauðgi, opið hugarfar og nýbreytni í stórum stíl.
    4. Viðskiptalífið hefur þessa eiginleika í ríkum mæli og mun nota þá til að bregðast við þessari áskorun eftir því sem almenn stefnumörkun leyfir. Sem dæmi má nefna að það er mikilvægt að löggjöf og reglugerðir tilgreini markmið frekar en aðferð. Þetta gerir fyrirtækjum kleift að leita nýrra og betri leiða til lausnar á viðkomandi vanda. Þar að auki þýðir hin hraða þróun í tækninýjungum að það er venjulega ekki viturlegt að ákveða t.d. árið 1979 hvaða tækni er notuð árið 1989 eða árið 2000.
    5. Alþjóðaverslunarráðið hefur alltaf verið svarinn fylgismaður innra eftirlits í viðskiptalífinu. Þegar til lengri tíma er litið mun almenn viðurkenning á einkafyrirtækjum og virðing fyrir einstökum fyrirtækjum byggjast á áreiðanlegu viðhorfi. Slík ábyrgð er jafnvel meiri á umhverfissviðinu en annars staðar. Því höldum við að fyrirtæki, sérstaklega iðnfyrirtæki ættu að gefa út ákveðna yfirlýsingu fyrir fylgi sínu við ,,sound environmental management`` eða heilbrigða umhverfisstjórnun sem nota skal bæði innan fyrirtækisins og í samskiptum við aðila þar fyrir utan.
    6. Alþjóðaverslunarráðið er fylgjandi því sjónarmiði að það borgi sig að koma í veg fyrir mengun. Það er mun áhrifaríkara fyrir fyrirtæki að hafa frumkvæði í umhverfisvörnum og aðlaga starfsemi sína og vörur löngu áður en þess er krafist af yfirvöldum. Það er

dýrt að vera ekki með frá byrjun. Fyrirtæki sem minnka úrgang frekar en auka hreinsikostnað munu auka markaðsmöguleika sína í veröld þar sem meira tillit er tekið til umhverfisins. Þessi fyrirtæki munu bæta ímynd sína og almannatengsl og í sumum tilfellum geta þau jafnvel selt tækni sína til þriðja aðila.
    7. Lög og reglugerðir eru nauðsynlegar en gerð þeirra verður að vera í samráði við fyrirtækin sem hlut eiga að máli. Þegar og ef opinber umræða er nauðsynleg ætti hún að verða málefnaleg og hlutlaus, byggð á góðum gögnum sem viðskiptalífið gæti hjálpað við að útvega. Einnig ætti kostnaður bæði í tíma og peningum, við ráðgjöf og upplýsingasöfnun vegna nýrra iðnaðarframkvæmda að taka mið af fjárfestingunni.
    8. Við ættum alltaf að minnast þess að flest umhverfisverndarmál hafa alþjóðleg áhrif. Nú á tímum er efnahagslíf heimsins að tengjast meira og meira saman. Sú hætta er ávallt fyrir hendi að umhverfisvernd leiði til viðskiptatakmarkana en Alþjóðaverslunarráðið er staðráðið í að berjast á móti slíkum hindrunum.
    Þetta erindi hefur ásamt öðrum erindum á þessari ráðstefnu verið gefið út í bæklingi sem vafalaust er hægt að nálgast hjá Verslunarráði Íslands.
    Mig langar til að geta enn fremur orða þessa sama manns þegar hann segir í sínu erindi nokkru seinna að fyrir stuttu hafi ICC samþykkt rit um umhverfisathugun, en þetta hugtak hefur verið rætt mikið meðal umhverfis-, heilsu- og öryggissérfræðinga. Hingað til hefur engin ein skilgreining verið til á þessu hugtaki, umhverfisathugun. Umhverfisathugun er skilgreind sem stjórnunartæki og lögð er rík áhersla á að ábyrgð fyrir gerð og framkvæmd hennar sé á vegum fyrirtækjanna sjálfra. Gefið hefur verið út rit um þetta markmið og þar segir: ,,Að leggja áherslu á gagnsemi athugana fyrir stjórnendur, að leggja áherslu á gagnsemi þeirra fyrir opinber stjórnvöld, að gera umhverfisathuganir að trúverðugri og traustvekjandi aðferð í augum vinnuafls, sveitarfélaga, umhverfisverndarfélaga og hins almenna borgara og að leggja til samræmda notkun þeirra sem framkvæma umræddar umhverfisathuganir.``
    Enn fremur stóð landsnefnd Alþjóðaverslunarráðsins fyrir könnun um aðgerðir nokkurra íslenskra fyrirtækja í umhverfismálum sl. sumar eða í kjölfar þeirrar ráðstefnu er ég gat um hér áður. Starfsemi fyrirtækjanna sem tóku þátt í könnuninni er mjög fjölbreytileg. Niðurstaðan varð sú að fyrirtækin séu almennt að gera sér grein fyrir því að taka þurfi umhverfismálin föstum tökum og hefur ýmislegt þarft áunnist á því sviði.
    Hæstv. forseti. Meðferð umhverfismála þarf að vera á einni hendi, undir sterkri faglegri stjórn, stjórn sem tengd er meðferð helstu þjóðmála, svo sem sjávarútvegi, iðnaði og fjármálastjórn. Bendi ég á tillögu Sjálfstfl. þar sem gert er ráð fyrir að meðferð umhverfismála verði í samgrn. og að það ráðuneyti

starfi sem yfirstjórn málaflokksins en að einstakir þættir málsmeðferðar verði hjá viðkomandi fagráðuneytum.
    Í athugasemdum við lagafrv. þetta sem hér er til umræðu segir í VI. kafla eftir að fjallað hefur verið um verksvið hugsaðs umhverfisráðuneytis, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sameining helstu þátta umhverfismála í einu ráðuneyti er í samræmi við hugmyndir um fækkun ráðuneyta og endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands sem unnið er að. Yfirstjórn á sviði mengunarvarna og heilbrigðiseftirlits er í heilbr.- og trmrn., náttúruverndarmál í menntmrn., gróðurverndarmál í landbrn., varnir gegn mengun sjávar í samgrn. og skipulags- og byggingarmál í félmrn. Með verkefnatilflutningi til umhverfisráðuneytis eða stofnana þess fækkar verkefnum annarra ráðuneyta. Gefur sú breyting því möguleika á endurskipulagningu og hagræðingu innan annarra ráðuneyta. Á þessari stundu er þó ekki gert ráð fyrir að starfsmenn ráðuneyta sem þessum verkum sinna og stofnanir sem tengjast verkefnaflutningi og starfsmenn þeirra flytjist til hins nýja ráðuneytis og hafi þar aðstöðu. Núverandi vinnufyrirkomulag verður því óbreytt að þessu leyti. Ef vel tekst til má hins vegar ætla að slík sameining og samræming verkefna og stofnana í umhverfisráðuneytinu geti síðar haft sparnað og hagræðingu í för með sér. Dagleg verkefni viðkomandi starfsmanna hjá undirstofnunum og samskipti þeirra verða því að miklu leyti óbreytt. Um nýjan yfirstjórnaraðila er því aðeins að ræða. Þannig verður stefnt að því áfram að nýta eftir föngum reynslu starfsmanna á viðkomandi fagsviðum.``
    Með þessum orðum sínum tekur nefndin undir tillögu Sjálfstfl. í meginatriðum en lætur leiðast á refilstigu hentistefnu hæstv. forsrh. þar sem greiða þarf með ráðherrastóli fyrir veittan stuðning. Enginn efast um nauðsyn þess að komið verði á fót einni stjórn yfir mikilvægum málaflokki sem umhverfismál eru. Dæmin eru mörg sem sanna það og nauðsyn þess að umfjöllun og ákvarðanataka sé á breiðum grunni.
    Mengunarvarnir eru einn mikilvægasti þáttur umhverfismála. Í júlí sl. gaf heilbr.- og trmrn. út reglugerð um mengunarvarnir. Í reglugerðinni er m.a. fjallað um mengun af völdum ökutækja. Með útgáfu reglugerðar þessarar er einmitt sannað hversu nauðsynlegt er að fjallað sé um málefni er umhverfið varða á sem breiðustum grundvelli. Í ljós hefur komið að reglugerð þessi er samin og gefin út án samráðs við þau stjórnvöld sem með þá málaflokka fara er reglugerð þessi varðar.
    Í marsmánuði 1988 skipaði þáv. forsrh. nefnd til þess að fjalla um blýlaust bensín. Starfssviði nefndarinnar var breytt og fjallaði hún m.a. um mengun af völdum ökutækja. Fyrir útgáfu mengunarreglugerðarinnar var ekki haft samband við nefndina og henni gefinn kostur á að kynna sér væntanleg ákvæði er fjölluðu um mengunarvarnir í ökutækjum.
    Í nál. gerir nefndin m.a. eftirfarandi athugasemdir

við ákvæði í reglugerðinni, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Athugasemdir við 1. lið viðauka nr. 6. Mengunarmörk þau sem sett eru í reglugerðinni eru í samræmi við USA-reglur um mengunarvarnir að öðru leyti en því sem fram kemur í grein 2.2.2. hér á undan.
    Tæknilegri þróun við smíði bílvéla er þannig háttað í dag að ekki er unnt að ná þessum mörkum nema með sérstökum hreinsibúnaði. Hér er um að ræða þriggja þátta hvarfa eða svonefnda katalysatora. Þá er einnig nauðsynlegt að notað sé blýlaust bensín. Búnaður þessi er mjög kostnaðarsamur og má búast við að verð
hverrar bifreiðar hækki um 75--100 þús. kr. að óbreyttri tollun. Ef reiknað er með að endurnýjun bifreiða verði þannig að meðalaldur bifreiða í landinu verði 10 ár er endurnýjunarþörf um 14 þús. bílar á ári. Aukinn kostnaður bifreiðakaupenda verður því um 1,2 milljarðar kr. Hér við bætist kostnaður vegna viðhalds og endurnýjunar, áætlað um 400 millj. á ári. Því má reikna með að heildarkostnaður bifreiðaeigenda vegna mengunarvarna verði um 1,6 milljarðar kr. á ári. Hér er reiknað með meðalverði við kostnað hvers hvata fyrir sig, þ.e. að hver hvati kosti 87.500 kr.
    Auk stofnkostnaðar og viðhaldskostnaðar er ljóst að opinbert eftirlit með búnaði sem þessum er kostnaðarsamt. Reikna má með að kostnaður vegna mengunareftirlits í því formi sem nauðsynlegt er, ef framfylgja á reglugerðinni eins og hún er nú, tvöfaldist við almenna skoðun ökutækja. Eins og áður er sagt liggja ekki fyrir neinar óyggjandi mælingar sem sýna að mengun á landinu sé það mikil að réttlætanlegt sé að fjárfesta í búnaði sem þeim er reglugerðin gerir ráð fyrir.
    Í 1. gr. viðauka nr. 6 er tekið fram að viðmiðunarmörk nái til allra bíla sem fluttir eru til landsins frá og með 1. jan. 1992. Hér er átt við bæði nýja og notaða bíla. Ekki verður annað séð en að ákvæði þetta stangist á við ýmsa alþjóðaviðskiptasamninga sem Ísland er aðili að. Hér má nefna GATT-samkomulagið. Réttara hefði verið að setja sérákvæði um gamla, innflutta bíla, t.d. að þeir uppfylli ákvæði þau sem gilt hafa þann tíma sem sambærilegir bílar voru fluttir til landsins.
    Athugasemdir við 2. lið viðauka nr. 6. Í þessum lið eru sett mengunarmörk sem gilda skuli fyrir allar bifreiðar eldri en af árgerðinni 1992. Mörk þau sem hér eru sett eru þau sömu og sett voru í USA árið 1973 og í Svíþjóð árið 1976. Þessi mörk giltu nær eingöngu í þessum löndum og voru þannig að nauðsynlegt var að gera ýmsar breytingar á vélum sem nota átti í þessum löndum. Breytingarnar voru kostnaðarsamar og voru því aðeins gerðar að bílar voru ætlaðir til sölu í þessum löndum. Af þeirri ástæðu er ljóst að á Íslandi eru mjög fáir bílar af eldri árgerðum, t.d. frá 1986 og eldri, sem uppfyllt geta þessar kröfur. Við setningu þessara reglna í USA, eða Bandaríkjunum, og Svíþjóð voru þær ekki afturvirkar eins og gert er ráð fyrir á Íslandi, enda tæknilega ekki hægt að gera þær breytingar sem gera þarf. Hér er því

um óraunhæfa kröfu að ræða sem ekki er unnt að uppfylla.
    Í framhaldi af tillögu nefndar um mengunarmörk og með skírskotun til þess sem fram kemur hér að framan um vankanta á reglugerð um mengunarvarnir vill nefndin leggja til að ákvæði þau í reglugerðinni er lúta að mengun í útblæstri ökutækja verði felld úr reglugerðinni og ákvæði um þessi atriði verði sett í reglugerð um gerð og búnað ökutækja.``
    Við umfjöllun um skýrslu nefndarinnar hefur komið í ljós að nauðsynlegt hefur reynst að fresta gildistöku viðmiðunarmarka um mengun frá ökutækjum sem taka áttu gildi frá og með 1. jan. 1990. Var það gert með útgáfu leiðréttingar við reglugerð um mengunarvarnir og er nú miðað við viðmiðunarmörk þau sem nefndin lagði til, en þau eru ákveðin í skoðunarreglum. Hér háttaði þannig til að ekki var haft samband við dóms- og kirkjumrn. áður en reglugerðin var gefin út og því fór ekki fram nauðsynleg fagleg umfjöllun um þennan þátt reglugerðarinnar en um málefni er varða gerð og búnað ökutækja er fjallað í sérstakri reglugerð.
    Af því sem hér er sagt er ljóst að réttast er að fresta umfjöllun um umhverfismál og að leita verði eftir öðrum lausnum en fram koma í frv. Er hér átt við að farið verði að tillögum Sjálfstfl.
    Hæstv. forseti. Það blandast engum hugur um það að Íslendingar hafi mikinn áhuga á umhverfisvernd, enda mikið í húfi. Á síðasta landsfundi Sjálfstfl. var ítarlega fjallað um umhverfismál. Efast ég ekki um að hv. þm. allir, sama hvar í stjórnmálaflokki þeir standa, hafi fullan hug á að greiða fyrir umhverfisvernd. E.t.v. hefur einhverjum þótt sú umræða sem hér hefur átt sér stað nokkuð neikvæð, en þar er ekki við stjórnarandstöðuna að sakast. Mér þykir það miður að málatilbúnaður allur í þessu máli sé á þennan hátt sem hér hefur verið lýst því að það er svo sannarlega ástæða til að vekja upp jákvæðan áhuga hjá þjóðinni á umhverfisvernd. Með því sem hér hefur komið fram, m.a. í fjölmörgum umsögnum, eins og hv. þm. Ólafur G. Einarsson gat um áðan, hlýt ég að taka undir álit minni hl. allshn. þess efnis að frv. verði fellt.