Stjórnarráð Íslands
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum nr. 73 28. maí 1969, um Stjórnarráð Íslands, sem er á þskj. 133. Hæstv. forsrh. mælti fyrir þessu frv. þann 8. nóv. sl. Og hann mælti þá samhliða fyrir öðru frv. sem hér liggur einnig fyrir., þ.e. frv. til laga um breytingu á lögum nr. 47 16. apríl 1971, um náttúruvernd, lögum nr. 20 30. apríl 1986, um Siglingastofnun ríkisins, og ýmsum lögum er varða yfirstjórn umhverfismála. Hann mælti sem sagt samhliða fyrir báðum þessum málum í einni ræðu. Og maður spyr sjálfan sig að því hvernig stóð á því að hæstv. forsrh. mælti fyrir báðum málunum í einni og sömu ræðunni. Svarið liggur auðvitað í augum uppi. Þessi mál eru svo samtengd að þau verða ekki sundurskilin. Það er ekki hægt að samþykkja sérstakt frv. til laga um breytingu á Stjórnarráði Íslands, þ.e. um að stofna sérstakt umhverfisráðuneyti, og láta svo eftir liggja hvaða verkefni þetta ráðuneyti eigi að fara með. Reyndar kemur það fram í sjálfri grg. með frv. til laga um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands hversu samtengd þessi mál eru. Hv. 12. þm. Reykv. Kristín Einarsdóttir vakti einmitt athygli á því í ræðu sinni hér áðan þegar hún vitnaði til grg. með þessu frv. á bls. 7. Ég vil ítreka það en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Nauðsynlegt er að Alþingi taki afstöðu til þess hvort stofna skuli umhverfisráðuneyti svo og hvaða málefni og málaflokka fella skuli undir heildarstjórn umhverfismála ef til kemur.
    Í þeim frv., sem samin hafa verið um umhverfismál að undanskildu frv. um umhverfismál sem lagt var fram á síðasta þingi, var ekki greinilega tiltekið hvaða viðfangsefni ættu að falla undir heildarstjórn umhverfismála. Slík lög hefðu leitt af sér töluverða réttaróvissu.``
    Hv. þm. Kristín Einarsdóttir spurði hæstv. forsrh. að því áðan í hverju þessi réttaróvissa væri fólgin. Hæstv. forsrh. gaf mjög loðin svör við því. En
auðvitað liggur réttaróvissan í því að ef samþykkt eru sérstök lög um umhverfismál án þess að skilgreint sé hvaða málefni eigi undir það ráðuneyti að falla, og á meðan eru í gildi fjöldamörg lög sem tengjast þessum málaflokki sem gera ráð fyrir að þessi mál séu undir öðrum ráðuneytum, þá er réttaróvissa á fjöldamörgum sviðum. Það er hægt að nefna ótal dæmi um það en ég skal láta það kyrrt liggja að sinni. Ég vek athygli á því að sú málsmeðferð sem hér er verið að efna til er með öllu ófær. Það gengur ekki að stofna ráðuneyti án þess að það fái nokkurt verkefni. Þau svör sem hæstv. forsrh. gaf í þessum efnum áðan voru alveg út í hött. Að gera það sem einn aðalþátt í röksemdafærslu fyrir því að stofna sérstakt ráðuneyti án sérstakra verkefna að inn streymi óskir um þátttöku í ráðstefnum erlendis, eins og hæstv. forsrh. sagði. Því sé nauðsynlegt að stofna sérstakt ráðuneyti til að hægt sé að taka þátt í þessum ráðstefnum. Auðvitað eru þau rök fjarstæða og fá ekki staðist. Það hefur ekkert skort á það að núv. hagstofuráðherra, sem samkvæmt

einhverju erindisbréfi fer jafnframt með umhverfismál, hafi sótt ráðstefnur erlendis þar sem verið er að fjalla um umhverfismál. Hér er auðvitað verið að fara aftan að hlutunum. Og það er mjög slæmt að jafnmikilvægur málaflokkur og þessi skuli fá meðhöndlun af þessu tagi hjá hæstv. ríkisstjórn.
    Með þessu er verið að draga þennan mikilvæga málaflokk niður í svaðið. Þetta er því alvarlegra þar sem þetta lagafrv. fjallar um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands. Næst á eftir stjórnarskránni eru lögin um Stjórnarráð Íslands grunnur að okkar stjórnskipun. Það er þess vegna mjög ámælisvert að geðþóttaákvarðanir eða ímyndaður pólitískur stundarávinningur skuli eiga að ráða ferðinni í þessum málaflokki eins og gert er nú með þeirri afgreiðslu sem að er stefnt hér á Alþingi. Þetta er auðvitað liður í hrossakaupum ríkisstjórnarinnar við Borgfl. sem öll þjóðin hefur fylgst undrandi með frá því á sl. sumri.
    Ástæðan fyrir því að hæstv. forsrh. kaus að mæla fyrir báðum þessum frv. í einu lagi var sú að í hans huga urðu þessi mál ekki sundurskilin. Nú er hins vegar gripið til þess ráðs að taka frv. um Stjórnarráð Íslands út úr og flýta afgreiðslu þess en skilja verkefnin eftir. Þetta þjónar auðvitað engum tilgangi öðrum en að svala einhverjum hégómlegum metnaði og er sárt til þess að vita að svo mikilvægur málaflokkur skuli hljóta þessa meðferð.
    Við skulum aðeins átta okkur örlítið á því hvað gerist ef þetta frv. um Stjórnarráð Íslands verður að lögum. Hæstv. forsrh. segir að eftir það geti hæstv. hagstofuráðherra farið með fullum sóma á ráðstefnur erlendis og ekki skal ég gera lítið úr því að ráðherra fari með fullum sóma á slíkar ráðstefnur. Síðan segir hæstv. forsrh. að hægt sé að flytja með reglugerð ýmis verkefni til þessa nýja umhverfisráðuneytis. ( Gripið fram í: Já, það er hægt.) Við skulum hins vegar átta okkur á því hvaða málaflokka ekki er hægt að flytja til umhverfismálaráðuneytis með reglugerðum. Hvaða málaflokkar eru það sem skýrt er kveðið á um með lögum að skuli vera í öðrum ráðuneytum?
    Náttúruverndarmál. Við höfum ítarlegan lagabálk um náttúruvernd sem kveður á um hvernig haga skuli yfirstjórn náttúruverndarmála á Íslandi og sá
málaflokkur er nú vistaður í menntmrn. Því verður auðvitað ekki breytt með reglugerðum að náttúruverndarmál verða áfram í menntmrn. þó að samþykkt verði sérstök lög um breytingar á Stjórnarráði Íslands. Það þarf lagabreytingu til að flytja náttúruvernd, yfirstjórn náttúruverndarmála, t.d. friðlýsingu einstakra svæða sem er mjög mikilvægur þáttur, eða eftirlit með umgengni og öðru þess háttar, sem er mikilvægur þáttur í starfi Náttúruverndarráðs. Yfirstjórn þeirra mála verður áfram hjá menntmrn. þó þetta ráðuneyti verði stofnað. Og það eru fleiri málaflokkar sem eru samkvæmt lögum vistaðir í menntmrn. Ég nefni sem dæmi verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Það er sérstakur lagabálkur til um það mál frá 1974. Og þó nú verði samþykkt lög um Stjórnarráð Íslands er alveg ljóst að

menntmrn. kemur til með að halda áfram að fara með yfirstjórn verndunar Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Umhverfisráðuneyti mun ekki fá yfirstjórn þeirra mála með neinni reglugerð eins og hæstv. forsrh. var að ýja að hér áðan. Til eru lög um dýravernd sem menntmrn. hefur með að gera, þ.e. yfirstjórn þeirra mála er í menntmrn. Það er samkvæmt sérstökum lögum frá 1957. Ég held að það sé alveg ljóst að þó að samþykkt verði lög um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, þ.e. að stofna sérstakt umhverfisráðuneyti, verður dýravernd áfram hjá menntmrn. en ekki hjá umhverfisráðuneyti. Það eru til sérstök lög um fuglaveiðar og fuglafriðun, sem er auðvitað mikilvægur þáttur í umhverfisvernd og náttúruvernd. Yfirstjórn þeirra mála, samkvæmt núgildandi lögum, er hjá menntmrn. Þó þessi lög um breytingu á Stjórnarráði Íslands verði samþykkt verður yfirstjórn fuglafriðunar og eftirlit með fuglaveiðum áfram hjá menntmrn. Umhverfisráðuneyti kemur ekki til með að fjalla neitt um það. Ég tala nú ekki um merkilega löggjöf eins og eyðingu svartbaks og eyðingu refa og minka sem er vistuð hjá Búnaðarfélagi Íslands. Þau mál verða þar áfram þó þessi lög um breytingu á Stjórnarráði Íslands verði samþykkt.
    Við höfum sérstaka löggjöf um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit frá árinu 1988. Samkvæmt þeim lögum er yfirstjórn þeirra mála hjá heilbr.- og trmrn. Þar er um að ræða mikilvæga þætti sem snerta umhverfismál. Að vísu er mjög umdeilt hvernig skipta eigi upp Hollustuvernd ríkisins eins og ýjað hefur verið að í þessum umræðum áður. Hins vegar er alveg ljóst að þó þessi lög um breytingu á Stjórnarráði Íslands verði samþykkt hefur umhverfisráðuneyti eða væntanlegur hæstv. umhverfisráðherra ekkert með það að gera. Sá málaflokkur er áfram og verður, meðan lögum er ekki breytt, hjá heilbr.- og trmrn.
    Við höfum ítarlegan lagabálk um varnir gegn mengun sjávar frá árinu 1986. Samgrn. fer með þann málaflokk skv. þeim lagabálki. Meiningin var og tillaga er um það að flytja þann málaflokk til umhverfisráðuneytisins en breyting á lögum um Stjórnarráð Íslands breytir engu þar um. Þessi málaflokkur, mengun sjávar, jafnmikilvægur og hann er sem þáttur í okkar mengunarvörnum, fer ekkert yfir til umhverfisráðuneytisins þó við samþykkjum þessi lög. Og það verður ekkert hægt að breyta því með reglugerð eins og hæstv. forsrh. var að ýja að hér áðan. Það er skýrt fram tekið í lögum hver hefur yfirstjórn þess málaflokks. Þannig að breytingin á lögum um Stjórnarráðið sem nú er stefnt að breytir engu þar um.
    Við höfum lagabálk um losun hættulegra efna í sjó frá 1972 og sjútvrn. fer með yfirstjórn þess málaflokks. Þó lögum um Stjórnarráð Íslands verði breytt og sérstakt umhverfisráðuneyti stofnað án þess að flytja með lögum þann málaflokk yfir til umhverfisráðuneytis er ljóst að sjútvrn. hefur áfram með þann málaflokk að gera. Því verður ekki breytt með reglugerð, erindisbréfum eða einhverjum

bréfaskriftum á milli ráðuneyta. Það er skýrt fram tekið í gildandi lögum hver fari með yfirstjórn þeirra mála.
    Við höfum lagabálk um eiturefni og hættuleg efni frá árinu 1988. Og það er heilbr.- og trmrn. sem fer með yfirstjórn þess málaflokks. Meiningin var skv. því frv. sem hér liggur fyrir, þ.e. fylgifrv. með frv. um Stjórnarráð Íslands, því fylgifrv. sem nú á að fresta um óákveðinn tíma, að flytja yfirstjórn þessa málaflokks frá heilbr.- og trmrn. til umhverfisráðuneytis. Þó lögum um Stjórnarráð Íslands yrði breytt skiptir það ekki nokkru máli í þessu efni. Eiturefni og hættuleg efni, yfirstjórn þess málaflokks verður áfram hjá heilbr.- og trmrn. þó að lögum um Stjórnarráð Íslands verði breytt.
    Við höfum lög um Geislavarnir ríkisins. Geislavarnir ríkisins eru nú undir heilbr.- og trmrn. Lagt er til að þær fari til umhverfisráðuneytis skv. fylgifrv. Þó lögum um Stjórnarráð Íslands verði breytt og stofnað sérstakt umhverfisráðuneyti er alveg ljóst að Geislavarnirnar verða áfram undir stjórn heilbr.- og trmrn. Því verður ekkert breytt með reglugerð eins og hæstv. forsrh. ýjaði að eða með einhverjum bréfaskiptum á milli ráðuneyta. Sá málaflokkur verður áfram, skv. skýrum laganna bókstaf, hjá heilbr.- og trmrn.
    Við höfum sérstök lög um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur. Þau lög voru samþykkt hér á Alþingi í maí í fyrra, á síðasta þingi. Iðnrn. fer með yfirstjórn þess málaflokks. ( Forseti: Forseti vill spyrja hv. ræðumann hvort hann vilji fresta ræðu sinni til kl. 2 á morgun þegar þetta mál verður tekið fyrir á nýjan leik á nýjum fundi, eða hvort hann
geti lokið ræðu sinni nú á næstu mínútum svo unnt verði að standa við samkomulag við þingflokksformann Sjálfstfl.?) Forseti, ég kýs að fresta ræðu minni þar til á morgun.