Ólafur G. Einarsson:
    Herra forseti. Um kl. 16 í gær ákvað hæstv. forseti þessarar deildar að boða til fundar nú í dag, þess fundar sem hér er nýlega hafinn. Á fundi með forsetum og þingflokksformönnum í gær var þessi fyrirætlun kynnt. Ég mótmælti því fyrir hönd þingflokks sjálfstæðismanna að fundur yrði haldinn hér í dag. Ástæður þess voru ósköp einfaldar. Fundur var ekki ráðgerður þennan dag samkvæmt starfsáætlun Alþingis. Í öðru lagi höfðu ýmsir þm. Sjálfstfl. ákveðið fundi í sínum kjördæmum einmitt vegna þess að samkvæmt starfsáætluninni var ekki gert ráð fyrir fundi hér í dag.
    Við erum í sjálfu sér ekki að amast við fundum á föstudögum en það er alveg lágmark að þeir fundir séu ákveðnir með lengri fyrirvara en hér var gert. Það er svo út af fyrir sig kannski vert að velta því fyrir sér hvers vegna þessi asi er núna á að koma fram ákveðnu máli, því sem hér er á dagskrá. Ég held að það sé orðið öllum ljóst, ekki bara þingmönnum heldur allri þjóðinni, hvers vegna svo mikil áhersla er lögð á að koma frv. um Stjórnarráð Íslands í gegnum þingið. Þetta er orðið, að því er virðist, eitt af höfuðforgangsmálum hæstv. ríkisstjórnar á þessu þingi. Með því að líta í skrá yfir þau mál sem óafgreidd eru hér í þinginu freistast maður til að ætla að ýmis merkari mál séu óafgreidd en þetta og er ég þó ekki að segja að það eigi ekki að afgreiðast á þessu þingi.
    Herra forseti. Mér er alveg ljóst að hæstv. forseti hefur vald til að boða til fundar þrátt fyrir mótmæli einstakra þingmanna eða einstakra þingflokka. Þetta er mér alveg ljóst, en það eru hins vegar óskynsamleg vinnubrögð af hálfu hæstv. forseta og ekki líkleg til þess að greiða fyrir þingstörfum.
    Ég vildi láta þessa getið um leið og ég ítreka mótmæli okkar við því að þessi fundur skuli haldinn.