Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Ég vil nú fyrst og fremst taka undir þær athugasemdir sem hv. 2. þm. Reykn. hefur fært hér fram vegna þessa fundar sem hér fer fram í dag. Ég geri mér hins vegar fulla grein fyrir því að til þessa fundar er ekki boðað vegna sérstaks áhuga forseta þessarar deildar og athugasemd mín beinist þess vegna ekki gegn forseta deildarinnar.
    Eins og fram kom í orðum forseta er þessi fundur haldinn hér að sérstakri ósk hæstv. ríkisstjórnar. Hæstv. ríkisstjórn hefur gert það að sérstöku forgangsmáli að þvinga hér fram með óþinglegum hætti stofnun ráðuneytis án verkefna, og þegar ég segi með óþinglegum hætti á ég við að sú nefnd sem hefur haft til meðferðar þau tvö frv. sem tengjast umhverfismálum hefur ekki fengið ráðrúm til að ræða þau í heild sinni, heldur slitið efni málsins frá og skilið eftir vegna ágreinings innan ríkisstjórnarflokkanna en gert að forgangsverkefni formsatriði málsins sem er stofnun ráðuneytis án verkefna, einsdæmi í stjórnmálasögunni og engin dæmi um það úr víðri veröld að þannig sé staðið að málum.
    Ég vil líka taka undir þá athugasemd hv. 2. þm. Reykn. að þingmenn þurfa í einhverju að geta treyst þeirri starfsskrá sem forsetar Alþingis gefa út. Þingmenn hafa ýmsum skyldum að gegna í kjördæmum sínum og innan sinna flokka og þeir vilja gjarnan geta skipulagt fundi með tilliti til starfsskrár sem forsetar gefa út, í þeim tilgangi að greiða fyrir þingstörfum. Hvað eftir annað gerist það hins vegar að þessi starfsskrá er að engu höfð fyrir frumkvæði hæstv. ríkisstjórnar. Og svo er í þessu tilviki. Það er nokkurt áfall fyrir forseta þingsins en um leið ljóður á vinnubrögðum og dregur úr því að menn geti skipulagt vinnu sína. Það getur hins vegar komið til þess að frá slíkum fyrir fram gerðum starfsskrám þurfi að bregða. Þau mál geta komið upp sem knýja á um að fundir séu haldnir á Alþingi á annan veg en mælt er fyrir um í starfsskránni.
    Ég er þeirrar skoðunar að það hefði til að mynda verið full ástæða til þess að halda fundi hér á Alþingi í dag, ekki vegna þess að það sé höfuðnauðsyn að eyða tíma hv. deildar í að ræða frv. um stofnun ráðuneytis án verkefna, heldur vegna þess að aðilar vinnumarkaðarins hafa nú gert með sér nýjan kjarasamning þar sem verið er að leggja nýjan efnahagslegan grundvöll, samning sem kallaður hefur verið tímamótasamningur og efnahagslegt valdarán vegna þess að aðilar vinnumarkaðarins hafa með þessum samningi tekið fram fyrir hendurnar á ríkisstjórninni, knúið fram nýjar efnahagslegar forsendur með miklu lægri verðbólgu en orðið hefði ef stefna ríkisstjórnarinnar hefði náð fram að ganga og launþegar hafa tryggt að kjararýrnun þeirra verður miklu minni en hæstv. ríkisstjórn stefndi að með efnahagslegum forsendum sínum. Og nú þarf hv. Alþingi að sjá um með vinnubrögðum sínum að það sýni þessum ábyrgu forustumönnum í íslensku

þjóðfélagi að löggjafarsamkoman sé reiðubúin að vinna með þeim öflum sem þannig hafa tekið fram fyrir hendurnar á hæstv. ríkisstjórn. Það sem mestu máli skiptir í dag er að Alþingi sýni þessum aðilum sem sýnt hafa fulla ábyrgð að þrátt fyrir ríkisstjórnina sé það tilbúið til að mynda að koma í veg fyrir að fyrirhugaðar skattahækkanir ríkisstjórnarinnar, sem hún hefur ekki enn komið í gegnum þingið, verði ekki að veruleika. Ríkisstjórnin hefur unnið með verkum sínum og ákvörðunum gegn því að samningar af því tagi sem nú hafa tekist gætu orðið. En þrátt fyrir þessa afstöðu ríkisstjórnarinnar hafa þessi gleðilegu tíðindi gerst og það hefði verið ástæða til að hafa fund í Sþ. í dag þrátt fyrir starfsskrá Alþingis til þess að ræða þessi verkefni og til þess að Alþingi gæti með slíkum umræðum, á þeim vettvangi, sýnt þessum ábyrgu aðilum sem tekið hafa sér fyrir hendur að taka fram fyrir hendurnar á ríkisstjórninni og móta hér nýja efnahagsstefnu, sýnt þeim að löggjafarsamkoman er tilbúin þrátt fyrir ríkisstjórnina að vinna með þessum aðilum og koma í veg fyrir frekari skattahækkanir. Þetta hefði verið eðlilegt, rétt og nauðsynlegt.
    Hæstv. ríkisstjórn sýnir hins vegar sinn vilja og sína afstöðu með því að krefjast þess að þessum degi verði varið í fundarhald hér í þessari hv. deild til þess að knýja fram hégómamál um stofnun ráðuneytis án verkefna. Það er hennar framlag á þessum merka degi til stjórnmálaumræðunnar í landinu. Og hún verður ugglaust dæmd í samræmi við það.