Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég vil taka undir það hjá hv. 1. þm. Reykn. að það er ákaflega hvimleitt að geyma mikið af málum með lága númeraröð. Auðvitað er miklu eðlilegra að taka þau inn í þingið og fella þau heldur en að geyma þau í þingnefndum fram eftir öllu. Þetta tefur fyrir því að menn fari að hugsa sinn gang aftur og vanda betur sinn málflutning og veldur náttúrlega stórvandræðum að hafa þennan bunka allan til trafala. Ég tel þess vegna mjög brýnt að taka tillit til svona þarfra athugasemda og menn virði þetta, forseti kalli eftir þessum málum og það verði gengið í þetta verk. En auðvitað kallar þetta á næturfund þannig að hægt sé að standa hér dálítið verklega að en ekki að menn séu að dunda hér í tvo tíma í einu og þreyta sjálfa sig og aðra með svo stuttum skorpum þegar úthaldsmiklir menn eru annars vegar.
    Hitt atriðið sem ég ætlaði að víkja að er það að nú er svo komið að stjórnskipulag allrar austurblokkarinnar í Evrópu er hrunið og tvennt virðist hafa komið í ljós sem gæti orðið okkur víti til varnaðar. Annars vegar er það að þeir höfðu áætlunargerð á áætlunargerð ofan, ekki aðeins um dagskrá nokkra daga fram í tímann eins og hér er gert, heldur mörg ár, jafnvel áratug stundum. En þetta gafst bara ekki vel. Ég held að mjög þurfi að gá að sér að ætla ekki að fara að gerast svo formfastir hér í þingstörfum að nálægt sé sent út með árs fyrirvara hvað menn hyggjast starfa hér í þinginu. Mér sýnist hún betri, gamla vestræna aðferðin, að taka þó nokkuð eftir hendinni hvað ber upp á, eins og hv. 1. þm. Suðurl. vakti athygli á. Það stenst ekki að standa svona að dagskrárgerð. Auðvitað á að ræða um jákvæða kjarasamninga og auðvitað á að fagna því að slíkur árangur hafi náðst. Ég tek alveg undir þetta. Og það hefði verið ánægjulegt hefðu menn áttað sig á því ögn fyrr hvað ráðhollur sá Einar er sem er frá Flateyri í þessum málum, í efnahagsmálum almennt. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann hefur viljað hafa áhrif á gang þeirra mála.
    En ég ætlaði að bæta því við að sjálfsagt má um það deila hvort eigi fyrst að útvega ráðuneyti verkefni eða að breyta þannig stjórnskipuninni að ráðuneyti sé til til að taka við verkefnunum. Þetta er náttúrlega eins og með eggið og hænuna. Það hefur lengi verið deilt um hvort á að vera á undan. ( MB: Það er búið að kaupa bílinn.) En ég vil bæta því við að sennilega hefði engum dottið í hug að öll verkefni sem komin eru til sjútvrn. í dag hefðu þangað farið þegar menn stofnuðu ráðuneytið og óvíst hvort þeir hefðu nokkurn tíma stofnað það ef þeir hefðu búist við því. En hér er vakin athygli á því að það miðar í áttina með umhverfisráðuneyti. Það er búið að kaupa bílinn eins og hv. 1. þm. Vestf. vekur athygli á. ( MB: Og skíðagrindina.) Og eitt af því sem komið hefur í ljós, svo að maður víki nú aftur að Austur-Evrópu, er að þeir gleymdu gersamlega, herra forseti, umhverfismálunum. Þar er allt í rúst. Þeir eru ekki einu sinni búnir að kaupa bílinn þar. Og þess vegna

tel ég að það sé orðið brýnt að menn komi sér að því verki að koma ráðherranum í umhverfisráðuneytið og fari svo að raða verkefnum til hans.
    Ég taldi, herra forseti, mjög brýnt að koma þessu á framfæri og fyrir mína parta skorast ég ekki undan því að hafa hér næturfund til að þóknast stjórnarandstöðunni svo að hægt sé að koma málum áfram.