Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður mikið þó að vissulega sé tilefni til þar sem ofbeldisverkum fer nú fjölgandi hér á Alþingi Íslendinga. Og hvað þetta mál varðar, þá var í hv. þingnefnd hreinu og kláru ofbeldi beitt við að knýja málið út úr nefnd. Mál sem sent var til umsagnar um 50 aðila og borist höfðu umsagnir, að ég hygg um 30 aðila. Ekki var litið á eina einustu þeirra og málið ekki rætt einu orði í nefndinni áður en það var með valdi tekið út úr nefndinni.
    Ofbeldið heldur áfram með því að vanvirða þá starfsáætlun sem þingið hafði sett sér og menn höfðu í sakleysi sínu farið eftir og rástafað sínum tíma eftir. Henni er hent út í veður og vind og dembt yfir þingheim fundi í dag. Þessu vil ég mótmæla eins og aðrir sem hér hafa talað og reyndar vera svo kræfur að fara fram á að þessum fundi verði slitið og starfsáætlun verði haldin. En þar sem ég geri mér grein fyrir því að við þeirri bón verði ekki orðið óska ég þess að forseti skýri fyrir þingheimi hvað hann hyggst halda þessum fundi lengi áfram þannig að menn geti þá reynt að lagfæra sínar ráðagerðir í samræmi við það.