Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð hér um þau mál sem hafa verið rædd í þessari þingskapaumræðu. Gagnrýni hefur komið fram af hálfu stjórnarandstöðunnar á það að þau tvö frumvörp sem fjalla um umhverfisráðuneytið skuli vera skilin í sundur og nú eigi að þvinga fram annað frv. sem í raun þýði einungis að fjölga eigi ráðuneytum um eitt.
    Ef ég hef skilið hæstv. forsrh. rétt, þá hefur hann sagt að það komi ekki að sök þótt ekki verði endanlega gengið frá því með lögum á næstunni hvaða verkefni eigi að falla undir þetta nýja ráðuneyti því að það megi leysa m.a. með reglugerðarbreytingu. Það megi leysa með því að veita þeim hæstv. ráðherra sem nú fer með Hagstofuna ýmis verkefni án þess að lög séu fyrir hendi. Ég spyr þess vegna hæstv. forsrh., og tel mjög mikilvægt að svar fáist við þeirri spurningu: Er ekki hugsanlegt, ef hæstv. ríkisstjórn er svona áhugasöm um að koma þessum málum áleiðis og fá hæstv. ráðherra ákveðin verkefni, að gera það án þess að það frv. sem hér á að vera til umræðu verði að lögum? Er eitthvað sem breytist við það að stofnað verði nýtt ráðuneyti? Hefur ekki hæstv. forsrh. og hæstv. ríkisstjórn sömu lagaheimildir, sömu reglugerðarheimildir og sama möguleika til að fá hæstv. ráðherra Júlíusi Sólnes einhver verkefni í ríkisstjórninni án þess að þetta frv. verði að lögum?
    Ég rifja upp að hæstv. hagstofuráðherra hefur að undanförnu haft það verkefni með höndum, ásamt reyndar nokkrum öðrum ráðherrum, að leggja grunn að nýrri atvinnustefnu. Það var gert án lagabreytingar. Það þarf ekki neina sérstaka lagaheimild til þess. Ég tel mjög mikilvægt, vegna þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið um að óheppilegt sé að sundra þannig annars vegar efnislegu umræðunni og þeirri formlegu hins vegar, að hæstv. forsrh. geri okkur skýra grein fyrir því hér í þessari þingskapaumræðu hvort ekki séu sömu möguleikar fyrir hæstv. ríkisstjórn, sömu möguleikar fyrir hæstv. forsrh. að fá hæstv. hagstofuráðherra eitthvað að gera, til að mynda í umhverfismálum, án þess að þetta frv., sem einungis segir til um að fjölga eigi ráðuneytum um eitt og stofna nýtt umhverfisráðuneyti, verði að lögum? Ég hef aðeins leitt hugann að þessu því að ég skildi hæstv. forsrh. þannig, þegar hann hefur verið að færa rök fyrir sínu máli um að taka þetta mál út úr, að það væri bráðnauðsynlegt til að hæstv. hagstofuráðherra gæti fengið eitthvað að gera í umhverfismálum.
    Nú vil ég bara spyrja hæstv. forsrh.: Hvað er það sem breytist við að stofnað verði nýtt ráðuneyti? Hvaða nýjar reglugerðarheimildir koma til? Hvaða nýir möguleikar skapast til þess að fá hæstv. hagstofuráðherra ný verkefni? Ég held satt að segja, virðulegur forseti, að það breytist ekki neitt. Það eina sem gerist er að hæstv. hagstofuráðherra heitir hæstv. hagstofu- og umhverfisráðherra í umhverfisráðuneyti sem hefur engin verkefni skv. lögum. Ég held að það sé staðreynd málsins. Og ef hæstv. hagstofuráðherra þarf að fá að vinna að einhverjum verkefnum, getur

hann ekki fengið þau verkefni nú þegar eins og hann fékk það verkefni að undirbúa grundvöll að nýrri atvinnustefnu? Ég vil fá skýr svör því að það er aðeins vegna þessara ummæla hæstv. forsrh. sem sumir trúa því að það verði að setja ráðuneytið á stofn nú þegar og áður en verkefni verða valin í lögum.
    Ég óska eftir því, virðulegi forseti, að hæstv. forsrh. fái tækifæri hér og nú til að skýra það út fyrir þingheimi hvort þetta sé nauðsynlegt, hvað breytist, hvaða nýjar reglugerðarheimildir verði til, hvaða möguleikar opnist við þessa lagabreytingu sem nú er verið að ræða um, ef hún kemst í gegn. Þetta held ég að sé ákaflega mikilvægt til þess að greiða fyrir þingstörfum, virðulegur forseti.