Friðrik Sophusson:
    Virðulegi forseti. Ég óskaði eftir svari við afskaplega einfaldri spurningu vegna þess að hún snertir málsmeðferðina hér í þinginu. Hún snertir það mikilvæga atriði hvort ástæða og einhver rök séu til þess að skilja í sundur tvö frumvörp í umræðunni sem eiga samleið. Hæstv. forsrh. kemur hér í pontu og neitar að svara spurningunni vegna þess að hann telur að það eigi að svara henni í efnislegri umræðu um málið.
    Ég lýsi því yfir að fyrst hæstv. forsrh. gat ekki í örfáum orðum skýrt það út hér á hinu háa Alþingi í þingskapaumræðum, hvernig í ósköpunum dettur honum þá í hug að fara að segja í sjónvarpi eða útvarpi að það þurfi að gerast? Ég tel að hæstv. forsrh. standi á gati og geti ekki svarað þessari fyrirspurn fyrst hann gat ekki gert það hér í fáeinum orðum í þingskapaumræðu. Ég held að hæstv. forsrh. sé ekkert of góður til þess að skýra þetta út hér og nú og ekki þurfi að bíða eftir því í efnislegri umræðu um málið. Þetta skiptir máli um það hvort við eigum að halda áfram efnislegri umræðu eða ekki. Og ég skal skýra þetta út. Ef hæstv. forsrh. getur ekki svarað þessari spurningu með þeim hætti að hann bendi á það skýrlega að nauðsynlegt sé að koma á nýju ráðuneyti til að hæstv. hagstofuráðherra geti unnið einhver verkefni sem á að fela honum, ef ekki er hægt að svara þeirri spurningu skýrt er auðvitað komið í ljós að það er einskis virði, það er ekki til nokkurs að vera að setja þetta nýja ráðuneyti á fót fyrr en við vitum hvað ráðuneytið á að gera. Þetta var ástæðan og annað er útúrsnúningur að þetta sé ekki þingskapaumræða.