Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Ég hygg að þetta sé rétt niðurstaða. Hv. 1. þm. Reykv. var að spyrja um atriði, formsatriði varðandi útgáfu á stjórnarráðsreglugerð sem eðlilegt er að spyrjast fyrir um í umræðu um þingsköp vegna þess að staðið hefur verið að málatilbúnaði hér með alveg einstökum hætti og mjög sérstökum hætti. Það hefur líka komið fram í þessari þingskapaumræðu að einn af þm. stjórnarflokkanna hefur með mjög ákveðnum hætti tekið undir þau meginsjónarmið sem við sjálfstæðismenn höfum verið að setja hér fram. Í fyrsta lagi hefur hann sagt að eðlilegt sé að afgreiða mál úr nefndum og taka fyrir við 2. umr. í hv. deild eftir tímaröð. Þetta er ekki einkaskoðun okkar og hv. stjórnarþm., 2. þm. Vestf. Ákvæði þingskapa eru líka um að þannig skuli fara með mál, að þannig skuli leitast við að afgreiða mál. Ég fagna því að þessi rödd skuli koma úr stjórnarherbúðunum og á þennan veg sé tekið undir okkar sjónarmið.
    Í annan stað hefur sami hv. þm. stjórnarliðsins tekið undir það sjónarmið að eðlilegt hefði verið að verja þessum degi til að fjalla um þá nýju stöðu sem upp er komin eftir að aðilar vinnumarkaðarins lögðu hér nýjan grundvöll að efnahagsstefnu og hvernig Alþingi gæti, þrátt fyrir stjórnarstefnuna, sýnt vilja löggjafarvaldsins í þeim efnum. Í því efni hef ég lagt sérstaka áherslu á að fram kæmi á Alþingi skýr vilji til að koma í veg fyrir frekari skattahækkanir sem ríkisstjórnin hefur ákveðið en ekki kveðið upp úr um hvort hún ætli að standa að á næstu dögum. Eftir að þessi rödd hefur verið flutt úr stjórnarliðinu vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. forsrh. hvort hann sé ekki tilbúinn, í ljósi þess að innan stjórnarflokkanna er stuðningur fyrir hendi við þetta sjónarmið Sjálfstfl., að beita sér fyrir því að mál verði rædd á þennan veg, að fyrst verði tekin fyrir þau frumvörp um umhverfismál sem fyrst voru lögð fram og að hv. allshn. afgreiði málin með þeim hætti í samræmi við þingsköp, í samræmi við okkar óskir og óskir sumra stjórnarþm. Og í öðru
lagi hvort hann er ekki reiðubúinn að beita sér fyrir því í samræmi við þetta að Alþingi ræði í dag hinn nýja efnahagsgrundvöll sem aðilar vinnumarkaðarins hafa sett og ég hygg að þjóðin öll fagni eftir þá miklu óvissu sem hér hefur lengi ríkt í efnahagsmálum, a.m.k. frá því að þessi hæstv. ríkisstjórn tók við.