Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Þótt ég sé í raun algerlega ósammála úrskurði virðulegs forseta hér áðan skal ég þó verða við því að fara yfir nokkur atriði sem eru að mínu mati afar mikilvæg í sambandi við umhverfisráðuneyti og þá viðleitni að koma því á fót.
    Ég vek athygli á því að forsrh. á sínum tíma, Geir Hallgrímsson, fól með bréfi þáv. félmrh. Gunnari Thoroddsen að fara með umhverfismál. Síðan hefur félmrh., ég vil leyfa mér að segja að nafninu til, farið með þau mál. Ég fól hæstv. ráðherra Hagstofu að fara með þau mál. Það hefur verið mjög vefengt hér á þinginu. Hér hafa þingmenn staðið upp og lýst furðu sinni á því og ég hef minnt á það sem áður hefur gerst. En satt að segja hefur sú aðfinnsla átt við nokkur rök að styðjast.
    Hér hefur verið talað um það oftar en einu sinni og gert úr því visst háð að hæstv. ráðherra Hagstofu hafi sótt umhverfisráðstefnur og hafi þar af misskilningi verið kallaður af þeim sem þar standa fyrir ráðstefnu ráðherra umhverfismála sem einnig vekur athygli á því að við höfum ekki árum saman og aldrei verið með ráðherra á slíkri ráðstefnu sem við höfum getað nefnt því nafni sem allar aðrar þjóðir gefa ráðherrum sem fara með þau mál. Og það má kannski upplýsa hér til fróðleiks að eitt það land sem hefur staðið lengst gegn því að skipa umhverfismálum í sérstakt ráðuneyti hefur nú ákveðið að gera það. Það eru sjálf Bandaríki Norður-Ameríku. Forseti Bandaríkjanna hefur lýst því yfir að hann ætli að breyta umhverfisverndarstofnun þar í umhverfisráðuneyti. Í rökstuðningi sem kemur fram fyrir því eru m.a. þau rök sem ég nefndi áðan, að þetta sé orðið slíkt alþjóðavandamál sem eigi sér engin landamæri að Bandaríkin verði að taka þátt í þeirri umræðu allri með ráðherra sem fari með þau mál þar í landi.
    Það er útilokað mál eða mjög erfitt að fela með breytingu á stjórnarráðsreglugerð félmrh. ákveðin verkefni. Það verður að ráðast meira eða minna af því samkomulagi sem er við aðra ráðherra. Ég lét skoða það vandlega því uppi voru hugmyndir og hafa verið. Ég minni á alla meðferð þessa máls allt frá því að nefnd sem skipuð var, að ég hygg 1975 eða 1976 og Gunnar Schram prófessor veitti forstöðu, fjallaði um það mál. Ég ætla ekki að fara að rekja hér í þessari umræðu þá löngu meðferð sem umhverfismálin hafa hlotið hér á hinu háa Alþingi, lengri líklega en flest önnur mál, yfir 10 ár. Þar er búið að fjalla oft um það hvort unnt sé að flytja verkefni t.d. til félmrh. Ég tel að það sé töluvert annað ef lög um Stjórnarráð gera ráð fyrir umhverfisráðuneyti. Ég tel að þá megi fela slíkum ráðherra með reglugerðarbreytingu að sinna alhliða umhverfismálum sem eru núna í fjölmörgum öðrum ráðuneytum. Það er öllum fullkomlega ljóst að samræma þarf þær lokaákvarðanir sem teknar eru í umhverfismálum hjá fjölmörgum ráðuneytum og sú samræming getur verið hjá ráðherra sem skv. lögum fer með umhverfismál. Þetta nær yfir

samræmingu um meðferð mengunar á landi, í lofti og legi, eyðingu eða endurvinnslu hvers konar úrgangs frá byggð eða atvinnuvegum, mál sem varða meðferð eiturefna og varnir gegn skaðlegum geislum, að svo miklu leyti sem það yrði ekki framkvæmd sem heyrði undir önnur ráðuneyti og eru þá sérstök fyrir það ráðuneyti. Í mjög mörgum tilfellum falla þau einnig að verkum annarra ráðuneyta og þá þarf samræmingar við.
    Ýmsar rannsóknir sem eru ekki hér stundaðar á sviði umhverfismála getur sá ráðherra undirbúið og skipulagt í samráði við hinar ýmsu stofnanir sem að þeim málum mundu vinna. Ég bendi á fræðslustarfsemi sem er kannski einhver allra mikilvægasti þátturinn í umhverfismálum. Það annast ekkert eitt ráðuneyti í dag allsherjar fræðslustarfsemi í umhverfismálum. Ég viðurkenni að vissulega eru einstök ráðuneyti sem sinna þessu eins og í gróðurvernd og mörgu fleira og er unnið þar mikilvægt starf. En það er ekki nokkur vafi á því að hér þarf miklu meiri og víðtækari almenna fræðslu í umhverfismálum en hefur verið.
    Loks vil ég benda á þetta stórvaxandi alþjóðlega samstarf. Með reglugerð er hægt að fela umhverfisráðherra strax að sinna þessu alþjóðlega samstarfi sem satt að segja er svo víðtækt að það veldur vissum áhyggjum hvernig við Íslendingar, lítil þjóð og fámenn, eigum að taka þátt í öllu. Vitanlega þurfum við þar að velja og hafna. En það er einnig mjög mikilvægt verkefni. Ég vona að þetta nægi til að sýna að ég tel að það breyti miklu að hafa embætti umhverfisráðherra til að geta falið honum ýmis verkefni með reglugerð.
    Ég ætla ekki að fara að ræða hér almennt um efnahagsmálin og vísa ýmsu sem hv. 1. þm. Suðurl. sagði á bug. Ég vísa til þess sem hv. 2. þm. Vestf. sagði um þau mál og það starf sem nú hefur verið unnið og samanber það sem áður var gert. En við fáum örugglega tíma til að ræða það hér. Þessi mál eru að komast í höfn einmitt þessa stundina. Ríkisstarfsmenn eru að ganga frá sínum málum og þegar það er búið skulum við taka hér góða umræðu um þau mál. Það er sjálfsagt og ég mun beita mér fyrir því að svo geti orðið.