Friðrik Sophusson:
    Virðulegi forseti. Ég skal að sjálfsögðu virða það og virða úrskurð hæstv. forseta. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir að gera hér tilraun til að svara fyrirspurn minni. Hann fór mörgum orðum um efnisleg atriði, en það stendur eitt eftir og það er það sem skiptir öllu máli fyrir okkur hér að átta okkur á. Það sem stendur eftir er að allt það sem hæstv. forsrh. taldi upp að hugsanlega mætti færa til umhverfisráðherrans, yrði það ráðuneyti stofnað með lögum, má í dag með nákvæmlega sama hætti, vegna sömu heimilda í lögum og reglugerðum, færa til núv. hæstv. hagstofuráðherra. Svar eða þessi tilraun til svars hæstv. forsrh. sannar það eitt að algerlega er óþarft að slíta þessa umræðu í sundur, annars vegar í formlega hlutann og hins vegar í efnislega hlutann sem einhvern tíma og einhvern tíma kemur hér til umræðu í þessari hv. deild.
    Ég þakka þess vegna, virðulegi forseti, fyrir það að fá tækifæri til að leiða þennan sannleika hér í ljós og ég þakka hæstv. forsrh. fyrir að hafa með jafn áhrifaríkum hætti komið hér upp til þess að segja almenna hluti um þessi mál sem má gera á grundvelli gildandi laga og reglugerða.