Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Það er út af fyrir sig fróðlegt að heyra að hv. 1. þm. Suðurl. telur að ekki sé hægt að hreyfa mál með reglugerðum. Ég tek undir með honum að vitanlega verður allt að vera innan laga, það er fullkomlega ljóst. Hins vegar telur hv. 1. þm. Reykv. að þarna sé mikið svigrúm og jafnvel þurfi ekki heitið umhverfisráðherra til þess að ég geti flutt þar á milli. Ég veit ekki hvorum lögfræðingnum ég á satt að segja að trúa. Ég hef lagt þetta mál fyrir lögfræðinga sem ég treysti reyndar miklu betur og tel mig hafa þar niðurstöðu sem ég fór með hér áðan.
    En út af hinni almennu umræðu um efnahagsmál vil ég aðeins segja að það vill nú svo til að verið er að ganga frá lokaatriðum í því. Það er verið að vinna ýmsar upplýsingar og ef hv. þm. kjósa, þá er ég tilbúinn að mæta hér á kvöldfundi ef forseti samþykkir, það er velkomið, eða fund á morgun. Væri það ekki gott að við tækjum morgundaginn í umræðu um efnahagsmálin? Ég spyr.