Norrænt samstarf 1989
Mánudaginn 05. febrúar 1990


     Ólafur G. Einarsson:
    Hæstv. forseti. Ég fylgi hér úr hlaði með örfáum orðum skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf frá mars 1989 til des. 1989. Í inngangi skýrslunnar segir að samstarfsráðherra Norðurlanda leggi nú fyrir Alþingi í þriðja sinn sérstaka skýrslu um störf ráðherranefndar Norðurlanda og er skýrsla Íslandsdeildar lögð fram með henni.
    Nú er það svo að skýrsla samstarfsráðherrans liggur ekki enn fyrir, en talið var að varla væri hægt að tala fyrir skýrslu Íslandsdeildarinnar nema hún væri nánast sem fylgiskjal með skýrslu samstarfsráðherrans. Af einhverjum ástæðum hefur það dregist að leggja hana fram og ég verð að finna að því vegna þess að það sama gerðist í fyrra. Þá var beðið eftir skýrslu samstarfsráðherra það lengi að ekki vannst tími til að hafa umræðu um skýrsluna um norrænt samstarf. Ég sé hins vegar að þessi mál, ekki bara þetta heldur líka skýrslur Alþjóðaþingmannasambandsins og Þingmannasambands EFTA-ríkjanna eru einnig hér á dagskrá og mér sýnist á því að ekki sé talið neitt athugavert við það að ræða slíkar skýrslur án þess að ráðherrar fylgi þeim úr hlaði. Þessi skýrsla tekur sem sagt yfir tímabilið frá mars 1989 til loka ársins.
    Ég ætla mér ekki að lesa hér neitt að ráði upp úr þessari skýrslu, vísa fremur til hennar, þar á meðal um skipan Íslandsdeildarinnar, hverjir kosnir voru til hennar í desember 1988 og svo aftur nú í desember 1989. Ég get þó um það, vegna þess að hér hefur fallið niður nafn í hinu prentaða þingskjali, að þann 22. des. sl. voru eftirtaldir fulltrúar kjörnir í Norðurlandaráð: Páll Pétursson, Ólafur G. Einarsson, Sighvatur Björgvinsson, Hjörleifur Guttormsson, Valgerður Sverrisdóttir, Hreggviður Jónsson og Þorsteinn Pálsson, en hans nafn hefur þarna fallið niður og þingskjalið verður væntanlega prentað upp.
    Þegar þessi skýrsla var gerð hafði Íslandsdeildin ekki skipt með sér verkum, en það hefur hún nú gert og formaður Íslandsdeildarinnar er sá sem hér stendur. Tilnefndur í forsætisnefndina er auk mín Páll Pétursson og hann er einnig tilnefndur af Íslandsdeildinni sem næsti forseti Norðurlandaráðs, en Norðurlandaráðsþingið verður haldið hér í Reykjavík dagana 27. febr. til 2. mars.
    Um störf Íslandsdeildarinnar á þessu tímabili er það að segja að hún hefur haldið sex fundi, einn með ráðuneytisstjóra utanrrn. um samninga Evrópubandalagsins og EFTA, einn með sérfræðingum um mengunarmál og svo einn fréttamannafund. Störfin hafa mótast að verulegu leyti af undirbúningi fyrir Norðurlandaráðsþingið sem, eins og ég sagði áðan og allir vita, verður haldið hér um næstu mánaðamót. Þessu fylgir mikill undirbúningur og nokkur annar en áður vegna þess að þingið er nú haldið á öðrum stað. Það hefur til þessa verið haldið í Þjóðleikhúsinu en nú verður það haldið í Háskólabíói, þar á meðal í hinum nýju sölum sem verið er að ljúka við núna. Auk þess hafa fundarsalir á Hótel Sögu verið teknir á leigu. Þá verður afhending bókmennta- og tónlistarverðlaunanna

í Borgarleikhúsinu. Sú athöfn hefur áður verið í Háskólabíói, en af eðlilegum ástæðum verður það ekki hægt núna vegna þess að það þarf að gera verulegar breytingar á salnum vegna fundarhaldanna þar.
    Þess er getið hér í skýrslunni að uppi hafi verið nokkrar deilur í Norðurlandaráði að undanförnu um kjör í trúnaðarstöður og þá sérstaklega í forsætisnefndina. Þær deilur eru af pólitískum toga. Norðurlandaráð skiptir sér upp í pólitískar fylkingar og þær hafa orðið nokkuð fyrirferðarmeiri, ef svo má segja, á undanförnum árum og það hefur gerst að einn flokkahópurinn, vinstri sósíalistar, hefur ekki átt fulltrúa nú síðasta árið í forsætisnefnd ráðsins, einfaldlega vegna þess að engin deildanna tilnefndi fulltrúa frá þeim flokkahópi, en svo hafði áður verið, að í forsætisnefndina hafði verið tilnefndur fulltrúi úr þessum hópi af dönsku deildinni. Út af þessu hafa risið nokkrar deilur og því var vísað til laganefndar ráðsins að gera tillögur um hvernig mætti ná þarna annarri reglu. Þær tillögur hafa verið til meðferðar í forsætisnefndinni og þeim lyktaði þannig að á fundi forsætisnefndar hér í Reykjavík í desember var ákveðið að til bráðabirgða yrði bætt við einum áheyrnarfulltrúa í forsætisnefndina þannig að þar komi til með að sitja 11 og sá flokkahópur sem ekki nær fulltrúa í forsætisnefndina í gegnum landsdeildirnar fær þá þennan áheyrnarfulltrúa. Þetta er bráðabirgðaráðstöfun og ég kem að henni svo nánar síðar.
    Á vegum Íslandsdeildarinnar var haldinn sérstakur undirbúningsfundur fyrir ráðstefnu forsætisnefndar Norðurlandaráðs um mengun sjávar, en sú ráðstefna var haldin í Kaupmannahöfn dagana 16.--18. okt. á sl. ári. Þá ráðstefnu sóttu fulltrúar 15 þjóðþinga í Evrópu og Kanada. Fulltrúar á ráðstefnunni sameinuðust um lokaskjal þar sem m.a. var bent á nauðsyn þess að sem flestar þjóðir staðfestu Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Sem fulltrúar Alþingis sóttu þessa ráðstefnu Páll Pétursson, Friðjón Þórðarson, Guðrún Helgadóttir, Danfríður Skarphéðinsdóttir og Jón Sæmundur Sigurjónsson en auk þess sat ég ráðstefnuna sem fulltrúi í forsætisnefndinni. Þá var einnig, eins og ég nefndi
áðan, haldinn fundur með Hannesi Hafstein ráðuneytisstjóra í utanrrn. Haldinn var fundur um undirbúning samningsviðræðna EFTA og Evrópubandalagsins og sá fundur var haldinn til undirbúnings aukaþings Norðurlandaráðs sem haldið var í Mariehamn á Álandseyjum 14. nóv. sl. um Norðurlönd og þróunina í Evrópu.
    Ég sleppi því að ræða sérstaklega einstakar tillögur sem hafa verið til meðferðar hjá Íslandsdeildinni. Ég nefni þó eina, sem hefur að vísu verið afskrifuð núna. Það er þingmannatillaga um beina kosningu til Norðurlandaráðs. Það var tillaga, sem kom fram í fyrra, um að kosið yrði beinni kosningu til Norðurlandaráðs en Íslandsdeildin hefur ekki mælt með slíkri skipan og eins og ég sagði hefur tillagan nú verið afskrifuð og kemur ekki frekar til umfjöllunar.

    Ég vísa til þess sem segir hér í skýrslunni um störf nefndanna, en þar er getið um helstu mál sem til þeirra hafa komið. Það er til forsætisnefndarinnar sérstaklega og síðan annarra nefnda en rétt er að ég telji þessar nefndir upp.
    Það er í fyrsta lagi laganefndin. Þar til á sl. hausti var formaður hennar hv. þm. Eiður Guðnason en hann hefur nú látið af störfum í Norðurlandaráði og ég sé sérstaka ástæðu til að þakka honum fyrir mjög vel unnin störf í Íslandsdeild ráðsins og reyndar í Norðurlandaráði í heild þar sem hann hefur lengi gegnt formennsku í nefndum, fyrst í menningarmálanefnd í mörg ár og síðustu árin í laganefnd. Sæti hans í laganefnd hefur nú tekið Sighvatur Björgvinsson og jafnframt hefur hann tekið við formennsku í nefndinni.
    Í menningarmálanefnd situr af hálfu okkar Valgerður Sverrisdóttir og er hún varaformaður nefndarinnar en í fjarveru hennar á þessu þingi hefur tekið sæti Jón Kristjánsson. Í félags- og umhverfismálanefnd hefur setið af okkar hálfu og situr Páll Pétursson. Í samgöngumálanefnd sat fram á síðasta haust Óli Þ. Guðbjartsson. Við hans sæti tók þá Guðrún Agnarsdóttir en nú hefur tekið þar sæti Hreggviður Jónsson. Í efnahagsmálanefnd sitja af okkar hálfu Hjörleifur Guttormsson og Þorsteinn Pálsson. Í fjárlaga- og eftirlitsnefnd sitja Ólafur G. Einarsson og Sighvatur Björgvinsson nú. Þetta var um nefndirnar og um þeirra starf vísa ég að öðru leyti til skýrslunnar.
    Aukaþing Norðurlandaráðs var haldið á Álandseyjum þann 14. nóv. sl. og í tengslum við það voru haldnir haustfundir nefndanna allra. Þar var fyrst og fremst fjallað um tillögur varðandi Norðurlönd og þróunina í Evrópu, en jafnframt voru fjárlög ráðherranefndar Norðurlanda fyrir árið 1990 afgreidd. Í skýrslunni er nokkuð ítarlega getið um þetta þing og vísa ég enn til skýrslunnar.
    Ég nefni svo að nú á síðustu mánuðum hefur verið töluvert mikið rætt um hugsanleg samskipti Norðurlandaráðs við Sovétríkin og Eystrasaltsríkin sérstaklega. Þar hefur gjarnan verið ofarlega í umræðunni ræða sem Gorbatsjov, forseti Sovétríkjanna, hélt í Helsingfors á sl. hausti þar sem hann hvatti til að tekið yrði upp samband á milli Norðurlandaráðs og Sovétríkjanna. Áður hafði svokölluð alþjóðamálanefnd, sem við Páll Pétursson áttum sæti í, nefnd sem hafði lokið störfum og skilað af sér, rætt þennan möguleika, raunar töluvert áður en þessi ræða í Helsingfors var haldin, og bollalagt um hvernig slíku sambandi mætti koma á. Um það hefur verið nokkur meiningarmunur með hvaða hætti þessi tengsl skyldu verða, en nú hefur forsætisnefndin ákveðið að senda sendinefnd í nafni Norðurlandaráðs til Sovétríkjanna og Eystrasaltsríkjanna. Það verður sjö manna nefnd sem skipuð verður fulltrúum annars vegar frá forsætisnefndinni og hins vegar fulltrúum frá þremur starfsnefndum ráðsins, menningarmálanefnd, efnahagsmálanefnd og félags- og umhverfismálanefnd. Sú nefnd verður undir forustu Páls Péturssonar. Hún

hefur að öðru leyti ekki verið skipuð og endanleg ákvörðun ekki heldur tekin um hvenær þessi ferð verður farin, en væntanlega verður það í apríl/maí í vor.
    Í sambandi við þessi fyrirhuguðu samskipti við Sovétríkin og Eystrasaltsríkin verður sérstaklega rætt um umhverfismál, menningarmál, viðskipti og svo persónuleg sambönd á milli þingmanna þessara ríkja og Norðurlandaráðs. Þetta er ekki nein samningaferð heldur er hún farin til að þessir aðilar skiptist á skoðunum og það er skýrt tekið fram að þarna verða ekki rædd utanríkismál eða varnarmál, enda slíkt ekki heimilt samkvæmt Helsingforssáttmálanum.
    Að ýmsu leyti má segja að Norðurlandaráð standi nú á krossgötum. Hinar öru breytingar í Evrópu kalla á endurmat þessa samstarfs. Umræðan um Evrópubandalagið og þróunin í Evrópu yfirleitt hefur sett mjög svip sinn á starfið undanfarin missiri og kemur auðvitað til með að gera það áfram. Ég þykist sjá það og heyra að samstarf þingmanna EFTA-ríkjanna er einnig í vissu endurmati, og ég held að þetta þurfi að athugast allt í samhengi með framtíð þessa samstarfs í huga.
    Það er rétt að geta þess að sérstök endurskoðunarnefnd hefur nú nýlega hafið störf á vegum Norðurlandaráðs. Hún á að endurskoða skipulag og störf ráðsins. Hún er undir forsæti norska þingmannsins Bjarne Mörk Eidem, fyrrv. sjávarútvegsráðherra Norðmanna, og af hálfu okkar situr í nefndinni Páll
Pétursson. Þessari nefnd er ætlað að ljúka sínu endurskoðunarstarfi á hausti komanda samkvæmt áætluninni en kannski er það nokkur bjartsýni að ætla að hún geti lokið svo yfirgripsmiklu starfi sem henni er ætlað á svo skömmum tíma.
    Eins og ég hef þegar nefnt verður næsta þing Norðurlandaráðs haldið hér í Reykjavík dagana 27. febr. til 2. mars. Þar verða ýmis merk mál rædd og eru þar auðvitað fyrirferðarmestar, að venju, ýmsar tillögur frá ráðherranefndinni. Mér sýnist að umhverfismál verði þar mjög á dagskrá, bæði vinnuumhverfi, mengun sjávar og loftmengun. Þarna verður einnig ráðherranefndartillaga um áætlunina ,,Norden i Evropa 1989--1992``. Hún verður rædd áfram. Ég nefni einnig tillögur um byggðamál, tungumálasamstarf á Norðurlöndum, viðurkenningu á prófum milli landa og fleira mætti nefna þótt ég sleppi frekari upptalningu.
    Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, hæstv. forseti. Ég vil að lokum þakka samstarfið í Íslandsdeild Norðurlandaráðs og einnig samstarfið við skrifstofu deildarinnar.