Norrænt samstarf 1989
Mánudaginn 05. febrúar 1990


     Jón Kristjánsson:
    Virðulegi forseti. Mín þátttaka í störfum Norðurlandaráðs hefur ekki verið mikil. Ég kom inn á síðasta ári sem varamaður í ráðinu fyrir Valgerði Sverrisdóttur og hef setið í menningarmálanefnd ráðsins. Eigi að síður tel ég mér skylt að leggja örfá orð inn í þessa umræðu um skýrslu Íslandsnefndar Norðurlandaráðs.
    Það er kannski fróðlegt að segja örfá orð um það hvernig starf í ráðinu verkar á nýliða sem hefur fylgst með því úr fjarlægð áður. Ég verð að segja það í upphafi að ég tel að gildi menningarsamstarfs Norðurlandaþjóðanna sé mikið og það sé vaxandi og ekki síst í ljósi þess að það stefnir allt að því að þessar þjóðir taki meiri þátt í evrópsku samstarfi en verið hefur. Hver sem niðurstaðan verður er það alveg ljóst að alþjóðlegt samstarf fer vaxandi. Ég held að samstarf þessara þjóða á menningarsviðinu sé ekki síður nauðsynlegt, og týna ekki niður því samstarfi sem verið hefur og því sem við eigum sameiginlegt á því sviði. Ég er ekki í neinum vafa um að samstarf á menningarsviðinu er einn af ríkustu þáttunum í norrænu samstarfi. Þar eigum við margt sameiginlegt þó að þjóðirnar hafi kosið að fara hver í sína áttina á ýmsum öðrum sviðum, t.d. á sviði utanríkis- og varnarmála og á sviði viðskiptamála.
    Það sem hefur einkum verið rætt á síðustu fundum og á síðasta fundi sem var núna fyrir viku síðan í Stokkhólmi er m.a. samstarfsáætlun norrænu ráðherranefndarinnar um norræna máláætlun sem felur m.a. í sér að efla stöðu íslensku og finnsku í norrænu samstarfi. Ekki síður hefur verið rædd endurskoðun sem fram hefur farið á ýmsum stofnunum á menningarsviðinu. Ætlunin er að leggja nokkrar stofnanir niður til hagræðingar. Íslenska sendinefndin hefur rætt þetta mál sín á milli og komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að hafa á móti slíkri hagræðingu út af
fyrir sig en hefur eigi að síður sett spurningarmerki við nokkrar stofnanir, t.d. norræna stofnun á sviði skipulagsmála, Nordplan, og norræna stofnun á sviði sjóréttar í Osló. Ýmsir aðilar hafa talið eftirsjá að þessum stofnunum og eru þessi mál enn þá í athugun.
    Komið hefur fram í ræðum þeirra hv. þm. sem talað hafa hér á undan að mjög veigamikill þáttur í umræðum í Norðurlandaráði er samstarfið við önnur Evrópulönd, Evrópumálin, hin nýju viðhorf sem komið hafa upp í samskiptum við Austur-Evrópu og síðast en ekki síst að umhverfismál hafa verið mjög ofarlega á baugi. Og það er næsta víst, eins og sagt er, að í samskiptum við Austur-Evrópu verða þau mál mjög ofarlega á baugi, ekki síst vegna aðstæðna í kringum Eystrasalt, en eins og menn vita virðir mengun engin landamæri og ef alþjóðlegt samstarf er nauðsynlegt í nokkru, þá er það nauðsynlegt í umhverfismálum.
    Ég minntist á það hér í upphafi að ég hefði komið að þessum málum sem varamaður og er varamaður í ráðinu. Það kom mér satt að segja á óvart þó að ég hafi fylgst með norrænu samstarfi áður hve þetta

samstarf er mikið að umfangi og hve það er miklu meira að umfangi en ég hafði gert mér þó grein fyrir og starf þingmanna í Norðurlandaráði er ekki nema lítill hluti af því og í rauninni miklu minni hluti en ég hafði gert mér grein fyrir áður.
    Ég er sannfærður um að þetta starf hefur mikið gildi fyrir Ísland og við höfum haft gífurlega mikið gagn af þessu samstarfi. Mjög mikilvægt er fyrir Ísland að hafa þennan stökkpall út í alþjóðlegt samstarf með þjóðum sem eiga margt sameiginlegt að menningu og uppruna. Ég held að það fólk sem þarna er sýni mikinn skilning hvert á annars vandamálum.