Norrænt samstarf 1989
Mánudaginn 05. febrúar 1990


     Páll Pétursson:
    Frú forseti. Ég vil byrja á því að lýsa ánægju minni með þessa skýrslu sem hér liggur fyrir þó að ég sé að hluta til kannski ábyrgur fyrir henni sem þátttakandi í Íslandsdeild Norðurlandaráðs. Ég tel að hún lýsi því í knöppu formi á býsna glöggan hátt hver störf hafa verið unnin á vegum Íslandsdeildarinnar. Það á að vera lýðum ljóst að þetta er mjög mikilvægt samstarf sem við tökum þátt í á þessum vettvangi og Íslendingum mjög nauðsynlegt fyrir margra hluta sakir.
    Þessi skýrsla Íslandsdeildar sem hér er til umræðu í dag er að sjálfsögðu ekki tæmandi skýrsla um norrænt samstarf. Eins og komið hefur fram vantar skýrslu um samstarfið á vegum ráðherranefndarinnar og er það talsverður skaði því að þar eru mikil umsvif og ástæða til þess að eyða stund í að ræða þau. Jafnframt er fjölmargt starfað í embættismannanefndum samnorrænum sem ekki kemur hér fram. Það eru fjöldamargar embættismannanefndir sem eru að störfum og margt af þeirra verkum er mjög áhugavert.
    Hér hefur verið vikið lítillega að deilum um skipan forsætisnefndar. Forsaga málsins er sú að flokkahópur vinstri sósíalista hafði ekki atkvæðastyrk til þess að ná fulltrúa í forsætisnefnd nema þá að fjölga í nefndinni. Laganefnd gerði að beiðni forsætisnefndar tillögu um breytt fyrirkomulag á kosningum í forsætisnefndina. Forsætisnefnd var ekki ginnkeypt fyrir þessum tillögum og sá á þeim ýmsa annmarka og ákveðið var að endurskoða í heild skipulag Norðurlandaráðs og taka til bráðabirgða áheyrnarfulltrúa frá þessum flokkahópi sem ekki var nógu fjölmennur til þess að geta ráðið af sjálfsdáðum einum manni í forsætisnefnd. En það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að helstu pólitískar skoðanir eigi þarna málsvara og meginlínur í stjórnmálum þjóðanna eigi þarna sína talsmenn.
    Á síðari árum hefur sú þróun orðið í Norðurlandaráði að flokkahóparnir hafa orðið miklu virkari og látið meira til sín taka. Þessi þróun er að sumu leyti af hinu góða og getur þegar rétt er á haldið stuðlað að skilvirkara og árangursríkara samstarfi. Á hinn bóginn getur hún skert sjálfstæði hinna einstöku sendinefnda til þess að taka sínar ákvarðanir. Það er skoðun mín að íslenska sendinefndin eigi að standa nokkuð ákveðið vörð um sjálfstæði okkar Íslendinga á þessum vettvangi og reyna að varðveita okkar sjálfsákvörðunarrétt sem sjálfstæðrar sendinefndar fremur en að við mætum þarna til leiks sem þátttakendur fyrst og fremst í hinum einstöku flokkahópum sem okkur er að sjálfsögðu mikil nauðsyn líka að taka þátt í. Ég held að við eigum að gæta réttar okkar og vera nokkuð árvökul yfir því. Við stöndum þarna jafnfætis öðrum þátttökuþjóðum. Við höfum þarna jafnan rétt við þær þó við séum miklu færri og því eigum við ekki að breyta. Hagsmunir okkar af þessu samstarfi eru eins og margoft hefur komið fram í umræðunni geysilega

miklir. Þar af leiðir að við eigum að reyna að varðveita þá.
    Skipulagsnefnd hefur verið sett á fót til að endurskoða skipulag og hún er undir forustu Bjarne Mörk Eidem, fyrrv. sjútvrh. og samstarfsráðherra Noregs. Hún hefur lítillega hafið störf. Ég er fulltrúi í henni fyrir hönd Íslands. Þar hafa verið settar fram tillögur, m.a. um breytta starfshætti Norðurlandaráðs, t.d. um breytingar á skipan forsætisnefndar. Hugmynd hefur komið þar fram um að af tíu manna forsætisnefnd séu einungis fimm valdir af sendinefndunum, einn frá hverju landi. Síðan velji hins vegar flokkahóparnir, fjórir stærstu flokkahóparnir sinn fulltrúann hver í forsætisnefndina og þar að auki komi einn fulltrúi frá sjálfsstjórnarsvæðunum, þ.e. annaðhvort frá Færeyjum, Grænlandi eða Álandseyjum. Ég held að þessi tillaga verði ekki að niðurstöðu en þrátt fyrir það er ástæða til þess að taka hana alvarlega. En eins og stendur er forsætisnefnd skipuð tveimur fulltrúum frá hverju landi og þess er reynt að gæta að pólitískt jafnvægi sé í forsætisnefndinni þannig að ekki hallist mjög á.
    Norrænt samstarf er á nokkrum tímamótum. Við erum að hefja þátttöku í fjölþjóða samskiptum meira en verið hefur og ég held að það sé óhjákvæmilegt, það verður ekkert undan því vikist og að því er fengur. Við höfum þrátt fyrir allt ýmislegt að segja öðrum þjóðum. Norrænt samstarf er einstætt í veröldinni, þ.e. svo náið samstarf grannþjóða án þess að í neinu sé skert sjálfstæði þeirra. Það þekkist ekki með þessum hætti annars staðar í veröldinni. Þetta getur verið til fyrirmyndar og lærdómsríkt þeim þjóðum öðrum sem samstarf vilja efla sín á milli. Það er ástæðulaust annað en greina frá þessari reynslu sem við höfum aflað okkur og jafnframt að læra af öðrum. Og í því skyni hafa verið tekin upp samskipti. Í fyrsta lagi hefur Norðurlandaráð látið sig varða þróunina í Vestur-Evrópu. Við höfum farið þangað sendiferðir til kynningar og fræðslu og nú er að hefjast nýr kapítuli með því að þiggja heimboð til Moskvu og Eystrasaltsríkjanna og í kjölfarið verða væntanlega málefni Austur-Evrópu meira á dagskrá Norðurlandaráðs og samskipti við Austur-Evrópu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að ganga til þessara samskipta með opnum huga. Þarna eru stórkostlegir hlutir að gerast og við getum ef rétt
er á haldið lagt nokkuð til þróunarinnar, þ.e. þau öfl sem þarna eru á uppleið sem stendur vilja mjög gjarnan líta til þess hvernig Norðurlandaþjóðir hafa leyst með lýðræðislegum hætti viðfangsefni sem þau eru að glíma við og þurfa að taka á heima hjá sér.
    Ég sé ástæðu til þess fyrir mitt leyti að lokum að þakka samstarfsfólki í Íslandsdeildinni á síðasta ári fyrir ágæt samskipti, svo og skrifstofuliði Íslandsdeildarinnar. Sérstaklega vil ég að lokum færa hv. 3. þm. Vesturl. Eiði Guðnasyni þakkir fyrir margra ára samstarf á norrænum vettvangi. Mér er ánægja að segja frá því hér að ég og ekki bara ég, ég held að það sé almannarómur að Eiður hafi leyst þar störf af hendi með mikilli alúð og samviskusemi og

gert það með myndarskap og við stöndum í mikilli þakkarskuld við hann fyrir þau verk sem hann hefur unnið vel á þeim vettvangi.