Evrópusamningur um varnir gegn pyndingum
Þriðjudaginn 06. febrúar 1990


     Frsm. allshn. (Jón Helgason):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til laga vegna aðildar Íslands að Evrópusamningi um varnir gegn pyndingum og ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.
    Aðdragandi þessa frv. er sá að 26. júní 1987 gerði ráðherranefnd Evrópuráðsins samþykkt um þennan samning og hinn 26. nóv. 1987 var hann síðan undirritaður af Íslands hálfu og af átján öðrum aðildarríkjum Evrópuráðsins.
    Samningur þessi kveður á um það að stofnsett skuli Evrópunefnd um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Skal nefndin með vitjunum kanna meðferð manna sem sætt hafa frelsissviptingu í því skyni að efla, ef nauðsyn krefur, vernd þeirra gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.
    Það er mat dómsmrn. að nauðsynlegt sé að setja sérstök lagaákvæði til að tryggja að öll ákvæði samningsins hafi lagastoð þegar hann verður framkvæmdur hér á landi.
    Efni þessa frv. er því það að nefndinni, sem þarna er kveðið á um að stofnsetja og í eiga sæti einn fulltrúi frá hverju aðildarríki, skuli vera heimilt að fara í þær stofnanir þar sem frelsissviptur maður er hafður. Gert er ráð fyrir því að tveir nefndarmenn fari í slíkar heimsóknir hverju sinni og að farið verði í hvert land annað hvert ár. Í 4. gr. frv. eru ákvæði í samræmi við 9. gr. samningsins, að ef sérstaklega stendur á skuli vera heimilt að fresta slíkri heimsókn. En það verða að vera mjög ærnar ástæður til að hægt sé að fara fram á slíkt og á alls ekki að koma í veg fyrir að nefndin geti að öllum jafnaði gegnt sínum störfum.
    Þá er í 5. gr. frv. ákvæði um að nefndarmenn skuli njóta friðhelgi við starfa sinn á svipaðan hátt og sendiráðsstarfsmenn.
    Á fund allshn. kom Þorsteinn A. Jónsson, deildarstjóri í dómsmrn., og gerði grein fyrir efni samningsins og aðdraganda þessa frv. Að lokinni athugun mælir nefndin einróma með því að frv. verði samþykkt.