Skattskylda orkufyrirtækja
Þriðjudaginn 06. febrúar 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Hv. 2. þm. Suðurl., hæstv. forseti þessarar deildar, hefur sagt sitt álit um það efni sem ég færði í tal varðandi hæstv. fjmrh. Og þó að það væri sagt úr ræðustól en ekki úr forsetastóli lít ég svo á að það sé skýr vilji eða skoðun hæstv. forseta í þessum efnum.
    Hann sagðist, hæstv. forseti, ekki hafa tekið eftir öllu sem ég sagði. Þá vil ég ítreka að ég sagði að ég væri ósammála úrskurði forseta sameinaðs Alþingis og ég er sammála því sem hæstv. forseti þessarar deildar, hv. 2. þm. Suðurl., sagði hér. Ég er sammála honum.
    Hæstv. forseti sagði hins vegar, og við það vil ég gera athugasemd, að hæstv. fjmrh. hefði oft talað um þingsköp. Ég minnist þess ekki. Ég hygg að þetta sé misminni. Ég minnist ekki þess að hæstv. fjmrh. hafi, ég hef ekki heyrt það sjálfur, talað um þingsköp síðan að úrskurður hæstv. forseta sameinaðs þings var gefinn fyrir u.þ.b. ári síðan. Og hæstv. forseti sameinaðs þings bað afsökunar á sínum mistökum að hafa veitt hæstv. fjmrh. heimild til þess að ræða um þingsköp. Og það ber að virða það við hæstv. fjmrh. að hann hefur í þessu efni hlýtt úrskurði forseta sameinaðs þings.