Skattskylda orkufyrirtækja
Þriðjudaginn 06. febrúar 1990


     Halldór Blöndal (frh.) :
    Herra forseti. Ég er þakklátur hæstv. forsrh. fyrir að hann skuli hafa komið hér í deildina til að vera viðstaddur umræður um frv. til laga um skattskyldu orkufyrirtækja. Óhjákvæmilegt er að hann, sem verkstjóri þessarar ríkisstjórnar, sá sem á að samstilla kraftana, gefi deildinni nokkra skýringu á því hvernig á því megi standa að hér liggur fyrir í deildinni frv. til laga um skattskyldu orkufyrirtækja sem lagt er fram án fyrirvara, og að í ríkisstjórn virðast einungis fjórir stjórnarflokkar af fimm standa að því. Ég hef að vísu ekki neitt fyrir mér í því að hv. þm. Stefán Valgeirsson sé sammála þeirri skattheimtu sem hér er lögð til. Ég hef ekkert fyrir mér heldur, hæstv. forsrh., um það hvort Borgfl. stendur að þessu frv. og þaðan af síður hef ég nokkuð fyrir mér um það hvort Framsfl. stendur að þessu frv. Á síðasta fundi sem haldinn var hér í deildinni kom til orðaskipta milli mín og eins af þingmönnum Framsfl. og sá þingmaður var ekki reiðubúinn til að lýsa því yfir að hann styddi það frv. sem hér liggur fyrir.
    Ég hlýt fyrst, herra forseti, að víkja orðum mínum að hæstv. viðskrh. Hann sagði hér áðan að það væru mörg dæmi þess að stjfrv. hefðu verið lögð fram á Alþingi sem einstakir þingmenn hefðu lýst andstöðu við eða lýst yfir að þeir mundu hafa frjálsar hendur með afgreiðslu þeirra. Ég hygg að ég geti rifjað upp mörg slík frv. Ég get meira að segja rifjað upp að einu sinni kom það fyrir í viðreisnarstjórninni að einn af ráðherrum Alþfl. greiddi atkvæði gegn frv. sem þáv. viðreisnarstjórn flutti, hæstv. ráðherra Eggert Þorsteinsson, eins og við munum á meðan hann var ráðherra.
    Ég segi á hinn bóginn að ég veit ekkert dæmi þess að stjfrv. hafi verið lagt fram eftir að fyrir liggur að einn þeirra flokka sem standa að ríkisstjórninni hefur lýst andstöðu sinni við það frv. og við þá aðferð sem þar er beitt. Og ég spyr hæstv. viðskrh. hvort hann sé reiðubúinn til þess ---
líka vegna þess að hann kallaði mig ósannindamann áðan héðan úr þessum ræðustól, hvort hann sé reiðubúinn til að nefna dæmi þess að stjfrv. hafi verið lagt fram á Alþingi, þegar fyrir lá að ráðherrar eins stjórnarflokksins í ríkisstjórninni höfðu lýst andstöðu sinni við efnisatriði frv., eftir að fyrir lá að þingflokkur viðkomandi stjórnarflokks hafði lýst andstöðu við efnisatriði frv. og að það hafi jafnframt gerst að ekki hafi verið minnst einu einasta orði á þennan ágreining í þeirri grg. sem slíku stjfrv. fylgir. Og eftir að fyrir liggur að sá ráðherra sem gerði grein fyrir frv. hér á Alþingi minntist ekki einu einasta orði á ágreininginn í sinni framsöguræðu fyrir málinu hér á Alþingi. Það er auðvitað nauðsynlegt, líka til þess að við vitum, hæstv. forseti, um fordæmin í þingsögunni, að hæstv. viðskrh. eða iðnrh., þegar hann kemst að, upplýsi þingheim um það hvaða fjölmörgu eða einstöku frv. það eru sem hann veit um þar sem þetta þrennt á við. Allir ráðherrar eins stjórnarflokksins, allir þingmenn eins stjórnarflokksins

hafa lýst andstöðu við skattlagningu eins og hún liggur fyrir án þess að á það sé minnst einu einasta orði, hvorki í grg. með stjfrv. né af þeim hæstv. ráðherrum sem gera grein fyrir málinu á Alþingi. Ég fullyrði, herra forseti, að hæstv. iðnrh. muni reynast erfitt að finna þessi fordæmi.
    En af því, eins og hann sagði einu sinni, að hann væri betur að sér en ég þegar hann var staddur hér í þessum ræðustól, þá efast ég ekki um að hann muni upplýsa deildina um það hvaða sérstöku frv. hann hafði í huga þegar hann lét þessi orð falla hér áðan. Því ekki verður því trúað að hann hafi þar farið með ágiskanir einar eða getsakir þegar hann í sömu andránni hefur uppi þau orð um annan þingmann sem efast um réttmæti orðanna að hann sé ósannindamaður. Það má vera að hæstv. ráðherra finnist þetta smámál, smáatriði, sem ég er nú að tala um, en mér finnst þetta atriði þungt á metunum vegna þess að ég ætlast til þess að ráðherra fari rétt með grundvallaratriði í sambandi við stjórnskipan landsins, þingvenjur og annað. Ég get á hinn bóginn rifjað upp að frv. sem ágreiningur var um í ríkisstjórn hafa verið lögð fram m.a. sem þmfrv. þegar ekki vildi betur til.
    Ég vil í annan stað, herra forseti, áður en ég vík orðum mínum að hæstv. forsrh., til gamans leggja út af þessum orðum, sem ég hef nú eftir, í bréfi þingflokks Alþfl. frá 13. des. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Gerð frv., sú staðreynd að það er þrjár efnisgreinar og ákvæði til bráðabirgða fylla á þriðju síðu, sýnir afar greinilega hversu tæknilega flókið og erfitt málið er.`` Svo mörg voru þau orð.
    Matthías Jochumsson segir frá því í Söguköflum af sjálfum sér, þegar hann er að tala um samskipti sín við Grím Thomsen, að hann hafi ekki ort um Grím nema eina óþægilega vísu. Og blessað þjóðskáldið okkar var nú að hugga sig við það að vísan hefði ekki verið nema ein. En hvernig var vísan?

Í gráum frakka Grímur fylgdi gamla Jóni,
hreysiköttur konungsljóni.

    Þessi vísa hefur lifað á tungu þjóðarinnar æ síðan og síður en svo var þessi staka Grími Thomsen til neinnar ánægju, þó að ekki væri nema tvær línur. Eins
má segja um texta. Hann getur verið langur og ógreinilegur, illa orðaður og þó eru efnisatriði í rauninni mjög skýr og einföld. Þess vegna segir þessi setning ekki neitt, er einhvers konar yfirklór þegar viðkomandi hafa ekki mátt né vilja til þess að skýra staðfastlega frá sínum skoðunum.
    En nú er komið að því, hæstv. forsrh., að nauðsynlegt er að fá glögg svör frá hæstv. forsrh. um nokkur atriði. Og það er þá í fyrsta lagi þetta: Hvaða stjórnarflokkar eru sammála efnisatriðum frv. um skattlagningu orkufyrirtækja eins og það liggur nú fyrir á þskj. 323? Með öðrum orðum: Er Framsfl. sammála frv. eins og það liggur fyrir? Er Borgfl. sammála frv. eins og það liggur fyrir? Ég veit ekki hvort ástæða sé til að spyrja hvaða afstöðu hv. þm.

Stefán Valgeirsson hafi til þessa frv. en flokkur hans er einn af þeim flokkum sem standa að núv. ríkisstjórn. Þetta er nú í fyrsta lagi.
    Í öðru lagi. Í ræðu hæstv. forsrh. hinn 30. nóv. 1989 segir svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Þá var ákveðið að orkufyrirtæki greiði tekjuskatt eins og bankar og fyrirtæki í landinu almennt gera og er áætlað að það þýði 250 millj. kr. tekjur.`` Svo mörg eru þau orð. Eftir orðanna hljóðan virðist frv. sem hér liggur fyrir vera í samræmi við þau ummæli sem hæstv. forsrh. hefur á þessum stað. En í grg. frv. er einmitt sama skírskotun til banka og sparisjóða og hæstv. fjmrh. vék að sama samanburði í sinni ræðu og ekki verður annað séð en frv., eins og það liggur fyrir, sé byggt á þessum forsendum sem hæstv. forsrh. talar hér um.
    Hæstv. forsrh. segir síðar í sinni ræðu í lok þess kafla þar sem hann talar um tekjuöflunarfrv. ríkisstjórnarinnar, með leyfi hæstv. forseta: ,,Um þetta ríkir að sjálfsögðu full samstaða innan stjórnarflokkanna.`` Það er raunar í samræmi við það sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan í athugasemdum sínum við fundarsköp að á þessum tíma, hinn 30. nóv., hafi formaður Alþfl., Jón Baldvin Hannibalsson, í viðræðum við formann Framsfl., (Gripið fram í.) formann Alþb. og formann Borgfl. --- ég veit ekki hvort hv. þm. Stefán Valgeirsson var þar --- lýst yfir samþykki Alþfl. við það að lagður yrði á sérstakur skattur á orkufyrirtæki. Þetta atriði virðist því liggja ljóst fyrir og er það auðvitað mjög athyglisvert.
    Nú hefur það að vísu flogið fyrir, hæstv. forsrh., að upphafsmaðurinn að orkuskattinum sé ekki fjmrh. þó að ég hafi verið að gantast með það hér áðan og þó svo að hæstv. fjmrh. hafi ekki gefið undir fótinn með að málin kynnu að vera öðruvísi. Nú hefur það flogið fyrir að hugmyndin að orkuskattinum sé komin frá öðrum stjórnmálaflokki en Alþb. Og nú væri auðvitað mjög fróðlegt að fá um það upplýsingar, án þess að hæstv. forsrh. sé til þess skyldugur, hvaða stjórnmálaflokkur hafi átt hugmyndina að orkuskattinum. Ég skal ekki fullyrða hvaða stjórnmálaflokkur það er, en ekki trúi ég öðru en að hæstv. forsrh. sé reiðubúinn til þess að skýra frá því. Að öðrum kosti hljótum við, almennir þingmenn, að líta svo á að það hafi verið Alþb. sem átti hugmyndina að skattinum. Ekki vil ég trúa því að hæstv. forsrh. láti Alþb. liggja undir fölskum ásökunum að þessu leyti.
    Þá vil ég í þriðja lagi, hæstv. forsrh., vekja athygli á ummælum sem hæstv. viðskipta- og iðnrh. skrifar í Morgunblaðið í dag, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Annars vegar hef ég bent á að þjónusta orkufyrirtækja hefur nokkra sérstöðu í samanburði við flest önnur þjónustufyrirtæki og í því sambandi minnt á að þau eru yfirleitt í eigu opinberra aðila. Þá er þjónusta hitaveitna og vatnsveitna náskyld að eðli og í sumum sveitarfélögum eru raunar vatns- og hitaveitur sama fyrirtækið. Það orkar því tvímælis að skattleggja orkufyrirtæki með þessum hætti en

undanskilja ýmis önnur þjónustufyrirtæki sveitarfélaga.``
    Svo mörg eru þau orð. Þessi ummæli eins og þau standa hér þýða á mæltu máli að í huga hæstv. iðnaðar- og viðskrh., þegar hann skrifar þetta, er að skattleggja vatnsveiturnar í landinu og ýmis önnur þjónustufyrirtæki sveitarfélaganna. Það er auðvitað óhjákvæmilegt, líka í tengslum við þessi mál, að fá það upplýst hjá hæstv. forsrh. hvort uppi séu hugmyndir um það hjá hæstv. ríkisstjórn að skattleggja önnur þjónustufyrirtæki sveitarfélaganna en orkufyrirtækin. Hvort hugmyndir séu uppi um það að skattleggja t.d. vatnsveiturnar og önnur þjónustufyrirtæki. Ég var að tala í dag að gamni mínu við einn af forustumönnum merks bæjarfélags fyrir norðan og sagði við hann svona að gamni mínu hvort ekki væri nú kominn tími til þess að sveitarfélagið færi að skattleggja eitthvað af umsvifum ríkisins norður í landi, hvort þeir fyrir norðan, sveitarfélögin, gætu ekki lagt t.d. fasteignaskatta á opinber fyrirtæki? En þá var einn hængur á. Með lögum bannar ríkið sveitarfélögunum að skattleggja sig nema mjög takmarkað. En á sama tíma og gengið var frá því hér á sl. vori að endurskipuleggja verkefna- og tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga hefur ríkisstjórnin, á meðan verið er að vinna að þessu og á meðan ekki er einu sinni hægt að standa við það í sambandi við þann þáttinn sem veit að menningarmálunum og skólamálunum að greiða fjórðung af skuldunum út á þessu ári sem út af standa, verið að skattleggja sveitarfélögin með nýjum
hætti, ekki undir milljarði er mér sagt í sambandi við aðstöðugjöldin. Og nú er hæstv. iðnrh. að gera því skóna að ástæða sé til að skattleggja ekki aðeins orkufyrirtæki, ekki aðeins vatnsveitur sveitarfélaga, heldur ýmis önnur þjónustufyrirtæki sveitarfélaganna til viðbótar.
    Ég óska eftir því, hæstv. forsrh., að fram komi hvort þessar hugmyndir hafi verið ræddar í ríkisstjórninni og hvort það standi kannski til núna, til þess að reyna að fylla upp í gatið hjá ríkissjóði, að breikka grunn skattheimtunnar sem felst í þessu frv. sem við erum hér að tala um, hvort á bak við orð þessara tveggja ráðherra, hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskrh., um að nauðsynlegt sé að skiptast á skoðunum um orkuskattinn, liggi að ríkisstjórnin hafi í huga að skattleggja vatnsveiturnar og að skattleggja kannski ýmis önnur þjónustufyrirtæki sveitarfélaganna. Það er auðvitað nauðsynlegt að þetta komi fram.
    Ég sagði í sameinuðu þingi fyrir skömmu að ef þetta frv. yrði að lögum mundi það þýða það að heimilistaxtar á rafmagni yrðu að hækka um 30%. Hæstv. orkuráðherra, hæstv. iðnrh., sagði að það væri fjarri öllum sanni í ræðu sem hann flutti síðar. Nú sætti ég mig ekki við það, herra forseti, að hæstv. iðnrh. geti í krafti síns embættis komið með slíkar fullyrðingar án þess að við það séu gerðar harðar og strangar athugasemdir. Ummæli mín voru reist á þeirri staðreynd að yfirlýsing hefur borist frá Landsvirkjun um að verði frv. að lögum þurfi verð til

almenningsveitna að hækka um 46%. Í viðtali við Morgunblaðið hinn 26. jan. 1990 er haft eftir Eiríki Briem, sem er fjármálastjóri Rafmagnsveitna ríkisins, að vísu ekki orðrétt, en í fréttinni segir svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Honum taldist svo til að yrði raforkuverð Landsvirkjunar til almenningsveitna hækkað um 46% yrði RARIK að hækka verðið til almennings um 30%. ,,Frv., eins og það liggur fyrir, er gjörsamlega ónothæft að okkar mati,,, sagði Eiríkur.`` Í þessu blaði er líka viðtal við Aðalstein Guðjohnsen, rafmagnsveitustjóra í Reykjavík. Hann sagði að yrði frv. að lögum óbreytt yrði það sama upp á teningnum hjá Rafmagnsveitunni og hjá RARIK, að rafmagnið mundi hækka um 30%. En hæstv. iðnrh. hefur sagt á fundi sameinaðs þings að þessi ummæli Aðalsteins Guðjohnsens og þessi ummæli Eiríks Briem, fjármálastjóra Rafmagnsveitna ríkisins, séu fjarri öllum sanni.
    Nú gæti það út af fyrir sig verið skýring á ummælum hæstv. iðnrh. að hann hefði ekki sett sig inn í málið. Að honum væru ókunnar þær forsendur sem Landsvirkjun hefði fyrir sínum fullyrðingum og þær forsendur sem RARIK hefði fyrir sínum fullyrðingum og þær forsendur sem Rafmagnsveita Reykjavíkur hefur fyrir sínum fullyrðingum. En það er nú ekki svo. Þvert á móti liggur það fyrir að hæstv. iðnrh. hefur verið að safna upplýsingum og gögnum bæði frá Landsvirkjun, frá einstökum orkuveitum, m.a. þessum fyrirtækjum báðum og frá fleiri aðilum. Honum var því fullkunnugt um á hvaða rökum fullyrðingar Aðalsteins Guðjohnsens og fullyrðingar Eiríks Briem og fullyrðingar Halldórs Jónatanssonar voru reistar, en lætur sig samt sem áður hafa það að lýsa því yfir að niðurstöður þessara mætu þjóðkunnu manna, þessara vönduðu embættismanna sem hvergi koma nálægt pólitík og ekki mega vamm sitt vita, heiðarlegir embættismenn --- lætur sig hafa að segja að sú niðurstaða sem þessir menn komast að með hjálp löggiltra endurskoðenda séu staðlausir stafir, út í hött.
    Það er auðvitað algjör misskilningur hjá hæstv. iðnrh. ef hann heldur að málið sé búið með þessu þó svo að þetta frv. verði aldrei að lögum. Því að auðvitað verður séð um það þegar málið kemur til fjh.- og viðskn. að Ríkisendurskoðun reikni nákvæmlega út hver skattbyrðin af þessu frv., eins og það liggur fyrir hér, verður með hliðsjón af þeim áætlunum sem fyrir liggja um tekjur og gjöld þessara orkuveitufyrirtækja sem ég hef talað um út frá þeim forsendum sem reiknað var út frá í sambandi við verðlagsþróun, gengisþróun og aðra hluti, þannig að við fáum úr því skorið, þegar frv. kemur til 2. umr., hvort það er hæstv. iðnrh. sem segir satt, þegar hann segir að ummæli þessara grandvöru embættismanna séu út í hött, eða hvort í ljós kemur að þessir grandvöru embættismenn hafa rétt fyrir sér. Mér dettur ekki í hug að vera endanlegur dómari í því máli. Ég minni hins vegar á það að Ríkisendurskoðun starfar nú undir Alþingi, er þess vegna ekki lengur háð húsbóndavaldi ráðherra eins og áður var og auðvitað

munum við af þeim sökum fá niðurstöður í þessu máli. Það má þó blaðafulltrúi fjmrn. eiga, Mörður Árnason, að hann gengst drengilega við því í Morgunblaðinu þann hinn sama dag að sennilega hafi fjmrn. skjátlast og sennilega gefi skatturinn af sér miklu meiri tekjur en ella mundi.
    Nú er það svo, hæstv. forsrh., og ég held að nauðsynlegt sé að fá upplýsingar um það líka, að í ljós kemur að þessi skattur hefði ekki skilað af sér einni einustu krónu í tekjuskatt ef miðað hefði verið við rekstrarárið 1989. Á þessu vakti ég athygli hér við fyrri umræðu málsins, í fyrri hluta ræðu minnar. Það byggist á því hvernig verðlagsþróun og gengisþróun var í landinu á þeim tíma og þarf ekki að rekja það fyrir einstökum ráðherrum hvernig það mál er vaxið. Á hinn bóginn er fundið upp á þeirri undarlegu reglu
að heimta fyrirframgreiðslu af tekjuskatti vegna rekstrarniðurstöðu á yfirstandandi ári til að knýja þannig fram skattheimtu strax í ár. Það er athyglisvert að hæstv. iðnrh. og Alþfl. gerðu ekki athugasemd við þetta atriði. Þeim fannst þetta ekki óeðlilegt, hvorki honum né þingflokknum eins og bréfið hljóðaði sem hér var lesið upp áðan. Og þess vegna skil ég það svo, hæstv. forsrh., að innan ríkisstjórnarinnar sé fullkomin samstaða um að viðhafa þau undarlegu vinnubrögð nú að heimta svokallaða fyrirframgreiðslu á skatti af Landsvirkjun og orkufyrirtækjum á þessu ári en líta ekki á rekstrarstöðu sl. árs vegna þess að þá lægi ljóst fyrir að þessi fyrirtæki þyrftu ekki að greiða eina einustu krónu í tekjuskatt. Þetta er málið, fengju þvert á móti uppsafnað tap sem gæti orðið þeim ávinningur síðar meir. Þarna kemur berlega fram sá undarlegi þankagangur sem einstakir ráðherrar hafa haft í þessu máli.
    Og svo að lokum, herra forseti, aðeins vegna þess að hæstv. fjmrh. hefur talað um að Landsvirkjun, Hitaveitan hér í Reykjavík og ýmis önnur fyrirtæki Reykjavíkurborgar og fyrirtæki ýmissa annarra sveitarfélaga eins og t.d. hitaveitan á Dalvík og fleiri stöðum hafi skilað einhverjum tekjum í bæjarsjóð og fundið mjög að því, vil ég rifja upp að það er alveg óþarfi að láta afnotagjaldið af símanum, af hinum almenna heimilissíma, venjulegum síma einstaklinga og fyrirtækja, láta afnotagjaldið af símanum fara upp í Póst og síma, fara í þær fjárhirslur. Það væri miklu betra að bæta bara afnotagjaldinu við á skattseðil ríkisstjórnarinnar því að hver einasta króna sem innheimt er í afnotagjald rennur í ríkissjóð en ekki til Pósts og síma eins og gjaldskráin er núna og eins og áætlanir eru núna uppi um gjaldtöku ríkissjóðs af Pósti og síma. En þó varð mér á núna, herra forseti, ég verð nú að leiðrétta mig, ég fór ekki alveg rétt með. Það er ekki hver einasta króna, það er gert ráð fyrir því að 500 millj. fari í ríkissjóð en tekjurnar munu að vísu vera 546 millj. sem áætlaðar eru af afnotagjöldum hins almenna heimilissíma. En í grófum dráttum er þetta svona. Og svo er hæstv. fjmrh. að býsnast yfir því að einhver önnur fyrirtæki séu blóðmjólkuð þegar sannleikurinn liggur fyrir með þessum hætti.