Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 06. febrúar 1990


     Matthías Á. Mathiesen:
    Herra forseti. Þær umræður sem nú fara fram á Alþingi eru með afar sérstæðum hætti. Hér er til umræðu frv. sem fjallar aðeins um eitt orð. Gert er ráð fyrir að inn í íslenska löggjöf komi eitt orð, nýtt orð. Það lætur ekki mikið yfir sér þegar slík frv. eru flutt, en ef menn gera sér grein fyrir að þetta orð er breyting á einni þýðingarmestu löggjöf hvers lands, þ.e. í þessu tilfelli okkar lands, að með þessu eina orði er ætlunin með sérstökum hætti að gera breytingu á stjórnlögum Íslands, og virða fyrir sér hvernig staðið hefur verið að þeirri löggjöf og breytingum á þeirri löggjöf á undanförnum áratugum, þá er ég sannfærður um að meiri hluti Alþingis er sammála um að slík málsmeðferð er ekki virðingu Alþingis né þjóðarinnar samboðin.
    Ég vík að þessu fyrst, áður en ég kem að þeim þætti sem er forsenda þessa eina orðs, þ.e. stjórnun umhverfismála í okkar landi. Þetta er 129. mál þingsins og samhliða því hefur ríkisstjórnin flutt mál sem er 128. mál
þingsins og segir nokkuð til um með hvaða hætti skuli breyta íslenskri löggjöf sem afleiðingu af því að þetta eina orð er sett inn í lögin um Stjórnarráð Íslands.
    Það hefur verið gagnrýnt hér í þessari hv. deild hvernig að þessum málum hefur verið staðið og hvernig vinnubrögðin hafa verið í hv. allshn. þar sem fyrst og fremst hefur verið leitað eftir áliti þeirra aðila sem skiptir máli með hvaða hætti stjórnun umhverfis er hjá okkur. Því hefur verið haldið fram af þeim sem hér hafa talað og verið andvígir framgangi þessa máls að eðli málsins samkvæmt bæri Alþingi fyrst að taka ákvörðun um það hvaða málaflokkar það væru sem tilheyra ættu því nýja ráðuneyti sem hér er verið að leggja til að stofnað verði. Því hefur hins vegar verið lýst af þeim sem best til þekkir og á hans vísu og sagt að þetta sem hér væri væri eins og deilan um hænuna og eggið. Það gæti líka verið um endurnar og eggið, en þessu er nú út af fyrir sig ekki svo varið. Svo einfalt er málið ekki.
    Í gærkvöldi var sjónvarpsþáttur sem ég horfði á þar sem hæstv. ráðherra Hagstofu Íslands var í viðræðum við hv. 12. þm. Reykv. Kristínu Einarsdóttur og þau fjölluðu einmitt um vinnubrögð hér á Alþingi í sambandi við þessi mál. Mér fannst einhvern veginn að hæstv. ráðherra léti tilfinningasemina ráða mjög miklu í þeirri röksemdafærslu sem hann hafði í frammi og auðheyranlega varð öllum ljóst að þetta var og er mikið tilfinningamál hjá honum. Mér finnst einhvern veginn að hæstv. forsrh. geti ekki látið það ráða ferðinni um stjórnlög Íslands, um breytingar á stjórnlögum Íslands, hvort það er tilfinningamál hjá einum ráðherra hvenær hann fær ákveðinn embættistitil og allt stjórnast af því. En það voru skýringar sem hæstv. ráðherra gaf í gærkvöldi og mér finnst að við þurfum að taka hér til athugunar, nú við þessa umræðu, þegar hann sagði að það gæti svo sem verið eðlilegt að þessi tvö frv. fylgdust að. Hvernig

hugsaði hann sér að láta þessi tvö frv. fylgjast að? Jú, það var með því að afgreiðslu frv. um breytingu á Stjórnarráði Íslands, 129. máli, yrði lokið hér í hv. Nd., málið látið ganga til hv. Ed. og það biði þar við 3. umr. þar til 128. mál þingsins kæmi til Ed. og það væri hægt að afgreiða þessi mál sama daginn út úr hv. Ed.
    Ég hef nú aldrei litið svo á að löggjafarstarfsemin hjá okkur væri fólgin í einhverjum slíkum starfsaðferðum, heldur og hitt að eðlilegt væri að fyrst gengju fram þau frv. sem gera ætti breytingar á til þess að síðara frv., þ.e. 129. mál, gæti orðið að lögum.
    Fjölmörg atriði eru í 128. máli þessa þings, þ.e. breyting á lögum um náttúruvernd og um Siglingamálastofnun ríkisins og breyting á ýmsum lögum er varða yfirstjórn umhverfismála. Og síðan koma tuttugu og ein grein í þessu frv. þar sem taldar eru upp tillögur að breytingum einstakra lagabálka þar sem fjallað er um umhverfismál. Slíkt löggjafarstarf, eins og hér er ætlað að verði, er að mínum dómi með þeim hætti að skynsamlegast væri fyrir hæstv. forsrh. eftir yfirlýsingu hæstv. ráðherra Hagstofu Íslands að láta þetta frv. hvíla þar til búið verður af hálfu meiri hluta Alþingis að láta ganga fram þau frv., þær breytingar sem gera þarf til þess að umhverfisráðuneytið fái einhver verkefni.
    Ég trúi því að bæði hæstv. ráðherra Hagstofu og hæstv. forsrh. muni við þessa 2. umr. tjá sig um þessa hluti, tjá sig um þá gagnrýni sem fram hefur komið og ég trúi því að hæstv. forsrh., að athuguðu máli, komi til með að leggja til að umræðu um þetta frv. verði frestað og þingmenn fái tækifæri til að skoða þær breytingar sem lagðar eru til í 128. máli þingsins og svo fjölmörg mótmæli og fjölmargar athugasemdir hafa borist til hv. allshn. við.
    Það hefur verið gert minnisblað um þessar athugasemdir og þetta minnisblað, sem ég hef undir höndum, er hvorki meira né minna en upp á tuttugu og eina blaðsíðu og athugasemdirnar á hverri blaðsíðu tvær, þrjár, fjórar. Að meðaltali er hægt að margfalda þrisvar sinnum tuttugu og einn og kemur það nokkuð heim og saman við þá tölu sem hefur verið nefnd í umræðum um þetta mál.
    Þegar við ræðum breytingu á stjórnarskrá Íslands, breytingar á stjórnlögum
Íslands, þá hljótum við að virða fyrir okkur og meta hvernig hefur verið staðið að þessum hlutum og átta okkur á því að þannig hefur verið um hnútana búið á sínum tíma að bestu manna yfirsýn, að vel athuguðu máli. Ég er ekki þar með að segja að það sem var gert og tók gildi 1. jan. 1970 og átti því 20 ára afmæli sem löggjöf um Stjórnarráð Íslands hér hjá okkur, að því megi ekki að sjálfsögðu breyta, en við skulum ekki breyta stjórnlögum eða stjórnarskrá Íslands aðeins breytinganna vegna. Við skulum breyta þessari löggjöf eins og að sjálfsögðu allri annarri af því að við komumst að þeirri niðurstöðu að það sé skynsamlegast að gera breytingarnar.
    Vissulega er auðveldara að sinna einstakri löggjöf

sem ekki er jafnmargslungin og stjórnarskráin og stjórnlög og að sjálfsögðu eru oft á tíðum gerðar breytingar að fenginni reynslu og þá ekki með jafnlöngum aðdraganda og eðlilegt er að hafa þegar við erum að ræða lög um breytingu á Stjórnarráði og stjórnlögum og stjórnarskránni. Við skulum bara muna eftir því að það hefur starfað nefnd í sambandi við stjórnarskrármálið um langan tíma. Það hefur engum dottið í hug að halda því fram að þar sé ekki verið að vinna eða skoða málin, að þeir sem þar sitji séu að tefja, eða þeir vilji ekki vega og meta þær tillögur sem fram hafa komið. Þeir telja að svo langan tíma hafi þeir þurft til þess að sinna þessu.
    Ég veit að hæstv. forsrh. hefur skoðað þessa hluti og virt fyrir sér aftur í tímann hvernig staðið var að málum, ég mun víkja að því hér á eftir, þegar þau stjórnlög voru sett sem tóku gildi 1. jan. 1970. Ég veit að hann hefur beitt sér fyrir, ekki einu sinni heldur tvisvar, kannski þrisvar, breytingum á lögunum um Stjórnarráð Íslands en einhvern veginn ekki náðst sú niðurstaða sem skyldi. Ekki náðst eins breið samstaða og nauðsynleg er þegar við erum að ræða þá löggjöf sem er grundvallarlöggjöf í hverju þjóðfélagi. Ég verð að segja það í þessu sambandi að þegar hæstv. forsrh. síðast skipaði nefnd, fjögurra manna, en mér skilst að einhverjir séu til hliðar og komi til starfa eftir því sem rétt þykir, þá fannst mér einhvern veginn að ýmsir væru til sem meiri þekkingu og meiri reynslu hefðu, án þess að ég sé nokkuð að gera lítið úr þeim aðilum sem var falið þetta verkefni. Einmitt af reynslu hæstv. forsrh. frá nefndaskipun, ef ég man rétt frá 1984, þá hefði þurft að velja þar til þá menn sem gerst þekktu og voru í raun og veru án pólitískra sjónarmiða, til þess að gera sér grein fyrir hvernig við ættum að breyta, ef við þá þurftum að breyta þeim stjórnlögum sem við höfum í dag.
    Auðvitað deila menn um það hversu mörg ráðuneyti eigi að vera og þar af leiðandi hversu margir ráðherrar, en ráðherrafjöldanum verður breytt, með ákvörðun þeirra sem ríkisstjórn mynda hverju sinni. Hins vegar þá verður, ef um fámennt ráðuneyti er að ræða, hver ráðherra að fara með fleiri en eitt ráðuneyti eins og við þekkjum.
    Mér finnst að þetta, sem ég hef sagt, séu atriði sem við verðum að skoða. Ég veit ekki hvort hæstv. forsrh. var hér í hliðarsal áðan þegar ég minntist á það sem hæstv. hagstofuráðherra sagði í sjónvarpinu í gærkvöldi. Hann hefur heyrt það og væntanlega lætur hann uppi skoðun sína í þessum málum síðar við þessa umræðu og auðvitað hæstv. hagstofuráðherra sem eðli málsins samkvæmt kemur hér til að svara þeirri gagnrýni, ásamt hæstv. forsrh., sem hér hefur verið sett fram.
    Þar eð ég hef í upphafi kosið að ræða um stjórnlögin og frv. um breytingu á Stjórnarráðinu sérstaklega, þá vildi ég mega vekja athygli á þeim vinnubrögðum sem viðhöfð voru í þessum málum þegar þau lög voru sett sem nú gilda. Það var ekki verið að setja löggjöf sem átti að taka gildi daginn áður en lögin voru samþykkt. Það var heldur ekki

verið að afgreiða löggjöf sem átti að taka gildi eftir mánuð. Þegar lögin voru samþykkt þá leið nokkuð langur tími. Það var á þinginu 1968--1969, sem afgreiðsla fór fram á þessu frv. sem þá var lagt fram, en menn höfðu í raun og veru verið að velta þessu fyrir sér allt frá 1958. Frá því þáv. hæstv. forsrh. Hermann Jónasson skipaði nefnd til þess að skoða þessi mál, sem samdi frv. Það frv. er að mér skilst ekki finnanlegt en frá því er skýrt í ræðu sem flutt var af hæstv. forsrh. Bjarna Benediktssyni á Alþingi 14. okt. 1968. Þar víkur hann einmitt að þessu og gerir grein fyrir því í hverju það liggur að ekki var talið þá að frv. sem samið var af þessari þriggja manna nefnd hefði verið tekið til meðferðar og því beið málið. Á kosningalögum voru gerðar breytingar 1959 og þar af leiðandi stjórnarskrárbreytingar og breyting á kosningalögum í framhaldi af breytingu á kjördæmaskipuninni, en það mál sem hér var það var látið bíða og ekki tekið til umræðu eða flutnings af Alþingi fyrr en 1968.
    Ég hygg að ein forsenda þess að menn töldu eðlilegt og rétt að gera breytingar á stjórnlögunum á þessum tíma hafi verið m.a. sú uppstokkun, sú tilskipan, eða fyrirkomulag sem menn höfðu í sambandi við forsetaúrskurði um skiptingu starfa ráðherra. Ég minnist þess að þegar ríkisstjórn var skipuð 1956, ég held ég fari rétt með, fóru allir ráðherrar þeirrar ríkisstjórnar með einhvern hluta af þeim málum sem tilheyrðu þáverandi samgrn. Hver og einn einasti ráðherra hafði með einhvern málaflokk að gera sem var til staðar, til
afgreiðslu og fyrirgreiðslu í þessu ráðuneyti. Þá höfðu menn atvinnumálaráðuneyti en voru m.a. farnir að deila upp atvinnumálaráðuneytinu í sjávarútvegs-, landbúnaðar- og iðnaðarráðuneyti og þetta hvort tveggja var m.a. undirrót þess að menn töldu að slíka breytingu á skipan þyrfti að gera.
    Hvernig fór svo og hvernig var svo unnið að þessu máli hér á hv. Alþingi? Ég held að það sé töluvert mikið atriði fyrir þá sem vilja nú keyra þessa hluti svo hratt fram sem raun ber vitni að þeir virði það fyrir sér og skoði. Hafi þeir ekki gert það þá langar mig til þess að rifja það upp með þeim hvernig að þessu var staðið.
    Eins og ég sagði áðan þá var það 17. okt. 1968 sem frv. um Stjórnarráð Íslands er lagt fram. Þegar forsrh. þáv. er búinn að gera grein fyrir þessu frv. talar þáv. formaður Framsfl. sem var þá í stjórnarandstöðu og hann lýkur sinni ræðu þannig, með leyfi forseta:
    ,,Ég er stuðningsmaður þessa frv. í höfuðdráttum eins og greinilega hefur komið fram af því sem ég hefi þegar sagt.``
    Annar þm. Framsfl., Gísli Guðmundsson, lýsir yfir svipaðri niðurstöðu, enda þótt hann hafi vissar athugasemdir til breytinga. Það gerir enn fremur þáv. þm. Hannibal Valdimarsson sem er í stjórnarandstöðu, þannig að þegar málið fer til allshn., þá er búið að lýsa því yfir af hálfu stjórnarandstöðunnar að hún styðji frv. í meginatriðum, en á því þurfi, samkvæmt

ábendingu þeirra, að gera breytingar.
    Þá vík ég næst að því hvenær 2. umr. fer fram á Alþingi um þetta mál. Málið fer til hv. allshn. eins og það gerir nú. Því er vísað til 2. umr. og allshn. með 28 shlj. atkv., það er ekkert atkvæði þar á móti. Það er svo 24. mars sem málið er tekið fyrir til 2. umr. Frá 17. okt. til 24. mars vinnur allshn. að þessi máli. Þegar frsm. allshn. talar síðan fyrir málinu, þá talar hann ekki fyrir meiri hl. og síðan annar þm. fyrir minni hl., hann talar fyrir hönd allrar nefndarinnar.
    Það vill nú svo til að hv. frsm. allshn. þá situr hér enn á þingi, eins og ýmsir þeir sem fjölluðu um þessa löggjöf, en það er hv. 1. þm. Vestf. Matthías Bjarnason sem gegndi þá formennsku í hv. allshn.
    Hann gerir í sinni ræðu grein fyrir hvernig unnið hefur verið að þessu máli, og segir að lokum, með leyfi forseta:
    ,,Við í allsherjarnefnd`` --- og talar þar fyrir hönd allrar nefndarinnar --- ,,teljum að það hafi verið full þörf á því að setja lög um Stjórnarráð Íslands og mælum með samþykkt frumvarpsins með þeim breytingum sem ég hefi hér áður rakið. Það eru breytingartillögur sem búið er að fjalla um í nefndinni og fulltrúar allra flokka á Alþingi eru sammála um.``
    Málið gengur svo til 3. umr. Frv. er samþykkt frá Nd. til Ed. með 22 shlj. atkv., það er ekkert atkvæði þar á móti. Frv. var vísað til 3. umr. með 30 shlj. atkv. og ekkert atkvæði þar á móti.
    Ég sé að hv. formaður allshn. hlustar á með athygli og það þykir mér vænt um af því að ég veit að hann er þannig gerður að hann kysi að vinna að málum með þeim hætti einmitt eins og ég hef hér verið að benda á að hafi verið gert þegar þessi löggjöf var samþykkt á þinginu 1968--1969.
    Málið gengur svo til Ed. og þar taka til máls þingmennirnir Jón Þorsteinsson, Pétur Benediktsson og Ólafur Jóhannesson. Niðurstaða þar er hin sama og málið er síðan afgreitt á fundi í Ed. með 24 shlj. atkv. án mótatkvæða 13. maí, rétt fyrir þinglok.
    Ég tel að þau vinnubrögð sem hér voru viðhöfð séu með þeim hætti að þau séu til fyrirmyndar fyrir okkur. Þetta er málefni sem við eigum ekki, þm. á Alþingi Íslendinga, að líða að séu notuð sem einhver verslunarvara í myndun meiri hluta á Alþingi, myndun ríkisstjórnar, og skipun ráðherra. Þvert á móti þá eigi að grundvalla allt sem hér er gert með þeim hætti sem gerðist þegar hv. 1. þm. Vestf. Matthías Bjarnason veitti allshn. forystu hér í þinginu og leiddi það samkomulagsnefndarálit til afgreiðslu sem þá var gert.
    Ég hef hér gert að umræðuefni það frv. sem hér er til umræðu og vikið að því með hvaða hætti skynsamlegast sé og eðlilegast að vinna að þessum málum. Ef pólitískur vilji er fyrir því að gera breytingu á lögunum um Stjórnarráð Íslands verður að mínum dómi að undirbúa og vinna þá löggjöf með þeim hætti að menn fái ekki hér inn í sali Alþingis minnisblað um athugasemdir upp á 21 blaðsíðu, 60 athugasemdir, og þær allar meira og minna, meira og minna segi ég, með þeim hætti að menn eru andvígir

því sem hér er verið að leggja til að gert verði. Jafnvel tvö ráðuneyti, ráðuneyti sem eru á ábyrgð ráðherra, senda frá sér athugasemdir um frumvarp sem ríkisstjórnin hefur flutt.
    Ég verð að segja það að þessi vinnubrögð eru að mínum dómi með þeim hætti að hæstv. forsrh. yrði maður að meiri með því að stöðva þetta mál hér í umræðu og láta vinna betur að því með hvaða hætti menn vilja koma á samræmdri stjórn umhverfismála. Sjálfstæðisþingmenn hafa komið fram með sína tillögu, lögðu hana fram á síðasta þingi. Hún er 4. mál á þessu þingi en hefur ekki fengist rædd, hvorki í hv. allshn. og þaðan af síður hér á þingi. Og eins og kom fram í ræðu hæstv. forseta Nd. þegar á föstudaginn var, þegar gagnrýnd var
fundarboðun og annað eftir því, er verið að ýta þessu máli hér í gegn vegna kröfu ríkisstjórnarinnar. Við bentum þá á að við sætum 63 hér á Alþingi og hefðum tillögurétt og málfrelsi og þær tillögur sem við fengjum og legðum fram ættu að hafa sama rétt til afgreiðslu og aðrar.
    Einn þm. stjórnarflokkanna, hv. 2. þm. Vestf., kom hér í ræðustól og var þessu alveg sammála. Hann orðaði það að vísu svo að sér fyndist að það ætti að afgreiða málin úr nefnd og fella þau. Á það var svo bent hér af hv. 1. þm. Vestf. að þetta hlyti að hafa verið mismæli og ég er sannfærður um að svo var. Atriðið er að málin fái afgreiðslu í nefnd. Ég leyfi mér að segja að þá ég gegndi formennsku í nefndum hér á Alþingi hafði ég það fyrir reglu að vinna málin og koma með niðurstöðu til afgreiðslu í þinginu. Ég kom með tillögur um að fella að sjálfsögðu ef það var mitt mat að það skyldi gert. En þær tillögur sem ég taldi rétt að gengju fram, með þeim var mælt o.s.frv. Þetta er að mínum dómi skylda nefndanna og forsetar í þingi eiga að fylgja þessu eftir. Til hvers er verið að hafa, samkvæmt þingsköpum, vinnunefnd í þinginu, sem er forsetar og formenn nefnda, nema til að keyra málin áfram? Og ég segi: Ef það frv. sem ég vék hér að, 4. mál þessa þings, hefði fengið umfjöllun í nefndinni og hefði komið hér til umræðu í þinginu værum við e.t.v. ekkert í þessum umræðum hér í dag. Þá væru menn búnir að koma sér niður á með hvaða hætti eðlilegast væri að hafa samræmda stjórnun á umhverfismálum og þyrftu þar af leiðandi ekki að vera í þessum umræðum.
    Það sem hæstv. hagstofuráðherra sagði í gær, að sér fyndist eðlilegt eða ekki væri óeðlilegt að þessi tvö frumvörp fylgdust að og þess vegna væri hægt að láta það frv. sem hér er til umræðu bíða í Ed. þar til hitt frv., 128. mál þingsins, væri komið þangað og þessi frumvörp færu samhliða út. Þetta eru eins og ég sagði áðan engin vinnubrögð, ekki nein. Við skulum hugsa okkar að það væri enginn meiri hluti fyrir þessu frv. á þingi og við skulum hugsa okkur að Ed. Alþingis samþykkti frv. um umhverfisráðuneyti og við lykjum þessi þingi þannig að búið væri að breyta stjórnlögunum, það væri búið að setja þar inn að til skyldi verða ráðuneyti umhverfismála án þess að hafa nokkur verkefni, hvað þá? Þá koma menn upp og

segja: Þá breytum við bara reglugerðinni. Reglugerð, sem nánast er unnin eftir þeirri löggjöf, eftir því hvar hver málaflokkur er vistaður í ráðuneyti. Og við skulum gera okkur grein fyrir því að við höfum ekki fyrir löngu síðan breytt hér lögum og ef hæstv. hagstofuráðherra hefur ekki kynnt sér með hvaða hætti það var gert. Það var að vísu ekki verið að stofna ráðuneyti og einmitt þess vegna kannski frekar hægt að meta málin.
    Í sáttmála ríkisstjórnarinnar árið 1983 hafði verið samþykkt að allir bankar skyldu heyra undir viðskrn. Áður fyrr var það svo að Búnaðarbankinn heyrði undir landbrn. og Iðnaðarbankinn undir iðnrn. Hvernig var staðið að þessum hlutum? Það var staðið þannig að þessum hlutum að fyrst breyttu menn lögunum um Búnaðarbankann og Iðnaðarbankann. Þegar þeim lögum hafði verið breytt var reglugerð Stjórnarráðs Íslands breytt þannig að í staðinn fyrir að í reglugerðinni stóð að þessir bankar heyrðu annar til landbrn. og hinn iðnrn. heyrðu allir bankar undir viðskrn. Þetta eru þau vinnubrögð sem á að viðhafa og það hvarflaði aldrei að neinum á þessum tíma að forsrh. gæti breytt reglugerðinni til þess að efna stjórnarsáttmálann, og fært þessa tvo banka undir viðskrn. Það hvarflaði ekki að neinum manni og allra síst þeim sem áttu hlut að máli en þannig var að ég gegndi embætti viðskrh. þegar þessir hlutir voru að gerast. Þetta er enn eitt atriðið, herra forseti, sem sýnir hvers konar vinnubrögðum er beitt þegar á að fara að breyta stjórnlögum Íslands, stofna umhverfisráðuneyti.
    Ég ætla ekki að þessu sinni, herra forseti, að fjölyrða um þær umsagnir sem lagðar hafa verið fram í hv. allshn., þeirra fjölmörgu, en mun e.t.v. gera það síðar. Fyrir mér er það stærsta atriðið að við göngum ekki til breytinga á stjórnlögum Íslands með þeim hætti sem hér er lagt til. Það er hægt að lesa nál. hv. allshn. þar sem sagt er: ,,Flestir eru sammála um að bæta þurfi yfirstjórn umhverfismála hérlendis, en greinir á um leiðir að því markmiði.`` Þ.e. flestir eru sammála og flesta, skv. þessu, greinir á um leiðina að því markmiði. Samt sem áður á að byrja á því að breyta stjórnlögum Íslands til þess að fullnægja samkomulagi sem ríkisstjórnin hefur gert við þingmenn Borgfl. hér á Alþingi til að ríkisstjórnin gæti talið sig hafa þann meiri hluta sem hún þarf til þess að starfa. Niðurstaða nefndarinnar, þegar þessi eina setning er lesin sem röksemdafærsla, er að flestir eru sammála um að bæta þurfi yfirstjórnina. Sjálfstæðismenn hafa lagt hér til frv. um samræmda yfirstjórn og samræmda stjórn. En svo kemur að flesta greinir á um þau markmið. Þegar meiri hluti nefndarinnar hefur skoðað þetta bæta þeir við: ,,Meiri hl. nefndarinnar telur rétt að stofnað verði sjálfstætt umhverfisráðuneyti,,, --- ég átta mig nú ekki á því hver er munurinn á sjálfstæðu og ósjálfstæðu en látum það vera --- ,,þar sem víðtæk samstaða er um slíka ákvörðun.`` Flestir eru sammála um að bæta þurfi yfirstjórnina. Flesta greinir á um leiðir að því markmiði. Samt leggur nefndin til að stofnað verði

ráðuneyti þar sem víðtæk samstaða sé um slíka ákvörðun. Einhverjir hafa heyrt
öfugmælavísur. (Gripið fram í.) Ekki skal ég meta það en ég veit að hv. þm. er glöggur á hluti og ( GHG: Fyrrv. heilbrrh.) já, fyrrv. heilbrrh., alveg hárrétt þannig að við látum þar við sitja með skýringu á því sem hér er skrifað.
    En eins og ég sagði, ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri, herra forseti. Ég áskil mér hins vegar rétt þegar ég er búinn að hlusta á hæstv. forsrh. og hæstv. ráðherra Hagstofunnar sem væntanlega á að verða hæstv. umhverfisráðherra. En eins og hér hefur komið fram er hann farinn að tilkynna það á opinberum vettvangi og ákaflega skemmtileg skýringin sem kom fram hvers vegna hann tilkynnti sig sem umhverfisráðherra. Hún var ósköp einföld. Það var vegna þess að það var erfiðara að skýra það út hvers vegna hann var ekki umhverfisráðherra.