Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 06. febrúar 1990


     Matthías Bjarnason:
    Herra forseti. Ég held að enginn deili um það að brýn nauðsyn sé á því að endurskoða lög um Stjórnarráð Íslands og gera þar veigamiklar breytingar. Hér hefur verið mikið rætt um lögin um Stjórnarráðið og sömuleiðis hafa menn haldið því mjög á lofti að nauðsynlegt sé að færa stjórnkerfið saman, fækka ráðuneytum og draga úr kostnaði við yfirstjórn landsins. En það er öðruvísi farið að í framkvæmdinni.
    Vitaskuld átti ríkisstjórnin ekki að fela stjórnarsinnum eingöngu þessa endurskoðun. Hér er um málefni að ræða sem bæði stjórn og stjórnarandstaða, þ.e. þingið í heild á að búa við og þá vonandi um langa framtíð. Því er nauðsynlegt að leita leiða til þess að ná samkomulagi um þær breytingar sem þar er nauðsynlegt að gera. Því er lýst yfir, m.a. af ráðherrum í ríkisstjórninni, að það sé nauðsynlegt að fækka ráðuneytum. Meira að segja hefur enginn tekið meira upp í sig, aldrei slíku vant, en hæstv. utanrrh. sem ræddi þetta veigamikla mál á fundi í Vestmannaeyjum fyrir skömmu síðan. Hann ætlaði aldeilis, sá kraftakarl, að skera ráðuneytin niður langt umfram það sem þessi stjórnskipaða nefnd leggur til.
    Ég þori að fullyrða að Sjálfstfl. var reiðubúinn til að standa að veigamiklum breytingum á þessari löggjöf í þá veru að fækka, helst um 3--4 ráðuneyti. Svo eigum við að standa uppi með það að fjölga hér um eitt ráðuneyti. Allt annað er látið bíða. Um þetta er ágreiningur. Svo kemur aftur: Af hverju hefur ríkisstjórnin komið sér í þessa óþægilegu stöðu? Þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar sem mynduð var í september 1987 tekur við hefur hún 32 þingmenn að baki sér. Fleiri vildu nú ekki viðurkenna barnið. Þá skipta þessir þrír flokkar með sér tíu ráðherrum. Þrír, þrír og fjórir og við þá breytingu sem gerð var, að taka inn einn flokk til viðbótar, gerist vitaskuld ekkert annað en það að Framsfl., forustuflokkurinn í ríkisstjórninni
sem var og þeirri sem nú er, gefur eftir eitt ráðuneyti og Hagstofuna, það mikla verkefni. En hinir flokkarnir tveir, Alþfl. og Alþb., gefa ekkert eftir. Og það er auðvitað grátlegt til þess að hugsa að flokkurinn sem kemur inn, hinn svonefndi Borgfl., skuli láta sér lynda að formaður hans verði gerður að ráðherra yfir Hagstofunni. Ég fullyrði að það er ekki meira verk að vera hagstofuráðherra en var hjá mér að vera ráðherra yfir Veðurstofunni í samgrn. Ég er viss um að hún tók ekki nema hálftíma á mánuði ef hún náði því og það er ekki meira verk að vera hagstofuráðherra eins og Hagstofunni er stjórnað og hún er skipulögð og hennar hlutverk er. Svo að þetta er auðvitað að verða að athlægi frammi fyrir þjóðinni. Auðvitað áttu Alþfl. og Alþb. að gefa eftir af sínu líka en ekki koma sér í þessa klípu. Hvernig ætlar hæstv. forsrh. og ríkisstjórnin í heild að verja það frammi fyrir þjóðinni núna, eftir að búið er að gera kjarasamninga með mjög skynsamlegum hætti sem allir góðir Íslendingar

vona að haldi, að auka útgjöld við stjórnkerfið á sama tíma sem þeir tala og fullyrða að það eigi stórlega að spara og bæta úr?
    Nú er talað um að skera niður hina nauðsynlegustu hluti. Einn stjórnarþingmaður kom fram í sjónvarpi í gærkvöldi. Hann hafði nú heldur betur til málanna að leggja. Hann lagði til að hætta allri vegagerð næstu 20 mánuði. Við vitum að hann keyrði á steinsteyptum vegi, en það getur líka komið fyrir að sá vegur lokist eins og í fyrravetur. Þá hugsaði ég að hann mundi telja sjálfsagt að brjóta þessa reglu ef hann þyrfti að fara eitthvað. En svona er nú verið að bjóða upp á og ég segi eins og er: Trúir nokkur maður því að um raunhæfan niðurskurð sé að ræða, að þingmenn stjórnarliðsins, sem koma úr strjálbýlinu þar sem hrópað er á framkvæmdir og neyð er ríkjandi víða, muni sætta sig við svona vinnubrögð?
    Ég vil líka segja: Er ekki óvarkárni í meðferð fjármála? Hvað gerðist hér við lok afgreiðslu fjárlaga? Þá sprettur bara upp einn þingmaður og leggur til að auka heimild í 6. gr. fjárlaga um að kaupa dagblöð, allt að 500 eintök á þessu ári. Það er ætlað að hér sé um að ræða 30 millj. kr. Hvað varðar Alþingi um það þó að einhver dagblöð seljist ekki? Á þá þjóðin að borga það? Hverjir greiddu þessu atkvæði? Stjórnarliðið greiddi þessu atkvæði. Það þurfti ekki að fara neitt til nefndar með þetta.
    Ég get svona til gamans upplýst það að styrkur til blaðaútgáfu, framreiknaður á verðlagi þessa árs, nam árið 1978 16 millj. 778 þús. kr., en hann var í reikningum ársins 1989 83,5 millj. og verður, ef ekki verður breyting á, samkvæmt fjárlögum þessa árs hvorki meira eða minna en 132 millj. 140 þús. kr. Hann hefur sem sagt hækkað, á sama verðlagi, úr 16,8 millj. í 132,2 millj. Þetta eru nú hressilegar hækkanir og það er von að menn tali mikið um aðhaldsaðgerðir og að það þurfi að spara þetta eða hitt.
    Það er hreinn misskilningur sem hefur komið fram að Sjálfstfl. sé eitthvað á móti umhverfisvernd. Við höfum staðið að umhverfisvernd í fjölmörgum tilfellum og það má segja að flestir hafa staðið að því sama. Við teljum hins vegar ekki þörf á því að bæta við sérstöku ráðuneyti í þessu sambandi. Það er nauðsyn á því að samræma betur vinnubrögð. Ég er hins vegar ekki búinn að sjá að ýmsum
málum sé betur borgið undir stjórn einhvers nýs umhverfismálaráðuneytis en þeim er nú í höndum hinna ýmsu stofnana, og það er ekki hægt að taka verkefni frá þessum stofnunum þó að komi hér eitt orð inn í stjórnarráðslögin, ,,umhverfisráðuneyti``. Alþingi hefur samþykkt fjölmörg lög um það að ákveðnar stofnanir eigi að hafa með tiltekna þætti umhverfismála að gera. Þau lög gilda alveg jafnt þó að þessu eina orði sé bætt inn í stjórnarráðslögin og því verður ekki breytt með reglugerð og tekin verkefni frá öðrum stofnunum sem hafa þau lögum samkvæmt. Það vita lögfræðingar og meira að segja verkfræðingar.
    Nú stöndum við frammi fyrir því að ríkisfjármálin

eru í ólestri. Það voru afgreidd fjárlög með verulegum halla en þó með minni halla en hægt var þá að sýna fram á því að í fjárlögunum fólust verulegar blekkingar, eins og kom ljóst fram t.d. í ræðum forsvarsmanns Sjálfstfl. í fjvn., Pálma Jónssonar, og hann skýrði hér skilmerkilega frá áður en afgreiðsla fjárlaga fór fram. En nú er aftur sagt að kjarasamningarnir geri þetta, þeir skekki fjárlögin svo mikið. Auðvitað hagnaðist enginn einn aðili meira á þessum skynsamlegu kjarasamningum en ríkissjóður. Ef hér hefðu komið verðbólgusamningar hefði verið enn meiri þörf á auknu fjármagni hjá ríkinu. Ég skil ekki í því að ríkisstjórnin skuli ekki gá að sér. Það er enn þá tími til að gefa formanni Borgfl. eitthvert ráðuneyti. Þeir verða að draga svolítið úr, Alþb. og Alþfl. Það er varla við því að búast að flokkur forsrh. gefi eftir meira en hann er þegar búinn að gefa eftir. Það væri nær að standa að slíkum vinnubrögðum til þess að fullnægja Borgfl. með komu hans í ríkisstjórn. Þar var óbilgirnin hjá þessum flokkum og það er alveg sjáanlegt að það á ekki að taka þetta neitt upp. En hvernig ætlar ríkisstjórnin að réttlæta það fyrir þjóðinni á sama tíma og uppi eru áform um stórfelldan niðurskurð? Það liggur ljóst fyrir að gífurlegur halli er á rekstri ríkisins. Hvernig ætlar hún að verja tugmilljóna ný útgjöld í sjálft stjórnkerfið án þess að draga nokkurs staðar úr? Það er verið að bæta við. Ég spyr: Hvað á svo að ráða marga menn í þetta umhverfisráðuneyti þegar þetta frv. stjórnarliðsins er orðið að veruleika? Hvar eru þá sparsemdarmennirnir allir? Það er ýmislegt sem má draga úr, er auðvelt að draga úr, ef menn vilja, en þetta sýnir vitaskuld algjört kæruleysi stjórnarherranna um meðferð á peningamálum á sama tíma og þeir eru að leggja sífellt nýja skatta á þjóðfélagsþegnana eins og glöggt kom nú fram í desembermánuði sl. og engin svör liggja enn þá fyrir um það hvort eigi að halda því verki áfram því að ákveðin frv. hafa legið allan þennan tíma fyrir nefndum í þingi. Og hver kemur til með að trúa á slíka stjórn sem þannig hagar sér?
    Finnst ríkisstjórninni ekki vera kominn tími til að hugleiða betur sínar gerðir? Sér hún ekki og finnur hvernig andrúmsloftið er í þjóðfélaginu gagnvart ríkisstjórninni? Og af hverju er það svona? Ríkisstjórnin nýtur sáralítils trausts. Við getum deilt um það hvort skoðanakannanir séu alveg réttar, en við verðum að taka mið af þeim. Eitt er víst að maður heyrir ekki menn, þó að þeir séu harðir flokksmenn í einhverjum þessara stjórnarflokka, mæla ríkisstjórninni lengur bót. Þá er orðið meira en lítið að þegar svo er komið málum. Hvers vegna vill nú ekki ríkisstjórnin hugsa aðeins og þá líka þingmeirihlutinn? Meira að segja nefndarmenn í allshn. Nd. mættu líka fara að hugsa um það að þetta gengur ekki, að halda áfram á þessari braut. Við eigum að geta verið samherjar, bæði stjórn og stjórnarandstaða, í því að minnka kostnaðinn við stjórnkerfið. Þar ættum við að ná saman og sýna það að þessi stjórn meinar það að í samræmi við það sem hún ætlar almenningi að gera, að almenningur sætti sig við tiltölulega minni fjárráð

en áður, þá verður hún líka að sýna fólkinu í landinu að hún ætlar ekki að láta sitt eftir liggja í gætilegri meðferð fjármála. En ef hún ætlar að vera svo kolrugluð sem útlit er fyrir á hún auðvitað að halda áfram með þetta frv. og gera það sem allra fyrst að lögum. En þá situr hún uppi með það að vera kolrugluð og þá situr hún uppi með það að hræðslan í stjórnarliðinu heldur áfram að aukast. Sjáið þið ekki hræðsluna núna fram undan? Sumir stjórnarflokkarnir þora ekki orðið að bjóða fram í sveitarstjórnarkosningum nema undir einhverju öðru nafni. Þeir eru búnir að breiða yfir nafn og númer eins og gamlir landhelgisbrjótar gerðu hér fyrr á árum. Þeir eru komnir með strigatusku fyrir nafnið á flokki sínum. Af hverju er þetta? Þetta er bara vegna hræðslu, hræðslunnar einnar. Þetta er annað hræðslubandalag sem nú á sér stað. Það er það sem er að gerast. Kannski geta sumir sagt: Ja, eigum við nokkuð að vera að hafa áhrif á þessa sjálfsmorðssveit sem nú fer þessa braut? Jú, ég vil bara alls ekki að ýmsir flokkar í þessu landi leggist niður þó að þeir hafi verið andstæðingaflokkar mínir. Ég tel að flestir eða allir stjórnmálaflokkar, alvöru stjórnmálaflokkar, eigi rétt á sér og starf þeirra og starfsemi sé nauðsynlegt í þingræðis- og lýðræðislandi. Ég vara hæstv. ríkisstjórn hins vegar við að halda áfram á þessari braut. Ég er fullur samúðar með hagstofuráðherranum, að hann sem formaður í einum stjórnarflokki á að fá ráðuneyti, alvöru ráðuneyti. Og þeir áttu að tala almennilega um þetta sín á milli en ekki halda dauðahaldi í það sem þeir einu sinni hafa fengið eins og hundur á beini. Þarna hefði
forsrh. átt að taka á honum stóra sínum. Hann er mikill aflraunamaður og handlangari, eins og allir vita.
    Það er auðvitað ykkar innan stjórnarliðsins, hvort þið ætlið að halda þessu áfram, þessari vitleysu, að halda áfram að misbjóða þjóðinni. Það er nú gaman að sjá nýjan bankaráðsformann í Búnaðarbankanum. Ég vona að hann haldi betur á fjármálum Búnaðarbankans en ríkisstjórnin heldur á fjármálum þjóðarinnar og ég vænti þess að enn þá sé tími til þess að sjá að sér og hætta við þessa vitleysu, taka upp samstarf um breytingar á stjórnarráðslögunum sem er auðvelt að fá samstarf um ef menn vilja. Það er hins vegar ekki sök þeirra sem vara við glapræðinu, heldur hinna sem fremja glapræðið þrátt fyrir aðvaranir.