Tilkynning frá forsætisráðherra um kjarasamninga
Þriðjudaginn 06. febrúar 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Eftir þá mikilvægu kjarasamninga sem nú hafa verið gerðir þykir mér rétt að gera Alþingi grein fyrir meginatriðum sem þeim tengjast og ekki síst því sem Alþingi þarf fljótlega að fjalla um. Ég vil taka undir með þeim sem réttilega segja að brotið sé blað með þessum kjarasamningum. Með þeim á að skapast grundvöllur til að færa efnahagslíf hér allt í betra lag en verið hefur lengi en margt þarf til að það takist. Margir þurfa þar að leggja sitt til þeirra mála. Og vissulega er það svo að þessir kjarasamningar tókust vegna þess að fjölmargir aðilar lögðu mikið til mála. Það gerðu launþegar, það gerðu atvinnurekendur, það gerðu bændur, það gerðu viðskiptabankarnir og það mun ríkissjóður þurfa að gera. Loks eru þessir kjarasamningar gerðir á grundvelli í þjóðarbúskapnum sem tekið hefur allmarga mánuði, um 14 mánuði að skapa skref fyrir skref.
    Ég tel rétt að byrja með því að fara yfir nokkur meginatriði kjarasamninganna. Ég skal ekki lengja mál mitt með því að rekja þá í
smáatriðum, en rétt er að geta þess í fyrstu að launahækkanir á árinu 1990 eru að mati Þjóðhagsstofnunar samtals 5,5% þegar láglaunabætur eru teknar með í reikninginn. Þessar launahækkanir eru 1. febrúar 1,5%, 1. júní 1,5% og 1. desember 2%. Jafnframt er hér ítarlegur kafli, 3. gr., um launabætur sem eru fyrst og fremst til láglaunafólks og ég mun ekki rekja. En samningarnir eru í grundvallaratriðum gerðir til 1. sept. 1991 og þá er gert ráð fyrir hækkun 1. mars 1991 um 2,5% og 1. júní 1991 um 2%.
    Í kjarasamningum þessum er gert ráð fyrir launanefnd sem er ætlað að hitta ýmsa embættismenn sem að efnahagsmálum starfa, formann bankastjórnar Seðlabankans, forstöðumann Þjóðhagssstofnunar, hagstofustjóra og hagsýslustjóra. Er nefndinni, ásamt þessum mönnum, ætlað að fylgjast mjög náið með allri þróun efnahagsmála og sérstaklega hvernig þær forsendur, sem settar eru fyrir samningunum, breytast á gildistíma þeirra. Það eru uppsagnarákvæði í samningunum og þau eru í maí og september 1990 og maí 1991 ef samkomulag verður ekki eða ef ákveðnar forsendur hafa brugðist frá því sem lagt er til grundvallar í þessum samningum. Um það er ítarlega fjallað í 8. gr. samningsins. En meginendurskoðun samningsforsendna er ráðgerð í nóvembermánuði 1990 og um hana segir, með leyfi forseta:
    ,,Við endurmat á forsendum skulu aðilar leggja til grundvallar upplýsingar um þróun og horfur um viðskiptakjör svo og mat á þróun útflutningstekna og landsframleiðslu á mann fyrir komandi ár. Kaupmáttarþróun og samhengi þessara þátta við forsendur kjarasamningsins`` og er það síðan nokkuð nánar rakið. Þá er einnig heimild til að segja upp samningnum.
    Í 10. gr. samningsins eru raktar forsendur sem nauðsynlegt er að hafa í huga. Þar eru fyrst og fremst raktar forsendur um viðskiptakjör þjóðarinnar eins og

líklegt er talið að þau þróist frá janúar 1990 til júlí 1991. Er þá gert ráð fyrir því að þau batni á þessu tímabili um 5%. Þar er einnig forsendan um landsframleiðslu á árinu 1991 og segir að hún verði sú sama og á árinu 1990, a.m.k. sú sama, þ.e. á árinu 1991 verði ekki samdráttur eins og spáð er nú í ár með landsframleiðsluna. Þá er lagt til grundvallar að gengi krónunnar verði stöðugt á samningstímanum, enda standist forsendur samningsins um launa- og verðlagsbreytingar. Þarna er vitanlega hvað háð öðru. Verðlagsbreytingar eru háðar gengi og samningurinn háður verðlagsbreytingum þannig að þetta er vitanlega allt meira og minna samtvinnað.
    Þá er í fjórða lagi gert ráð fyrir því að nafnvaxtalækkun verði nýtt í atvinnurekstrinum til að mæta upphafshækkun launa eða með öðrum orðum, atvinnurekendur fái með nafnvaxtalækkuninni svigrúm til að mæta þeim kostnaðarauka sem af launahækkununum leiðir. Þá er gert ráð fyrir því að verð á búvöru verði óbreytt til 1. des. 1990 og mun ég koma nánar að því síðar.
    Einnig eru lagðar til grundvallar þær upplýsingar sem ríkisstjórnin lagði fyrir samningamenn um þær hækkanir sem ráðgerðar eru á opinberri þjónustu og allri skattheimtu ríkissjóðs sem ég mun rekja hér á eftir og fram tekið að þær verði í samræmi við minnisblað fjmrn. frá 28. jan. 1990. Það mun ég rekja nánar. Síðan er fyrirvari um framfærsluvísitölu og er sá fyrirvari frá maí til maí, þ.e. maí 1990 til maí 1991. Miðað er við 1990 144,5 og í maí 1991 150,7 sem mun vera um það bil 4,5% hækkun á því tímabili. Lagt er fram, einnig sem forsenda samninganna, bréf Sambands ísl. viðskiptabanka til samningsaðila dags. 28. jan. 1990 um vaxtalækkun sem ég mun einnig nefna nánar síðar.
    Þá er afar mikilvægt atriði, 9. atriðið, þar sem segir: Launaþróun annarra verði sú sama og gert er ráð fyrir í samningi þessum. Þetta er með öðrum orðum fyrirvari af hálfu samningsaðila um að laun annarra hækki ekki umfram það sem gert er í þessum samningi. Og í síðasta lagi, tíunda lagi, er vísað til þeirra yfirlýsinga sem samningsaðilar fengu frá ríkisstjórninni og ég mun rekja nánar hér á eftir.
    Ég sé ekki ástæðu til, virðulegi forseti, að fara hér yfir ýmsar bókanir o.s.frv. en taldi nauðsynlegt að nefna þessi meginatriði samningsins og ekki
síst fyrirvarana til að undirstrika að þeir eru margir og þar eru víða hættur á vegi ef ekki er aðgát höfð á öllum sviðum. Augljóst er að á samningstímanum verður að gæta vel að þróun mála hér á landi.
    Ég sagði áðan að eitt mikilvægt atriði til að samninga þessa mætti gera væri að sjálfsögðu það ástand sem orðið er í efnahagsmálum eftir að efnahagsgrundvöllurinn hefur verið lagfærður skref yfir skref frá því í september 1988. Á formlegum fundi með samningsaðilum, bæði með vinnuveitendum og einnig með Alþýðusambandinu og BSRB var þetta ítarlega rætt. Þá var það staðfest af þessum aðilum að þeir teldu nú vera það borð fyrir báru að unnt væri að gera samninga sem leiddu til verulegrar hjöðnunar

verðbólgu. Í þessu sambandi vil ég minna á að á árinu 1989 er talið að afgangur verði af vöruskiptum við útlönd upp á 6--7 milljarða kr. og er það mikil breyting frá fyrra ári eða fyrri árum. Viðskiptahallinn 1989 mun einnig fara verulega minnkandi, líklega niður í 2% þrátt fyrir miklar vaxtagreiðslur og háa vexti erlendis og nokkra aukningu í erlendum lánum. Til samanburðar má geta þess að 1987 var viðskiptahallinn 3,5% og reyndar var halli árið 1987 upp á tvo milljarða á vöruskiptum. Það er fróðlegt að gera sér grein fyrir því að meðaltal viðskiptahalla síðustu fjóra áratugina er á bilinu 3,5--4% af landsframleiðslu þannig að hann hefur venjulega verið meiri.
    Rekstrarskilyrði útflutningsatvinnuveganna hafa sömuleiðis gerbreyst. Að mati samtaka fiskvinnslunnar var rekstrarhallinn á árinu 1988 9,5%. Þjóðhagsstofnun taldi hann hins vegar vera 5% en ef ekki væri tekið tillit til greiðslu úr Verðjöfnunarsjóði sem var á síðustu mánuðum ársins, þá væri hallinn 7%. Nú telur Þjóðhagsstofnun að jöfnuður sé í afkomu fiskvinnslunnar, hún sé rétt um núllið. Ég hef hér undir höndum ítarlegri greinargerð þar sem þetta er metið og er þar tekið fram að í þessu mati er ekki komið inn á áhrif virðisaukaskattsins sem Þjóðhagsstofnun telur að eigi að vera um 2--2,5% til batnaðar fyrir fiskvinnsluna og er það í samræmi við það mat sem lagt hefur verið til grundvallar í endurgreiðslu á söluskatti. Ekki eru heldur nema að hluta komnar þarna inn verðhækkanir sem talið er mjög líklegt að verði erlendis. Þær voru komnar nokkuð inn á síðustu mánuðum síðasta árs og nú um áramótin, en flestir telja að þær séu eitthvað meiri fram undan. Þarna er búið að taka tillit til þess að dregur saman í afla um a.m.k. 10% í framleiðslu á landfrystum freðfiski, þ.e. vegna minni afla en á árinu 1988, minni framleiðsla á humri er áætluð 15% og framleiðsla á frystri loðnu og loðnuhrognum er áætluð svipuð og á árinu 1989. Ég ætla að geta þess jafnframt að ekki er gert ráð fyrir neinum greiðslum úr Verðjöfnunarsjóði í þessu áliti Þjóðhagsstofnunar sem er frá 23. jan.
    Nánar sundurgreint er talið að afkoma frystingar sé rétt fyrir ofan núllið, 0,8 í plús en afkoma söltunar í mínus 2,5 og heildarafkoman rétt um núllið eða --0,4. Eru þá ekki komnir inn þessir ýmsu liðir sem ég rakti áðan. Mikilvægast í þessu sambandi er þó að sjálfsögðu það að atvinnurekendur sjálfir hafa samið um þann fyrirvara í því sem ég las upp þaðan, að ekki skuli koma til breytingar á gengi á þessu ári og hafa lýst því yfir að þeir telji nú, eins og staðan er orðin, borð fyrir báru til að gera slíka samninga. Þeir hafa jafnframt tekið tillit til þess sem vænta má í verðhækkunum erlendis og hagsbótum af vaxtalækkun og minni verðbólgu.
    Það er tvímælalaust svo að sá grundvöllur sem tekist hefur að skapa hefur gert kleift að gera þessa samninga. En til þessara samninga hafa mjög margir lagt. Launþegar hafa lagt ríkulega af mörkum. Launþegar sætta sig við þá kaupmáttarskerðingu sem

varð á síðasta ári og var óhjákvæmileg að sjálfsögðu með minnkandi þjóðarframleiðslu og getur verið af stærðargráðunni 8--9%. Launþegar endurheimta ekki þá kaupmáttarskerðingu á því ári sem nú er hafið og reyndar má gera ráð fyrir að kaupmátturinn lækki eitthvað á þessu ári, líklega um svona 0,5% að meðaltali en hins vegar er gert ráð fyrir því að sá kaupmáttur endurheimtist á árinu 1991.
    Ég hef þegar komið nokkuð að framlagi atvinnuveganna sem hafa fallist á óbreytt gengi og skal ég ekki fara fleiri orðum um það. Óvenjulegt við þessa samninga er það að bændur eru nú aðilar að samningunum og hafa lagt mjög mikið af mörkum. Mér sýnist að það kunni jafnvel að vera vanmetið þegar um samningana hefur verið rætt. Bændur samþykkja í fyrsta lagi að engin breyting verði á verði til framleiðenda fram til 1. sept. 1990, þ.e. það er fyrirvaralaust til þess tíma nema bændur setja tvö skilyrði: Í fyrsta lagi að verð á áburði hækki ekki umfram 12% og í öðru lagi að breytt verði álagningarreglum fasteignagjalds þannig að grundvöllur fasteignagjaldsins í sveitum, á útihúsum einkum, verði sá sami og hann var á síðasta ári. Kemur það nánar fram í því sem ég mun rekja hér á eftir. Bændur hafa bent réttilega á það að 3% af launum þeirra á þessu verðlagsári sauðfjárafurða, þ.e. sauðfjárbændur, er nú greitt með niðurgreiðslufé beint til bænda. Það er ekki komið inn í verðlagið og þegar nýtt verðlagsár hefst 1. sept. verður að taka ákvörðun um það hvort áfram verður greitt með niðurgreiðslufé eða tekið inn í verðlagið. Að því tilskildu er um samið eins og ég las áðan að verð
landbúnaðarafurða verði óbreytt til 1. des. 1990.
    Viðskiptabankarnir féllust á að lækka þegar nafnvexti úr 29% niður í 22%, þ.e. um 7%. Þeir rituðu jafnframt viðskrh. bréf og fóru fram á að sett yrði á fót nefnd til að fjalla um afkomu bankanna miðað við minni verðbólgu en verið hefur og hvernig þeir geti staðið við þá skuldbindingu sína að fylgja verðbólgunni með nafnvexti niður. Þarna kemur að sjálfsögðu fram sú staðreynd að vaxtamunur er mjög mikill í íslensku bankakerfi og ég held að óhætt sé að orða það svo að þeir lenda í vandræðum með mikinn vaxtamun við mjög litla verðbólgu, þ.e. til þess að innlánsvextir verði ekki neikvæðir. Viðskrh. hefur þegar skipað þessa nefnd með fulltrúum frá bönkunum og einum frá viðskrn. og mun þar fjallað um það á hvern máta megi ná hagræðingu í bankakerfinu. Ég vil taka það fram strax að báðir aðilar leggja áherslu á raunvaxtalækkun einnig og hefur ríkisstjórnin skuldbundið sig til þess að stuðla að því eins og hún framast getur. Ég tel að það hljóti ekki síst að koma fram í minni vaxtamun viðskiptabankanna sem, eins og ég sagði áðan, er hér allt of mikill.
    Ríkissjóður leggur um 1200--1300 millj. til þessara mála en ég gat um það áðan, og kom reyndar fram í samningunum, að til grundvallar er lagt minnisblað um forsendur fjárlaga um gjaldskrárhækkanir og tekjuöflun ríkisins frá 28. jan. 1990. Mér þykir nauðsynlegt vegna umræðu sem orðið hefur um það

m.a. í fjölmiðlum að þær upplýsingar komi hér fram og um þær sé ekki neinn misskilningur. Ætla ég því, með leyfi forseta, að fara yfir helstu forsendur fjárlaga um hækkanir á gjaldskrám B-hluta stofnana árið 1990 og sömuleiðis um hækkanir á sköttum. Aðilum vinnumarkaðarins var afhent þetta eins og komið hefur fram.
    Í forsendum fjárlaga um hækkanir á gjaldskrám B-hluta stofnana árið 1990 er gert ráð fyrir því að Ríkisútvarpið, hljóðvarp og sjónvarp hækki um 3% 1. júlí og 3% 1. okt. og eru verðlagsáhrif ætluð um 0,05% á framfærsluvísitölu. Þetta á að gefa tekjur til Ríkisútvarpsins um 100 millj. Þá er gert ráð fyrir því að Áburðarverksmiðja ríkisins hækki 1. maí áburðarverð um 12%. Það þýðir 0,1 áhrif á framfærsluvísitölu og 140 millj. tekjur fyrir Áburðarverksmiðjuna. Það skal tekið fram að Áburðarverksmiðjan telur þetta ekki nægilega hækkun því að þarna er um hækkun einu sinni á ári að ræða og mikil breyting hefur orðið á gengi frá því í maí í fyrra þegar áburður hækkaði síðast og er ekki ráðið hvernig því verði mætt. Þá er gert ráð fyrir að Póstur og sími hækki 1. febr. um 3%, 1. maí um 3%, 1. ágúst um 3% og þýðir það í verðlagsforsendum 0,15 eða 340 millj. kr. tekjur fyrir Póst og síma. Þá er gert ráð fyrir því að Sementsverksmiðja ríkisins hækki 1. febr. um 4%, 1. maí um 6%, það þýðir 0,1 í verðlagsforsendum og 50 millj. tekjur fyrir Sementsverksmiðjuna. Um Rafmagnsveitur ríkisins er það að segja að þar hefur ekki verið talin þörf á hækkun haldist gjaldskrá Landsvirkjunar óbreytt og við skulum vona að svo geti orðið.
    Ég vil jafnframt taka fram að allar þessar hækkanir eru mjög niðurskornar frá því sem var þegar fjárlagafrv. var lagt fram og ríkisstjórnin telur að þarna sé farið út á ystu nöf í sambandi við afkomu þessara stofnana sem fyrirtækja.
    Forsendur fjárlaga um hækkun á sköttum árið 1990 sem afhentar voru að sjálfsögðu einnig eru bensíngjald 1. apríl upp á 5% og 1. ágúst upp á 6% sem þýðir 0,2% áhrif á framfærsluvísitölu og 190 millj. kr. tekjur. Þá er gert ráð fyrir hækkun á þungaskatti upp á 9% 1. júlí sem þýðir 0,1 í framfærsluvísitölu og 110 millj. í tekjur, hækkun á bifreiðagjaldi 1. mars um 83% og 1. júlí um 8% sem þýðir 0,3 í framfærsluvísitölu, 650 millj. í tekjur. Þá hefur verið gert ráð fyrir því að áfengi og tóbak hækki með framfærsluvísitölu eins og verið hefur með verðlagi á þriggja mánaða fresti og geti þýtt um 0,3--0,4 í verðlagsáhrifum, 200--300 millj. eftir því hvernig verðlag þróast. Þá er gert ráð fyrir, og er á þessu blaði að sjálfsögðu einnig, tekjuskatti á orkufyrirtækjum upp á 250 millj. sem hefur ekki verið metið til áhrifa á verðlag. Þetta taldi ég, virðulegi forseti, að rétt væri að kæmi hér fram því að sá misskilningur virðist ríkja að í samningunum felist að frá þessum forsendum fjárlaga og þessum hækkunum sé fallið. Það er alls ekki. Það er hins vegar eins og kemur fram í þeim bréfum sem ég fyrir hönd ríkisstjórnarinnar hef ritað gert ráð fyrir að draga úr

hækkunum sem nemur 0,3 í framfærsluvísitölu.
    Ég vil þá koma að þeim bréfum sem ég ritaði Alþýðusambandi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands, Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Stéttarsambandi bænda. Ég sé ekki ástæðu til að lesa þau frá orði til orðs heldur fara yfir þau efnislega. Það er í fyrsta lagi fallist á og lýst yfir að ríkisstjórnin sé reiðubúin að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir hækkun á heildsöluverði hefðbundinna búvara til 1. des. 1990, enda standist sú forsenda samkomulags samningsaðila og bænda að verð til framleiðenda hækki ekki á tímabilinu. Í þeirri vinnu sem fór fram í þessu sambandi var áætlað að verja þyrfti 705 millj. kr. umfram fjárlög í niðurgreiðslur í þessu skyni. Rétt er að geta þess að af þeirri upphæð eru 45
millj. kr. sem er lokagreiðsla af þeirri 3% launahækkun sem bændum hefur verið greidd í gegnum niðurgreiðslufé en ekki verðhækkun á sauðfjárafurðum eins og ég nefndi áðan.
    Þá er fallist á að aðilar vinnumarkaðarins, þ.e. ASÍ, VSÍ, VMS og BSRB, eigi aðild að nefnd sem bændur hafa óskað að sett verði á fót til að athuga allan verðmyndunarferil í landbúnaði og gera tillögur um hagræðingu í þeirri framleiðslu. Eftir þessu var leitað við Stéttarsamband bænda í upphafi ársins og var samþykkt af ríkisstjórnarinnar hálfu að verða við þessu og það hefur verið samþykkt að þessir aðilar vinnumarkaðarins tækju þátt í þessu nefndarstarfi. Rétt er að geta þess í þessu sambandi að ASÍ og BSRB hafa jafnframt ákveðið að taka sín sæti í sex manna nefnd landbúnaðarins sem eru satt að segja töluverð tíðindi eftir margra ára fjarveru þaðan.
    Þá er í öðru lagi fallist á að hækka 1. júlí frítekjumark svokallað á greiðslum úr lífeyrissjóðum í 19 þús. kr. og hinn 1. jan. 1991 í 21.500 kr., þ.e. um 5200 kr. í fyrra skiptið og 2500 kr. í seinna skiptið. Jafnframt er tekið fram að ríkisstjórnin mun halda áfram athugun á samræmingu bæði skattlagningar og frítekjumarks allra tekna gagnvart tekjutryggingu almennra trygginga. Það sem veldur vandræðum í þessu sambandi er m.a. það að tekjur af sparifé eru skattfrjálsar og heldur ekki dregnar frá greiðslum úr lífeyrissjóðum. Þarna er því misræmi á sem tvímælalaust þarf að samræma.
    Þá fjallar þriðji liðurinn um greiðsluábyrgð ríkissjóðs við gjaldþrot. Þar er fallist á að breyta því frv. sem hér liggur fyrir þannig að greiðsluábyrgð ríkissjóðs gagnvart lífeyrissjóðum við gjaldþrot fyrirtækja verði í 18 mánuði eins og verið hefur en ríkisstjórnin hafði í huga að fella niður greiðsluábyrgð ríkissjóðs gagnvart lífeyrissjóðum við gjaldþrot. Þó er það skilyrt þannig að enda hafi reynt á innheimtuaðgerðir þar sem krafan hefði mátt vera lífeyrissjóðunum kunn.
    Svo er fallist á að hámark greiðsluábyrgðar vegna launa verði þreföld fjárhæð atvinnuleysisbóta í stað tvöfaldrar og sömuleiðis fallist á að heildarupphæðin verði ekki takmörkuð.

    Þá er í fjórða lagi gert ráð fyrir lækkun framfærsluvísitölu og ríkisstjórnin heitir því að beita sér fyrir því að í febrúar verði dregið úr fyrirhuguðum sköttum og gjöldum eða gjaldskrárbreytingum opinberra fyrirtækja sem svarar 0,3% lækkun á mælikvarða vísitölu framfærslukostnaðarins. Segja má að þarna hafi verið það sem út af gekk í samningunum og var mikið rætt um á lokastigi þeirra. Fulltrúar ASÍ og BSRB töldu sig ekki geta gert slíka samninga með þeirri kaupmáttarminnkun sem þeir fólu í sér, nema til kæmi þetta sem ég hef nú lesið. Ég mun koma nánar að þessu á eftir.
    Þá er fallist á að í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga muni ríkisstjórnin beita sér fyrir endurskoðun á hundraðshluta meðalnýtingar tekjustofna sveitarfélaga sem skilyrði fyrir framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Undan því hefur verið kvartað, ekki síst af atvinnurekendum, að kröfur um að leggja á hámarksálag séu mjög stífar og íþyngi þeim víða mjög á landsbyggðinni, einkum vegna hækkunar á fasteignamati, m.a. húsa í atvinnurekstri o.s.frv. Eftir að samband hefur verið haft við Samband ísl. sveitarfélaga verður sest að þessu og skoðað hvort þarna sé ekki ástæða til að lækka. Hins vegar er nauðsynlegt að leggja á það áherslu að þetta verði gert í samráði við samtök sveitarfélaga því að þarna er vitanlega um tekjumál fyrir sveitarfélögin að ræða.
    Þá er í sjötta lagi fallist á að í endurskoðun á lögum Atvinnuleysistryggingasjóðs sem nú stendur yfir verði kannað með hvaða hætti greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði geti nýst til starfsnáms. Það eru reyndar þegar heimildir í lögum til að nýta greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði til starfsnáms ákveðinna hópa en sjálfsagt að skoða hvort það megi útvíkka eitthvað.
    Þá er fallist á að þeir einstaklingar sem verið hafa atvinnulausir í fjóra mánuði eða lengur á 12 mánaða tímabili fái láglaunabætur greiddar hliðstætt því sem rakið er í samningnum þannig að, eins og komið er fram í fréttum, er um helming af raunverulegum launum og 60 þús. kr. að ræða. Þetta yrði greitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði en það er áætlað að þetta geti verið 6--7 millj. kr. miðað við atvinnuleysi á síðasta ári.
    Þá er staðfest hér það sem ríkisstjórnin hefur ráðgert, að leggja fram á þessu vorþingi frv. það sem legið hefur nokkurn tíma hjá ríkisstofnun um lífeyrissjóði og þess vænst að það geti farið í milliþinganefnd á milli þinga og lögð á það áhersla að frv. um lífeyrissjóði verði samþykkt á næsta þingi. Það er áreiðanlega orðið mjög tímabært. Lífeyrissjóðirnir stefna í mikil vandræði án lagfæringar þar.
    Í áttunda lagi er ákveðið að athuga að réttur íslenskra farmanna til bóta almannatrygginga vegna starfa á skipum á vegum íslenskra skipafélaga sem skráð eru erlendis verði bættur. Þar er brotalöm á sem þarf að skoða.
    Þá er áhersla lögð á það að sú nefnd sem fjallar

um félagslegt húsnæði skili áliti fljótlega og samþykkt að á grundvelli þess nefndarálits verði um það
fjallað hvernig megi leysa brýnustu þörf þeirra sem á félagslegu húsnæði þurfa að halda.
    Þá er því lýst yfir, sem að er unnið, að samræma skuli skattalög fyrirtækja hér á landi þeim sköttum sem gilda í nágrannalöndum okkar. Þetta er vinna sem er í gangi og hefur verið ákveðið að fulltrúar atvinnurekenda komi að. Í ellefta lagi segir svo:
    ,,Svo fljótt sem verða má mun komið á fót aflamiðlun til að stýra útflutningi á óunnum fiski. Í stjórn aflamiðlunar verði fulltrúar hagsmunaaðila í sjávarútvegi.`` Þetta er mjög stórt mál, mjög viðkvæmt mál, mjög erfitt mál og veldur afar mikilli mismunun í tekjum sjómanna við landið og afar nauðsynlegt að það verði leyst. Í þessari samningahrotu náðist svona a.m.k. töluverð samstaða milli hagsmunaaðila um aflamiðlun sem yrði á þeirra eigin vegum. Og á þá að mæta þörf víða um landið fyrir afla og þátttöku jafnframt í þeim útflutningi sem skapar meiri tekjur.
    Síðan vil ég, með leyfi forseta, lesa lokagrein sem dregur nokkuð saman það sem hér hefur verið rekið, þ.e. samstarf til að tryggja árangur samninganna.
    ,,Ríkisstjórnin leggur áherslu á samstarf við aðila vinnumarkaðarins um aðgát á öllum sviðum efnahagsmála til að tryggja eins og unnt er að sá árangur sem að er stefnt með kjarasamningunum náist. Ein mikilvægasta forsenda þess er örugg fjármögnun á fjárþörf ríkissjóðs innan lands. Það mun draga úr skuldasöfnun erlendis, sporna gegn verðbólgu og auka tiltrú almennings á því að varanlegur árangur náist. Í þessu skyni óskar ríkisstjórnin sérstaklega eftir auknum kaupum lífeyrissjóða á spariskírteinum á þessu ári umfram kaup þeirra hjá húsnæðismálastjórn.
    Að óbreyttum rekstrarskilyrðum þjóðarbúsins áformar ríkisstjórnin ekki aðrar breytingar á sköttum og verðlagi opinberrar þjónustu á árinu 1990 en þegar hafa verið kynntar aðilum. Í samræmi við bréf Sambands ísl. viðskiptabanka og Sambands ísl. sparisjóða til ríkisstjórnarinnar mun hún skipa starfshóp til sameiginlegrar athugunar og aðgerða í bankakerfinu og ríkisstjórnarinnar í því skyni að tryggja að vaxtalækkanir til samræmis við hjaðnandi verðbólgu fái staðist til frambúðar. Með slíkum aðgerðum gerir ríkisstjórnin ráð fyrir að lagður verði grunnur að frekari lækkun raunvaxta. Til þess að greiða fyrir að sameiginleg markmið náist mun ríkisstjórnin fela sérstakri nefnd embættismanna að eiga reglulega fundi minnst einu sinni í mánuði með launanefnd ASÍ, VSÍ og VMS. Á fundinum skal fara yfir þróun helstu hagstærða, peningamál og ríkisfjármál og munu aðilar í sameiningu leita leiða til að ná fram því jafnvægi sem nauðsynlegt er til að markmið kjarasamninganna náist.``
    Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja var skrifað mjög áþekkt bréf með flestum sömu atriðum. Þó eru nokkur atriði sem þar koma ekki málum við eðlisins vegna en ég vil sérstaklega geta þess að í bréfi til Bandalags starfsmanna ríkis og bæja er meira fjallað um raunvexti sem bandalagið hefur lagt mjög mikla

áherslu á, kannski enn þá meira en aðrir samningsaðilar, og fallist á að í sambandi við þá vinnu sem fer núna fram verði sérstök áhersla lögð á lækkun raunvaxta. Einnig lagði BSRB ríka áherslu á að unnið yrði að málefnum fatlaðra og er því hér heitið á grundvelli þeirrar víðtæku úttektar sem nú er að ljúka á þörf fjölfatlaðra einstaklinga fyrir sambýli. Á grundvelli þeirrar áætlunar verði brýnustu málefnunum, brýnustu tilfellunum veittur forgangur og það framkvæmt eins fljótt og fjármagn það sem Alþingi veitir leyfir. En sem sagt, aðalatriðið er þetta að ríkisstjórnin mun veita því forgang að leysa brýnasta vanda fatlaðra sem eru á biðlistanum eftir sambýli og hafa sannanlega mikla þörf fyrir vistun skv. mati svæðisstjórna í málefnum fatlaðra og félmrn. segir til um.
    Loks var bændum ritað bréf út af fáeinum atriðum sem eru mikilvæg í þeirra sambandi og snúa að ríkisvaldinu. Ætla ég, með leyfi forseta, að lesa það bréf:
    ,,Með vísan til samkomulags Stéttarsambands bænda og Alþýðusambands Íslands, Vinnuveitendasambandsins og Vinnumálasambands samvinnufélaganna í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og kjarasamning milli BSRB og ríkisins vil ég taka fram eftirfarandi:
    ,,Að höfðu samráði við Samband ísl. sveitarfélaga mun ríkisstjórnin í samræmi við 3. tölul. samkomulags ofangreindra aðila beita sér fyrir lækkun á álagningarstofni fasteignaskatts í sveitum þannig að hann jafngildi fasteignamati. Einnig skal tekið fram að ríkisstjórninni er ljóst að á nýju verðlagsári sauðfjárafurða sem hefst hinn 1. sept. 1990 verður annaðhvort að greiða þann launalið sem samkomulag varð um að greiða af niðurgreiðslufé þann 1. sept. 1989 á sama hátt eða að öðrum kosti að hækka grundvallarverð um 3%. Þá skal staðfest að ríkisstjórnin er reiðubúin að beita sér fyrir nauðsynlegri löggjöf til þess að halda megi búvöruverði óbreyttu fram til 30. nóv. 1990.`` Þar er vísað til þess að lög frá 1985 um búvöruframleiðsluna og fleira gera ráð fyrir sjálfvirkum framreikningi á ýmsum kostnaðarliðum grundvallarins sem Stéttarsamband bænda hefur fallist á að falla frá og gerir það að sjálfsögðu í mati sínu á þeirri hagkvæmni sem bændur fá af vaxtalækkun og minni verðbólgu. Til þess mun þurfa ákvæði til bráðabirgða í þau lög.
    Í því sem hér er fjallað um fasteignamatið, þá kom það nokkuð fram hjá mér áðan að lögð er áhersla á að það verði á sama grundvelli og var, en ekki sá upphækkandi álagningarstofn sem ákveðinn var um þessi áramót.
    Virðulegi forseti. Ég skal nú stytta mitt mál en vil segja örfá orð um tvö þrjú atriði enn þá. Það er í fyrsta lagi það stóra mál, hvernig verður skuldbindingum ríkissjóðs mætt? Ég hef lýst því yfir og fjölmargir aðrir að nauðsynlegt er að mæta þeim útgjöldum sem þarna eru upp á 1200--1300 millj. kr. eins og frekast er unnt með niðurskurði. Ég vil geta þess hér að þegar er hafin mjög mikil vinna að því

máli. Fjmrh. hefur sett upp ýmis dæmi um slíkt og það er nú til athugunar í viðkomandi ráðuneytum og kemur að sjálfsögðu hér fyrir hið háa Alþingi strax og um það hefur verið fjallað ítarlega líka við fjvn. Fjvn. verður að sjálfsögðu kvödd til þeirra starfa alveg á næstunni og síðan þarf Alþingi að leggja blessun sína yfir það eða breyta því sem þar þykir nauðsynlegt.
    Einnig hefur verið skoðað á hvern máta megi ná 0,3% lækkun framfærsluvísitölu. Lögð er áhersla á að það gerist í febrúarmánuði sem er m.a. vegna þess að verðbólga 1. mars getur orðið nokkuð erfið. Áætlað er af Þjóðhagsstofnun að verðbólga þá geti orðið 11,9% á þriggja mánaða grundvelli, fært til heils árs, sem er að vísu ekki mjög hátt en gæti þó valdið einhverjum vandræðum í þessu sambandi ef ekki næst þessi lækkun á framfærsluvísitölu áður. Þau gjöld sem ég las áðan að ráðgert er að leggja á koma flest eða öll til síðar á þessu ári. Þetta þarf því að skoða vandlega, t.d. hvaða tolla, aðflutningsgjöld eða hvaða blöndu af þessu er hægt að ákveða þannig að lækkunin verði fyrir þennan tíma.
    Áhrifin af þessum samningum eru að sjálfsögðu mjög mikil. Þau fela í sér, eins og ég sagði áðan, 5,5% hækkun launa á þessu ári og það er út af fyrir sig minna en við höfum átt að venjast. Þjóðhagsstofnun telur að kaupmáttarskerðing af þessum ástæðum verði lítil á þessu ári og vinnist upp á því næsta. Ef ég hleyp yfir þá töflu sem Þjóðhagsstofnun hefur gert telur Þjóðhagsstofnun að árshraði verðbólgunnar frá upphafi til loka árs 1990 verði 6--7%. Nákvæmari tölur hafa verið birtar, eða um 6,2%, en Þjóðhagsstofnun kýs hér að setja 6--7%, og ferill þessarar verðbólguhjöðnunar er eins og hér segir byggður á þriggja mánaða grundvelli, fært til árs: Janúar, sem við að sjálfsögðu þegar höfum, 17,8%, febrúar 16,2%, mars 11,9%, apríl 11,8%, maí 8,9%, júní 8,2%, júlí 5,8%, ágúst 5,4%, september 4,1%, október 3,3%, nóvember 2,5%, desember 2,3%. Þar er komið ofan í mjög lága tölu sem við Íslendingar höfum ekki átt að venjast og reyndar er fram tekið að afar erfitt sé að meta þær upp á hundraðshluta þegar svo langt er komið.
    Eins og ég sagði áðan telur Þjóðhagsstofnun að kaupmáttur launa minnki mjög lítið eða svona á bilinu 0 til --1 á þessu ári og láglaunabæturnar halda þeim kaupmætti uppi þar sem launin eru lægst. Þjóðhagsstofnun metur að sérstakar kjararáðstafanir af hálfu ríkisvaldsins megi meta til kaupmáttar upp á 0,5 til 1. Útgjöld fyrir ríkissjóð verði 12--1300 millj. Afkoma ríkissjóðs af þessum sökum, þegar umreiknaðar eru bæði tekjur og gjöld, sé mjög nálægt núllinu. Tekjur ríkissjóðs lækka að sjálfsögðu þar sem tekjur hækka ekki eins mikið í þjóðfélaginu og gert hafði verið ráð fyrir og sömuleiðis bæði tollatekjur og tekjur af virðisaukaskatti, en á móti koma að sjálfsögðu minni útgjöld þegar umreiknað er til lægra verðbólgustigs, og án þess að ég fari nánar út í það þá er það mat Þjóðhagsstofnunar að þetta sé mjög nálægt því að vera í jafnvægi.
    Raungengi krónunnar, miðað við laun, áætlar

Þjóðhagsstofnun að verði óbreytt á árinu. Raungengi krónunnar miðað við verðlag áætlar Þjóðhagsstofnun hins vegar að hækki um 2%. Raungengið hefur verið lækkað verulega á undanförnum mánuðum og er nú ívið lægra en að meðaltali á síðasta áratug, er mjög svipað og það var í upphafi ársins 1987. Þjóðhagsstofnun áætlar að viðskiptahalli á næsta ári verði svipaður eða um 2,5. Hins vegar geti orðið afgangur af vöruskiptum.
    Ég þarf svo ekki að rekja það nánar hér að þessu öllu fylgja vitanlega ýmsar hættur. Við erum að halda þarna út á mjög þröngt einstigi og það má lítið út af bera. Ég vek í fyrsta lagi athygli á því að launahækkanir annarra í þjóðfélaginu mega ekki vera umfram það sem hér er gert ráð fyrir og það er sett mikil ábyrgð á alla þá sem eiga eftir að semja um kaup og kjör, að sprengja ekki þessa samninga. Og mér heyrist undirtektir undir þessa saminga vera slíkar að það megi gera ráð fyrir að á þessu verði ríkur skilningur. Það er vitanlega afar nauðsynlegt. Einnig er afar mikilvægt að gæta að því að ekki skapist hér þensla. Því miður eru nokkur merki um þenslu. Fasteignasala hefur m.a. aukist og einhver smávegis aukning, að því er mér er tjáð, orðið í bifreiðasölu og þau gleðilegu tíðindi vissulega að atvinnuleysi er töluvert mikið minna en hafði verið spáð. Það eru rétt rúm 2% í staðinn fyrir nálægt 3--4% sem var spáð í janúar--febrúar. Þetta er vitanlega af hinu góða, en þarna verðum við að læra af reynslunni frá 1986, 1987, 1988 þegar við misstum hér efnahagslíf þjóðarinnar í þenslu og varð það til þess að hér myndaðist mikil þensluverðbólga, launaskrið og fleira.
    Það er afar nauðsynlegt að vextir lækki eins og ráð er fyrir gert og ánægjulegt að bankarnir hafa þegar fylgt eftir þessari fyrstu ákvörðun um vaxtalækkun. Raunvextir þurfa að lækka og þarf áreiðanlega að gæta mikillar hagræðingar í bankakerfinu til þess að það megi takast.
    Verðlagi verður vitanlega að halda í skefjum og verðlagsstjóra hefur þegar verið falið --- það var reyndar þegar gert fyrir áramótin og ítrekað eftir --- að fylgjast mjög náið með allri verðbólguþróun og ekki síst þá að sú lækkun komi fram sem má gera ráð fyrir á ýmsum sviðum, t.d. í sambandi við virðisaukaskattinn. Þessi ábyrgð sem ég hef rakið hvílir á öllum. Hún hvílir á hinu opinbera, hún hvílir á aðilum vinnumarkaðarins, hún hvílir á atvinnurekendum, að heimta ekki til sín meiri tekjur af því að hækka sína uppmælingu eða sinn bónus eða hvað það er nú kallað, og vitanlega verða þeirra samtök að fylgjast með því. Hún hvílir á öllum launþegum í þessu landi. Þarna er til afar mikils að vinna, getur þýtt algjörlega, og mun þýða ef tekst, nýja framtíð í íslensku efnahagslífi og þá fyrst getum við vænst þess að standa okkur sæmilega í þeirri auknu samkeppni sem fram undan er í opnara samfélagi þjóðanna.