Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 06. febrúar 1990


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Það má segja hæstv. hagstofuráðherra til huggunar að enginn verður óbarinn biskup. Það getur þurft mikið til að ná þeim áfanga og svo virðist vera í þessu dæmi sem hér er til umræðu. Svo mikið liggur við að koma ráðherradómnum á hæstv. hagstofuráðherra, umhverfisráðherradómnum, að sjálfir kjarasamningarnar eru látnir víkja. Umræðu um þá er frestað vegna þessa máls sem margir hafa viljað kalla hégómamál og má nú minna við.
    Þeir samningar sem hér hafa verið til umræðu hafa verið kallaðir tímamótasamningar af ýmsum, m.a. af hæstv. ráðherra Júlíusi Sólnes sem hefur talað digurbarkalega um það og viljað þakka Borgfl. fyrst og fremst fyrir þá samninga sem gerðir hafa verið. Engu að síður er forgangsröðin slík að hégómamál Borgfl., greiðslan til Borgfl. fyrir að styrkja stöðu ríkisstjórnarinnar á þingi, gengur fyrir máli málanna í dag, að flestra mati, kjarasamningunum. Þetta er auðvitað til háðungar fyrir þá sem þannig vilja starfa. En það má kannski segja að þannig hafi verið að þessu máli öllu staðið að það er þinginu til háðungar.
    Síðast í gærkvöldi hlustuðum við á sjónvarpsþátt með hæstv. hagstofuráðherra þar sem hann margítrekar og hneykslast á því að þetta mál sé búið að vera hér í þinginu í þrjá mánuði og tönnlaðist mikið á því. Auðvitað gat hann þess ekki að inni í þeim þrem mánuðum var einn mánuður jólafrí og hann gat þess ekki að dráttur á þessu máli var fyrst og síðast vegna fjarveru sjálfs hagstofuráðherra. Hann lét þetta liggja milli hluta en lét líta út eins og hér hefði verið fundað dag og nótt um verðandi umhverfisráðuneyti og að málþóf og tafir stjórnarandstæðinga hafi valdið. Ég fullyrði þvert á móti að töf á þessu máli er fyrst og síðast vegna fjarveru í fyrsta lagi hæstv. hagstofuráðherra og í öðru lagi vegna fjarveru hæstv. forsrh. Þessir tveir
ráðherrar hafa verið beðnir um að vera hér viðstaddir umræðu sem þeir hafa gengist við en ekki getað þóknast þinginu betur en svo að það var nánast ekki hægt að ræða þetta mál vegna fjarveru þeirra og ferðalaga erlendis.
    Og hvað voru menn svo að gera erlendis? Hæstv. hagstofuráðherra var erlendis í tíma og ótíma sem umhverfisráðherra, titlaður sem slíkur. Auðvitað er þetta fyrir neðan allar hellur. En svona gengur þetta og svona hefur gangur þessa máls verið. Þegar þetta mál var síðan klárað rétt fyrir jólaleyfi var það sent út til umsagnar strax með umsagnarfresti til að mig minnir 10. eða 15. jan. Fyrsti nefndarfundur um málið er kallaður saman 22. jan. Inn eru komnar eitthvað 20--30 umsagnir. Ekki var farið yfir eina einustu umsögn og það má segja: Til hvers í ósköpunum er verið að senda út beiðni um umsagnir til hinna fjölmörgu aðila og stofnana, fá þá til að leggja vinnu í að gefa umsögn um mál sem er síðan ekki litið yfir vegna þess eins að það liggur svo á að koma blessuðum hagstofuráðherranum í, eins og sagt hefur

verið, ráðuneyti án verkefna? Þetta er til háðungar. Það er verið að móðga þá aðila sem eru beðnir um umsagnir, hreint út sagt.
    Auðvitað átti að fara að eins og stjórnarandstaðan bauðst til. Hún bauðst til samstarfs um þetta mál, að málin tvö yrðu rædd saman. Þannig var mælt fyrir málinu og þannig átti það að halda áfram. Það kom hins vegar í ljós í sjónvarpsþætti í gærkvöldi að meining hæstv. verðandi umhverfisráðherra sé að þau fái að fljóta saman út úr Ed. Hann er enn við sama heygarðshornið og hann var við þegar Borgfl. skreið göt á buxurnar sínar til að komast inn í stjórnina. Hann er enn við það að gefa dagsetningar á dagsetningar ofan eins og þegar Borgfl. reyndi og reyndi að komast inn í ríkisstjórnina þá voru eilífar dagsetningar. Verði þetta ekki komið núna fyrir þennan ákveðna tíma þá tökum við ekki þátt í þessari stjórn. Næstu helgi, næstu mánaðamót.
    Nákvæmlega sama er að gerast núna. Ráðuneytið verður komið á fyrir einhvern ákveðinn tíma í desember, áður en þing fer í jólafrí. Síðan dynja á okkur dagsetningarnar. Þegar allshn. kemur saman eftir jólaleyfi er viðtal sama dag við hæstv. hagstofuráðherra um það hvenær umhverfisráðuneyti verði komið á laggirnar, sama dag og allshn. kemur saman í fyrsta sinn til að ræða málið og fara yfir umsagnirnar. Fyrir helgi verður það komið út úr Nd. og sennilega á mánudag, þriðjudag út úr Ed.
    Hinar sífelldu yfirlýsingar ráðherrans gera náttúrlega það eitt að tefja störf nefndarinnar og ekkert annað. Ég hugsa að ef ekki væri slegið fram svona dagsetningum lon og don væri hæstv. hagstofuráðherra sennilega kominn langleiðina með að vera umhverfisráðherra nú. Ef einhver tefur málið er það hæstv. hagstofuráðherra sjálfur. Stjórnarandstaðan hefur boðið upp á samstarf allan tímann. Yfir stjórnarandstöðuna var hins vegar keyrt í hv. allshn.
    Ég leyfði mér að kalla það ofbeldi hér um daginn. Kannski tók ég of stórt upp í mig þá, ég hefði kannski átt að segja að það hefði verið keyrt yfir okkur. Mér þykir það bara ekkert betra. Málið var ekki rætt heldur tekið beint út úr nefnd í krafti meiri hluta. Það segir kannski ákveðna sögu um þau störf og vinnuhætti og vinnulag sem viðgengst hér í þinginu. Vinnulag sem hæstv. hagstofuráðherra ásamt mér og félögum mínum fyrrv. í Borgfl. gagnrýndum
harðlega á sínum tíma, að málum var þröngvað í gegnum nefndir trekk í trekk. En það er náttúrlega allt annað þegar menn eru komnir í stjórnaraðstöðu. Þá eru þeir fljótir að gleyma og slíkt hefur gerst með hæstv. hagstofuráðherra, því miður. Auðvitað áttu þessi mál að verða samferða í gegnum deildina. Hæstv. forsrh. lagði línuna, hann mælti fyrir þeim báðum í einu.
    Frjálslyndir hægrimenn eru á móti þessu frv. og eru á móti stofnun sérstaks umhverfisráðuneytis. Þeir telja að þennan málaflokk sé hægt að vista inni í öðru ráðuneyti sem þegar er til staðar. Við teljum að það þingmál sem hér er til umræðu og felur í sér í rauninni aðeins eitt orð, sé sennilega eitt dýrasta þskj.

í sögu þessa þings. Það á eftir að koma í ljós að þetta verður dýrasta þskj. og dýrasta eina orð sem borið hefur verið upp hér á þinginu því að umhverfisráðuneyti verður, áður en við vitum af, orðið að bákni, orðið að fjölmennu og stóru bákni sem við ráðum ekkert við. Parkinsonslögmálið á eftir að koma þar greinilega í ljós. En á þetta vilja menn ekkert hlusta. Ráðherradóm og ráðherrastól skal ég fá. Það skiptir engu hvað íslenskir skattgreiðendur þurfa að greiða, ráðherrastólinn skal ég fá og því til staðfestingar skal ég strax byrja að eyða. Ég skal strax kaupa mér bílinn. Bíllinn var keyptur og hér var spurt mjög ákveðinna spurninga af hv. þm. Pálma Jónssyni um það hvort í rauninni væri heimilt að kaupa þessa bifreið. Ég vil taka undir þá fsp. og ég tek undir það sem hv. þm. sagði að þetta beri að skoða milli 2. og 3. umr. í hv. allshn.
    Ég vil líka vita hvort hér var kannski um aukafjárveitingu að ræða. Þá er komið annað hljóð í strokkinn en var hjá hv. formanni fjvn. fyrr í vetur. En greiðslan til Borgfl. skal fara fram. Víxillinn er löngu fallinn. Það eru löngu komnir dráttarvextir á hann en eitthvað á það eftir að dragast enn. Í hv. allshn. Nd. liggja, eins og ég sagði fyrr, fjölmargar umsagnir. Hv. þm. Matthías Á. Mathiesen kom inn á það að aðeins úrdráttur úr þeim umsögnum væri sennilega um 63 punktar. Yfir megnið af þessu á eftir að fara og vegna fjölda þessara mála þarf að kalla menn til umsagnar og ræða við þá. Það er deginum ljósara að nokkrar vikur eru eftir enn þar til málið fer út úr þessari deild. Þá á Ed. eftir fjalla lítillega um málið.
    Það er grátlegt að horfa upp á fyrrverandi félaga sína í pólitíkinni, fyrrv. félaga í Borgfl., hvað þeir eru orðnir aumir í dæminu í dag. Það er ekki nóg með að þeir hafi skriðið gat á buxurnar heldur er líka komið sár á hnén. Og ég verð að segja: Mér líður hálfilla fyrir þeirra hönd. Það má kannski segja að landlæknir komist vel að orði í sinni umsögn sem hann sendir inn um þetta mál þar sem hann er að ræða um tilflutning Geislavarna ríkisins og Hollustuverndar ríkisins, hvort þær stofnanir eigi að færast undir umhverfisráðuneyti. Þar segir landlæknir, með leyfi forseta:
    ,,Væri mjög misráðið ef hagsmunum þessara tveggja stofnana væri fórnað á taflborði tímabundinna vandamála í stjórnmálum og á engan hátt til framdráttar fyrir átak í umhverfismálum sem þó er mjög þarft.``
    Þetta er náttúrlega hverju orði sannara og mjög vel að orði komist hjá landlækni, að það væri misráðið ef hagsmunum tveggja stofnana væri fórnað á taflborði tímabundinna vandamála í stjórnmálum. Betur er nánast ekki hægt að komast að orði.
    Hæstv. forseti. Ég stóð að því að gera hér samkomulag um að þessari umræðu lyki nú laust fyrir kl. 6. Ég skal virða það. Ég vil hins vegar hafa allan vara á því að ég á nokkuð mikið ósagt í þessu máli og mun nýta tíma minn eins og ég tel mig best þurfa hér á morgun ef 3. umr. fer fram þá. Ég skal því ekki

hafa þessi orð öllu fleiri að sinni. Ég vil þó benda á, eins og fjölmargir aðrir hafa gert, að stefna ríkisstjórnarinnar, í orði a.m.k., er að fækka ráðuneytum þannig að það hlýtur að koma spánskt fyrir sjónir þegar fyrst á að fara út í það að fjölga ráðuneytum og síðan fækka. Auðvitað gengur svona skollaleikur ekkert upp. Að sjálfsögðu á umhverfisráðuneytið ekkert að komast á laggirnar öðruvísi en nánast sem stofnun innan annars ráðuneytis. Hv. þm. Alþb. eða Alþfl. geta vafalaust séð af einhverjum ráðherrastól til handa hæstv. hagstofuráðherra. Það er náttúrlega hlálegt þegar nánast öllum í þjóðfélaginu, láglaunafólki og öllum launamönnum í landinu er gert að herða sultarólina, þeim er gert að gera samninga sem minnka kaupmátt, þá skuli báknin blása út hér beint fyrir framan nefið á okkur. Það er forkastanlegt, hæstv. forseti.