Tilkynning frá forsætisráðherra um kjarasamninga
Þriðjudaginn 06. febrúar 1990


     Karl Steinar Guðnason:
    Hæstv. forseti. Gerð merkilegra kjarasamninga er nýlokið og stóðu þar margir að verki. Kjarasamningar þessir eru óvenjulegir að því leyti að nú er samið fyrir alla þjóðina ef svo mætti segja, ekki einn og einn einstakan hóp.
    Því er gjarnan haldið fram í fjölmiðlum að það hafi komið galdrakarl að vestan og lostið töfrasprota sínum á Karphúsið og leyst öll mál. Ég vil upplýsa það hér að það er mikill misskilningur. Þessir kjarasamningar eru verk fjölmargra manna víðs vegar að af landinu. Aldrei nokkurn tíma hefur verið haft samráð við eins marga og nú. Alþýðusamband Íslands hélt fundi um landið allt með trúnaðarmönnum og stjórnarmönnum verkalýðsfélaga þar sem það var unnt vegna veðurs eða annars og má reikna með að yfir 1000 manns hafi verið kallaðir til ráða á þessum vettvangi.
    Á þessum fundum voru ræddar tvær leiðir. Eigum við að fara gömlu leiðina eða eigum við að fara nýja leið, var spurningin sem lögð var fyrir fólkið. Þeir sem fundi sóttu frá hendi verkalýðshreyfingarinnar, þ.e. Alþýðusambandsins, drógu upp meginmarkmiðin sem voru: Í fyrsta lagi að draga úr verðbólgu, stöðva kaupmáttarfallið, tryggja kaupmáttinn, bæta stöðu þeirra tekjulægstu, koma á stöðugleika í atvinnulífinu og treysta atvinnu. Þetta væru þau markmið sem vörðuðu nýja leið.
    Verkafólk um allt land þekkir gömlu leiðina. Leið verðbólgu og óráðsíu, leið sem farin hefur verið hvað eftir annað sl. áratugi, en ætíð hefur endað með skelfingu, ætíð hefur endað á þann hátt að þeir sem verst eru settir hafa orðið verr settir. Menn vildu greinilega fara nýja leið. Kaupmáttarhrapið hefur vissulega verið erfitt fyrir margan, en menn gera sér grein fyrir því að staða atvinnulífsins er og hefur verið óvenjuslæm á undanförnum árum.
    Menn spurðu: Hvernig ætlið þið að ná þessum markmiðum? Og því var svarað á þann hátt að halda bæri gengi krónunnar stöðugu, hækka yrði laun innan þeirra
marka sem gengið þyldi, hafa rauð strik og launanefnd, halda búvöruverði óbreyttu út árið, lækka vexti og draga úr verðhækkunum á opinberri þjónustu.
    Á fundunum sem ég vitnaði í var oft spurt: Er að treysta nokkru í þessum efnum? Við höfum reynsluna frá 1986. Þá bundu menn miklar vonir við þá samninga og við sem í þessu stóðum vorum vissulega vongóðir um árangur. En það verður að segja hverja sögu eins og hún er að sú tilraun mistókst að mestu leyti. Ég ætla ekki hér að karpa um það hvers vegna það var. Það verður vafalaust gert af öðrum en staðreyndin var sú að sporin frá 1986 hræddu menn, menn voru brenndir. Og ekki aðeins fólkið á fundunum heldur verkalýðsforingjarnir líka.
    Menn ræddu um það við undirbúning þessara kjarasamninga hvernig menn gætu lært af mistökunum frá 1986. Þá var verkalýðshreyfingin ein að verki. BSRB tók ekki þátt í þeim samningum og engir aðrir

en atvinnurekendur og Alþýðusambandið. Það tókst eftir mikla vinnu að ná þessum þáttum öllum saman eða þeim samtökum sem síðan gengu sameinuð að verki. Það var rætt við bændur um að taka þátt í kjarasamningunum með því að halda heildsöluverði landbúnaðarvara stöðugu og auðvitað þá með þátttöku ríkisvaldsins og niðurstaða náðist í þeim efnum, vissulega viðunandi niðurstaða. Það var rætt við bankana og þeir tóku tilmælum þessara samtaka vel. Síðan var unnið að því að BSRB og ASÍ gætu orðið samstiga í því að ræða við vinnuveitendur og það tókst líka. Þannig má ætla vegna þessarar miklu samstöðu að betur takist til í þessum efnum en áður. Það má ætla að það takist að sigla fram hjá þeim skerjum sem vissulega eru fyrir hendi nú. Þetta verður vandasöm sigling, en hún verður líka að takast.
    Það hefur verið deilt um það hér eða nokkuð rætt um það hvaða kostnað ríkissjóður beri af þessum kjarasamningum og ber mönnum ekki alveg saman um það. Ég tel, eins og fleiri gera reyndar hér, að fjárlög hafi ekki sýnt sína réttu mynd og þar hafi verið vanáætlað til ýmissa þátta sem mönnum mátti vera ljóst fyrir löngu síðan. Verkalýðshreyfingin krafðist úrbóta í nokkrum félagslegum málum, málum sem lúta að lífeyrissjóði verkafólks og málum er lúta að ríkisábyrgð á launum og náðist samkomulag við ríkisstjórnina í þeim efnum. Hvað varðar lífeyrissjóðina eða tekjutryggingu, þá er það að segja að stefna stjórnvalda á undanförnum árum hefur haft í för með sér að sífellt meiri byrði hefur verið lögð á lífeyrissjóðina. Það fólk sem greitt hefur 10% af launum sínum í lífeyrissjóð hefur í litlu notið þess umfram þá sem ekkert hafa greitt og vildu menn breyta þessu nú, stíga fyrsta skrefið. Reyndar er það svo í dag eða var fyrir gerð þessara kjarasamninga að kona eða karl sem unnið höfðu í 18 ár og greitt 10% af sínum launum í lífeyrissjóð fengu aðeins nokkur hundruð kr. meira úr lífeyrissjóðnum en maður sem aldrei hafði verið í lífeyrissjóði. Þetta gengur vissulega ekki til lengdar og á sinn þátt í því að gera lífeyrissjóðina svo óvinsæla sem þeir eru í raun meðal launþega vegna þess að menn segja sem satt er, að þeir skipti þá litlu máli meðan svona er.
    Ég er þeirrar skoðunar að heildarkostnaður ríkisins vegna þessara kjarasamninga sé á bilinu 500--600 millj. Hitt má segja að sé vegna vanáætlana
á fjárlögum og út af fyrir sig væri ósanngjarnt að kenna verkalýðshreyfingunni um eða tengja það við hana að nú þarf uppskurð á fjárlögum. Það er ósanngjarnt vegna þess að vandi ríkissjóðs er ekki nema að hluta vegna þeirra fyrirheita sem ríkisstjórnin hefur tekið að sér að efna.
    En það verður vissulega að taka til hendi. Staðreyndin er sú að nú verður að taka á til þess að forsendur kjarasamninganna haldist. Það verða erfiðar aðgerðir og sjálfsagt sársaukafullar fyrir marga. Ég tel að ríkisstjórnin sem slík eigi að taka á sig rögg og stuðla að því að sparnaður og niðurskurður geti átt sér stað þar sem þess þarf til þess að fjármagna þá vanáætlun sem ég var að tala um og þau fyrirheit sem

líka hafa verið gefin. Mér hafa komið á óvart yfirlýsingar einstakra ráðherra hvar þeir lýsa því yfir að það megi ekki skera hjá þeim. Mér finnst það hálfnöturlegt að það skuli eiga sér stað. Þarna verða allir að taka til hendi og þeir sem ekki taka þátt í því eiga bara að segja af sér, eiga að fá sér aðra vinnu. Það er reyndar atvinnuleysi í landinu en ég vænti þess að þeir kjarasamningar sem við vorum nú að gera dragi úr atvinnuleysi.
    Það fer væntanlega ekki fram hjá neinum að til þess að þessir samningar geti staðist þurfa allir að taka þátt í því að láta þá takast. Það verða allir að taka saman höndum. Þar má enginn láta sitt eftir liggja. Þetta eru samningar, eða kjarasáttmáli, sem gilda fyrir alla þjóðina, samningar sem vaxtalækkun fylgir, lækkun verðbólgu, stöðvun á hækkun verðlags, sem þýðir það að allir muni njóta góðs af. Þá aðila sem ekki ætla að vera með og klifra uppi á bakinu á láglaunafólkinu verður að taka sérstökum tökum.
    Nokkuð hefur verið rætt um þátt ríkisstjórnarinnar í þessum kjarasamningum og það má náttúrlega ljóst vera, eins og ég var að segja í upphafi máls míns, að enginn einn aðili hefur gert þessa kjarasamninga. Ég fullyrði hins vegar að vinsamleg viðbrögð ríkisstjórnarinnar gegndu lykilhlutverki í því að þessir kjarasamningar náðust. Þær aðstæður sem nú eru fyrir hendi í efnahagsmálum hafa gert það að verkum að unnt var að gera þessa kjarasamninga. Ég minni þó á að ekkert má út af bregða. Þar þurfa allir að vera með, þ.e. að láta þessa samninga verða að veruleika og þær hugmyndir og fyrirætlanir sem þar koma fram. Ef það tekst eygjum við von um betri framtíð, betra mannlíf, blómlegra atvinnulíf og getum vænst betri hags almennings í landinu. Ég vænti þess að allir landsmenn geti tekið þátt í því að reyna það.