Tilkynning frá forsætisráðherra um kjarasamninga
Þriðjudaginn 06. febrúar 1990


     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Ég sakna þess að hvorki forsrh. né viðskrh. eru hér til staðar því ég ætlaði að leggja fyrir þá spurningar. Hins vegar er hæstv. fjmrh. hér og ég vona að hann svari þeim að því leyti sem snertir hans ráðuneyti.
    Ég held að 80--90% af fólkinu í landinu fagni þessum samningum en vissulega eru vissir skuggar þar sem einnig fylgja. Það eru þeir skuggar í fyrsta lagi að lágtekjufólkið sem er búið að missa yfirvinnuna hefur það lág laun að það mundi enginn, ekki einu sinni neinn hagfræðingur og eru þeir nú slyngir, geta sýnt fram á það með neinum rökum að hægt sé að lifa á þeim sómasamlegu lífi.
    Hér hefur komið fram, ef ég skil rétt, að stjórn Stéttarsambands bænda hafi samþykkt að skerða verulega hlut bænda en hann er nú ekki, margra þeirra, of beysinn. Ég hef ekki heyrt það, kannski hefur það farið fram hjá mér, að formaðurinn og stjórnin hafi skrifað undir þessa samninga með fyrirvara á sama hátt og vinnumarkaðurinn gerir að öðru leyti, vegna þess að eðlilegt væri að um þetta væru haldnir fundir með bændum og þessi samningur borinn undir þá alveg á sama hátt. Og ef ég skil þetta rétt, að þær hækkanir sem kunna að verða á rekstrarvörum bænda verði ekki uppi bornar, sé það rétt hygg ég að það sé hvorki meira né minna en lögbrot. Bara lögbrot. Og þess vegna sé nauðsynlegt að bera þessa samninga undir bændastéttina á sama hátt og aðra, ef ég skil þetta rétt. ( Gripið fram í: Þú breytir ekki lögum með því.) Ég breyti ekki lögum með því en þeir hafa þó tekið þetta á sig ef þetta er borið undir þá, þeir sem koma á þessa fundi og það er annað mál og ég vona að hv. þm. Jóhannes Geir skilji það.
    Það sem ég ætlaði fyrst og fremst að spyrja eftir, vegna þess að einn hlutur í þessum kjarasamningum er ákaflega veikur, er með vaxtalækkunina. Menn eru hvekktir á loforðum ríkisstjórnar í því efni. Ég harma að hæstv. forsrh. er
hér ekki því að í samningunum í febrúar 1986 var því heitið að nafnvextir yrðu lækkaðir strax í kjölfar kjarasamninga og sömuleiðis gjaldskrár opinberra fyrirtækja. Þetta stendur á minnisblaði sem var skrifað 11. febr. það ár. Ekki man ég fyrir víst hvenær miðstjórnarfundur Framsfl. var, hvort það var í mars eða apríl, en þá kom þetta einnig fram í ræðu þáverandi og núverandi forsrh. Ég þarf ekki að ræða þetta atriði frekar en ég fyrir mitt leyti óttast að þetta bresti, sporin hræða. Og ég tók þátt í, með formönnum stjórnarflokkanna, að ganga frá þeim málefnasamningi sem var gerður í september 1988. Og hvað var sett í þann samning? Það var sett í þann samning að raunvextir skyldu fara a.m.k. ofan í 6%. Hvernig er þetta í dag? Lægstu vextir í bönkunum, raunvextir, eru 7,5%, þ.e. í ríkisbönkunum og hærri annars staðar og það verulega. Og ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort það verði virkilega ekki við þetta staðið nú þegar er sýnilegt svigrúm til þess. Því var líka

heitið að ef lánskjaravísitalan kæmist ofan fyrir 10% eða í eins stafs tölu, þá yrði lánskjaravísitalan tekin úr sambandi. Og ég vil spyrja hæstv. fjmrh: Verður við það staðið? Þetta eru meginatriðin í þeirri umræðu og þeirri framkvæmd sem hér mun á eftir ganga og hvort þetta tekst.
    Menn eru að tala um að erfitt sé að lækka vextina, það sé erfitt að lækka raunvexti og jafnvel nafnvexti. Það á að fara að setja nefnd í að athuga hverjir vextir þurfa að vera til þess að hægt sé að reka bankana, svo þeir beri sig. Ég hef haldið því fram á undanförnum tveimur árum að það sé ekkert við það að athuga þó að eignarstaða bankanna minnki eitthvað, vextirnir verði það mikið lægri að eignarstaðan minnki eitthvað, eignarprósentan, þegar ástandið er eins og það er í þjóðfélaginu. Bankarnir eiga alveg eins að taka á sig slík skakkaföll eða taka þátt í því þegar svona stendur á í þjóðfélaginu eins og hefur verið að undanförnu.
    Nú er talað um að það þurfi að skera niður og ég ætla ekkert að fara út í það út af fyrir sig. Ég er sammála því sem hér hefur komið fram að ef fjárlögin hefðu verið afgreidd á eðlilegan hátt væru það ekki nema um 600--700 millj. sem þessir kjarasamningar breyta stöðu ríkissjóðs í raun og veru. Auðvitað hefðu launagreiðslur ríkissjóðs orðið mikið hærri ef kjarasamningar hefðu verið gerðir á svipaðan hátt og hefur verið hingað til. Eitt af því sem var talað um þegar ríkisstjórnin var mynduð í september 1987 var að setja tekjuskatt á hluta af vaxtatekjum. Og ég vil spyrja fjmrh. að því: Hvernig stendur það mál ef ætlunin er að fara að skera niður ýmsa framkvæmdaliði, ef ekki eru önnur úrræði? Er þá ekki rétti tíminn til þess að líta á það og standa við þau fyrirheit sem við gerðum? Það sem var grundvöllur fyrir því að ég studdi þessa ríkisstjórn, þessi vaxtamál. Verður við þetta staðið?
    Ég ætla ekki að fara mikið út í ræðu hv. 1. þm. Suðurl. Mér er þó ómögulegt að stilla mig um að gera við hana smávegis athugasemdir, en þær verða ekki margar að þessu sinni. Mér finnst það svo athyglisvert og raunar fáránlegt að ætla að halda því fram að það hafi verið vinnumarkaðurinn sem hafi gert þessa samninga en þar hafi ríkisstjórnin ekki komið nærri. Og það sé vinnumarkaðurinn sem hafi þröngvað ríkisstjórninni til að taka við þessum
samningum. Ég vissi ekki betur en að allt stæði fast þangað til forustumenn VSÍ, ASÍ og BSRB fóru á fund ríkisstjórnarinnar. Hvað segir það okkur? Og að ætla að reyna að berja það inn í þjóðina að hinn ágæti maður, Einar Oddur Kristjánsson, sé einhver dýrlingur eða töframaður í okkar þjóðfélagi. Hann er sjálfsagt ágætur maður, en ekki dettur mér í hug eitt einasta augnablik að halda að þetta sé fyrst og fremst honum að þakka. Það er auðvitað að þakka öllum sem að þessu komu og það var ekki hægt að gera þessa samninga nema ríkisstjórnin kæmi þar inn í.
    Í þetta sinn ætla ég að láta þetta nægja. Ég á kannski eftir síðar að rifja upp söguna vegna þess að ég skil auðvitað hv. 1. þm. Suðurl. að nú vilji hann

reyna að láta fenna í sporin. Það fennir víða og rennir í slóðir. Þetta er út af fyrir sig ekkert illa hugsuð leið ef menn treysta á að fólkið í landinu sé mjög gleymið.
    Ég vil endurtaka það, virðulegi forseti, ég harma það að forsrh. sé ekki hér við þessa umræðu. Ég þurfti við hann að tala ( Gripið fram í: Það má kalla á hann, láta sækja hann.) og ég mun áskilja mér rétt til þess, næstu daga, að biðja um orðið um þingsköp vegna þess að hæstv. forsrh. er ekki hér við í kvöld.