Tilkynning frá forsætisráðherra um kjarasamninga
Þriðjudaginn 06. febrúar 1990


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég hefði gjarnan viljað að hæstv. forsrh. hefði verið hér viðstaddur í kvöld til að hlýða á ræður manna, en hér eru mættir ráðherrar alla vega frá þeim flokkum sem vilja nú tileinka sér þessa samninga, þ.e. Alþfl. og Framsfl., þannig að ég verð að láta mér nægja að ræða við hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskrh. um efni þessa máls.
    Hér hafa verið fluttar nokkuð margar ræður og ítarlegar og það getur vel verið að sumum hv. stjórnarþm. finnist það óþarfi að hv. þm. standi hér upp og flytji ræður. Það getur vel verið að þeir séu enn þá á fjölmiðlafríki þannig að ræða hafi ekki innihald og gildi nema hún komist í fjölmiðlana á því augnabliki sem hún er flutt. Þegar verið er að ræða um samninga til 20 mánaða á hinu háa Alþingi og þegar verið er að ræða hér um --- ég vildi nú, virðulegi forseti gjarnan að þótt að þingmenn þurfi að spjalla saman, þá geri þeir það alla vega í hljóði. Ég vildi einnig, forseti, árétta það sem ég sagði áðan að það getur vel verið að sú umræða sem hér fer fram hafi lítið innihald fyrir hv. stjórnarþm. Þegar maður lítur til þess að láglaunafólk, verkalýðurinn á Íslandi er að gera samninga til 20 mánaða, samninga sem fela það í sér eins og kom fram í ræðu hæstv. forsrh. í dag að verkafólk, láglaunafólk er að staðfesta það og taka á sig 8--9% kjaraskerðingu til viðbótar þeirri óvissu sem getur fylgt samningum sem þessum, þá er það einnar messu virði hér á hinu háa Alþingi að hv. þm. ræði þessi mál allítarlega. Því að það er eins og samningamenn hafa sagt, það er ekki fyrr en við uppgjör þessa tímabils sem kemur í ljós hvort þessir samningar eru þeir tímamótasamningar eða þeir happasamningar fyrir íslenska verkalýðshreyfingu og íslenska atvinnuvegi að ástæða sé til að fagna með þeim hætti sem sumir hv. stjórnarþm. hafa gert hér í dag og mun ég víkja nokkuð nánar að því.
    Áður en ég vík að efnisatriðum vildi ég ræða nokkuð um það sem hæstv. fjmrh. fjallaði sérstaklega um hér í sinni frumræðu. Að vísu hefur hv. 1. þm. Suðurl. Þorsteinn Pálsson rakið allítarlega samningana frá 1986, en ég ætla að víkja hér að einu atriði sem ég held að hæstv. fjmrh. ætti nú að hafa í huga þegar hann fjallar um samninginn í ársbyrjun 1986.
    Ég man ekki betur en hans eigin flokksmenn, forustumenn í verkalýðshreyfingunni, hafi fagnað þeim samningum sem þá voru gerðir. Ég man ekki betur en að sömu menn og standa að þessum samningum nú hafi staðið að samningunum í ársbyrjun 1986 af hálfu íslenskrar verkalýðshreyfingar. Það vill svo til að þessir menn eru flokksbræður hæstv. fjmrh., alla vega tveir af þrem aðalmönnunum, þ.e. Ásmundur Stefánsson núv. og þáv. forseti ASÍ, Benedikt Davíðsson, forustumaður Sambands byggingamanna, og Guðmundur J. Guðmundsson sem var og er formaður Dagsbrúnar og Verkamannasambands Íslands. Ég minnist þess þegar þessir forustumenn kynntu þessa samninga í verkalýðshreyfingunni og töldu þá mjög merka, töldu þá tímamótasamninga svo

notað sé þetta margþvælda orð, og þá töluðu þeir alveg sérstaklega um þrjá þætti í samningsgerðinni.
    Í fyrsta lagi hefði unnist mikill sigur í sambandi við eflingu húsnæðismálakerfisins.
    Í öðru lagi hefði fastgengisstefnan verið innsigluð að ósk og tillögu hæstv. fjmrh.
    Virðulegi forseti. Ég held að það væri nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. komi nú í salinn og tylli sér í sinn eigin stól svo að hæstv. hagstofuráðherra trufli hann ekki þarna í hliðarherberginu. Nóg er nú komið í þeim efnum í þessari góðu ríkisstjórn þó að það gerist ekki. Ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. setjist og hlusti á mitt mál. Hann hefur fulla þörf fyrir það því að núna stendur einmitt yfir fundur í Alþb. þar sem verið er að gera út um örlög jafnvel þessara manna sem ég var að vísa til svo að ekki sé nú talað um hugsanleg örlög hæstv. fjmrh.
    Ég var að rekja það, hæstv. fjmrh., að í tímamótasamningunum í ársbyrjun 1986, tímamótasamningunum sem Ásmundur Stefánsson, þáv. og núv. forseti ASÍ, kynnti verkalýðshreyfingunni og þar á meðal í því félagi sem ég er félagsmaður í, Verslunarmannafélagi Reykjavíkur, voru þrjú atriði sem þessi ágæti maður sagði að væru tímamótaatriði í sögu verkalýðshreyfingarinnar. Í fyrsta lagi efling húsnæðismálakerfisins, í öðru lagi fastgengisstefnan og í þriðja lagi lækkun tolla. Ef maður ber þetta nú saman við það sem gerist í þessum samningum núna og menn eru að hæla sér hér af, þá er nú fyrst þess að geta að það er ekkert hliðstætt atriði við það sem heitir efling húsnæðismálakerfisins í samningunum 1986 í þeim samningum sem nú er verið að samþykkja í verkalýðshreyfingunni, ekkert. Það er ekki eitt einasta atriði sem hefur jafnmikið gildi fyrir hinn almenna launamann eins og húsnæðismálaþátturinn hafði í samningunum 1986.
    Fastgengisstefnan er ekkert ný af nálinni. Þetta var eitt aðalatriðið í samningunum í ársbyrjun 1986 og virðist vera það líka í samingunum sem verið er að gera núna en þó ekki tryggt með sama hætti og í ársbyrjun 1986.
    Varðandi lækkun tolla, ætli það sé ekki svipað og núverandi samningsatriði um vexti að öðru leyti en því að
fólkið fann strax fyrir því í sinni afkomu þegar tollarnir lækkuðu í ársbyrjun 1986 en það hefur ekki enn þá fundið fyrir vaxtalækkunum og mun ekki finna fyrir bættri afkomu fyrr en löngu síðar þótt vextir kunni eitthvað að lækka á næstu mánuðum.
    Í þeirri ríkisstjórn sem hæstv. fjmrh. ræðst sérstaklega að voru í ársbyrjun svo að það sé rifjað upp forsrh. Steingrímur Hermannsson, sjútvrh. Halldór Ásgrímsson og félmrh. Alexander Stefánsson. Ég verð að segja það að mikið geta menn verið geðlausir í íslenskum stjórnmálum ef þeir minnast ekki verka sinna í fortíðinni og líta aðeins á það sem þeir gera í nútíð. Það einkennir því miður allt of mikið íslenska stjórnmálamenn og það hefur því miður einkennt allt of mikið suma ráðherra hér í ræðum þeirra í dag, ég segi ekki alla.

    Ég vil taka það fram að þó að ég væri ekki að öllu leyti ánægður með ræðu hæstv. viðskrh. Jóns Sigurðssonar, þá voru ákveðnir kaflar í þeirri ræðu sem mér fannst athyglisverðir. Þó verð ég að segja að þegar fjallað er um svona viðkvæm mál, það er ekki einu sinni búið að samþykkja samningana í verkalýðshreyfingunni, þó að margt bendi til þess að láglaunafólkið ætli að taka á sig þessa kjaraskerðingu og þó að margt bendi til þess að þessir samningar verði samþykktir í verkalýðsfélögunum, þá er alls ekki búið að samþykkja þessa samninga. Ég mun rekja það nokkuð hér á eftir hvers vegna ég held að fólkið samþykki samningana í þeirri stöðu sem það er í í dag. Mér fannst hæstv. viðskrh. Jón Sigurðsson, sem flutti hér svona allskikkanlega ræðu, gera þátt ríkisvaldsins, þ.e. ríkisstjórnarinnar, of mikinn í þessum samningum. Þetta er á algerum misskilningi byggt. Þáttur ríkisstjórnarinnnar er ekki með þeim hætti til hins betra eins og hæstv. ráðherra og aðrir hér í dag hafa viljað halda fram. Ég varpa fram þessari spurningu: Er búið að tryggja rekstrargrundvöll útflutningsatvinnuveganna næstu 20 mánuðina?
    Núv. hæstv. ríkisstjórn er ekki einu sinni búin að tryggja hver verður rekstrarforsenda sjávarútvegs frá og með áramótunum 1990--1991. Þ.e. hún er ekki búin að leggja hér fram frv. til l. um stjórnun fiskveiða frá og með 1. jan. 1991. Það frv. liggur ekki frammi hér á Alþingi enn þá. Mér er ekki kunnugt um það að hæstv. ríkisstjórn sé búin að fjalla um þetta mál með þeim hætti að það sé öruggt að hún geti komið í höfn stefnu í fiskveiðistjórnun á Íslandi þegar núgildandi lög renna úr gildi í lok þessa árs. Ég vildi gjarnan fá svör við því í þessari umræðu hvort svo sé. Ef hæstv. ríkisstjórn getur ekki tryggt eðlilega framkvæmd fiskveiða á Íslandi frá og með 1. jan. 1991 tryggir hún ekki heldur framkvæmd þeirra samninga sem við erum að fjalla hér um. Þetta er mjög veigamikið atriði í öllu sem lýtur að þessum samningum sem fólk er núna að taka afstöðu til, til næstu 20 mánaða.
    Mér fannst að sumu leyti --- ég vil ekki segja makalaus, en ekki nógu góð yfirlýsing frá jafnreyndum manni eins og hæstv. viðskrh. Jóni Sigurðssyni að hann skyldi einfalda svona þessi atriði, þ.e. um þátt ríkisstjórnarinnar við gerð þessa samnings. Mér líkaði heldur ekki þegar það kom fram í ræðu hæstv. ráðherra að það væri eins og nú væri í fyrsta skiptið verið að gera samning á hinum almenna vinnumarkaði sem hefði eitthvert gildi. Það er ekki rétt metið hjá hæstv. ráðherra og ég vil segja, örugglega sagt að óathuguðu máli. Það er ekki í fyrsta skiptið sem tekst að ná samningum á hinum almenna vinnumarkaði með þeim hætti að verkalýðshreyfingin annars vegar og vinnuveitendur hins vegar samþykki það sín í milli. Það er alrangt. Það ber að skoða þessi mál líka í því umhverfi og á því augnabliki sem verið er að gera samninga þannig að ekki er alltaf samanburðarhæft það sem verið er að bera saman á milli ára og áratuga. Þó er hægt að taka ákveðin atriði með þeim hætti sem ég var að gera hér áðan.
    Ég vil segja það, virðulegi forseti, að ég tel að

aðilar vinnumarkaðarins hafi unnið mjög merkilegt starf út af fyrir sig með þessum samningum sem byggjast fyrst og fremst á því að þeir sem eru í forustu verkalýðshreyfingarinnar hafa talið að í þeirri vondu stöðu sem verkalýðshreyfingin er komin í vegna stefnu núv. ríkisstjórnar séu þetta einu samningar sem verkalýðshreyfingin getur hugsanlega náð. Vinnuveitendur eru hins vegar að mörgu leyti í enn erfiðari stöðu vegna þess að að vinnuveitendum, að fyrirtækjum atvinnulífsins hefur verið sótt úr tveim áttum og þó sérstaklega einni, frá ríkisstjórninni, sem hefur því miður ekki bætt stöðu atvinnuveganna með þeim hætti sem hæstv. ráðherrar hafa viljað halda fram hér í þessari umræðu.
    Ég vil, virðulegi forseti, halda því fram að bæði launþegar og vinnuveitendur hafi teygt sig mjög langt í þeim efnum að gera samninga sem stuðli að hjöðnun verðbólgu, mjög langt. Þessir aðilar hafa báðir fært miklar fórnir í þeim efnum. En því miður, virðulegi forseti, þá óttast ég að hlutdeild hæstv. ríkisstjórnar geti hugsanlega --- ég segi hugsanlega teflt því í hættu sem aðilar vinnumarkaðarins hafa staðið að með þessari samningagerð. Hvers vegna segi ég þetta, virðulegi forseti? Jú, það er vegna þess að það er ekki einu sinni búið að samþykkja samningana í
verkalýðshreyfingunni þegar ríkisstjórnin, hæstv. ráðherrar eru farnir að deila um það með hvaða hætti eða eftir hvaða leiðum eigi að reyna að tryggja þann þátt sem snýr að ríkisvaldinu.
    Það er alvarlegur ágreiningur, það er mikið sundurlyndi innan ríkisstjórnarinnar um leiðir. Annars vegar eru þeir sem vilja niðurskurð. Það er eins og hæstv. fjmrh. hefur nefnt hér í dag og víða annars staðar. Hins vegar er sá hluti ríkisstjórnarinnar sem vill auka skuldasöfnun ríkissjóðs til þess að mæta þeim skuldbindingum sem ríkisvaldið hefur tekist á hendur. Þar vísa ég til þess sem segir í stjórnarblaði, Alþýðublaðinu, í dag, með leyfi forseta. Þar kemur skýrt fram að hæstv. utanrrh., núv. formaður Alþfl., Jón Baldvin Hannibalsson, maðurinn sem vildi nota hnífinn og skera niður fyrir nokkrum árum, vill nú fara leið skuldasöfnunar, nú vill hann auka skuldir ríkisins. Hann gerir meira. Hann staðfestir í viðtali í Alþýðublaðinu í dag að ríkisstjórnin hafi ætlað að láta fátækasta fólkið, þ.e. sjóðfélagana í lífeyrissjóðum atvinnulífsins, lána fé til að fjármagna aðild ríkisins að samningunum.
    Ég vil, virðulegi forseti, vegna þingsögunnar láta það koma hér fram að í þessu viðtali segir hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson m.a. sem hér segir, með leyfi forseta:
    ,,Í fyrsta lagi; það var leitað fast eftir því við forsvarsmenn launþega og vinnuveitenda að þeir beittu sér fyrir því við forráðamenn og stjórnir lífeyrissjóða að halli ríkissjóðs yrði í auknum mæli fjármagnaður með kaupum lífeyrissjóða á spariskírteinum og skuldabréfum ríkissjóðs. Sérstaklega var um það rætt að skammtímafjármögnun ríkishallans í formi ríkisvíxla sem bera háa vexti verði að hálfu fjármögnuð með skuldabréfakaupum lífeyrissjóða til

lengri tíma.``
    Hvað felst í þessari tillögu hæstv. viðskrh.? Í þessari stefnu sem hæstv. utanrrh. fylgdi greinilega fast eftir innan ríkisstjórnarinnar felst það að hann ætlar ekki að lækka vexti, hann ætlar að hækka vexti. Ég spyr hæstv. viðskrh., hann svarar e.t.v. hér á eftir: Með hvaða hætti ætlaði hæstv. utanrrh. að tryggja sölu á þessum spariskírteinum til lífeyrissjóðanna, á hvaða vaxtastigi var hæstv. utanrrh. að fjalla um þessi mál? Það vita allir að raunvaxtastig lífeyrissjóðanna er á bilinu 6,9% og upp í 8%. Ég spyr hæstv. viðskrh.: Hvaða hávaxtastig er það sem hæstv. utanrrh. er að tala þarna um?
    Síðan segir hæstv. utanrrh. á þessa leið í umræddu viðtali í Alþýðublaðinu í dag: ,,Í öðru lagi var um það rætt að mæta auknum útgjöldum ríkissjóðs í tengslum við samningana með lækkun ríkisútgjalda.`` Það mun vera leið hæstv. fjmrh. eins og hann hefur kynnt sínar hugmyndir. Síðan segir:     ,,Þau mál hafa verið rædd á ríkisstjórnarfundum og voru reyndar rædd áður en kom að undirritun samninga og fjmrh. hefur verið falið að koma með tillögur um niðurskurð. Hann þyrfti að mínu mati að vera um 1--1 1 / 2 milljarður. Það er mitt mat að þetta sé alveg vinnandi vegur, þ.e. að lækka útgjöld ríkisins um 1%. Við erum að ræða um 100 milljarða útgjöld.``
    Þar með er ekki allri sögunni lokið. Þegar hæstv. fjmrh. ætlar svo að fara að vera með hugmyndir um það hvernig á að skera niður útgjöld ríkisins þá segir þessi samstarfsmaður hæstv. fjmrh., Jón Baldvin Hannibalsson, í sama viðtali: ,,Flatur niðurskurður er ekki rétta leiðin að mínu mati. Hann hefur verið reyndur áður en ekki tekist, enda fremur sýndarmennska en veruleiki.``
    Ég vil segja það, virðulegi forseti, að mér finnst þetta harður dómur utanrrh. um þann ásetning hæstv. fjmrh. sem vill skera niður og vill vera sjálfum sér samkvæmur í þeim efnum eins og hann hefur birt sínar skoðanir og sína stefnu í þessum málum fyrr. Hann hefur greinilega ekki komist upp með það vegna þess hver er afstaða annarra ráðherra í núv. ríkisstjórn. Við þurfum ekki að dvelja lengi við það að ,,sýndarmennskan`` sem hæstv. utanrrh. talaði um í fari hæstv. fjmrh. er ekki meiri sýndarmennska í augum alþýðuflokksmanna en svo að í sama blaði birtist skoðun eins af skriffinnum Alþýðublaðsins um það hvað eigi að gera í þessum efnum. Á bls. 3 í sama blaði kemur þessi ágæti blaðamaður með leiðir Alþýðublaðsins í sambandi við niðurskurð. Þm. til fróðeiks og til þess að hafa þetta skráð í sögunni, þá er það athyglisvert að þegar sérfræðingar Alþýðublaðsins eru að meta stöðuna og meta árangur þessara samninga, þá segir þessi ágæti maður í Alþýðublaðinu og birtir mynd með: ,,Fréttin bak við fréttina. Kom, sá og sigraði.`` Það er hinn ágæti maður Einar Oddur Kristjánsson, formaður Vinnuveitendasambandsins.
    Mér finnst það nú saga til næsta bæjar að Alþýðublaðið skuli meta samningana með þeim hætti að sá einn hafi sigrað sem er í röðum vinnuveitenda

og ég spyr þá: Hver tapaði? Ég held að það verði enginn sigurvegari í þessum samningum nema hugsanlega láglaunamaðurinn sem ætlar að taka á sig kjaraskerðinguna, láglaunamaðurinn sem ætlar að samþykkja samningana og bera byrðarnar næstu 20 mánuðina. Það er vegna þess og það vita allir sem hafa verið í samningum að þótt menn hefðu viljað bæta betur kjör láglaunafólksins hefur það ekki verið hægt vegna þess að þá hefði sú hækkun farið upp allan stigann og líka til hátekjufólksins. En það þorir enginn að minnast á nú, virðulegi forseti.
    Hvað segir fréttamaður Alþýðublaðsins um það hvar eigi að skera niður? Ég bið hæstv. fjmrh. að hlusta vel á það. Ég veit að hann hefur lesið þetta örugglega, en það er náttúrlega gott fyrir hann að gera sér grein fyrir því hver er stefna Alþýðublaðsmanna í þessum efnum sem sannar það að hæstv. fjmrh. er ekki með neina sýndarmennsku þegar hann talar um að skera niður þótt hæstv. utanrrh. vilji halda því fram, sem er náttúrlega ómaklegt gagnvart hæstv. fjmrh. Blaðamaður Alþýðublaðsins segir: ,,Það á að skera á réttum stöðum.`` Síðan segir, virðulegi forseti: ,,Þessi nýja þjóðarsátt hefur hleypt kjarki í fólk og það eitt út af fyrir sig er ekki svo lítils virði.`` Undir þetta er hægt að taka. ,,En þessir samningar eru auðvitað einskis virði ef ekki verður við þá staðið. Nú verður ríkið að skera niður á réttum stöðum hvað sem hver segir.`` Síðan segir: ,,Ef Svavar``, þ.e. Svavar Gestsson menntmrh., ,,ætlar að standa fast á því að eyða hundruðum milljóna í breytingar á Þjóðleikhúsinu umfram nauðsynlegt viðhald eða hætta ella sem ráðherra, þá skal hann bara hætta.`` Ég get tekið undir þetta. Hann ætti sannarlega að hætta ef hann hefur ekki kjark til þess að skera eitthvað niður í sínu ráðuneyti. Síðan segir enn fremur og eru frekar ábendingar til hæstv. fjmrh. frá Alþýðublaðinu: ,,Umhverfisráðuneyti verður að slá á frest en Júlíus getur svo sem haldið jeppanum.``
    Þetta er vissulega athyglisvert þegar maður hefur það í huga að á sama degi sem þetta er skrifað í Alþýðublaðið rétta þm. Alþfl. upp höndina hér í Nd. til þess að samþykkja það að setja á laggirnar umhverfismálaráðuneyti og auka þar með á eyðsluna og auðvitað heldur ráðherrann bílnum.
    Að lokum segir þessi blaðamaður Alþýðublaðsins, virðulegi forseti: ,,Við vonum öll að nýju samningarnir séu fyrsta skrefið til betra ástands.`` Undir það getum við auðvitað öll tekið. Þegar verkalýðshreyfingin og láglaunafólkið og þegar atvinnulífið semur með þeim hætti sem við stöndum frammi fyrir, þá hljótum við auðvitað að vona það öll að það muni bera árangur.
    Því miður er hæstv. forsrh. ekki hér til að hlýða á mál manna. Ég hefði viljað víkja nokkuð að ræðu hans sem hann flutti hér í dag en mun sleppa því.
    Þó get ég ekki, virðulegi forseti, komist hjá því að nefna að eins og ég sagði áðan er forsenda þess að þessir samningar takist auðvitað sú, eins og hæstv. forsrh. sagði, að launþegar sætta sig við kaupmáttarskerðingu á bilinu 8--9%, þ.e. árið 1989, og með ákveðna óvissu um framtíðina. Það er einmitt

núv. hæstv. ríkisstjórn, það er stefna þessarar ríkisstjórnar sem hefur sett fólkið upp við vegg í bili. Aukin skattheimta, tekjuskattur í staðgreiðslu er tæplega 40%, hefur hækkað úr rúmlega 37%. Þetta skerðir ráðstöfunartekjur launafólks verulega. Hækkun eignarskatts felur í sér stóraukna greiðslubyrði sérstaklega fyrir einstætt fólk og hærri bifreiðaskattar, svo að ekki sé nú talað um virðisaukaskattinn sem er 24,5% sem er óvanalega há prósenta en hefði átt að vera 18% án undanþága. Þá eru fram undan ýmsar hækkanir á þjónustugjöldum og fleira, sköttum sem ég ætla að víkja örlítið að.
    Ég vil, hæstv. fjmrh., segja þetta. Ég held að það væri gott fyrir ríkisstjórnina að hafa það í huga, svo að menn verði ekki eins sjálfumglaðir og þeir eru búnir að vera undanfarið í sambandi við stöðu þessara mála, að almenningur stendur í þeirri trú að ýmsar þær hækkanir sem skýrt er frá í sambandi við samningana með sérbókunum komi ekki til framkvæmda. Ég leyfi mér að fullyrða það, hæstv. fjmrh., að eftirfarandi atriði hafa ekki verið nægilega kynnt þannig að þegar þau koma til framkvæmda munu þau koma fólki mjög á óvart. Þar á ég við þann lið í kjarasamningi, 10. gr. samningsins, sem fjallar um forsendur samningsins, þar sem segir undir lið 6, með leyfi forseta:
    ,,Ekki komi til frekari hækkana á opinberri þjónustu en kynntar hafa verið samningsaðilum og fram koma í minnisblaði fjmrn. frá 28. jan. 1990 um forsendur fjárlaga, gjaldskrárhækkanir og tekjuöflun ríkissjóðs.`` Hverjar eru þessar hækkanir? Í ræðu sinni í dag kom hæstv. forsrh. nokkuð inn á þessi atriði en hann lagði ekki mikla áherslu á að rekja prósentur né tölur né dagsetningar. Það skil ég sem samningamaður sem þyrfti að fara með samning þeirrar gerðar sem hér er til umfjöllunar inn á félagsfundi í verkalýðsfélagi þar sem láglaunafólk er til staðar. Ég mundi ekki treysta mér til þess að fá samningana samþykkta og greina frá þessum atriðum með þeim hætti sem ber að gera. Það verður mjög erfitt. Hins vegar væri það heiðarlegt að skýra frá því á forsíðum stjórnarblaðanna að í pakkanum séu m.a. þessi atriði sem ég ætla að rekja hér lauslega:
    Hækkanir sem hæstv. forsrh. fjallaði lauslega um í ræðu sinni í dag eru þessar. Það eru forsendur fjárlaga um hækkanir á sköttum árið 1990:
    1. Bensíngjald. 1. apríl 5% hækkun, 1. ágúst 6%.
    2. Þungaskattur. 1. júlí 9%.
    3. Bifreiðagald. 1. mars 83% hækkun, 1. júlí 8%.
    Síðan er þarna fjallað um áfengi og tóbak og hirði ég ekki um að gera það. Þá eru það gjaldskrárhækkanir. Það eru forsendur fjárlaga um hækkanir á gjaldskrám B-hluta stofnana árið 1990 í fylgiskjali:
    1. Ríkisútvarpið, hljóðvarp og sjónvarp. 1. júlí 3% hækkun, 1. okt. 3%.
    2. Áburðarverksmiðja ríkisins. 1. maí 12%.
    3. Póstur og sími. 1. febr. 3% hækkun, 1. maí 3%, 1. ágúst 3%.
    4. Sementsverksmiðja ríkisins. 1. febr. 4%, 1. maí

6%.
    Síðan segir undir 6. lið: Rafmagnsveitur ríkisins. Haldist gjaldskrá Landsvirkjunar óbreytt er ekki talin þörf á hækkun á töxtum RARIK 1990.
    Virðulegi forseti. Í Ed. er frv. til l. um orkuskatt. Um hann hefur verið fjallað hér í dag í mjög ítarlegu máli.
    Nei, virðulegi forseti. Ég held að til þess að hæstv. fjmrh. verði að ósk sinni um það að hann og ríkisstjórnin fái traustsyfirlýsingu á stefnu núv. ríkisstjórnar verði hann að tryggja m.a. eftirfarandi atriði til þess að fólkið geti með góðri samvisku og góðri trú greitt því atkvæði:
    1. Fjmrh. hlýtur að skera niður ríkisútgjöld, enda hefur hann boðað það þótt hæstv. utanrrh. geri lítið úr því.
    2. Fjmrh. hlýtur að tryggja óbreytt gengi næstu 20 mánuði.
    3. Fjmrh. hlýtur að tryggja verðbólgulaust þjóðfélag, þ.e. verðbólgan verði innan við 10%.
    4. Fjmrh. hlýtur að tryggja láglaunafólki, þ.e. því fólki sem er með 60 þús. kr. á mánuði og þar undir meiri kaupgetu og betri lífskjör með því að standa við yfirlýsta stefnu sína um stórfelldan niðurskurð og einnig verður hann að lækka skatta til þess að þetta sé framkvæmanlegt.
    Síðan vildi ég nú segja það að ég held að hæstv. fjmrh. hefði gott af því að fara inn í Hagkaup og standa þar uppi á kassa eins og hann gerði í gamla daga og flytja svipaða ræðu og hann flutti hér í dag. ( Gripið fram í: Það var í Miklagarði.) Miklagarði, það er alveg það sama, þetta er stórmarkaður. Ég held að hæstv. fjmrh. ætti að fara inn í Miklagarð og ég legg til að hann fari líka inn í Hagkaup, standi á kassa inni í Kringlu og flytji sitt fagnaðarerindi og flytji nákvæmlega þá ræðu sem hann flutti hér í dag og breyti ekki einu einasta atriði frá því sem hann sagði. Ég hugsa að hæstv. fjmrh. muni þá upplifa það að fólk spyr hvorki um Steingrím Hermannsson né Ólaf Ragnar Grímsson í þeirri umræðu sem á eftir yrði þegar ræðan hefði verið flutt. Fólkið mundi spyrja hæstv. fjmrh. um lífskjör sín og afkomu. Þá þýðir ekki að gera hróp að formanni Sjálfstfl., fyrrv. forsrh. Þorsteini Pálssyni. En því miður verð ég að segja það að ég óttast að núv. hæstv. ríkisstjórn muni ekki tryggja þau atriði sem ég taldi upp áðan sem eru forsenda þess að þessir samningar haldist og einnig að væntingar fólksins sem tekur á sig þær byrðar sem hér um ræðir rætist. Þessir samningar eru samningar sem aðilar vinnumarkaðarins hafa gert í varnarstöðu. Yfir íslenskri þjóð hvílir skuggi atvinnuleysis vegna rangrar stefnu núv. ríkisstjórnar í efnahags- og skattamálum. Yfir fyrirtækjum atvinnulífsins er svipa harðsvíraðs ríkisvalds sem er samsett af teknókrötum sem leggja áherslu á að mergsjúga fyrirtæki atvinnulífsins. Þetta er ríkisstjórn sem leggur 24,5% virðisaukaskatt á allan almenning og íslensk fyrirtæki. Þessi háa skattprósenta ein út af fyrir sig kemur mjög hart niður á kaupgetu fólks og þessi háa virðisaukaskattsprósenta, sem er mun hærri en í

nágrannaríkjum okkar, skaðar samkeppnisstöðu iðnaðarins, verslunar og þjónustustarfsemi. Því miður óttast ég það að þótt þessir samningar verði samþykktir í verkalýðsfélögunum muni ríkisstjórnin ekki standa við sinn þátt í samningunum eins og ég hef rakið hér áðan, virðulegi forseti.