Skattskylda orkufyrirtækja
Miðvikudaginn 07. febrúar 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Herra forseti. Það er nú nokkuð um liðið síðan ég kvaddi mér hljóðs í þessu máli og síðan hæstv. fjmrh. mælti fyrir málinu. Þó svo sé er mér nú alveg ljóst hver var rauði þráðurinn í því sem hæstv. ráðherra sagði þegar hann mælti fyrir þessu frv. til laga um skattskyldu orkufyrirtækja.
    Frv. er borið fram til þess að afnema undanþágu frá tekjuskatti sem orkufyrirtæki njóta nú. Hæstv. ráðherra talaði sig í nokkurn eldmóð af þessu tilefni því að hann sagði að hann stæði hér í baráttu fyrir því að afnema forréttindi. Hann fór mörgum orðum um að aðalatriðið væri að það gilti jafnrétti hjá öllum fyrirtækjum gagnvart tekjuskatti. Hann fór líka mörgum orðum um að það yrði að gera allt til þess að samræmis væri gætt í þessu efni. Hann sagði að orkufyrirtækin ættu, líkt og önnur fyrirtæki, að bera skatta og sérstaklega tiltók hann bankana í því sambandi til þess að því er virtist að undirstrika hvað þessar stofnanir væru hliðstæðar, orkufyrirtæki annars vegar og bankarnir hins vegar. Hæstv. ráðherra sagði að þetta væri svo mikið réttlætismál að þetta væri alveg í samræmi við stefnu Sjálfstfl. því að hann fylgdi náttúrlega réttlætismálum. Og hæstv. ráðherra gerði ekki endasleppt í þessari túlkun sinni á tilgangi þessa frv. Hann sagði að það ætti að stuðla að samræmingu við hagkerfi Evrópubandalagsins og þá varð manni hugsað til þess að ekki skorti umhyggju Alþb. fyrir sameiginlega markaðinum. Þannig mætti lengi halda áfram að telja upp það sem ég hef kallað rauða þráðinn í ræðu hæstv. fjmrh. þegar hann mælti fyrir þessu máli. Hann þreyttist aldrei á að taka fram að aðalatriðið væri að orkufyrirtæki eigi að sitja við sama borð og önnur fyrirtæki.
    Það bar ekki mikið á í málflutningi hæstv. ráðherra að þetta frv. hefði nokkuð að segja varðandi stöðu ríkissjóðs eða hér væri um að ræða skatt í ríkissjóð. Það virtist ekki vera neitt aðalatriði því að hér var á ferðinni krossferðin fyrir réttlætinu. Og hæstv. ráðherra, í öllu sínu tali, tók ekkert fram sem gæti borið vott þess að hjá honum örlaði á skilningi á séreðli og sérstöðu orkufyrirtækja. Það breytir hins vegar ekki því að auðvitað er það þetta atriði sem ekki verður gengið fram hjá því að svo veigamikið er það í þessu sambandi sem við nú ræðum.
    Hæstv. ráðherra kom ekkert að því að það eru ríkissjóður og sveitarfélög sem eru eigendur orkufyrirtækjanna. Hann kom ekkert að því að eignir orkufyrirtækja ganga ekki kaupum og sölum eins og eignir annarra fyrirtækja geta gert. Hann kom ekkert að þeirri sérstöðu sem varðar orkulindirnar og eignarréttinn yfir orkulindunum, varmanum í iðrum jarðar og vatnsföllunum sem þessi orkufyrirtæki sem á að fara að leggja skatt á eru eignaraðilar að. Og þó var sérstök ástæða til þess að gera slíkt með tilliti til þess að það er gert ráð fyrir því, og það kemur fram í grg. með frv., að í framhaldi af skattlagningu á tekjur er ætlunin að leggja eignarskatt á orkufyrirtæki.
    Hæstv. ráðherra vék ekkert að því séreðli

orkufyrirtækjanna sem liggur í hinum mikla stofnkostnaði þeirra og hvaða þýðingu það hefur fyrir fjármagnskostnað þessara fyrirtækja. Hæstv. ráðherra var ekki að tíunda það í máli sínu að tekjuskattur á orkufyrirtæki leiði til almennrar hækkunar orkuverðs, hvað þá heldur að hann virtist gera sér grein fyrir eða vilja ræða þá hlið þessara mála. Það kom ekki fram hjá hæstv. ráðherra að álögur á orkufyrirtæki fara beint út í verðlagið. Það kom heldur ekki fram að ef verð innlendrar orku hækkar versnar markaðsstaða orkuveitna gagnvart innfluttri orku og ekki varðar það litlu fyrir okkar þjóðarbúskap. Það kom heldur ekki fram hjá hæstv. ráðherra að bein verðhækkun á orku hefur bein áhrif á samkeppnisiðnaðinn. Þannig gæti ég haldið áfram að rekja það sem hæstv. ráðherra vék ekki að í sínu máli, annaðhvort alls ekki eða með alls kostar ófullnægjandi hætti.
    En hér er um fleira að ræða en sérstöðu orkufyrirtækjanna. Þegar þetta frv. sem hér liggur fyrir er skoðað kemur það í ljós að hvað sem má segja um réttmæti þess að leggja skattinn á eru miklir tæknilegir annmarkar á því. Þau reikningsskil orkufyrirtækja sem nú viðgangast samræmast t.d. ekki ákvæðum skattalaga m.a. hvað verðbreytingafærslur og afskriftir varðar. Og það er talið að verulegur hluti afskriftarstofns ýmissa orkuveitna fengist ekki viðurkenndur í skattalegu tilliti. Það er ekki tekið tillit til þess að ýmis sérkostnaður fellur til í orkufyrirtækjum sem ekki er fjallað um í gildandi skattalögum. Það er rétt eins og gildandi skattalög hafi ekki verið höfð að neinu leyti til hliðsjónar við gerð frv. sem hér liggur frammi. Þannig gæti ég haldið áfram að telja ýmis atriði sem sýna tæknilega annmarka á frv.
    Fleira þarf að koma til umræðu og þá er það ekki síst hlutur hæstv. iðnrh. Þó að það sé deginum ljósara að hæstv. fjmrh. hafi takmarkaða þekkingu eða áhuga á orkumálunum eða þýðingu þeirra fyrir þjóðarbúskapinn skyldi ætla að hæstv. iðnrh. hefði þekkingu í þessum efnum sem gæti komið að gagni. En nú hefur það verið eitt af því sem hér hefur komið fram að það hafa verið bornar brigður á það að iðnrh. sé fylgjandi frv. þó að að forminu til sé hér um
stjfrv. að ræða. Ég skal ekki fara að ræða þá hlið málsins sérstaklega, hvort hér er um að ræða stjfrv. samkvæmt þeirri merkingu sem venjulega er lögð í slíkt, þ.e. að ríkisstjórn sé einhuga með því frv. sem borið er fram í hennar nafni.
    Nú þykir mér hins vegar rétt að vekja athygli á því sem er nokkuð sérstætt í þessu máli, að landssamtök þeirra fyrirtækja sem frv., sem við nú ræðum, nær til hafa sérstaklega snúið sér til hæstv. iðnrh. Það er enginn venjulegur málarekstur eða áhugamál sem þessum samtökum er á höndum. Það er hvorki meira né minna en að þessi samtök fara fram á að hæstv. iðnrh. beiti sér fyrir því að frv., sem við nú ræðum, verði tekið til baka. Samtök þessi, Samband ísl. hitaveitna og Samband ísl. rafveitna, hafa skrifað iðnrh. bréf í þessu tilefni. Nú þykir mér miklu miður

að hæstv. iðnrh. skuli ekki vera hér viðstaddur, en mér þykir samt rétt að það komi fram í þessum umræðum hvert efni þessa bréfs er og það sé nauðsynlegt fyrir hv. deildarmenn að vita um það. Hæstv. ráðherra veit efni bréfsins þannig að það kemur ekki að sök þó að hann sé ekki við rétt í sömu andrá og það er kynnt. Hann veit hvað um er að ræða. Ég vil leyfa mér að lesa upp þetta bréf, með leyfi hæstv. forseta, sem er dags. fyrir fáeinum dögum, 25. jan. sl., og er stílað á iðnrh. Jón Sigurðsson. Bréfið er svohljóðandi:
"Vegna stjfrv. til laga um skattskyldu orkufyrirtækja lýsa samtök þeirra, Samband ísl. rafveitna og Samband ísl. hitaveitna, eftirfarandi skoðun:
    1. Skattlagning af þessu tagi mundi óhjákvæmilega leiða til hækkaðs orkuverðs. Afleiðing þess yrði hærra verð á vöru og þjónustu, svo og verri staða íslenskra orkuveitna og fyrirtækja í samkeppni við erlenda orku og vöru.
    2. Um áhrif skattsins til hækkunar á heildsöluverði Landsvirkjunar liggja fyrir ítarlegar athuganir fyrirtækisins. Þá er skatturinn talinn mundu snerta lánasamninga fyrirtækisins. Þannig gera lánasamningar Landsvirkjunar og Alþjóðabankans ráð fyrir því að bankinn geti rift samningum ef lögum og reglum um Landsvirkjun er breytt þannig að íþyngjandi sé fyrir fjárhag og rekstur Landsvirkjunar, svo sem með skattlagningu. Þá mun það lögfræðilegt álitaefni hvort skilyrði fyrir sameignarsamningi eigenda Landsvirkjunar yrðu ekki brostin ef til skattlagningar þessarar kæmi. Jafnframt hlyti nýr orkufrekur iðnaður að gjalda skattsins eins og aðrir viðskiptavinir, ella leiddi það af sér aukna hækkun til almenningsveitna en slíkt er óheimilt samkvæmt lögum um Landsvirkjun. Skattur á hagnað Landsvirkjunar af núverandi stóriðju yrði heldur ekki veginn upp með því að hækka rafmagnsverð til stóriðjunnar þar sem slíkt yrði brot á hlutaðeigandi orkusölusamningum. Yrði því almenningur fyrir viðbótarhækkunum af þessum ástæðum eins og í fyrrnefnda stóriðjutilvikinu er ólöglegt.
    3. Frv. í núverandi mynd felur í sér óréttlæti og hefur á sér ýmsa tæknilega annmarka. Má þar nefna að orkuveitur eru mjög ólíkt á vegi staddar.
Fjármagnskostnaður margra þeirra er mjög hár og bundinn erlendum gjaldmiðlum. Gengissveiflur, eins og þekktar eru á síðustu árum, geta orðið til þess að mjög illa stödd fyrirtæki þurfa að greiða tekjuskatt. Aðrar veitur eru um það bil að snúa taprekstri í hagnað en munu ekki njóta taps undanfarinna ára í lægri sköttum, svo sem önnur fyrirtæki gera.
    Ríkjandi reikningsskilavenjur orkuveitna samræmast ekki ákvæðum skattalaga, m.a. hvað verðbreytingafærslur og afskriftir varðar. Verulegur hluti afskriftarstofns margra orkuveitna fengist ekki viðurkenndur í skattalegu tilliti. En jafnvel þótt unnt yrði að sníða verstu annmarka af frv. þessu er það eftir sem áður skoðun Sambands ísl. rafveitna og Sambands ísl. hitaveitna að frv. þetta feli í sér óskynsamlega leið til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Í

raun nægir sú ástæða að skatturinn valdi hækkun á orkuverði með þeim afleiðingum sem nefndar hafa verið.
    Meðfylgjandi eru yfirlit yfir meginröksemdir sambandanna gegn frv. ásamt greinargerð sem samin er af löggiltum endurskoðendum, Stefáni Svavarssyni og Ólafi Nilssyni.``
    Kemur þá lokasetning bréfsins:
    ,,Þess er eindregið óskað, hæstv. iðnrh., að þér beitið yður fyrir því að fallið verði frá frv. þessu að fullu og öllu.``
    Hér lýkur bréfinu. Eins og ég sagði hygg ég að það sé nokkuð óvenjulegt að almenn samtök eins og hér er um að ræða fari formlega fram á það að eitt stjfrv. verði tekið til baka, verði fallið frá því að fullu og öllu. Svo fráleitt þykir frv. að mati þeirra sem gleggst þekkja til. Það er vitnað til gagna sem fylgja þessu bréfi, en ég ætla ekki að rekja hér þau gögn sem eru ítarleg. Það þarf hins vegar ekki að taka fram að þau skjóta fullkomlega stoðum undir álit það sem fram kemur í bréfinu og hina eindregnu ósk til hæstv. iðnrh. að beita sér fyrir að fallið verði frá frv. að fullu og öllu.
    Ég sagði áðan að það væri miður að hæstv. iðnrh. væri hér ekki viðstaddur, en hvað varðar bréfið sjálft gerði ég ráð fyrir að það þyrfti ekki að tefja umræður vegna þess því að hæstv. ráðherra væri kunnugt um efni bréfsins. Það sem ég ætlaði að spyrja hæstv. iðnrh. um þykir mér svo sjálfsögð spurning að
ég ætla að iðnrh. hefði gert grein fyrir slíku máli þó að ekki hefði komið bein spurning til hans. Ég treysti því að hæstv. iðnrh. komi að þessu máli síðar í þessum umræðum. En hvað ætlaði ég að spyrja hæstv. iðnrh. um? Ég ætlaði að spyrja hæstv. iðnrh. hver væri afstaða hans til þessa bréfs sem ég hef hér skýrt frá og Samband ísl. rafveitna og Samband ísl. hitaveitna skrifuðu honum 25. jan. sl. Ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra hver væri afstaða ríkisstjórnarinnar og þá hvort hæstv. ráðherra hefði haft svo mikið við þetta bréf, sem ég hef hér greint frá, að bera efni þess undir hæstv. ríkisstjórn.
    Þá lá beint við að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki hefði hvarflað að honum, iðnrh. --- og ég vænti líka að hann komi að því máli óspurður, þegar rætt er um orkumálin --- að ójöfnuðurinn í orkuverðinu, mismunur orkuverðsins, sé stærsta vandamálið, stærsti vandinn, sem við er að glíma í orkumálunum um þessar mundir. Og það má, ef ástæða verður til síðar í þessum umræðum, spyrja hæstv. ráðherra hvort hann finni enga köllun hjá sér til þess að hverfa frá þeim ójöfnuði sem ríkir í orkuverðinu og vera ekki ójafnaðarmaður í þessu sambandi.
    Ég vil aðeins víkja nokkrum orðum að mismuninum á orkuverði. Ég ætla ekki að gerast hér fjölorður um það að lýsa ástandinu því ég geri ráð fyrir að hv. þm. viti gjörla hvernig ástandið er, hve gífurlegur munur er á orkukostnaði um hinar strjálu byggðir landsins og hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem orkukostnaðurinn er minnstur. Ég geng út frá því að menn mæli ekki gegn slíkum staðreyndum sem

þessum og ég held því hiklaust fram, eins og svo margir aðrir, að ójöfnuðurinn í þessum efnum sé óþolandi. Ég geri mér grein fyrir því að það eru þó skiptar skoðanir eða mismunandi viðhorf sem menn hafa til þessara mála. Það er til það viðhorf að það rétta sé að verðskrár orkufyrirtækjanna séu kostnaðarréttar eins og kallað er, þ.e. að kostnaður viðkomandi orkuveitu við að afhenda hverjum viðskiptamanni fyrir sig orkuna sé greiddur af viðskiptamanninum, allur kostnaðurinn í hverju tilfelli. Ég held hins vegar að það séu fáir sem í alvöru halda því fram að svo skuli vera og ég held að það sé þannig að almennt sé viðurkennt að þessi regla sé ekki haldbær, heldur verði að vera um verðjöfnun að ræða. En spurningin er hvað verðjöfnunin, og það getur menn greint á um, á að vera mikil. Við höfum vissa verðjöfnun í þessum efnum sem kemur fram m.a. í því að orka Landsvirkjunar er seld á sama verði frá öllum sölupunktum, hvar sem er á landinu. Hér er um verðjöfnun að ræða. Orkubú Vestfjarða, sem sér um orkudreifingu og orkusölu bæði í strjálbýli og þéttbýli í sínum landshluta, selur orkuna á nákvæmlega sama verði hvar sem viðskiptavinurinn er. Þetta er verðjöfnun á orku. Ef ætti að fylgja reglunni um að verðskrárnar ættu að vera kostnaðarlega réttar, ef ætti að færa það út í ystu æsar, ætti að vera mismunandi verð meira að segja á orkunni í Reykjavík. En auðvitað kemur mönnum ekki slíkt til hugar.
    Það sem mönnum kemur til hugar og er viðfangsefnið í dag er að koma á frekari verðjöfnun orku en er í dag. Það er viðfangsefnið. Það geta verið og eru ýmsar leiðir til þess. Ég geri mér grein fyrir að það er vandasamt að ráða fram úr þessu máli. En þó að vandinn sé mikill verður hann ekki umflúinn og það er ekki hægt annað en að ráðast til atlögu við þennan vanda. Það geta verið ýmsar leiðir til þess. Ég nefni sem dæmi lækkun á útsöluverði orkunnar frá Landsvirkjun, lækkun frá því sem nú er. Það getur komið til greina yfirtaka ríkisins á skuldum dýrustu hitaveitnanna. Það er ein leiðin. Þá er það leið að verðjöfnun innan orkugeirans verði gerð með greiðslum orkufyrirtækja í jöfnunarsjóð sem þau sjálf ráðstafa eftir ákveðnum reglum. Þetta er leið sem að sjálfsögðu mjög kemur til greina. Og þá er, svo að fleira sé upptalið, sú leið að verðjöfnun fari fram á vegum ríkisvaldsins af almennu skattfé borgaranna.
    Ég er ekki núna og ætla mér ekki nú að koma með ákveðnar tillögur í sambandi við þetta mál, hvaða leið skuli fara í þessu mikla vandamáli, verðjöfnun orkukostnaðar. En ég vek athygli á þessu vandamáli. Það er þörf á að gera það hvenær sem orkumálin ber á góma og er aldrei of mikil áhersla lögð á þetta mál. Auk þess er sérstök ástæða til að víkja að þessu máli, verðjöfnun orkunnar, með tilliti til frv. sem við nú ræðum vegna þess að það felur ekki í sér aðgerðir til verðjöfnunar á orkukostnaði, heldur þvert á móti. Það hefur áhrif í þveröfuga átt. Það hefur ekki áhrif til réttlætis eins og hæstv. fjmrh. gumaði af í framsöguræðu sinni. Það hefur ekki áhrif til jafnréttis

eins og hæstv. fjmrh. gumaði af. Það hefur ekki áhrif til samræmingar eins og hæstv. fjmrh. gumaði af. Sannleikurinn er sá að frv. er í eðli sínu þversögn við það sem hæstv. ráðherra gerði í framsöguræðu sinni að aðalatriði og að rauðum þræði í málflutningi sínum fyrir þessu frv.
    Sannleikurinn er sá að engin skattlagning getur verið réttlætanleg á orkufyrirtækjum nema til verðjöfnunar og þetta hlýtur að marka afstöðu allra þeirra sem skilja vandann sem leiðir af ójöfnuðinum í orkumálunum, mismuninum á orkukostnaði. Ég vil ekki trúa því fyrr en ég reyni að þeir sem eru
sérstakir umbjóðendur fyrir það fólk sem þolir óréttlætið geti léð þessu frv. fylgi sitt.
    Ég vil að lokum, aðeins í nokkrum orðum, draga saman það sem ég tel að sé aðalatriðið varðandi frv. sem við nú ræðum og ég hef áður komið að. Frv. er ætlað að samræma það sem er ósamræmanlegt. Það er ósamræmanlegur rekstur t.d. bankastofnana og orkufyrirtækja. Frv., þó að vilji væri fyrir skattlagningunni, er ónothæft vegna tæknilegra galla sem ég hef vikið hér sérstaklega að. Þá er frv. ekki til verðjöfnunar, heldur til hins gagnstæða sem við skulum sérstaklega hafa í huga. Þá er frv. siðferðilega óréttlætanlegt vegna þess að það tekur ekkert tillit til þess óréttlætis sem er og fylgir verðlagningu orkunnar í landinu. Þá sýnir frv. fullkomið skilningsleysi hæstv. fjmrh. á meginvanda orkumálanna í dag. Það er augljóst af þeirri staðreynd að hæstv. ráðherra skuli bera fram frv. sem hér er til umræðu. Það er einnig augljóst af því sem hæstv. fjmrh. sagði í ræðu sinni þegar hann talaði fyrir þessu frv. Kannski er það borin von en meðan það er ekki fullreynt hljótum við að bera einhverja von í brjósti um að svo kunni að vera að hæstv. iðnrh. hafi einhvern skilning á þessum málum, þessum þýðingarmiklu málum, og sem varða svo miklu um framkvæmd orkumálanna sem honum hefur nú verið falið að fara með um skeið.
    Ég skal ekki á þessu stigi vera að gera hæstv. iðnrh. eitt eða annað upp um afstöðu hans. Ég bíð þess að hann komi og tjái sig um þetta þýðingarmikla mál þannig að það megi vera ljóst hver hans stefna er.