Skattskylda orkufyrirtækja
Miðvikudaginn 07. febrúar 1990


     Halldór Blöndal (um þingsköp) :
    Herra forseti. Hann veit að ég er sanngjarn maður og ég vil minna á það að á fundi deildarinnar í gær lýsti hæstv. iðnrh. því yfir að hann væri reiðubúinn til að skýra sérstöðu sína og Alþfl. til þessa frv. hér við umræðuna með því að hann taldi rétt að þingið athugaði efnisatriði frv. sérstaklega og kæmist að niðurstöðu um það hvaða breytingar væru nauðsynlegar á frv. sem hann taldi ýmsa annmarka á vegna þess að hæstv. fjmrh. skildi ekki þá sérstöðu sem orkufyrirtæki hafa varðandi fyrningartíma, afskriftir og ýmislegt annað. Ég fer fram á það að hæstv. forseti komi ekki í veg fyrir það með því að slíta umræðunni nú að hæstv. iðnrh. gefist kostur á að gera þingdeildinni grein fyrir sínum skoðunum á þessu máli og fer a.m.k. fram á það að hæstv. forseti geri hæstv. iðnrh. viðvart þannig að hann átti sig á að umræðunni ljúki að öðrum kosti.
    Mér finnst líka, hæstv. forseti, að það sé ekki einkamál meiri hlutans hvort hæstv. iðnrh. gefist kostur á þessu. Hann var búinn að gefa okkur í stjórnarandstöðunni fyrirheit um að hann mundi reifa skoðanir sínar nú við umræðu málsins og ég fer fram á það að hæstv. forseti sýni hæstv. iðnrh. fyllstu kurteisi í þessu sambandi og tilhliðrunarsemi.