Stjórnarráð Íslands
Miðvikudaginn 07. febrúar 1990


     Ragnhildur Helgadóttir:
    Herra forseti. Ég get ekki orða bundist eftir þessa ræðu hv. þm. sem er hæstv. forseti Sþ. Mér skildist að í gær hefði verið gert það samkomulag um framgang mála að sem minnstar umræður yrðu um þetta mál núna og þessi hluti þess, þ.e. stjórnarráðsfrv., hvað sem mönnum finnst um það, gengi nú sem fyrst til Ed.
    Hæstv. forseti Sþ. kveður sér hljóðs og rýfur þetta samkomulag með því að hafa í frammi slíkar staðhæfingar og dylgjur í garð þeirra sem tekið hafa til máls og bent á veilur í þeim tillögum frá hæstv. ríkisstjórn sem fyrir liggja í þessu máli og enn fremur allri málsmeðferð ríkisstjórnarinnar frá upphafi. Hv. þm. segir það álit sitt að þessi umræða sé Alþingi ekki til sóma. Ég leyfi mér að láta í ljós það álit mitt að öll meðferð ríkisstjórnarinnar á þessu máli frá því í haust er stjórninni til skammar og það er Alþingi ekki heldur til sóma ef það ætti svo fram að ganga að sjálfum stjórnarráðslögunum væri breytt á þann veg að stofnað sé ráðuneyti sem engin verkefni hefur. Þetta er auðvitað svo fráleitt og kúnstugt að engin leið er að fallast á að þetta sé í samræmi við neina þingsiði sem unnt er að bera virðingu fyrir.
    Hv. þm. sagði að þessi umræða hefði verið til svo lítils sóma að hún hefði jafnvel farið að snúast um innanflokksmál Alþb., aukinheldur annað, og væri þess vegna mál að linnti. Þetta þykir mér satt að segja skiljanleg afstaða hjá hv. þm. eftir seinustu atburði á fundum Alþb. Ég get vel skilið að þeir sem þar hafa flutt mál telji að mál sé að linni umræðu um innanflokksvanda þar á bæ. Það get ég skilið. Hitt er annað mál að þetta er hluti af staðreyndum í íslensku stjórnmálalífi og það er eðlilegt að þm. láti slíkt til sín taka og tjái sig um þau mál ef þeir telja þau einhverju skipta.
    Hv. þm. sagði: Auðvitað erum við öll sammála um að stofna umhverfisráðuneyti. --- Þetta er rangt. Hv. þm. hefur hlustað á fjölmarga þm. flytja málefnalegar ræður með ábendingum um það að það er sitt hvað að styðja umhverfisvernd í landinu, sem er eitt af höfuðviðfangsefnum framtíðarinnar, og svo hitt að búa
til silkihúfu eða nýtt ráðuneyti til að sinna málefnum sem þegar eru á verkefnaskrá annarra ráðuneyta en aftur á móti er kannski sinnt af stofnunum sem ekki hafa haft nægilegan stuðning, m.a. af fjárveitingavaldinu, til að sinna verkefnum sínum svo vel sem verið gæti.
    Hv. þm. nefnir reynslu Dana. Það var nú heppilega valið dæmi eða hitt þó heldur. Við skyldum læra af reynslu Dana sem hefðu stofnað umhverfisráðuneyti á árum áður og þeir hefðu farið svo að ráði sínu að þeir hefðu hrúgað þar inn öllum mögulegum verkefnum. Í dag benda mál hér þó til þess að hæstv. ríkisstjórn ætli sér að læra af dæmi Dana og í stað þess að hrúga þar inn öllum mögulegum málum, eins og Danir gerðu, er bara stofnað ráðuneyti með engum verkefnum. Þetta kallar maður nú að taka mið af

reynslunni. Það verður sem sagt ekki ástæða til að álíta að hæstv. ráðherra þessara mála verði í fyrstunni kaffærður í verkefnum ef frv. þetta rennur áfram.
    Hv. þm. segir að auðvitað ættum við að sameinast um að afgreiða þessi mál fljótt og vel og sem allra fyrst því að hér sé um að ræða alltyfirskyggjandi hagsmunamál og því ætti ekki að ræða það af slíku offorsi sem verið hefði. Ef um eitthvert offors hefur verið að ræða af andstæðingum þessa máls er það ekki vegna þess að verið sé að koma í veg fyrir framkvæmd hagsmunamála. Það er verið að koma í veg fyrir það að flækja framkvæmd þessara mála með þeim hætti að þau verði erfiðari í framkvæmd eftir en áður. Við erum að vísu mjög svo greinilega að tala um ,,alltyfirskyggjandi`` hagsmunamál þessarar ríkisstjórnar, þ.e. lífshagsmunamál hennar, kannski í allra bókstaflegasta skilningi því að við erum hér að ræða um verðið fyrir ráðherrastól Borgfl. vegna þess að flokkur hv. síðasta ræðumanns vildi ekki láta af hendi ráðuneyti, sem nú þegar er til, handa hinum nýja ráðherra. Það er því rökrétt að hv. eldheitir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar úr flokki Alþb. telja að þetta mál eigi að hafa skjótan framgang.
    Úr því að hv. 13. þm. Reykv., hæstv. forseti Sþ., setti þessa umræðu af stað á nýjan leik vil ég freista þess að biðja um það einu sinni enn að hæstv. ríkisstjórn skoði hug sinn á nýjan leik og spyrji sjálfa sig: Með hvaða hætti er stjórn umhverfismála í landinu í raun og veru best borgið? Og í öðru lagi: Er vandinn í umhverfismálum á Íslandi nú og í framtíðinni fólginn í stjórnunarvanda og skorti á ráðuneytum? Er það skortur á stjórnunarstöðum í ráðuneytum sem veldur því að ýmisleg verkefni sem kosta fé í stofnunum, sem eiga að stjórna og framkvæma ýmislegt á sviði umhverfismála, hafa orðið að einhverju leyti út undan? Þær hafa ekki getað sinnt þeim eins og allra best yrði á kosið, og er þó ekki vanþakkað hið mikla og merkilega starf sem þegar er unnið. Ég er hrædd um að það geri málin fremur erfiðari en auðveldari að skipta verkefnum einstakra stofnana milli ráðuneyta og að eitt ráðuneyti hafi eftirlit með öðru eins og sagt er um hluta af skógræktarverkefnunum og landgræðsluverkefnunum. Hver maður sér auðvitað að þetta er ekki skynsamlegt.
    Ef við ætlum að læra af reynslu annarra, eins og hv. síðasti ræðumaður benti á og tók þar dæmi af reynslu Dana sem hafa sett of mörg mál inn í umhverfisráðuneytið og aðhyllist þess vegna þetta frv. sem nú á að afgreiða með engum verkefnum og engum málum í ráðuneyti, þá ættum við líka að taka mið af reynslu Norðmanna. Skýrsla sem vitnað er til á gjörvallri heimsbyggðinni, þar sem menn á annað borð ræða þessi mál, er kennd við Gro Harlem Brundtland sem var á sínum tíma umhverfisráðherra Noregs. Í þessari skýrslu gengur það eins og rauður þráður í gegnum allt álitið að ekki sé lengur skynsamlegt að safna öllum umhverfismálum undir einn hatt, heldur eigi einmitt að stýra því að verkefni umhverfismála nái framgangi á öllum þeim sviðum þar sem slíkt kemur til greina. Og það hlýtur auðvitað

að vera rétt, það á ekki að einangra þessi mál ef við ætlum að ná árangri. Við ætlum að reyna að ná skilningi vítt um þjóðfélagið og vítt um stjórnkerfið og flétta umhyggjuna fyrir umhverfinu inn í öll störf í stjórnsýslunni þannig að við veitum þeim skilningi og áhuga sem svo verði að framkvæmdum út í allt þjóðfélagið, ella eru þessi mál til lítils unnin.
    Því er það að þessi mál sem við erum nú að tala um, frá málefnalegu sjónarmiði séð, alveg burt séð frá hagsmunum ríkisstjórnarinnar og stokkun í stóla o.s.frv., frá málefnalegu sjónarmiði séð eru þau algjör tímaskekkja. Og þess vegna er það að ég vildi óska þess að hæstv. forsrh. tæki nú vini sína og samstarfsmenn í hæstv. ríkisstjórn úr Alþb. eða þá úr Alþfl. tali og fái þá til að láta af hendi ráðuneyti til handa hæstv. ráðherra Hagstofu. Þetta segi ég ekki vegna þess að ég beri sérstaka umhyggju fyrir því að hann sitji í hæstv. ríkisstjórn. Hins vegar þykist ég vita að annað sé óraunhæft en að ætla að svo verði um einhvern tíma, enda virðast hæstv. ráðherrar fúsir til að ganga undir hin furðulegustu jarðarmen til að svo gæti orðið. Ég hef áður vitnað til þess að ég veit að hæstv. forsrh. hefur einlægan áhuga á umhverfismálum og hann hefur líka áhuga á því að halda saman þessari ríkisstjórn sem er sú óvinsælasta sem setið hefur í landinu að því er ég best veit. En vegna áhuga hans á fyrrnefnda málinu, umhverfismálunum sjálfum, þá vonast ég til þess að hann muni ráðstafa þessu með öðrum hætti af stjórnvisku sinni og fá --- beinast virðist mér liggja við að Alþb. léti af hendi t.d. samgrn., það hlýtur að henta verkfræðingi ágætlega og gæti hæstv. forsrh. vitnað þar til eigin reynslu, ellegar þá iðnrn. Það er af ýmsu að taka í þessu sambandi.
    Ég held að við ættum að huga betur að þessu ef við á annað borð berum umhyggju fyrir títtnefndri virðingu Alþingis sem er stundum svolítið, ja, menn gætu kannski stundum haldið að hún væri á einhverju undanhaldi. Auðvitað viljum við vanda til meðferðar mála hér á Alþingi en við viljum ekki una því að málefni eins og þetta sé notað eins og einhvers konar verslunarvara í hrossakaupum og við viljum stuðla að því að unnt sé að leysa það með öðrum hætti. Loks teljum við að umhverfismálunum sjálfum sé miklu betur borgið með því að hafa einhvers konar samræmingarnefnd starfandi sem annast tengsl milli umhverfisverkefna á sviði hinna ýmsu ráðuneyta eftir því sem þörf er á en forðast að telja okkur trú um að við séum að leysa umhverfisvandamál með því að búa til eina stjórnarskrifstofuna enn.
    Ég þakka fyrir orðið, hæstv. forseti. Ég ætlaði ekki að taka til máls nú vegna þess að ég hafði talið að samkomulag væri orðið um gang þessa máls þó fjarri væri því að samkomulag væri um efni þess. En augljóst er að hæstv. forseti Sþ. hefur rofið þetta samkomulag og látið í ljós nokkur atriði sem ég taldi nauðsynlegt að svara vegna þess að ég hafði áður látið mig þetta mál nokkru varða og hef enda, eins og fleiri hv. þm., haft af því nokkur afskipti, bæði sem ráðherra og þingmaður. Þess vegna tel ég að við

höfum ýmis okkar allgóða aðstöðu til að fjalla um það með málefnalegum hætti. Við vísum því á bug að ástæðan sé eitthvert offors og þaðan af síður virðingarskortur við Alþingi að fjalla um það ítarlega og málefnalega þegar hugmyndir af þessu tagi eru uppi.