Stjórnarráð Íslands
Miðvikudaginn 07. febrúar 1990


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Fyrir nokkrum dögum var fundur þingflokksformanna þar sem gert var samkomulag um framgang þessa máls hér í deildinni. Fól það m.a. í sér að 2. umr. skyldi ljúka, eins og gerðist reyndar, í gær og að 3. umr. skyldi ljúka hér á tiltölulega stuttum tíma eða um tveim klukkustundum.
    Þá sprengju, sem hæstv. forseti Sþ. varpaði hér inn í umræðuna í upphafi þessa fundar, er varla hægt að skilja á annan veg en þann sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir gerði, að hér væri nánast um rof á þessu samkomulagi að ræða. Slíkt tilefni var gefið til frekari umræðna af þingmannsins hálfu. Þingmaðurinn hóf sína ræðu á því að tala um sóma Alþingis og að umræðan hér hefði ekki verið þinginu til sóma. Aðeins þessi fyrstu orð þingmannsins voru þinginu ekki til sóma og kannski í fyrsta sinn í þessari umræðu sem umræðan fer á það stig að nota megi slík orð. Þingmaðurinn talaði um að hér hefði verið farið með offorsi, að hér hefði nánast farið fram skítkast en þó verst af öllu að menn skyldu hafa vogað sér að blanda innanflokksmálum Alþb. í þessa umræðu.
    Ég kannast ekki við neitt af þessu. Ég kannast við það að mönnum hafi hitnað eitthvað í hamsi en persónuníð og afskipti af innanflokksmálum Alþb., sem ég tel að engum heilvita manni detti í hug að fara að ræða hér, þau kannast ég ekki við. Ég tek undir þá ósk sem fram kom hér hjá síðasta ræðumanni að nánari grein verði gerð fyrir þessum staðhæfingum.
    Hæstv. forseti Sþ. gekk enn lengra. Hann tók afstöðu hér fyrir allan þingheim, hann fullyrti að allir þingmenn vildu stofna sérstakt umhverfisráðuneyti. Hvaðan í ósköpunum fær forseti Sþ. þessi völd? Það veit ég ekki en hann hefur ekki mitt atkvæði í þeirri atkvæðagreiðslu. Hafi hins vegar einhvern tímann verið farið yfir markið í umræðunni vil ég minna menn sem sáu Þingsjá, sem sýnd var sl. mánudagskvöld, á það að þar sagði hæstv.
hagstofuráðherra og verðandi umhverfisráðherra að hann hefði hagað sér nákvæmlega eins í okkar sporum. Nákvæmlega eins. Þannig að hafi hún farið yfir markið þá hefði hann verið tilbúinn að standa nákvæmlega eins að málum. Þessu gleymdi hæstv. forseti Sþ.
    Eina innlegg forsetans í umræðunum var samanburðurinn við Danmörku og reynslu þeirra. Held ég að verri samanburð hefði naumast verið hægt að taka í máli sem slíku. Slík er reynsla Dana af umhverfisráðuneytinu og því bákni sem þar hefur blásið út.
    Ég tel að hæstv. forseti Sþ. hafi nánast rofið það samkomulag sem gert var á fundi þingflokksformanna. Þetta er eins og að skvetta vatni framan í mann þar sem samstarfsvilji stjórnarandstöðunnar hefur verið, að ég tel, með eindæmum góður. Til að mynda hafa verið haldnir fundir í allshn. á hverjum degi í þessari viku þó að skráður fundartími, eins og deildarmenn

vita, sé aðeins einu sinni í viku. Það er ekki um það að ræða, hv. þm. Matthías Bjarnason kom hér inn á það, að með þessum hætti hafi verið greitt fyrir þingstörfum og flýtt fyrir umræðu og ég tek undir þá skoðun þingmannsins.
    Hv. þm. Ólafur G. Einarsson fór hér lítillega yfir störf nefndarinnar og hverjir hefðu komið á fund hennar og rætt þessi mál. Hann nefndi að á fund nefndarinnar hefðu komið sautján aðilar sem sjálfsagt getur verið rétt. Mín talning segir að tíu aðilar hafi komið, þ.e. frá tíu stofnunum, en það hafa að vísu komið fleiri en einn frá ákveðnum stofnunum þannig að þetta getur alveg gengið upp.
    Af þeim aðilum sem leitað var til eftir umsögnum hafa 45 þegar sent inn svör, við tíu þeirra er búið að tala, sex hafa ekki svarað. Þar eru aðilar sem ég tel að nefndin þurfi að fá umsögn frá og ef ekki kemur umsögn á að kalla þessa aðila til spjalls og ráðagerða við nefndina. Það eru aðilar eins og Eðlisfræðifélag Íslands, Félag röntgentækna, Ferðaþjónusta bænda, Húsameistari ríkisins, sjútvrn. og utanrrn. Og síðan veiðistjóri sem láðist að senda frv. til umsagnar en mun verða kallaður fyrir nefndina til þess að gefa sitt álit.
    Nefndin er búin að tala við fulltrúa frá tíu stofnunum og þegar liggur fyrir að a.m.k. tveir af þeim aðilum þurfa að koma aftur til frekari viðræðna við nefndina. Það er alveg ljóst að nefndin á mikið starf fyrir höndum.
    Það var lítillega farið yfir álit þeirra aðila sem höfðu komið, og skýrt frá því að aðeins einn af þeim aðilum hefði í raun lýst yfir stuðningi við þetta mál, sem er alveg rétt. Ég ætla að fara aðeins í það líka og rifja aðeins upp hvert er helsta álit manna á frv. Starfsmaður nefndarinnar hefur tekið út kjarnapunkta og dreift til nefndarmanna úr þeim umsögnum sem borist hafa enda hefur nefndarmönnum ekki gefist tími til að lesa hverja einustu umsögn. Starfsmaðurinn er fyllilega fær um sitt starf og vel hægt að treysta því sem hann hefur tekið út. Hann tók út fjóra meginpunkta. Fyrsti punkturinn var: Hver er afstaða umsagnaraðilans til stofnunar sérstaks umhverfisráðuneytis? Annar punkturinn: Hver er afstaða viðkomandi til flutnings einstakra stofnana milli ráðuneyta?
    Ég ætla að leyfa mér að fara í stuttu máli yfir nokkra meginpunkta úr svörum
þessara umsagnaraðila við þessum tveimur spurningum. En eins og ég sagði áður þá voru lagðar fjórar spurningar fyrir þá, en kannski heyra þær frekar undir umræðu um verkefnatilflutning.
    Heilbrigðisfulltrúafélag Íslands segir: Bréf félagsins til nefndar Jóns Sveinssonar mátti skilja á þá lund að mælt væri með stofnun umhverfisráðuneytis og því að öll starfsemi Hollustuverndar ríkisins flyttist til þess. En með erindi 258/112 til allshn. og umsögn 10. jan. 1990 er skýrt tekið fram að best sé að stofna heilbrigðis- og umhverfisráðuneyti.
    Þetta er svarið við stofnun sérstaks ráðuneytis.
    Síðan segir Heilbrigðisfulltrúafélagið: Sé stofnað

sjálfstætt umhverfisráðuneyti er lagt til að Hollustuvernd og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna verði ekki flutt úr stað. Hefur félagið alltaf lagst gegn því að stofnunin verði klofin upp og skipt milli ráðuneyta. Félagið hefur einnig efasemdir um breytingu á hlutverkum Náttúruverndarráðs, Skógræktar ríkisins og Landgræðslu ríkisins og það telur að stjórnunarerfiðleikar hljóti að koma upp við rekstur Siglingamálastofnunar ef stofnuninni verður skipt á milli ráðuneyta.
    Heilbr.- og trmrn. segir við fyrri spurningunni: Ráðuneytið telur umhverfisráðuneyti eingöngu eiga að fjalla um ytri mengun. Við síðari spurningunni: Því er alfarið mótmælt að Hollustuvernd og Geislavarnir flytjist yfir í umhverfisráðuneyti en mögulegt talið að flytja mengunarvarnadeild Hollustuverndar yfir. --- Og, hæstv. forseti, meðan við erum að ræða um heilbr.- og trmrn., þá var frv. sent til umsagnar þess ráðuneytis en ráðuneytið hafnaði að senda inn umsögn og sagði í bréfi sínu 27. des. 1989 m.a.: ,,Ráðherra hefur ákveðið að ráðuneytið gefi ekki umsagnir um þessi mál til þingnefndar þar eð hann hefur tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri við umræðu málsins á Alþingi.``
    Nú hygg ég að ég hafi setið undir allri umræðunni, svo til, en til öryggis þá fletti ég upp í umræðum og varð þess var að hæstv. ráðherra hefur ekki enn komið þessum skoðunum á framfæri. Ég fer fram á það við forseta að hann leitist við að fá hæstv. heilbrrh. til að gefa sitt álit á þessu máli í umræðunni í dag. Ég er hins vegar ekki að fara þess á leit að það verði sérstaklega kallað í hann núna heldur að séð verði til þess að við fáum að heyra hans álit á málinu. ( Forseti: Forseti vill taka fram að það er ekki á hans valdi að kveðja menn hingað í ræðustól. Ef hv. ræðumaður vill beina orðum til hæstv. ráðherra þá skal hlutast til um að hann komi í þingsalinn.) Þá skulum við, hæstv. forseti, geyma það að sinni. Ég tel ekki þörf á því að halda ráðherra hér í salnum lengur en nauðsyn krefur.
    Veðurstofan segir sína skoðun og hefur áliti hennar á þessu máli verið lýst. Þar segir einfaldlega: Erum alfarið á móti því að Veðurstofan verður flutt úr samgönguráðuneytinu.
    Orkustofnun svarar fyrri spurningunni svo: Ekki lagður dómur á hvort skipa eigi umhverfismálum í eitt ráðuneyti eða sérstakt umhverfisráðuneyti.
    Og enn fremur: Er á móti því að Veðurstofan verði flutt úr samgönguráðuneytinu.
    Náttúruverndarráð telur að mengunarvarnadeild Hollustuverndar eigi að tilheyra umhverfisráðuneytinu en ekki stofnunin öll.
    Dýralæknafélagið svarar fyrstu spurningunni þannig: Félagið telur stofnun ráðuneytisins varhugaverða þar sem ekki er sett fram umhverfismálastefna. Leggja til að stofnað verði heilbrigðis- og umhverfisráðuneyti.
    Við annarri spurningunni: Félagið er andvígt því að Hollustuvernd verði í umhverfisráðuneyti.
    Rannsóknaráð ríkisins svarar fyrstu spurningunni: Ráðið telur ekki tímabært að stofna

umhverfisráðuneyti þar sem ekki kemur fram nein sannfærandi greining á þeim efnisvanda sem því er ætlað að fjalla um.
    Þjóðminjasafn Íslands mælir gegn því að húsfriðunarnefnd og verkefni hennar verði flutt úr menntmrn.
    Fjárlaga- og hagsýslustofnun telur að í frv., 128. mál, vanti öll ákvæði um tilfærslu á stöðugildum og rekstrarfé frá ráðuneytum sem til þessa hafa sinnt viðkomandi verkefnum. Leggja til að sérstöku ákvæði verði bætt inn í 128. mál er tryggi að tilflutningur á stöðugildum og rekstrarfé verði frá öðrum ráðuneytum í samræmi við minni verkefni þeirra.
    Félag ísl. náttúrufræðinga svarar fyrstu spurningunni, mælir með stofnun ráðuneytisins með vissri lágmarksstarfsemi, þótt ekki verði búið að ganga frá skipan umhverfismála í heild. Félagið bendir á að skilgreiningu á umhverfi vanti í frv. Áfram held ég, hæstv. forseti, en þetta sýnir mjög glögglega hversu mikill ágreiningur er um málið.
    Það hefur verið fjallað um Hollustuvernd ríkisins hér úr þessum ræðustóli í dag. Þar eru nánast allir innan dyra á móti flutningi Hollustuverndarinnar. Stjórnin, framkvæmdastjórar sérsviðanna og framkvæmdastjórinn eru allir gegn því. Þeir senda inn allítarlegar athugasemdir sem ég ætla að sleppa að fara yfir núna en mun gera við seinna tækifæri.
    Yfirdýralæknirinn í Reykjavík telur að sá málaflokkur sem heyrir undir dýravernd eigi frekar heima í landbrn. en umhverfis- eða menntmrn. Rannsóknastofnun landbúnaðarins telur ekki rétt að skipta verklegum þætti Landgræðslunnar og Skógræktarinnar milli ráðuneyta og telur vegna náins samstarfs RALA við þær að stofnanirnar eigi heima undir landbrn. RALA vitnar til Brundtland-skýrslunnar um að rannsóknir á nýtingu auðlinda séu snar þáttur í því að gera atvinnuvegum kleift að fara með náttúruauðlindir með verndunarsjónarmið í huga.
    Landlæknir telur að Geislavarnir og Hollustuvernd eigi heima undir heilbrrn. enda sé meiri hluti verkefna þessara tveggja stofnana á sviði heilbrigðismála. Mjög misráðið væri að fórna hagsmunum þessara stofnana vegna fljótræðisákvarðana.
    Fulltrúi Samtaka jafnréttis og félagshyggju, Bjarni Guðleifsson, sem átti sæti í þeirri nefnd sem samdi þetta frv. en var á móti, svarar fyrstu spurningunni þannig að hann sé á móti stofnun umhverfisráðuneytis þar sem óskynsamlegt sé að aðskilja yfirstjórn nýtingar og verndunar auðlindanna. Ráðuneytið auki á miðstýringu og sé of kostnaðarsamt. Helsta verkefni umhverfisráðuneytis, ef stofnað verður, ætti að vera stefnumótun og ráðgjöf.
    Stéttarsamband bænda leggur áherslu á að hlutverk væntanlegs ráðuneytis á sviði Landgræðslu og Skógræktar verði einskorðað við eftirlit með ástandi gróðurs og fræðslu um gróðurverndarmál. Framkvæmdaþáttur gróðurverndar og aðgerðir til landfriðunar verði áfram undir stjórn landbrn. Sama gildir um málefni Skógræktar ef frá er talið eftirlit með náttúrulegum birkiskógum.

    Siglingamálastofnunin hefur hvergi lýst þeirri skoðun að nauðsynlegt sé að setja á fót sérstakt umhverfisráðuneyti, þar sem stofnunin telur að árangur opinberrar stefnu í umhverfisvernd á hverjum tíma ráðist frekar af vilja löggjafans til lagasetningar og útvegunar fjármagns til verkefnanna heldur en með hvaða hætti yfirstjórn málaflokksins er fyrir komið innan stjórnkerfisins. Hvergi er að finna í greinargerðum með frumvörpum mat á því hvernig það fyrirkomulag sem er á framkvæmd umhverfismála hafi reynst. Vegna sérstöðu Íslands er ekki sjálfgefið að fyrirkomulag það sem flest nágrannalönd okkar hafa tekið upp sé hagkvæm lausn fyrir Ísland.
    Skógræktarfélag Íslands svarar fyrstu spurningunni þannig: Félagið telur að vænlegast sé að fara hægt í sakirnar varðandi stofnun umhverfisráðuneytis. Félagið telur mjög ósennilegt að starfsfólk ráðuneytisins geti unnið að lögboðnum störfum sínum og jafnframt unnið að lagabreytingum sem starfsemi ráðuneytisins kallar á. Við annarri: Félagið telur óviðunandi ósamræmi vera vegna flutnings á verkefnum úr landbrn. til umhverfisráðuneytisins er varða gróðurvernd og landnýtingu ef öðrum fagráðuneytum er ætlað að hafa forræði auðlinda sem þeirra atvinnugreinar byggjast á. Leggur félagið til að Skógrækt ríkisins verði óskipt í landbrn., þar á meðal gróðurvernd og allir þættir skógræktar, en eftirlitshlutverk verði í umhverfisráðuneyti. Ella kunni að verða rofin þau tengsl sem myndast hafa á undanförnum árum milli skógræktarmanna og bænda þar sem verkaskipting sú sem gert er ráð fyrir sé óhæf og telur félagið verksvið umhverfisráðuneytisins ekki vel skilgreint.
    Landbrn. svarar í löngu máli og er ljóst að það er mjög svo á móti stofnun sérstaks umhverfisráðuneytis, en ég mun geyma mér að fara út í þá sálma.
    Geislavarnir ríkisins leggja áherslu á að leitað verði víðtækrar samstöðu um stjórnskipulegt fyrirkomulag umhverfismála. Stofnun umhverfisráðuneytis er nátengd endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands og breyttri verkaskiptingu ráðuneyta. Því ætti að leiða þau mál til lykta fyrst, segja Geislavarnir ríkisins.
    Við síðari lið segja þeir: Það er skýr skoðun stjórnar stofnunarinnar að ekki sé rétt að flytja yfirstjórn stofnunarinnar þar sem langstærsti hluti verkefna hennar sé á sviði heilbrigðismála. Jafnframt er bent á að í Danmörku og Noregi hafi heilbrrn. yfirstjórn geislavarna.
    Röntgendeildir Landakots, Landspítalans og Borgarspítalans svara: Yfirlæknar deildanna beina þeirri ósk til nefndarinnar að Geislavarnir ríkisins verði áfram undir stjórn heilbrrn. og landlæknisembættisins þar sem sú ráðstöfun að færa stofnunina undir umhverfisráðuneytið sé afar misráðin. Langstærsta og veigamesta verkefni stofnunarinnar er á sviði heilbrigðismála. Einnig má benda á að Alþjóðageislavarnanefndin telur samkvæmt samþykktum sínum að geislavarnastarfsemi sé í eðli sínu tengd heilbrigðismálum.
    Landgræðsla ríkisins telur frumvörpin að mörgu

leyti ómótuð og við þá vinnu sem fram undan er leggur Landgræðslan áherslu á samráð hlutaðeigandi.
    Samgrn. ítrekar óhagræðið sem hlýst af því að Siglingamálastofnun sé skipt á milli tveggja ráðuneyta. Einnig er ítrekað að Veðurstofan á fyrir flestra hluta sakir miklu fremur heima undir samgrn. en umhverfisráðuneyti.
    Samband ísl. sveitarfélaga svarar fyrstu spurningunni þannig: Stjórnin telur ekki tímabært að taka afstöðu til frv. fyrr en fyrir liggja tillögur um endurskipulagningu Stjórnarráðs Íslands. Stjórnin harmar að ekki hafi verið unnið að þessu máli í nánu samstarfi við sveitarfélögin í landinu.
    Ef mig misminnir ekki, þá svaraði hæstv. forsrh. mér því að náið samstarf hafi einmitt verið haft við sveitarfélögin í landinu við samningu þessa frv. en annað kemur sem sagt í ljós í umsögn þeirra.
    Búnaðarfélag Íslands telur brýnt að sem víðtækust samstaða náist um stjórn umhverfismála, bæði innan stjórnsýslunnar og meðal alls almennings. Telur búnaðarþing að hinir einstöku þættir í stjórnun umhverfismála séu að meginhluta til best komnir í umsjón hinna ýmsu fagráðuneyta. Þó er fallist á nauðsyn þess að fyrir hendi sé ákveðinn aðili eða ráðuneytisdeild sem hafi m.a. á hendi samræmingarverkefni þar sem verkefni skarast og komi fram sem sameiginlegur fulltrúi þjóðarinnar við umheiminn. Telur að Landgræðslan og Skógræktin eigi að vera undir landbrn. og nefnir margvísleg rök.
    Líf og land eru að sjálfsögðu meðmælt stofnun umhverfisráðuneytis en treysta því að umhverfismál verði ekki gerð að dýru bákni í þjóðfélaginu. Fullir af bjartsýni.
    Náttúrufræðistofnun telur ekki augjóst að allir verkþættir stofnunarinnar eigi að heyra undir hið nýja ráðuneyti og tínir til ýmsa þætti sem ég geymi mér.
    Félag ísl. iðnrekenda er sammála því að þörf sé á að samræma yfirstjórn umhverfismála en telur óþarfa kostnað að stofna nýtt ráðuneyti.
    Bændaskólinn á Hólum: Stofnun sérstaks umhverfisráðuneytis ber keim af friðþægingu og er spor af leið ef eitthvað er. Bændaskólinn á Hvanneyri telur að í eðli sínu eigi umhverfismál ekki að vera í sérstöku ráðuneyti þar sem aukin hætta er á miðstjórn. Einnig er best að saman fari ábyrgð og framkvæmd. Með slíku ráðuneyti eykst hætta á árekstrum milli þéttbýlisbúa og bænda.
    Hæstv. forseti. Ég stiklaði hér á stóru eða greip ofan í nokkur af þeim svörum sem við höfum fengið í nefndinni. Að sjálfsögðu eru þau miklu ítarlegri heldur en hér hefur komið fram. Ég taldi nauðsynlegt að fara aðeins ofan í þau þó ekki væri nema til að sýna fram á hversu gríðarleg andstaða er í raun við stofnun þessa ráðuneytis. Og þar sem hún er ekki, þá er verulegur ágreiningur um það hvaða verkefni eigi að flytjast til ráðuneytisins.
    Í greinargerð með frv. kemur fram að til umhverfisráðuneytis er gert ráð fyrir samtals átta stöðugildum. Það kom fram þegar hæstv. verðandi umhverfisráðherra umhverfðist hér í stólnum þegar hv.

þm. Matthías Bjarnason talaði, að hann hefði mjög mikið að gera í hagstofuráðuneyti, væri mjög upptekinn maður þar. Það er því spurning hvort hæstv. ráðherra hafi yfir höfuð tíma til þess að fara í annað ráðuneyti. Hann hefur sem sagt nóg að gera þrátt fyrir að hann hafi ráðið sér aðstoðarmann fyrir nokkru síðan. Lítum aðeins á verkefnin og viðfangsefnin sem eiga að fara yfir í þetta nýja ráðuneyti og aðeins átta stöðugildum er ætlað að sinna. Af þeim átta stöðugildum er að sjálfsögðu einn bílstjóri sem væntanlega kemur ekki til með að vinna inni á skrifstofunni.
    Á bls. 14 í frv. eru viðfangsefnin talin upp. Þau eru:
    1. Mál er varða náttúruvernd, þjóðgarða, landgræðslu að því er tekur til gróðurverndar, varna gegn gróðureyðingu, friðunar og eftirlits með ástandi gróðurs, verndun, friðun og eftirlit með náttúrulegum birkiskógum og skógum til útivistar, útivist og aðstöðu til náttúruskoðunar, jarðrask og efnistöku, aðgerðir til að stjórna stofnstærð villtra dýra, dýravernd og efling alhliða umhverfisverndar. --- Þetta er aðeins fyrsti liðurinn. Við skulum ekki gleyma að það eru aðeins átta manneskjur sem eiga að vinna að öllum þessum verkefnum. Menn geta velt því fyrir sér hvort þær ráði við það eða hvort þetta verði ekki eins og stjórnarandstaðan hefur margítrekað sagt, orðið að bákni áður en við vitum af.
    2. Mál er varða varnir gegn mengun á landi, í lofti og legi, eyðingu eða endurvinnslu hvers konar úrgangs frá byggð og atvinnuvegum, mál sem varða meðferð eiturefna og varnir gegn skaðlegri geislun og mál sem varða hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.
    3. Skipulags- og byggingarmál, friðlýsing húsa, gerð landnýtingaráætlana og mál er varða landmælingar.
    4. Rannsóknir á sviði umhverfismála í samráði og samvinnu við aðra aðila, veðurspár, veðurathuganir og aðrar mælingar, ástand lofthjúps jarðar og alþjóðlega samvinnu á því sviði.
    5. Fræðslu- og upplýsingastarfsemi á sviði umhverfismála.
    6. Frumkvæði að samræmingu á aðgerðum ráðuneyta, einstakra ríkisstofnana og sveitarfélaga í málaflokkum sem snerta framkvæmd umhverfismála, svo sem í löggjöf um losun úrgangsefna og varnir gegn loft-, hávaða-, titrings-, geislunar-, ljós-, varma- og lyktarmengun.
    7. Mál er varða alþjóðasamskipti og samvinnu þjóða á sviði umhverfismála og framkvæmd á alþjóðasamningum um það efni.
    Þetta eru viðfangsefnin sem átta stöðugildi eiga að duga til að sinna. Stofnanir og embætti sem falla undir ráðuneytið skv. frv. eru Náttúruverndarráð, Hollustuvernd ríkisins, eiturefnanefnd, Geislavarnir ríkisins, Siglingamálastofnun ríkisins að því er varðar varnir gegn mengun
sjávar, skipulagsstjóri ríkisins og skipulagsstjórn, Landmælingar ríkisins, húsafriðunarnefnd, embætti veiðistjóra, Náttúrufræðistofnun Íslands, Veðurstofa

Íslands. Dettur nokkrum manni í hug að átta stöðugildi dugi fyrir öll þessi viðfangsefni? Það hvarflar ekki að mér en ég óska eftir því, ef eyru hæstv. hagstofuráðherra eru nú einhvers staðar nálægt salnum, að hann geri nána grein fyrir því hvernig hann ætlar að deila verkefnum niður á þessa átta starfsmenn. Inni í því eru reyndar tveir ritarar og eins og ég sagði ráðherrabílstjóri og mjög upptekinn hagstofuráðherra, mjög upptekinn. Hann er ekki bara hagstofuráðherra, hann er líka að móta nýja atvinnustefnu fyrir þjóðina, þannig að ég óska eftir skýringum á því hvernig í ósköpunum þetta ráðuneyti, svo fámennt sem það verður, á að geta starfað með alla þá málaflokka og viðfangsefni sem því er gert að starfa með.
    Hæstv. forseti. Það hefur auðvitað margoft komið fram að hér er verið að greiða Borgaraflokknum fyrir það að ganga til liðs við ríkisstjórnina og efla þingstyrk hennar. Auðvitað var aldrei ætlunin önnur en að efla þingstyrkinn, enda ekki hægt að ætlast til þess að meiri akkur væri í því samstarfi. Hér fær því þjóðin að gjalda fyrir valdafíkn --- ég segi valdafíkn sitjandi stjórnarflokka, gömlu flokkanna plús vinstri flokks Borgaraflokksins. Ég segi að skattgreiðendur og þjóðin öll muni líða fyrir þetta í stórauknum skattaálögum í framtíðinni, í nánustu framtíð, því að ráðuneytið verður orðið að bákni áður en við getum snúið okkur við, enda hef ég margoft lýst því yfir að hér er sennilega eitthvert dýrasta þskj. í sögunni á ferðinni. Aðeins eitt orð --- en það er ansans ári dýrt. Þetta mega borgaraflokksmenn og hæstv. forsrh. sitja uppi með. Setja á stofn umhverfisráðuneyti sem er gegn þeirri meginstefnu sem ríkir alls staðar í hinum vestræna heimi, alls staðar. Hér hafa menn vitnað til Brundtland-skýrslu sem boðar akkúrat þveröfuga stefnu. Hún boðar ekki fílabeinsturnastefnu þar sem stjórnað er ofan frá heldur akkúrat öfugt. En völdin skulu keypt hvaða verði sem er.
    Hv. þm. Pálmi Jónsson hefur lagt fram fsp. um bílakaup þess ráðuneytis sem ekki er í reynd til enn þá og hvaðan fjármagnið hafi komið. Ég ætla ekki að fjalla neitt um það fyrr en svar hefur fengist við því.
    Ég treysti því að hv. formaður allshn. Nd. muni svara því á eftir, enda var hann spurður að því formlega. Hins vegar kemur náttúrlega í ljós með þennan bíl sem var talinn hafa verið keyptur á ákaflega góðum kjörum, ef marka má grein sem þingflokksformaður Sjálfstfl. ritaði í Morgunblaðið í dag, að þau kjör eru afar vafasöm þar sem bíll af þessari gerð kostar svona eins og allur almenningur mundi kaupa hann 2,2 millj. að mig minnir. En eins og ráðherrann keypti hann á góðu kjörunum kostaði hann 3,5 millj. Það eru góðu kjörin. Þetta er náttúrlega bara talandi dæmi um fjármálastjórn ríkisins, fjármálastjórn þessarar ríkisstjórnar. Góðu kjörin eru þessi.
    Ég ætla nú ekki að velta mér mikið upp úr þessu en menn hafa talað hér um að ráðherra vildi komast í ráðuneyti án verkefna. Mér sýnist að það sé svipað og þessi bíll hefði verið án vélar, hann fer jafnlangt.

    Það er hlálegt að hlusta á ríkisstjórnina boða það að hér eigi að fækka ráðuneytum á nákvæmlega sömu stund og þeir tala um að fjölga þeim. Hvernig getur nokkur einasti maður í landinu hlustað á svona stjórnarherra? Það er ekki nokkur einasta leið að ætlast til þess að fólk með sæmilega greindarvísitölu taki eitthvert mark á slíku. Þetta er svipað og að segja: Við ætlum að lækka skattana en fyrst ætlum við að hækka þá.
    Nei, reynsla annarra þjóða af stofnun umhverfisráðneytis á að vera okkur víti til varnaðar. Við eigum ekki að berja hausnum við stein. Það á að taka á þessum þætti mála, það á að samræma stjórn umhverfismála en það þarf ekki að stofna um það sérstakt ráðuneyti.
    Ég hef skrifað undir brtt. ásamt hv. þm. Ólafi G. Einarssyni um að fresta gildistöku laganna. Okkur er það nokkuð ljóst að við getum ekki stöðvað framgang þessa máls svo mjög sem við höfum reynt að koma vitinu fyrir stjórnarliða. Ég hefði persónulega viljað hafa gildistímann heldur seinna því að mér þykir einsýnt að þetta frv. fari ekki út úr Ed. fyrr en í fyrsta lagi í lok mars eða einhvern tíma í apríl jafnvel. Þannig að það eru ekki nema tveir mánuðir til stefnu. Ég hefði viljað sjá gildistímann frekar í kringum 1. júlí eða 1. ágúst, eitthvað slíkt. Enda eins og menn heyrðu, eða vita náttúrlega, af þeirri upptalningu sem ég las um viðfangsefnin, þá veitir ekki af aðlögunartímanum.
    Hitt er annað mál að nú þegar hlýtur náttúrlega að hafa sparast verulega --- jæja, það er kannski ekki rétt að segja verulega, en það hefur sparast eitthvert fé við það að ráðuneytið er ekki komið á laggirnar því að fjárveiting, t.d. launaútgjöld, er miðuð við 12 mánuði. Það getur varla verið komið í gang. Það er varla búið að ráða þetta fólk nú þegar þannig að nú þegar eru væntanlega tveir mánuðir, 2/12 komnir í sparnað.
    Talandi um sparnað og kannski kjarasamningana í leiðinni, þá er það auðvitað leið til sparnaðar að hætta við þetta ráðuneyti eða í það minnsta fresta því og vinna það þá betur. Hér hef ég lesið upp glefsur úr fjölmörgum umsögnum þar
sem kemur fram að menn telja að það þurfi að gefa þessu miklu, miklu betri tíma. Það sparast væntanlega um það bil 30 millj. við það að fresta þessu. Ég mælist til þess við hæstv. ríkisstjórn að hún skoði það nú gaumgæfilega, enda eins og fram kom, þá hefur hæstv. hagstofuráðherra feykinóg að gera. Það má líka segja það að Borgfl. hamast við að lýsa því yfir að það sé honum að þakka fyrst og fremst að þessir kjarasamningar náðust, að það skyldi vera grundvöllur fyrir þá, það hafi verið þeim að þakka með því að vernda ríkisstjórnina á síðasta þingi. Auðvitað vilja þeir gæta síns starfs og ef þeir geta lagt gott innlegg í þá björgunaraðgerð taka þeir auðvitað undir það að fresta því að setja á stofn umhverfisráðuneytið.
    Hæstv. forseti. Það svo sem liggur í orðunum í nál. meiri hl. að menn séu ekki á eitt sáttir um þetta, en þar segir í fyrstu setningu eftir að upptalningu er lokið á þeim sem sendu inn umsagnir, með leyfi

forseta:
    ,,Flestir eru sammála um að bæta þurfi yfirstjórn umhverfismála hérlendis en greinir á um leiðir að því markmiði.``
    Þetta er auðvitað hárrétt. Það eru auðvitað allir inni á því. Það hefði verið nær ef hæstv. forseti Sþ. hefði komið inn á þetta. Það eru allir sammála þessu. Það er ekki rétt að það séu allir sammála því að stofna sérstakt ráðuneyti um það. En þar sem flestir eru sammála því að það þurfi að taka á þessari yfirstjórn, þá telur meiri hl. hv. allshn. að það beri að stofna sjálfstætt umhverfisráðuneyti. Rökin eru ekki meiri en þau. Allir vilja taka á málaflokknum og það dugar meiri hlutanum.
    Ég lýsi vonbrigðum mínum með það að ekki skyldi verða tekið í útrétta hönd stjórnarandstöðunnar þegar hún bauð samstarf um þessi tvö mál, að þau ættu að fylgjast að í gegnum þingið. Ég hef bent á það áður að þegar hæstv. forsrh. mælti fyrir þessum málum, þá gerði hann það samtímis og taldi það eðlilegt og það töldu held ég hér allir, bæði stjórnarandstaðan og stjórnarsinnar, en það náði bara ekki lengra þá. Síðan slitnaði upp. Síðan lá á að koma ráðuneytinu í gang þó það væru engin verkefni fyrir hæstv. hagstofuráðherra. Það er gott að menn eru skilvísir og vilja borga sínar skuldir sem fyrst. En það þarf fyrst að gera upp við fortíðina.
    Hæstv. forseti. Ég hygg að ég láti þetta nægja að sinni. Ég ætla hins vegar að bíða eftir því að heyra í ráðherranum sem minnir mig reyndar á það, hæstv. forseti, að ég óskaði eftir því að heilbrrh. segði okkur sitt álit á þessu máli og óska eftir því að hann verði kallaður í salinn.
    Á fund nefndarinnar í morgun kom m.a. Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri og var ekki alveg sammála því að stofna ætti slíkt ráðuneyti en gerði sér grein fyrir því að við því yrði ekki spornað héðan af. Hann lýsti þeirri skoðun sinni að úr því að svo væri komið ætti að gera það í áföngum og varaði mjög við reynslu annarra þjóða í þessum efnum.
    Hér hefur lítillega verið fjallað um skoðun Veðurstofunnar. Páll Bergþórsson kom á fund nefndarinnar og lýsti því mjög vel hve samstarf Veðurstofunnar og Pósts og síma er mikið og hversu fáránlegt væri í framhaldi af því að taka Veðurstofuna undan samgrn. Gerði hann það með skemmtilegum dæmum sem ég ætla ekki að fara yfir hér.
    Hæstv. forseti. Það er sem sagt mikið starf eftir í nefndinni. Það er eftir að ræða við allnokkra aðila. Það hefur ekki verið rætt við 35 aðila. Er ég þó ekki með þessu að segja að við ætlum að ræða við þá alla en það eru enn allnokkrir sem þarf að ræða við.
    Nú gengur hæstv. heilbrrh. í salinn og fagna ég því mjög. Það stendur styrr um ýmis málefni sem falla undir hans ágæta ráðuneyti. Ég kom inn á það í ræðu minni að það hefði verið óskað eftir umsögn heilbr.- og trmrn. um þetta frv. en í svari sem barst frá ráðuneytinu segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Ráðherra hefur ákveðið að ráðuneytið gefi ekki umsagnir um þessi mál til þingnefndar þar eð hann

hefur tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri við umræðu málsins á Alþingi.``
    Það er vegna þessarar setningar sem ég var að lesa, sem ég óskaði, hæstv. heilbrrh., eftir nærveru þinni og áliti þínu og þíns ráðuneytis á þessum málum.
    Hæstv. forseti. Ég held að ég þurfi ekki að hafa þetta lengra að sinni.