Stjórnarráð Íslands
Miðvikudaginn 07. febrúar 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Hv. 5. þm. Vesturl. vitnaði hér til bréfs frá heilbrrn. vegna óskar um umsögn þess um frv. það sem hér er til umræðu, beindi kannski ekki beint til mín fsp. en vitnaði til bréfsins þar sem m.a. segir að ráðherra hafi að sjálfsögðu möguleika á að koma skoðunum sínum á framfæri á Alþingi varðandi þetta frv. eins og önnur og þess vegna sé ekki ástæða til sérstakrar umsagnar frá ráðuneytinu. Ég vil aðeins út af því segja það að ég er fullkomlega sammála frv. eins og það liggur hér fyrir þar sem gert er ráð fyrir að stofna sérstakt umhverfisráðuneyti. Ég samþykkti það bæði í ríkisstjórn og í þingflokki þannig að afstaða mín til málsins hlýtur að vera alveg ljós af þeirri ástæðu einni. En þar að auki er mér ljóst að um ýmsa þætti eru skiptar skoðanir og t.d. hjá Hollustuvernd ríkisins hafa komið upp skiptar skoðanir hjá einstökum starfsmönnum og það á kannski við líka í ráðuneyti að það séu skiptar skoðanir um málið hjá einstökum starfsmönnum um hvernig að því beri að standa og hvernig því beri að framfylgja. En stefna ráðherra og þar með ráðuneytisins opinberlega er ljós.
    Ég er fylgjandi því að Hollustuverndin flytjist yfir í einu lagi eins og gert hefur verið ráð fyrir í umræðum um hvaða verkefni eigi að flytjast til væntanlegs umhverfisráðuneytis og tel að það sé mikilvægt vegna eftirlitshlutverks Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna og heilbrigðisfulltrúanna og þess eftirlitskerfis sem þar hefur verið komið á þó svo að auðvitað gætu menn sjálfsagt líka hugsað sér eitthvert annað form á þessu, en ég tel að þetta sé skynsamlegast og best eins og að málum hefur verið staðið og eins og uppbyggingu þessa málaflokks hefur verið háttað.