Akstur utan vega
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Sú fyrirspurn sem hv. 18. þm. Reykv. hefur borið hér fram er svohljóðandi:
    ,,Hvað líður framkvæmd ályktunar Alþingis frá 11. maí 1988 um akstur utan vega?``
    Þingsályktunin hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela dómsmrh. að skipa nefnd fulltrúa þingflokkanna til að gera tillögur um æskilegar breytingar og samræmingu laga og reglna um akstur torfærutækja og annarra vélknúinna tækja utan vega og merktra slóða og leita úrræða um hvernig koma megi í veg fyrir náttúruspjöll af þeim sökum. Með nefndinni starfi fulltrúar dómsmrn., menntmrn. og samgrn. Nefndin skili skýrslu og tillögum til næsta reglulegs Alþingis. Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.``
    Að fengnum tillögum þingflokka og ráðuneyta voru eftirtaldir skipaðir í nefndina með bréfum dags. 12. ágúst 1988:
    Samkvæmt tilnefningu þingflokka Árni Gunnarsson alþm., formaður, Friðjón Þórðarson alþm., Guðni Ágústsson alþm., Hjörleifur Guttormsson alþm., Kristín Karlsdóttir og Sigrún Helgadóttir lögfræðingur. Samkvæmt tilnefningu ráðuneyta: Guðmundur Þorsteinsson námsstjóri af hálfu menntmrn., Ólafur Walther Stefánsson skrifstofustjóri af hálfu dómsmrn. og Ragnhildur Hjaltadóttir skrifstofustjóri af hálfu samgrn.
    Vegna þessarar fyrirspurnar hef ég fengið eftirfarandi greinargerð frá formanni nefndarinnar sem dags. er 30. jan. sl., en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Vegna fyrirspurnar í sameinuðu þingi um störf nefndar sem skipuð var til að fjalla um reglur um akstur utan vega skal eftirfarandi tekið fram: Það hefur dregist úr hömlu að nefnd þessi lyki störfum og er það alfarið á ábyrgð formanns nefndarinnar. Nefndin hefur haldið fjóra bókaða fundi, rætt við nærri tvo tugi hagsmunaaðila og safnað talsverðum gögnum, m.a. frá hinum norrænu löndunum. Nk. föstudag á formaður fund með framkvæmdastjóra Náttúruverndarráðs til þess að ræða hvernig Náttúruverndarráð getur aðstoðað nefndina við tillögugerð. Því verki verður nú hraðað sem kostur er og stefnt að því að tillögur um æskilegar breytingar og samræmingu laga og reglna um akstur torfærutækja og annarra vélknúinna tækja utan vega og merktra slóða verði tilbúnar fljótlega í mars nk.
    Þess má geta að verkefni nefndarinnar er hvorki einfalt né auðunnið. Fram hafa komið margvísleg og ólík sjónarmið þeirra aðila sem þetta mál snertir, bæði beint og óbeint, og verður vafalítið um það deilt hversu afgerandi lög og reglur um akstur utan vega skuli vera.``
    Svo mörg voru þau orð. Ég vil hins vegar leyfa mér að vænta þess að nefndin hraði störfum sínum svo sem tök eru á þannig að leggja megi skýrslu og tillögur fyrir Alþingi hið fyrsta.