Akstur utan vega
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. svörin. Þau orð sem hann viðhafði í upphafi, að það hefði dregist úr hömlu, virðast nú vera það sem við á við framkvæmd afskaplega margra tillagna sem samþykktar eru á Alþingi og leiðir það vissulega hugann að því hvernig háttað sé eftirliti með því að það sem Alþingi samþykkir komist til framkvæmda.
    Á tæpum tveim árum hefur ekki tekist að halda nema fjóra fundi. Samt er sagt að þetta sé ákaflega erfitt verkefni og það séu mörg sjónarmið sem þurfi að samræma. Það virðist renna stoðum undir það að full þörf hefði verið á að halda fleiri fundi, sérstaklega þar sem málið er brýnt, en ég vona þá að frá og með mars líti eitthvað af reglum dagsins ljós þannig að hugsanlega verði eitthvert skikk komið á þessi mál á sumri komanda þegar ferðamannatíminn gengur í garð.