Akstur utan vega
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Það hafa komið fram skýringar hér frá hæstv. dómsmrh. á hvað dvelur þessa nefnd sem átti að sinna tilteknu verki. Ég hef að sjálfsögðu áhuga á því að þessu máli þoki fram. Ég var einn af tillögumönnum og hafði frumkvæði um þetta mál hér á þinginu. Ég kann út af fyrir sig ekki skýringar á því að botninn datt úr starfi nefndarinnar í árslok 1988, en það voru haldnir fjórir fundir í striklotu mánuðina nóvember og desember 1988 en síðan hefur ekki verið boðað til fundar. Ég fagna því að breyting verði á því. Það er kannski bjartsýni að ætla síðan að ljúka störfum á sex vikum eða svo en það má sjá til og ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir það að hreyfa þessu máli hér og ýta við framkvæmd þess.