Hlerun farsíma
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr í fyrsta lagi hvort unnt sé að koma í veg fyrir hlerun farsíma. Svarið við því er að eigendur einstakra farsíma geta tryggt leynd samtala sinna við fyrir fram ákveðið símanúmer. Sá búnaður er fyrir hendi og fáanlegur. Þetta er gert með þeim hætti að það er tiltekinn viðbótarútbúnaður settur í farsímann eða farartækið og einnig hjá viðkomandi móttökusíma. Hér er þetta þó þeim takmörkum háð að leyndin er einungis milli þessara tveggja tilteknu notenda sem koma sér upp þessum nefnda búnaði, þ.e. farsímans og eins tiltekins eða fleiri tiltekinna símanúmera. Þetta leiðir til þess að það er enn mjög lítið um slíkan búnað enda leyndin mjög takmörkuð og búnaðurinn tiltölulega dýr miðað við það gagn sem hann gerir.
    Í öðru lagi er það svo að Póst- og símamálastofnunin fylgist mjög grannt með þróun þessara mála hjá símstjórnum og framleiðendum í nágrannalöndunum. Sérstaklega er fylgst með þessu hjá þeim símstjórnum sem nota sams konar farsímakerfi og hér er gert. En því miður hefur enn ekkert leyndarkerfi fundist sem nota má í öllum gerðum farsíma og dugar á hinar mismunandi tegundir farsíma sem seldar eru. Og enginn þeirra sem nota sama kerfi og við gerum, það er skammstafað NMT450/900, hafa enn getað boðið upp á slíka alhliða leyndarþjónustu. Það er þó vitað að í hönnun eru á fleiri en einum stað slík leyndarkerfi og það verður auðvitað fylgst mjög grannt með því sem fram kann að koma á næstu missirum í þessum efnum og um leið og tæknilega verður unnt að bjóða upp á slíka þjónustu verður athugað hvað það kostar og hvað það hefur í för með sér að koma því upp.
    Það er nauðsynlegt og hefur reyndar ítrekað verið gert af hálfu bæði samgrn. og Póst- og símamálastofnunarinnar að vekja athygli notenda farsímans á því að sá möguleiki er fyrir hendi að hann sé hleraður. Það er tæknilega mögulegt þar sem um þráðlaus fjarskipti er að ræða að hlera a.m.k. annan helming og jafnvel báða hluta símtals. En því miður er í sjálfu sér ekki auðvelt að koma í veg fyrir að slíkt geti átt sér stað vegna þess að sá tæknibúnaður getur verið á margra höndum sem til þess er brúklegur.
    Rétt er að undirstrika og vekja athygli manna á því að öll slík hlerun fjarskipta er ólögleg skv. fjarskiptalögum. Þar eru skýr ákvæði um leynd fjarskipta þar sem segir m.a. að hver sá sem með einhverjum hætti án heimildar tekur við símskeytum, myndum eða öðrum fjarskiptamerkjum eða hlustar á fjarskiptasamtöl megi ekki skrá neitt slíkt, tilkynna það öðrum eða notfæra sér á nokkurn hátt. Þannig að jafnvel þótt menn verði fyrir því óviljandi að hlera slík fjarskipti eða nema þau er þeim með öllu óheimilt að nýta sér það á nokkurn hátt.
    Ég vona að þetta svari að einhverju leyti fyrirspurn hv. fyrirspyrjanda og ég fullvissa hann um að það

verður fylgst mjög grannt með þessu máli af hálfu samgrn. og Póst- og símamálastofnunar.