Fyrirspyrjandi (Kristinn Pétursson):
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að bera fram skriflega fyrirspurn til fjmrh. vegna skuldar frystideildar Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Ástæðan fyrir þessari fyrirspurn er sú að þrívegis hef ég spurt hæstv. fjmrh. úr þessum ræðustól svipaðra spurninga í almennum umræðum sem hann hefur ekki látið svo lítið að svara. Því er þetta borið fram hér formlega.
,,1. Hvers vegna hefur fjármálaráðherra ekki látið gjaldfæra skuld frystideildar Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 1989 eða í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1990?
    2. Hvað er nú (14. des. 1989) um háa fjárhæð að ræða að meðtöldum fjármagnskostnaði?
    3. Hvaða heimild telur fjármálaráðherra að hann hafi til þess að telja þessa skuld til eignar í bókhaldi ríkissjóðs í ljósi yfirlýsinga ráðherra og ríkisstjórnar um að frystingin verði ekki látin endurgreiða þessa upphæð?``
    Ég vil taka það fram að ástæðan fyrir þessum spurningum er fyrst og fremst sú að ef menn ætla sér í alvörunni að ná tökum á stjórn efnahagsmála, þá er nauðsynlegt að nákvæmni sé viðhöfð í bókhaldi því bókhaldið er ákveðið stjórntæki og opinberar upplýsingar, hagtölur o.s.frv. eru reiknaðar út frá bókhaldinu. Ef bókhaldið er ekki rétt gefur það auga leið að allir aðrir útreikningar og áætlanir eru líka vitlaus.
    Í ljósi síðustu kjarasamninga er líka ljóst að það er enn brýnni ástæða en nokkru sinni fyrr fyrir nákvæmni í sambandi við bókhald.