Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Vegna síðustu orða hv. fyrirspyrjanda vil ég bara ítreka að það stendur í þeim lögum sem Alþingi hefur sett að sú upphæð sem ógreidd verður að þremur árum liðnum skuli gjaldfærð á ríkissjóð. Þau þrjú ár eru ekki liðin. Lagatextinn er alveg skýr og framkvæmdarvaldinu ber að fara að lögum hvað sem hv. fyrirspyrjanda finnst persónulega um málið að öðru leyti. Hann getur haft sínar efasemdir um þau bráðabirgðalög sem voru gefin út. Alþingi hefur hins vegar staðfest bráðabirgðalögin samkvæmt stjórnarskránni. Það leikur enginn vafi á því að lögin eru gild og samkvæmt þeim, eins og kemur fram í texta Ríkisendurskoðunar, kemur málið ekki til gjaldfærslu fyrr en að þremur árum liðnum.