Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. hefur í svörum sínum sérstaklega vakið athygli á þeim bráðabirgðalögum sem eru að baki þessari skuld og vakið athygli á því að í bráðabirgðalögunum á að miða við árið 1991, þ.e. þá á að meta hvort eigi að færa þetta ríkissjóði til skuldar eða ekki. En hvernig stendur á því að hæstv. ríkisstjórn skyldi hafa valið árið 1991 þegar þetta lán var tekið? Ástæðan er auðvitað sú að þá er hennar kjörtímabil liðið. Þá eru aðrir væntanlega teknir hér við stjórn og þá er það þeirra að taka þetta vandamál til endanlegrar meðhöndlunar og afgreiðslu. Ríkisstjórnin skaut þessum vanda fram yfir sitt kjörtímabil.
    Það er alveg ljóst af þeim upplýsingum sem hér hafa komið fram að við hverja einustu tölu sem hæstv. fjmrh. kemur til með að setja fram um halla ríkissjóðs má bæta 1250 millj. Hæstv. sjútvrh. sagði mjög fljótlega eftir að þetta lán var tekið að ríkissjóður mundi þurfa að greiða það, Verðjöfnunarsjóður mundi aldrei geta greitt það. Það liggur því alveg ljóst fyrir, hvað sem öllum bókhaldskúnstum hæstv. fjmrh. líður, hvað sem þeim bráðabirgðalögum líður sem hann lét setja til að skjóta þessum vanda fram yfir þetta kjörtímabil í fangið á næstu ríkisstjórn, að ríkissjóður mun þurfa að greiða þetta. Með öðrum orðum, allar þær tölur sem fjmrh. setur fram um halla ríkissjóðs eru rangar, við þær tölur má bæta 1250 millj. kr. vegna þessa máls eins.