Álver á Grundartanga
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Hér hafa sjö þm. auk fyrirspyrjanda hreyft athugasemdum í málinu þannig að hér er greinilega mál sem menn telja sig nokkru varða. Hv. 4. þm. Vesturl. hafði alveg rétta röð á hlutunum. Hann sagði: Fyrst þarf að ákveða hvort hér verður byggt álver. Svo hvar það á að vera. Þetta er að sjálfsögðu alveg hárrétt. Þannig þarf að líta á málið.
    Ég vildi hins vegar enn leiðrétta þann misskilning hv. 2. þm. Norðurl. e. að þær athuganir sem nú fara fram snúist eingöngu um álver við Straumsvík eða sunnan við Hafnarfjörð. Það er ekki rétt. ( HBl: Ég sagði umræður.) Fyrirgefðu. Þær athuganir sem nú fara fram snúast um það hvort á Íslandi rísi álver eður ei og hvar það eigi að rísa. Hitt er rétt sem hv. 2. þm. Norðurl. e. keppist við að gleyma að það samkomulag sem iðnrh. Sjálfstfl. gerði 4. júlí 1988 snerist eingöngu um álver við Straum. Hvar var þá árvekni hagsmunagæslumanns Norðlendinga? Hvar var þá hv. 2. þm. Norðurl. e.? Hvar var hans athygli á málinu þá? Ég spyr um það og er vonum síðar að spurt sé.
    Hv. 6. þm. Norðurl. e. velti því fyrir sér hvort almennur stuðningur væri út um land við byggingu álvers, skoðanakönnun þyrfti að fara fram. Hún hefur farið fram. Fréttastofa útvarpsins beitti sér fyrir henni á liðnu hausti um mánaðamótin október/nóvember. Niðurstaðan var sú að 3 / 4 hlutar landsmanna, hvort sem þeir bjuggu í borg eða í hinum dreifðu byggðum, vildu auka álframleiðslu á Íslandi, vildu byggja álver. Ég veit að vísu ekki nákvæmlega hvernig þessu vék við á Norðurlandi eystra, en mér segir hugur um að það sé eitthvað líkt þar eins og það er hér og eins og það er annars staðar, af því að fólk skilur að það er þörf fyrir það að breikka grundvöll atvinnulífsins, að breikka grundvöll útflutningsins. ( SV: Við skulum ræða þetta atriði í ...) Það er alveg sjálfsagt, hv. 6. þm. Norðurl. e., en því miður eru þínar ályktanir fyrir fram ekki líklegar til að standast.
    Ég vildi svo að lokum segja það eitt að þessar umræður um það hvar álver skuli rísa eru að mörgu leyti gagnlegar eins og þessi fyrirspurn hv. 5. þm. Vesturl. um það hvaða athuganir hafi verið gerðar vegna hugsanlegrar byggingar álvers við Hvalfjörð. Þessi fyrirspurn er að mínu áliti mjög eðlileg. Ég reyndi að draga fram það sem um málið væri hægt að segja án þess að taka afstöðu til staðsetningar og ég endurtek, það er málið sjálft sem mestu varðar. Staðurinn kemur svo og það er fjarstæða að halda því fram sem kom fram í máli hv. 2. þm. Austurl. og reyndar í máli hv. 4. þm. Vesturl. að við ætluðum að láta hina erlendu menn eina ráða hvar álverið yrði. Það er misskilningur. Þetta er mál sem samkomulag þarf að takast um eins og aðra þætti þessa mikilsverða máls. Þar munu hin íslensku sjónarmið að sjálfsögðu koma fram og þau varða ekki eingöngu arðinn einn.