Álver á Grundartanga
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Það kom fram með óbeinum hætti í ummælum hæstv. iðnrh. að þær viðræður sem nú fara fram um nýtt álver snúast um álver sunnan Hafnarfjarðar. Það er rétt sem hæstv. iðnrh. sagði að meðan umræðurnar snerust um það hvort ætti að stækka álverið við Straumsvík eða ekki meðan Alusuisse væri inni í dæminu, þá voru umræðurnar að sjálfsögðu bundnar við Straumsvík. Það er laukrétt hjá hæstv. iðnrh. (Gripið fram í.) Hann er órólegur, maðurinn. Þá snerust auðvitað umræðurnar um Straumsvík.
    Í þriðja lagi væri fróðlegt að fá það upplýst hjá iðnrh. hvernig hann hugsar það dæmi að fyrst sé samið um orkuver hér á landi og svo sé farið að velta fyrir sér á eftir hvar það skuli rísa. Ég hélt að það væri venjulega þannig að það væri talað jöfnum höndum um staðinn og hið hugsanlega stóriðjufyrirtæki og hvenig staðið yrði að orkuöflun fyrir það, skattlagningu o.s.frv. Þannig hefur það verið fram að þessu en það eru svona hálfgerðir útúrsnúningar sem hæstv. iðnrh. fór með í máli þessu. Hitt var rétt hjá hv. formanni þingflokks Alþfl., hv. 3. þm. Vesturl., að byggðastefna núv. ríkisstjórnar kemur m.a. skýrt fram í því atvinnuleysi sem nú er á Akranesi og víðar um land, Akureyri og mjög víða um land, atvinnuleysi sem er meira en verið hefur um áratugi, hygg ég.