Álver á Grundartanga
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Flokkur hv. 3. þm. Vesturl. hefur ekki sýnt sig í því á einn eða neinn hátt að koma fyrirtækinu á Grundartanga til góða. Frekar munu flest verk sem sá flokkur hefur gert verið á hinn verri veg. Aftur á móti gerði Alþb. á stjórnartíma sínum þann hlut að ef sá sem þá var iðnrh., Hjörleifur Guttormsson, hefði ekki staðið að ákveðnum fjármagnsfyrirgreiðslum fyrir það fyrirtæki, fyrir Grundartangaverksmiðjuna, þá mundi sú verksmiðja líklega ekki vera starfandi enn og atvinnuleysi á Akranesi jafnvel meira nú ef ekki hefði notið starfa Hjörleifs Guttormssonar í iðnrn.
    Hv. þm. Eiður Guðnason hefur aftur á móti notfært sér það trekk í trekk í ræðustól að vera með einhver skot á Alþb. fyrir það að það stóð frammi fyrir því að það væri undirbúin vel sú framkvæmd þegar farið var í það að byggja verksmiðju á Grundartanga og sem lýst hefur verið yfir af forustumönnum þess fyrirtækis að hafi orðið til þess að verksmiðjan á Grundartanga er fyrirmyndarverksmiðja sem járnblendiverksmiðja. Það er verk Alþb. og Alþb. getur verið stolt af því.
    Hitt sem hv. þm. þurfti að gera athugasemd við hér var það þegar ég var að taka undir ræðu hæstv. iðnrh., samflokksmanns hans, um að það þyrfti að skoða fleira en einhverjar óskir þm. þegar ákveðin væri staðsetning verksmiðju. Það þyrfti að athuga atvinnuástand á viðkomandi stöðum. Þegar byggð eru, eins og á Akranesi, öflug og sterk karlafyrirtæki eins og þar eru, það er staðreynd, þá gerist það að upp koma ákveðin vandamál með útvegun atvinnu fyrir kvenfólk og sú hefur staðan verið á Akranesi í lengri tíma, því miður. Það hefur ekki tekist að byggja upp atvinnustaði til þess að vega upp á móti þessum sterku karlavinnustöðum sem eru Grundartangi og fleiri vinnustaðir á Akranesi.