Álver á Grundartanga
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Hjörleifur Guttormsson (um þingsköp):
    Virðulegur forseti. Ég hef leitast við að fara eftir þingsköpum sem ég hélt að væru í gildi hér á hv. Alþingi og um fyrirspurnatíma veit ég ekki betur en það sé heimild fyrir hæstv. ráðherra sem svarar fyrirspurn að tala tvívegis og hv. fyrirspyrjanda einnig. Sá réttur hefur einnig verið hefðbundinn að þeir fá að gera örstutta athugasemd að auki en aðrir þm. fái að gera stutta athugasemd sem hæstv. forseti hefur sett í starfsskrá þingsins að ætti að hámarki að vera ein mínúta.
    Mér finnst það nokkurt alvörumál þegar látið er svo sem þessi þingsköp séu ekki í gildi og mér finnst það ekki ganga upp. Annaðhvort er að breyta þingsköpunum ef forusta þingsins telur ekki ástæðu til að fara eftir þeim þingsköpum sem í gildi eru og taka það þá til umræðu. Það er mál út af fyrir sig, en mér finnst það talsvert alvarlegt þegar farið er svo frjálslega með þingsköpin eins og hér gerist í þessari umræðu og hefur reyndar gerst áður og ég hlýt að vekja athygli á því.