Álver á Grundartanga
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Eiður Guðnason:
    Athugasemd mín skal vera mjög stutt, virðulegur forseti. Ég held að það sé rétt að það komi fram að gerðar hafa verið ýmsar ráðstafanir og eru í undirbúningi ýmsar ráðstafanir til þess að bæta úr því böli sem atvinnuleysi er á þessu svæði, á Akranesi, einkum meðal kvenna og eru fleiri í undirbúningi á vegum ríkisstjórnarinnar.
    En vegna ummæla hv. 4. þm. Vesturl. um að þessi verksmiðja á Grundartanga sé svo góð sem hún er vegna aðgerða Alþb., þá vil ég undirstrika það að það er auðvitað fyrst og fremst vegna þess að góðir stjórnendur og góðir starfsmenn hafa valist að fyrirtækinu. Það er ekki vegna afstöðu Alþb. til fyrirtækisins og ég minni á sérstaka ferð sem einn af þm. Alþb. gerði sér á Grundartanga áður en framkvæmdir þar hófust. Það var ekki til þess fallið að greiða fyrir vexti eða viðgangi þess fyrirtækis. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það. ( SkA: Ný tæki og betri búnaður.)