Álver á Grundartanga
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hv. 2. þm. Austurl. að við erum komin alveg á mörk þingskapanna í þessum umræðum sem hér fara fram. En vegna beinnar spurningar hv. 18. þm. Reykv. vil ég segja þetta: Ríkisstjórnin hefur gert ýmsar ráðstafanir til að bæta úr atvinnuástandi á Akranesi. Ég nefni fyrst að hún hefur beint verkefnum til skipasmíðastöðvarinnar sem þar er og skiptir miklu máli í bæjarfélaginu. Þá er unnið að athugun á fjárhagsstöðu Akraprjóns sem er mikilvægt fyrirtæki fyrir atvinnu kvenna í byggðarlaginu, vegna þess að þau mál hafa hér verið rædd. Ég vonast til að þar verði hægt að finna einhverja úrlausn. Þar er hins vegar úr mjög vöndu að ráða.
    Ég minni enn á að Atvinnutryggingarsjóður og aðrar ráðstafanir til þess að treysta fjárhagsstöðu fyrirtækja á Akranesi á liðnu ári hafa mjög gagnast þeim fyrirtækjum sem mesta atvinnu veita konum á Akranesi, þ.e. í fiskiðnaðinum. Þetta vildi ég segja, ekki af því að það svari til fullnustu því sem hér er hreyft, en eingöngu sem dæmi um það sem hv. 3. þm. Vesturl. nefndi í sinni stuttu athugasemd.