Skuldbreytingar vegna loðdýraræktar
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):
    Virðulegi forseti. Ég taldi mig knúinn til að koma hér með fsp. vegna ástandsins í loðdýraræktinni. Spurningarnar eru þannig, með leyfi forseta:
,,1. Hvenær verður reglugerð um skuldbreytingar vegna loðdýraræktar gefin út?
    2. Hvenær má vænta þess að loðdýrabændur fái afgreiðslu á skuldbreytingum vegna lausaskulda sinna?
    3. Hvað verður gert til þess að fóðurstöðvum loðdýraræktar, sem eru að stöðvast, m.a. vegna dráttar á afgreiðslu skuldbreytinga til bænda, verði ekki lokað á næstu dögum?``
    Lög um skuldbreytingar vegna loðdýraræktar voru samþykkt 17. des. sl. og voru dagana á undan í umfjöllun hér á Alþingi. 1. umr. fór fram í Ed. 5. des. og þá komst hæstv. landbrh. þannig að orði: ,,Ég tel að við það sem í þessum ráðstöfunum og afgreiðslu á hverju stigi hafi falist hafi verið staðið að öðru leyti en því, og það er sjálfsagt mál að viðurkenna og harma, að þessi vinna hefur dregist meira en góðu hófi gegndi og tekið lengri tíma en ætlunin var`` o.s.frv.
    Síðan lögin voru samþykkt eru liðnir tæpir tveir mánuðir. Það er verið að loka stöðvunum, sumum hverjum. Víða hafa bændur ekki fengið afurðalán og nú er
skammur tími þangað til fara þarf að para dýrin, t.d. vissar tegundir af refum. Því var heitið og það kemur greinilega fram í ræðu hv. þm. Skúla Alexanderssonar, formanns landbn. Ed., en einnig í raun og veru hjá hæstv. landbrh., að miðað sé að því að niðurgreiðsla á fóðri til loðdýraræktar haldi verðgildi sínu eins og þar er talað um. Það kemur fram víðar, en ég hef ekki tóm til að ræða það. En ég ætlast til, ef það er ekki meiningin að draga tímann þangað til þessir menn gefast upp eða fá ekki fóður, að það liggi hér og nú fyrir hvenær megi vænta þess og hvort það þýðir að reyna að gera ráðstafanir, hvort dýrunum verði gefið næstu daga, en þannig er nú komið.