Skuldbreytingar vegna loðdýraræktar
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi er spurt hvenær megi vænta þess að reglugerð um skuldbreytingar vegna loðdýraræktar verði gefin út. Svarið er: Ég vænti þess að hún verði gefin út í næstu viku. Það hefur verið unnið þannig að þessu máli síðan lög voru samþykkt á Alþingi að tilkynning var send til allra loðdýrabænda, þeirra sem stundað hafa loðdýrarækt á tímabilnu frá 1986 og síðar, hvort sem þeir halda enn áfram búskap eða ekki. Það var mat manna að ekki þýddi að gefa skemmri frest til þess að safna saman þeim upplýsingum en til 22. jan. og það var gert. Það voru send út gögn til um 250 bænda eða aðila sem stundað hafa loðdýrarækt einhvern tíma á þessu tímabili og umsóknir eða gögn hafa borist frá réttum 200 aðilum.
    Það var ákveðið í samráði við þá aðila, sérstaklega hjá Framleiðnisjóði, sem standa fyrir þessum aðgerðum að bíða með útgáfu reglugerðarinnar þangað til búið væri að safna öllum upplýsingum og fá tæmandi yfirlit yfir umfang skuldanna og aðstæður hjá einstökum aðilum þannig að unnt væri að laga ákvæði reglugerðarinnar og láta þau taka mið af því að skuldbreytingaheimildirnar skv. lögunum nýttust sem best og sem flestum. Drög að reglugerðinni liggja hins vegar fyrir og það mun ekki tefja þessar framkvæmdir á nokkurn hátt að gefa þau út sem reglugerð þegar það er tímabært að mati þeirra sem eru að safna saman og vinna úr upplýsingum frá bændum. Og það er einfaldlega að þeirra ráðum sem það hefur verið haft þannig að bíða með reglugerðardrögin og gefa þau ekki út fyrr en þessar upplýsingar, sundurgreindar, lægju fyrir þannig að unnt væri að hafa ákvæði reglugerðarinnar í sem bestu samræmi við aðstæður og umfang þessara aðgerða.
    Í öðru lagi er spurt: Hvenær má vænta þess að loðdýrabændur fái afgreiðslu á
skuldbreytingum? Það er stefnt að því að ljúka afgreiðslu eftir því sem kostur er í þessum mánuði og helst allir fái svör um sínar skuldbreytingar á næstu vikum. Að því er eindregið stefnt að niðurstöður og svör liggi fyrir í sem allra flestum tilvikum fyrir mánaðamót.
    Í þriðja lagi er spurt: Hvað verður gert til þess að fóðurstöðvar sem eru að stöðvast m.a. vegna dráttar á afgreiðslu skuldbreytingar til bænda --- eins og þarna segir reyndar --- verði ekki lokað á næstu dögum? Ég hef m.a. átt fund með öllum stærstu hagsmunaaðilum þessa máls í síðustu viku, Framleiðnisjóði, fulltrúum viðskiptabanka og sparisjóða sem hér eiga hlut máli, Byggðastofnun, sem hefur alveg sérstaklega verið ætlað það hlutverk öðrum fremur að aðstoða fóðurstöðvarnar í þeirra erfiðleikum, og fulltrúum frá Stofnlánadeild. Þar var farið yfir þetta mál í heild sinni og fulltrúar Framleiðnisjóðs gerðu grein fyrir stöðu skuldbreytingamálanna. Það er alveg ljóst að staða ýmissa fóðurstöðva er mjög erfið og hefur lengi verið og dráttur á þessum skuldbreytingum, eins og

fullyrt er í fyrirspurninni, leyfi ég mér að segja að sé ekki neinn orsakavaldur í því hvernig staða fóðurstöðvanna er. Hún hefur sl. 2--3 ár verið að versna mjög, m.a. vegna þess að bændur hafa átt í miklum erfiðleikum með að standa við sínar greiðslur á fóðri. En eftir sem áður verður reynt að sjá til þess að fóðurstöðvarnar starfi þangað til niðurstaða liggur fyrir í þessum skuldbreytingamálum því það snertir auðvitað verulega stöðu fóðurstöðvanna hvernig þær aðgerðir ganga og að hve miklu leyti bændum verður mögulegt í gegnum þær að gera upp a.m.k. að hluta til skuldir sínar hjá fóðurstöðvunum.
    Það hefur líka verið gripið til þeirra ráðstafana sem í okkar valdi eru í sambandi við þetta. Til að mynda hefur jöfnunargjald á fóður fyrir tvo fyrstu mánuði þessa árs þegar verið sent inn á reikninga bænda hjá fóðurstöðvunum. Bankarnir upplýstu og fullyrtu í síðustu viku að þeir væru allir að hefja afgreiðslu afurðalána til bænda sem þar ættu þá frekar að geta greitt sitt fóður. Ég vona að með þessu samræmda starfi allra helstu hagsmunaaðila á þessu sviði takist að halda hlutunum gangandi út þennan mánuð þangað til niðurstaða liggur fyrir í þessu skuldbreytingamáli. Þá skýrist það endanlega hvernig aðstæður verða á svæði hverrar fóðurstöðvar fyrir sig, hversu margir bændur halda þar áfram loðdýrarækt og hversu mikil þörf verður fyrir fóður. Rekstrarmöguleikar fóðurstöðvanna til frambúðar hljóta auðvitað að taka mið af því. Og það er alveg ljóst að þar er og verður við mikinn vanda að etja þar sem er mikill samdráttur í loðdýrarækt á ýmsum svæðum og minni fóðursala hjá stöðvunum sem óhjákvæmilega hlýtur að gera rekstur þeirra erfiðari.
    Varðandi jöfnunargjald á fóður sem fyrirspyrjandi spurði um, en ekki er sérstaklega tilgreint í fsp., get ég upplýst að þetta var ákveðið til bráðabirgða, óbreytt krónutala til samræmis við það sem var fyrstu mánuði síðasta árs. Ég hef jafnframt upplýst samtök loðdýrabænda um það að sú tala verði endurskoðuð um leið og liggur fyrir hversu margir það verða sem halda áfram loðdýrarækt og hve mikill dýrafjöldi verður á fóðrum á þessum vetri.