Skuldbreytingar vegna loðdýraræktar
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. svörin þó að ég sé ekki ánægður með þau öll. Ég vil minna á það að þegar við ræddum um þessi mál var reiknað með því að það mundi halda verðgildi sínu, þetta jöfnunargjald, og það yrði jafnt allt árið. Því miður, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra, hefur það verið gert á sama hátt og var fyrri helming síðasta árs.
    Ég hef heyrt frá mörgum loðdýrabændum að þeir telji að þessi breyting út af fyrir sig sé bending um að ekki verði staðið við þetta. Þess vegna eru þeir mjög uggandi og geta ekki borgað, hvorki verkun á skinnum eða annað.
    En þar sem tíminn er fljótur að líða, þá vil ég bara lesa hér upp úr ræðu hv. formanns landbn. Ed. Skúla Alexanderssonar, en hann segir hér orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Nú liggja fyrir upplýsingar um áhuga loðdýrabænda á því að halda bústofni sínum. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til vill nefndin tryggja að eftir áramót haldi jöfnunargjaldið á fóður verðgildi yfirstandandi árs enda telur nefndin það grundvallaratriði til að aðgerðir þessar nái tilgangi sínum.``
    Áður var hv. þm. búinn að nefna það að búið væri að ákveða að hækka þetta gjald um 20 millj., úr 25 í 45. Og í yfirlýsingu frá ríkisstjórninni, landbrh. og þeim sem fjölluðu um þetta var sagt að ef það kæmi fyrir að vantaði fjármagn þá yrði það útvegað. Það er nauðsynlegt að bændur viti það nú hvað á að gera vegna þess ástands sem er hjá þeim um þessar mundir. Og það er misskilningur hjá hæstv. landbrh. að skuldbreytingarnar skipti ekki máli í sambandi við fóðurstöðvarnar, það er alger misskilningur. Sumir hafa ekki fengið eða voru ekki í vikubyrjun búnir að fá neitt afurðalán á þessu ári einmitt vegna þeirra skulda sem á þeim hvíla fyrir afurðalánin.